Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 22:41:49 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er erfitt, flókið og risastórt mál til lokaafgreiðslu á Alþingi. Alþingi fær loks tækifæri til að leiða til lykta þetta vonda mál þar sem engar lausnir eru góðar. Að baki er ítarleg, vönduð umfjöllun og skoðun á þessu máli í heild. Ég tek undir það sem komið hefur fram hér áður í umræðunni, það er ástæða til að þakka öllum þeim sem hafa haft skoðanir á þessu máli, skipt sér af því, sent inn álit, tekið þátt í að móta og koma að þeirri vinnu sem hér hefur verið unnin.

Með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi vel ég skásta kostinn í stöðunni og segi já, vitandi það að íslenska þjóðin hefur alla burði til að standa af sér þá erfiðleika sem við erum að ganga inn í og horfa björt fram á veginn á nýju ári.