Tekjuöflun ríkisins

Mánudaginn 21. desember 2009, kl. 12:25:44 (0)


138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[12:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að við sem á Alþingi störfum, og jafnframt þeir sem eru í ríkisstjórninni, erum að glíma við efnahagshrun og ég hef margoft sagt í þessum stól að auðveldara er um að tala en í að komast að finna leiðir til að koma okkur skjótt og vel upp úr efnahagslægðinni.

Við í stjórnarandstöðunni höfum viðhaft mjög svo ábyrga stjórnarandstöðu og lagt fram okkar tillögur um hvað skal gera í efnahagsmálum. Varðandi þetta mál, þ.e. hvernig eigi að afla ríkissjóði tekna, höfum við sjálfstæðismenn lagt fram þá tillögu að séreignarlífeyrissparnaðurinn verði skattlagður fyrir fram og við náum þannig það miklum tekjum í ríkissjóð að umfangsmiklar skattahækkanir eins og ríkisstjórnin virðist stefna að með öllum tiltækum ráðum verði óþarfar. Það er einfaldlega vegna þess að okkar skoðun er að þannig sé komið fyrir heimilunum í landinu að ekki sé mögulegt að leggja frekari byrðar á þau og alls ekki í þeim mikla mæli sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera.

Frú forseti. Á þessar tillögur hefur vissulega verið hlustað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og sumir þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið undir þær. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur fullyrt og lofað því að um þær tillögur verði fjallað nánar í efnahags- og skattanefnd og ég vonast til að það verði gert. En það er nú einfaldlega þannig, frú forseti, að ef búið verður að hækka skattana það mikið að það getur haft þau áhrif að kreppan lengist og dýpki þá getur það einfaldlega verið of seint að fara leið okkar sjálfstæðismanna.

Frú forseti. Í stað þess að fara þá leið velja ríkisstjórnarflokkarnir að umbylta skattkerfi landsins, flækja hlutina og í raun er það líka mjög kostnaðarfrekt að fara slíka leið vegna þess að heilmikill kostnaður fellur til við skattbreytingarnar. Það þarf að breyta bókhaldskerfum allra fyrirtækja, auka þarf vinnu við skatteftirlit og það verður miklu flóknara að gera sitt skattframtal. Og erfitt er að áætla kostnað samfélagsins í heild við þessar breytingar en það hefur að því er mér skilst ekki verið gert í vinnu efnahags- og skattanefndar. Sumir sérfræðingar eins og t.d. Hjálmar Gíslason hjá DataMarket hefur áætlað þennan kostnað um 1 milljarð kr. Það er gríðarlegt fé sem leggst bæði á ríkissjóð og fyrirtækin í landinu. Það er því spurning hvort hægt hefði verið að fara einhverjar aðrar leiðir hefðu menn viljað fara í þessar skattahækkanir, og það er svo. Bent hefur verið á það af Hjálmari Gíslasyni og jafnframt í grein eftir Örn Arnarson í Morgunblaðinu um helgina að með því að nota núverandi skattkerfi og byggja á því sé hægt að ná fram sama tekjuauka í ríkissjóð. Ég spurði hv. þm. Helga Hjörvar í umræðunni hvort þetta hefði verið skoðað, hvort það væri ekki einfaldlega lag að taka þetta mál aftur inn í nefnd og fara þessa leið, breyta frumvarpinu þannig að farin verði sú leið fyrst menn vilja endilega vera að hækka þessa skatta, en ég hef ekki fengið skýr svör við því hvort þetta hafi verið skoðað í einhverri alvöru.

Frú forseti. Segja má að persónuafslátturinn sé einfaldasta hátekjuskattskerfið. Það hefur umræddur Hjálmar Gíslason fjallað um í pistli í heimasíðu sinni og ef ég má vitna til orða hans, frú forseti, kemur fram að persónuafslátturinn „tryggir það að þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiði litla sem enga skatta og þeir sem hafa hæstu skattana greiði meira.“ Þetta er í rauninni það kerfi sem við höfum verið að nota. Það er einfalt, gagnsætt og gott kerfi. Og jafnframt er hægt að ná fram þeim tekjuauka fyrir ríkissjóð sem ríkisstjórnin virðist með þessu frumvarpi leggja til í gegnum þetta kerfi án þess að umbylta öllu og án þess að flækja kerfið okkar.

Ég er mjög undrandi á því að ríkisstjórnin skuli senda fyrirtækjunum í landinu þessa sendingu rétt fyrir áramót meðan þau hafa lítinn sem engan tíma til að undirbúa breytingar. Ég held að fyrirtækin í landinu, frú forseti, glími einfaldlega við næg verkefni akkúrat í dag og þegar hægt er að fara aðra leið og ná sama markmiði sem virðist vera að ná inn ákveðnum tekjuauka í ríkissjóð af hálfu ríkisstjórnarinnar, þá skil ég ekki hvers vegna sú leið er ekki valin. Það er spurning hvort kannski einhver önnur sjónarmið vegi þyngra í huga ríkisstjórnarflokkanna, sem eru þá væntanlega að verða meira eins og önnur Norðurlönd og í raun mætti þá ætla að það sé kostur í huga hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna að flækja skattkerfið.