Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.

Þskj. 2  —  2. mál.














Þjóðhagsáætlun

fyrir árið 2010.

(Lögð fram af forsætisráðherra 5. október 2009.)


























Forsætisráðuneytið.

Inngangur.
    Íslenskt efnahagslíf gengur nú í gegnum meiri erfiðleika en um langa hríð í kjölfar falls stærsta hluta fjármálakerfis landsins á sama tíma og alþjóðahagkerfið tekst á við dýpstu efnahagskreppu í sjö áratugi. Efnahagsstefnan mótast af þessum raunveruleika. Meginþættir efnahagsstefnunnar eru tveir. Í fyrsta lagi að koma Íslandi út úr dýpstu efnahagskreppu seinni ára eins fljótt og auðið er á forsendum norræns velferðarsamfélags. Þetta felur í sér að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, endurreisa fjármálakerfið, ná þjóðarsátt um lykilmarkmið og viðamiklar efnahagsráðstafanir og sátt við nágrannalönd eftir hrun íslenska fjármálakerfisins. Annar lykilþáttur efnahagsstefnunnar er að koma í veg fyrir að slíkt áfall geti dunið yfir á nýjan leik. Til þess hefur ríkisstjórnin ekki aðeins lagt fram ábyrga áætlun í ríkisfjármálum til næstu ára heldur einnig gjörbreytt umgjörð hagstjórnar til þess að tryggja betri samþættingu hinna ýmsu þátta hennar og styrkt stöðu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. Á næstu mánuðum verður samþætting og samstarf þessara stofnana aukið enn frekar til þess að tryggja heildstætt eftirlit með fjármálastöðugleika. Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verður enn um sinn snar þáttur í efnahagsstefnu stjórnvalda og gert er ráð fyrir að svo verði fram á vormánuði 2011. Framkvæmd þessarar efnahagsstefnu er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar, enda er hún mynduð um það verkefni að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Hagkerfið mun enn dragast saman.
    Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir 8,4% samdrætti hagkerfisins í ár, sem er nokkru minni samdráttur en búist var við í fyrstu og nærri því sem algengast er í alþjóðlegum fjármálakreppum. Núverandi samdráttarskeið verður þó líklega það dýpsta og lengsta sem íslenskt hagkerfi hefur lent í frá því í kreppunni miklu. Þetta kemur ekki hvað síst fram í 17,4% samdrætti einkaneyslu og 45,5% samdrætti fjárfestingar árið 2009 samkvæmt forsendum fjárlaga. Samneyslan dregst saman um 3,4% á sama tíma. Því er gert ráð fyrir 20,3% samdrætti þjóðarútgjalda. Veikt gengi krónunnar virðist þó ætla að draga nokkuð úr þessum samdráttaráhrifum þar sem einkaneyslan beinist nú í auknum mæli að innlendri framleiðslu sem dregur verulega úr öllum innflutningi, alls um 30%. Þessu til viðbótar er spáð 1,4% samdrætti í magni útflutnings árið 2009. Ljóst er því að veikt gengi krónunnar með snarbættri samkeppnishæfni hagkerfisins auðveldar endurreisn hagkerfisins við núverandi aðstæður.
    Árið 2010 er gert ráð fyrir 1,9% samdrætti en að hagvöxtur taki við sér eftir það og verði 2,8% árið 2011, 4,8% árið 2012 og 2,6% árið 2013 samkvæmt forsendum fjárlaga. Umskiptin í hagkerfinu munu ekki síst koma til vegna aukinnar fjárfestingar næstu árin – ekki síst í orkufrekum iðnaði.
    Flest heimili landsins standa frammi fyrir umtalsverðum búsifjum og mörg eiga í verulegum erfiðleikum vegna hækkandi skulda, lækkandi eignaverðs, minnkandi ráðstöfunartekna og aukins atvinnuleysis.
    Atvinnuleysi jókst hratt frá falli bankanna þar til það náði í hámarki í 9,1% í apríl. Atvinnuleysi minnkaði á ný yfir sumarmánuði og hefur haldist nokkuð stöðugt, þó nálægt hæstu gildum frá því mælingar hófust. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað nokkuð undanfarna mánuði vegna árstíðabundinna þátta má búast við þónokkurri aukningu næstu missirin, en reynsla annarra þjóða í fjármálakreppum er sú að atvinnuleysi er áfram töluvert í nokkur ár eftir að bati verður ljós í hagkerfinu. Forsendur fjárlaga eru í samræmi við það, en þar er gert ráð fyrir 10,6% atvinnuleysi árið 2010, 9% árið 2011, 6,1% árið 2012 og að atvinnuleysi verði enn 5,4% árið 2013. Undir lok spátímans verður atvinnuleysi því enn nokkuð yfir sögulegu lágmarki en verulega minna en nú.
    Eitt helsta viðfangsefni íslenskrar efnahagsstefnu er að koma í veg fyrir aukið langtímaatvinnuleysi, en um helmingur allra atvinnulausra í ágúst höfðu verið án vinnu í sex mánuði eða lengur. Stjórnvöld eru staðráðin í því að grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á til að stemma stigu við auknu atvinnuleysi. Að hluta verður gripið til sértækra ráðstafana sem miða að því að auka hlut vinnuaflsfrekra verkefna í tengslum við opinberar framkvæmdir auk þess sem stoðkerfi vinnumarkaðar verða efld eftir því sem kostur er. Það sem skiptir þó mestu máli er að hjól atvinnulífsins geti snúist hraðar þannig að atvinnusköpun geti aukist á nýjan leik.
    Nýleg rannsókn Seðlabankans gefur auk þess til kynna að um 20% heimila standa frammi fyrir erfiðleikum við endurgreiðslu skulda. Eftir nærri 8% samdrátt í ráðstöfunartekjum á mann gera forsendur fjárlaga ráð fyrir enn frekari 10,4% samdrætti í ár og 11,4% samdrætti árið 2010. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun svo aukast á nýjan leik frá árinu 2012 samkvæmt forsendum fjárlaga. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann mun þá hafa dregist saman um nærri fjórðung og vera í árslok 2011 álíka mikill og árið 2001.
    Stór hluti þessarar kjararýrnunar er til kominn vegna hárrar verðbólgu sem orsakast á undanförnum mánuðum fyrst og fremst af veikingu krónunnar. Aukinn stöðugleiki hagkerfisins með styrkum gjaldmiðli og lækkandi verðbólgu er forsenda þess að þróuninni verði snúið við. Samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og umsókn um inngöngu í Evrópusambandið er m.a. ætlað að vinna gegn þessari þróun og móta aðstæður til vaxandi kaupmáttar til framtíðar. Með upptöku evru í kjölfar inngöngu í ESB væri stöðugleiki gjaldmiðilsins tryggður og styrkari stoðum skotið undir stöðugt verðlag og þar með vaxandi kaupmátt.
    Engu að síður er ljóst að einkaneyslan mun áfram dragast saman á næstu árum þó svo að vonir standi til þess að þær aðgerðir sem gripið verður til varðandi skuldavanda heimilanna geti létt undir með þeim sem þyngstu byrðirnar bera. Gert er ráð fyrir 17,4% samdrætti einkaneyslu árið 2009 og 6% samdrætti árið 2010 eftir 8% samdrátt árið 2008. Einkaneysla mun þá hafa dregist saman um nærri 30%.

