Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 18:10:51 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefnir að hægt hefði verið að bjóða upp á samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar menn fóru í þessa vegferð í upphafi, eins og hann orðaði það. Sú vegferð hófst haustið 2008, hafi það gleymst einhverjum, þegar þáverandi ríkisstjórn fór að reyna að ná samkomulagi um þetta mál. Það gekk ekki mjög vel á þeim tíma og var komið í farveg sem við hefðum aldrei getað staðið við, íslensk þjóð, ef það mál hefði verið klárað á þeim nótum.

Stjórnarandstaðan baðst undan samstarfi á haustdögum, það liggur alveg ljóst fyrir. Það var yfirlýst af fulltrúum stjórnarflokkanna (Gripið fram í.) að þeir ætluðu ekki að koma meira að þessu máli. Samstarf var ekki í boði af þeirra hálfu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður gagnrýndi sömuleiðis að málið hefði verið rifið út úr nefndum þingsins í andstöðu við minni hluta nefndanna og þá sérstaklega fjárlaganefnd. Í gær fór ég í andsvar við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og bað hann um að staðfesta hvort stjórnarandstöðunni hefði verið boðið að eyða lengri tíma í fjárlaganefnd, (Gripið fram í.) bíða eftir þeirri niðurstöðu sem óskað var eftir, en því var ekki hafnað. Það var talið ásættanlegt að taka málið út úr nefnd daginn fyrir Þorláksmessu, eins og var gert, frekar en að bíða. Það var ekki það að stjórnarliðar og meiri hluti í fjárlaganefnd hefðu boðið upp á það, stjórnarandstaðan hafnaði því.