Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 10:31:50 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:31]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er þrennt sem ég vil gera athugasemd við í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Hv. þingmaður talar um að við aðstæður sem þessar sé ekki endilega gott að finna upp eitthvað nýtt til þess að taka á málunum. Það er heldur ekki gott að notast við eitthvað sem maður hefur ef það er illa laskað eða jafnvel ónýtt. Það er þar sem tilraun okkar kemur inn með breytingartillögunum, að bæta þar úr og reyna að gera hlutina betur. Það er ekki verið að finna upp hjólið með því að óska eftir áliti utan þingsins á ákveðnu máli, það er bara alvanalegt að þingið geri það. Þingið kom laskað frá hruninu, það er enginn vafi á því. Þingið nýtur ekki almenns trúverðugleika og það er slæmt. Þetta er tilraun til að bæta úr því.

Ég hef aldrei sagt að það standi til að sópa einhverju undir teppi, ég hef sagt að frumvarpið sem slíkt bjóði upp á að það verði gert vegna þess að það er ekki skýrt tekið fram þar hvað þessi nefnd á að gera. Breytingartillögur Hreyfingarinnar snúa einfaldlega að því að reyna að setja betur undir þann leka, það er ekkert flóknara en það. Ég var heldur ekki að reyna að gera þetta ótrúverðugt með því að nefna að tveir þingmenn hefðu skrifað undir breytingartillöguna með fyrirvara. Það kom nefnilega skýrt fram að sumir nefndarmanna voru ekki alveg sannfærðir um að þetta væri nægjanlegt. Það er kannski hluti af þeim ógöngum sem þetta mál hefur ratað í, að verið er að afgreiða það á tiltölulega stuttum tíma án nægilega vandaðrar meðferðar. Þarna er óvissuatriði. Þó að það sé kannski ekki mikil óvissa um þetta einstaka mál er að mínu mati mjög óþægilegt að það sé óvissa yfirleitt um það.