Endurreisn bankakerfisins.
    Hrun þriggja stærstu fjármálastofnana landsins í október 2008 er eitt stærsta áfall sem fjármálakerfi nokkurs ríkis hefur orðið fyrir. Í mars 2009 féllu svo þrjú fjármálafyrirtæki til viðbótar. Í fyrstu var lögð megináhersla á að viðhalda innlendri bankastarfsemi og greiðslukerfum. Eftir að þessir grundvallarþættir höfðu verið tryggðir var lögð aukin áhersla á að endurreisa vel starfhæft bankakerfi. Starfhæft fjármálakerfi er forsenda hagvaxtar í nútímahagkerfi.
    Endanleg skil milli gömlu og nýju bankanna er ein forsenda þess að hægt sé að endurreisa íslenskt fjármálakerfi. Frá því í febrúar hefur verið unnið sleitulaust að viðræðum og síðar samningum við skilanefndir gömlu bankanna, fyrir hönd kröfuhafa þeirra, með það að markmiði að nýju bankarnir þrír og gjörvallt íslenska fjármálakerfið geti starfa og dafnað til framtíðar. Samningar hafa þegar náðst vegna Glitnis/Íslandsbanka og Kaupþings og hefur ríkissjóður veitt þeim eigið fé sem skýtur styrkum stoðum undir starfsemi þeirra. Í báðum tilfellum stendur skilanefndum fyrir hönd kröfuhafa til boða að eignast stærstan hluta hinna nýju banka, að öðrum kosti munu gömlu bankarnir hafa kauprétt á stærstum hluta hvors banka á næstu árum.
    Ríkisstjórnin vonast til þess að samningar náist einnig vegna Landsbankans fyrri hluta október. Ríkissjóður hefur veitt Íslandsbanka og Kaupþingi nýtt eigið fé sem tryggir starfsemi þeirra til frambúðar og styrk til þess að takast á við erfiðar aðstæður í íslenska hagkerfinu næstu missirin. Landsbankanum verður komið á sambærilega traustan grundvöll á allranæstu vikum.
    Ríkisstjórnin stefnir að því að bankakerfið verði enn að mestu leyti í eigu einkaaðila, hvort sem það verður við yfirtöku fyrrverandi kröfuhafa bankanna eða með einkavæðingu þeirra síðar. Ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár hyggst ríkissjóður þó enn um sinn eiga virkan hlut í fjármálakerfinu í gegnum Landsbankann. Slík aðferð var farin í Svíþjóð og Noregi í kjölfar fjármálakreppa fyrir tveimur áratugum. Eignarhlutir ríkissjóðs munu næstu árin vera í höndum Bankasýslunnar, sem sett hefur verið á fót að vel heppnaðri norskri fyrirmynd.
    Hvort sem bankarnir verða í eigu einkaaðila eða ríkissjóðs er ljóst að þeir munu þurfa að breyta um starfsaðferðir. Tíma ofurlauna og kaupauka fyrir stjórnlausa áhættusækni er lokið. Íslenskir bankar þurfa fyrst og fremst að hugsa um hefðbundna bankastarfsemi og öllum ætti nú að vera ljós sú áhætta sem fylgir verulegri innlánasöfnun banka sem starfa eftir lögmálum fjárfestingabanka. Til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig verður umgjörð Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins styrkt eins og fram kemur hér að aftan.

