Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 15:43:30 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni ágætisupprifjun. Þetta er gott að hafa í huga. Það ber líka að minnast þess að hv. formaður fjárlaganefndar sagðist ætla að reyna að vinna þessu máli framgang og stóð við það þegar hann mælti fyrir því hér á þinginu á sínum tíma.

Vissulega hefði þurft að vinna málið betur í framhaldinu og það er ekki eins og ekki hafi verið lagðar fram tillögur um það að málið yrði kynnt með öðrum hætti fyrir Bretum og Hollendingum. Við því var ekki orðið og það er þá spurning hvers vegna það var, hvort framkvæmdarvaldið hafi einfaldlega gefið sér það fyrir fram (Gripið fram í.) að það hefði engan tilgang. En eins og oft hefur komið fram í máli mínu hér á þingi tel ég að framganga framkvæmdarvaldsins í þessu máli, bæði ráðherra og embættismanna, hafi ekki verið nægilega góð. Þó að hæstv. fjármálaráðherra segist hér ætla persónulega að axla þá ábyrgð er þetta ekkert mál sem snýst bara um hennar eigin persónu, þetta er mál sem snýst um alla þjóðina og framtíð hennar næstu áratugina jafnvel. Að menn skuli taka til orða með svo sjálfhverfum hætti sem oft hefur verið gert hér af hálfu framkvæmdarvaldsins er náttúrlega bara ósæmilegt því að hér skiptir þetta miklu meira máli en framtíð eins fjármálaráðherra. (VigH: Rétt.)