Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 15:39:09 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að menn gætu dregið fram úr hinum og þessum álitum sem borist hefðu hina og þessa hluti máli sínu til stuðnings. (Gripið fram í.) Það hefur hv. þingmaður m.a. gert að því er varðar skýrslu þessa lögfræðifyrirtækis. Ég er þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld hafi í raun gert allt til að ná sem hagfelldastri niðurstöðu í þetta mál hvað okkur snertir. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það að hafna málinu núna og óska eftir því við Breta og Hollendinga að fara af stað í nýjar viðræður verði árangursríkt, að það verði ferð til fjár ef svo má segja. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að Bretar og Hollendingar mundu fallast á það að koma til nýrra samningaviðræðna og ég held að þar með mundi endurreisnin sem er hafin á okkar efnahags- og atvinnulífi tefjast enn frekar, endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, önnur endurskoðunin sem á að ljúka vonandi snemma á næsta ári, og lánafyrirgreiðslurnar frá Norðurlöndunum o.s.frv. (Forseti hringir.) Þetta mundi allt tefjast og ég tel að hagsmunir þjóðarinnar séu ekki fólgnir í því.