Sparisjóðir.
    Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að styðja við sparisjóði landsins, enda gegna sparisjóðir mikilvægu hlutverki á íslenskum fjármálamarkaði, ekki síst á landsbyggðinni. Til þess að bregðast við vandræðum sparisjóðanna í kjölfar hrunsins var fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs veitt heimild í 2. gr. neyðarlaganna til að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans í lok árs 2007. Gert er ráð fyrir þessari aðgerð í fjárlögum þessa árs. Á grundvelli þessara laga (og sérstakra reglna) sóttu átta sparisjóðir um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.
    Fjárhagsstaða sparisjóða var í nokkrum tilvikum orðin það veik að eiginfjárframlag úr ríkissjóði eitt og sér dugði ekki til að tryggja rekstrargrundvöll þeirra. Því var nauðsynlegt að fara í fjárhagslega heildarendurskipulagningu á efnahag þeirra. Eitt af þeim atriðum sem m.a. torveldaði þá vinnu var að ekki var heimild í lögum til að færa niður eldra stofnfé, en það var ekki mikill vilji kröfuhafa til að færa niður skuldir, hvað þá fjárfesta að greiða inn nýtt stofnfé, nema stofnfjáreigendur mundu axla ábyrgð á orðnum hlut og einnig leggja sitt af mörkum í endurskipulagningunni.
    Með breyttum lögum um fjármálafyrirtæki frá því í sumar var kaflanum um sparisjóði breytt og er lagarammi sparisjóðanna nú betur skilgreindur og rekstrarformið skýrt svo þeir geti sinnt þeirri þjónustu sem hugmyndafræði sparisjóðanna gengur út á.
    Í tilviki tveggja stóru sparisjóðanna þurfti einnig að semja við erlenda kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu. Forræði samninga var á hendi stjórnenda og stofnfjáreigenda enda viðræðurnar forsenda þess að sjóðirnir uppfylltu skilyrði ríkisins um eiginfjárframlag. Samningaviðræðurnar fóru fram í sumar og nú liggur fyrir samkomulag sem bíður samþykkis stofnfjárfundar viðkomandi sparisjóða áður en nýtt stofnfé verður greitt inn.
    Aðrar minni fjármálastofnanir urðu einnig fyrir skakkaföllum síðastliðið haust þegar stóru viðskiptabankarnir féllu. Við það eignaðist Seðlabanki kröfur á þessar fjármálastofnanir sem ríkissjóður tók yfir. Í fjármálaráðuneytinu hefur verið unnið með þessum fjármálafyrirtækjum að útfærslu fjárhagslegrar endurskipulagningar þeirra með það að markmiði að þau geti starfað áfram og staðið undir skuldbindingum sínum.
    Þeir eignarhlutar sem ríkissjóður eignast í sparisjóðunum verða fluttir í Bankasýsluna og gert er ráð fyrir að ríkið dragi sig út úr rekstri þeirra þegar aukinn stöðugleiki kemst á í hagkerfinu.
    Ríkissjóður hefur einnig gripið til aðgerða til þess að styðja við lífvænleg smærri fjármálafyrirtæki. Áfram verður unnið með þeim til þess að tryggja fjölbreytt fjármálakerfi, en stefnt er að því að flytja umsjón með slíkum málum að miklu leyti til Bankasýslunnar.

