Tekjuöflun ríkisins

Mánudaginn 21. desember 2009, kl. 12:19:52 (0)


138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[12:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum síðasta skattamál ríkisstjórnarinnar a.m.k. í þessari lotu, síðasta ömurlega skattamálið, þ.e. frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins. Verið er að gera breytingar á m.a. tekjuskattslögunum. Ég vil í upphafi spyrja einhvern stjórnarliðann, t.d. hv. þm. Magnús Orra Schram, sökum þess að áður aflagður skattur, eignarskatturinn, hefur verið endurvakinn undir nýju nafni, þetta er svona kennitöluflakk í skattaheiminum en nú er gamli eignarskatturinn nefndur auðlegðarskattur, hvort til standi þá að breyta nafni laganna. Vegna þess að þetta hét áður lög um tekjuskatt og eignarskatt, því var svo breytt í lög um tekjuskatt af því að eignarskatturinn var aflagður, ég geri því fastlega ráð fyrir að við förum að sjá lög um tekjuskatt og auðlegðarskatt ef eitthvert samræmi á að vera í þessu og ef menn eiga að vera með gagnsæi í þessum skattamálum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara yfir efnisatriði málsins. Það hefur verið gert og athugasemdir okkar sjálfstæðismanna hafa komið fram. Það sem mig langar til að ræða er aðferðafræði þessarar vinstri stjórnar við málið. Hverju stöndum við frammi fyrir? Við stöndum frammi fyrir því að hér varð hrun. Tekjur lækkuðu og útgjöld hækkuðu, stöðugleikinn brást. Hvað er þá til ráða? Ég mundi halda, frú forseti, að við þyrftum þá að koma á stöðugleika. Við þyrftum að forgangsraða málum þannig að setja í forgang þau mál sem mega ekki bíða og við eigum að setja önnur mál til hliðar. Við eigum að leita allra leiða til að koma aftur á stöðugleika. Við eigum að leita allra leiða til að ná samstöðu, koma á stöðugleika og auka tekjur ríkisins. Það er eitt sem við getum öll sammælst um og það er að auka þarf tekjur ríkisins. Við erum bara ekki sammála um hvernig á að gera það. Við þurfum að ná samstöðu meðal þjóðarinnar en hæstv. fjármálaráðherra hæddist að því í morgun þegar stjórnarandstaðan greiddi atkvæði með frumvarpi hans um nýsköpun, þá hæddist hann að því að við gerðum það. Það var frekar ósmekklegt.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka sagt að þetta sé ekki tíminn fyrir pólitíska landvinninga. Nú þurfum við að standa saman og hann ákallaði stjórnarandstöðuna einhvern tíma í þessu ferli öllu saman, að þetta væri ekki tíminn fyrir pólitíska landvinninga. Þess vegna spyr ég: Af hverju fer þá þessi ríkisstjórn af stað með ekkert plan nema það að koma á einhverju ömurlegu fjölþrepa skattkerfi sem enginn skilur, hvorki þeir sem eiga að greiða eftir því né þeir sem eiga að vinna í kerfinu? Er það ekki pólitískur landvinningur þegar allir umsagnaraðilar, allir sérfræðingar, við í stjórnarandstöðunni og fólk út um allt hefur bent á að það sé ekki klókt, þetta sé ekki rétti tíminn til að fara út í stórfelldar skattkerfisbreytingar með engum fyrirvara og án alls undirbúnings?

Í Morgunblaðinu á laugardaginn birtist grein þar sem segir að skattbreytingar séu óþarfar, að tekjujöfnunarmarkmið náist í núverandi skattkerfi ef það er markmiðið. Ónei, frú forseti. Það er nefnilega ekki markmiðið. Markmiðið er að koma á vinstri vitleysisskattkerfi sem enginn skilur bara vegna þess að þá geta þeir sagt: Við aflögðum kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn kom á. Það er engin hugsun í þessu, það er engin heil brú í þessu og það er ekki tími fyrir hugmyndafræðilega landvinninga, frú forseti. Þar tek ég undir með hæstv. fjármálaráðherra. Þess vegna segi ég: Það er svo yfirgengilega sorglegt að sjá hvernig þetta fólk ryðst fram og eyðileggur meira en það bætir bara vegna þess að það er í einhverjum hugmyndafræðilegum landvinningum. Hlustum á sérfræðingana. Hlustum á viðvörunarorðin. Tökum þetta til baka. Náum tekjum ríkissjóðs upp með þeirri leið sem við sjálfstæðismenn leggjum til. Vinnum okkur tíma og þá getur ríkisstjórnin sest yfir það hvernig hún ætlar að koma þessu ömurlega kerfi á en það verður ekki gert með nokkurra daga fyrirvara, frú forseti.