138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það skiptir máli við framhald þingstarfa að við reynum að vanda okkur hvað varðar það hvernig við tökum ákvarðanir um lengd funda, fjölda þeirra o.s.frv. Allir gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt það verkefni er sem við erum að fást við í þinginu þessa dagana. Þess vegna verðum við alveg sérstaklega að vanda okkur við það hvernig við tökum þetta mál í gegnum þingið. Þess vegna er t.d. nauðsynlegt að við gefum okkur ekki að það liggi t.d. fyrir eitthvert ákveðið samkomulag um það hvort kvöldfundur verði eða ekki. Þingsköp kveða alveg sérstaklega á um að bara á þriðjudögum sé heimilt að fara inn í kvöldið án þess að leita eftir samþykki þingsins. Þess vegna er rétt að við göngum til þessara atkvæða núna af því að ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir. Ef búið hefði verið að ganga frá samkomulagi um þetta mál hefði það verið sjálfsagt, en það var ekki búið og þess vegna þurfum við að greiða atkvæði.