Umgjörð fjármálakerfisins.
    Síðastliðið sumar voru lög um Bankasýsluna samþykkt og hefur hún þegar tekið til starfa. Hlutverk hennar verður að fara með eignarhlut ríkisins í þeim fjármálafyrirtækjum sem fallið hafa í skaut þess og að vinna að endurskipulagningu á íslenskum fjármálamarkaði.
    Ríkisstjórnin telur einnig mikilvægt að styðja áfram við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið með það að markmiði að stofnanirnar geti sinnt eftirlitshlutverkum sínum af meiri krafti en áður. Yfirstjórn Seðlabankans hefur verið styrkt með ráðningu eins seðlabankastjóra og skipunar peningastefnunefndar með mjög frambærilegum innlendum og erlendum sérfræðingum. Nýr forstjóri og stjórn FME hafa tekið til starfa. Auk þess mun ríkisstjórnin enn grípa til aðgerða til þess að reyna að tryggja að samstarf stofnananna verði enn nánara en áður (sjá að aftan).
    Á haustþingi verður einnig lagt fram frumvarp til styrkingar lagaumhverfi fjármálakerfisins. Þar er stefnt að því að styrkja ákvæði um ýmsar hegðunar- og hæfisreglur, t.d. varðandi lánveitingar með veði í eigin hlutabréfum, krosseignarhald, áhættustýringu, lán til tengdra aðila og stórar áhættuskuldbindingar, aukna möguleika til að fylgjast með eigendum virkra eignarhluta og hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Einnig mun íslensk löggjöf á þessu sviði áfram mótast af þróun í Evrópu.

Traust stjórn ríkisfjármála.
    Í ljósi gríðarlegs samdráttar innlendrar eftirspurnar hefur ríkissjóður verið rekinn með verulegum halla á yfirstandandi ári í því skyni að draga úr áhrifum efnahagskreppunnar. Hins vegar er ljóst að slíkur hallarekstur er ósjálfbær til lengdar, ekki síst í ljósi hratt hækkandi skuldastöðu ríkissjóðs, en skuldirnar hafa vaxið úr 23,4% af landsframleiðslu árið 2007 í 95,1% í lok þessa árs. Gert er ráð fyrir því að skuldirnar verði komnar í 111% af landsframleiðslu í árslok 2010 og vaxi enn fram til ársins 2012. Á sama tíma hafa hreinar skuldir ríkissjóðs hækkað úr nærri 4% af landsframleiðslu í 60%. Skuldastaða ríkissjóðs er því há í sögulegu og alþjóðlegu tilliti en á engan hátt óyfirstíganleg.
    Rétt er að benda á að erlendir fjárfestar eiga rúmlega helming allra útgefinna ríkisskuldabréfa. Hugsanlegt er að þeir fari að einhverju leyti með fjármuni úr landi við afnám gjaldeyrishafta. Því er mikilvægt að styrkja skulda- og lausafjárstýringu ríkissjóðs. Slíkt hefur þegar verið gert.
    Ríkisstjórnin lagði því í sumar fram áætlun í ríkisfjármálum til ársins 2013 þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður skili afgangi á nýjan leik við lok þess tímabils. Líkt og kemur fram í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar eru þessar nauðsynlegu og víðtæku aðgerðir í ríkisfjármálum lykillinn að endurreisn íslensks efnahagslífs. Hins vegar verður ríkisfjármálum beitt til að „verja grunnvelferðarkerfið og auka kjarajöfnuð um leið og staðið er undir fjárhagsskuldbindingum ríkissjóðs og stutt eftir megni við baráttuna við atvinnuleysi og nýja sókn í atvinnulífi um allt land“.
    Lykilatriði er að aukin skattheimta leggist frekar á þá sem betur eru í stakk búnir til að bera auknar byrðar en verði þó ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem framundan eru.
    Stefna ríkisstjórnarinnar á þessu sviði hefur verið rædd ítarlega við aðila vinnumarkaðarins og kynnt með samþykkt stöðugleikasáttmálans síðastliðið vor. Ríkisstjórnin telur slíkt samráð eina forsendu þess að hagkerfið og þjóðfélagið allt geti unnið sig út úr þeim mikla vanda sem það stendur frammi fyrir nú og að árangur náist í ríkisfjármálum til framtíðar.
    Fjárlagafrumvarpið sýnir og sannar vilja ríkisstjórnarinnar til þess að ná nauðsynlegum árangri í ríkisfjármálum, en þó á forsendum félagslegs réttlætis og jafnaðar.
    Stefnt er að því að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. jöfnuður án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, verði orðinn jákvæður á árinu 2011, að heildarjöfnuður ríkissjóðs verði orðinn jákvæður á árinu 2013 og að til lengri tíma litið verði skuldsetning ríkissjóðs ekki meiri en svarar til 60% af vergri landsframleiðslu.
    Til þess að hægt sé að taka heildstætt á fjármálum hins opinbera stefnir ríkisstjórnin á að setja aukinn kraft í viðræður við sveitarfélögin um fjármálareglur þeim til handa í kjölfar þess að umgjörð ríkisfjármála hefur verið styrkt. Einnig er stefnt að virkari samráðsvettvangi um efnahagsmál og mun hið nýja efnahags- og viðskiptaráðuneyti leiða þá vinnu.

Tímabundin gjaldeyrshöft afnumin.
    Þau gjaldeyrishöft sem sett voru á fyrir árslok 2009 eru ill nauðsyn við núverandi aðstæður. Seðlabankinn hefur birt stefnu um slökun haftanna sem unnin var í samstarfi við viðskiptaráðuneytið og samþykkt af ríkisstjórnin nú í sumar. Stefnt er að því að opna fyrir innflæði fjármagns á næstu mánuðum og lina svo höftin í stigum án þess að gengisstöðugleika verði ógnað. Með samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur Seðlabanka Íslands opnast aðgangur að 2,1 milljarða dala láni frá sjóðnum til styrkingar gjaldeyrisforðanum auk 2,5 milljarða dala frá Norðurlöndunum og 200 milljóna dala frá Póllandi. Gengið hefur verið frá samningum þess efnis og verða lánin afhent í kjölfar hverrar endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda. Áður hafði verið gengið frá láni frá Færeyjum upp á 300 milljónir danskra króna.

Umgjörð efnahagsstjórnar.
    Skortur á samstarfi og samráði hefur lengi verið íslenskri efnahagsstjórn fjötur um fót. Finnski sérfræðingurinn Kaarlo Jännäri benti sérstaklega á þetta vandamál í skýrslu sinni sem afhent var stjórnvöldum og birt í mars á þessu ári. Í samræmi við hans hugmyndir hefur ráðuneytum sem fara með efnahagsmál og fjármálamarkaði nú verið fækkað. Málefni Hagstofunnar og Seðlabankans hafa verið flutt yfir í nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Nýja ráðuneytið hefur einnig verið styrkt með flutningi verkefna og starfsfólks af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu forsætisráðuneytisins yfir í hið nýja ráðuneyti. Með þessari tilhögun er vonast eftir betri samþættingu efnahagsstjórnar landsins og bættu samráði þeirra aðila sem koma að eftirliti með fjármálamörkuðum.
    Á næstu mánuðum verður tekin afstaða til þess hvort sameina eigi Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið á nýjan leik eða hvernig megi með öðrum hætti bæta samstarf þessara tveggja stofnana. Á síðustu mánuðum hefur samstarf og samskipti þeirra aukist verulega í gegnum nefndir um endurreisn fjármálakerfisins. Mikilvægt er að ekki verði slakað þar á og sá mikli árangur sem náðst hefur á undanförnum missirum verði vegvísir til framtíðar.
    Auk þess hefur verið skipuð sérstök ráðherranefnd um efnahagsmál. Í henni eru forsætisráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar í samræmi við umfjöllunarefni. Gert er ráð fyrir að ráðherranefndin fjalli meðal annars reglulega um atvinnumál og stöðu heimilanna.
    Ráðherranefnd um efnahagsmál er ætlað að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum. Meðal annarra verkefna er samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til lengri og skemmri tíma. Einnig mun hún verða stefnumótandi og hafa forustu um samskipti við aðila vinnumarkaðarins, uppbyggingu fjármálakerfisins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til efnahagsmála.

Jákvæð teikn á lofti.
    Hagkerfið hefur sýnt gríðarlega aðlögunarhæfni á því ári sem liðið er frá falli bankanna. Þrátt fyrir að veiking krónunnar hafi valdið mörgum fyrirtækjum og heimilum búsifjum þá bætir lágt raungengi samkeppnishæfi þjóðarbúsins svo um munar. Af því leiðir að vöruskipti hafa verið jákvæð frá því í september 2008 og þjónustujöfnuður var jákvæður á öðrum ársfjórðungi 2009, ekki síst vegna verulega aukinna tekna af erlendum ferðamönnum. Jákvæð teikn á lofti á erlendum mörkuðum hjálpar einnig verulega til við aðlögun hagkerfisins, en í byrjun sumars endurskoðaði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hagvaxtarspá sína upp á við fyrir árin 2009–2010. Þetta var í fyrsta sinn í tvö ár sem OECD endurskoðaði spá sína upp á við. Aukin umsvif á alþjóðamörkuðum hafa snúið við verðlækkunum á helstu útflutningsafurðum Íslands frá hápunkti alþjóðlegu fjármálakreppunnar á fyrstu mánuðum ársins. Á sama tíma hefur áhættuálag á íslenskar fjáreignir lækkað hratt og skuldatryggingarálag á ríkissjóð er nú aðeins um þriðjungur þess sem það var í ársbyrjun. Allir þessir þættir, ásamt hraðlækkandi verðbólgu á síðustu mánuðum ársins, munu mynda undirstöður fyrir aukinn stöðugleika og hagvöxt til framtíðar.