Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.

Þskj. 83  —  82. mál.



Frumvarp til laga

um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

    Markmið þessara laga er að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf með því annars vegar að veita nýsköpunarfyrirtækjum rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni og hins vegar að hvetja til þess að menn og lögaðilar fjárfesti í þeim að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til viðurkenndra nýsköpunarfyrirtækja, þó ekki til eftirtalinna aðila:
     1.      Háskóla, opinberra stofnana (náttúrustofa, sjálfseignarstofnana o.fl.) né opinberra hlutafélaga.
     2.      Fyrirtækja sem ekki uppfylla skilyrði II. kafla.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Aukning hlutafjár: Hækkun hlutafjár í skilningi V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
     2.      Framlag til nýsköpunar: Útlagður kostnaður vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.
     3.      Hlutabréfakaup: Kaup á hlutabréfum til aukningar á hlutafé fyrirtækisins, sbr. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
     4.      Nýsköpun: Starfsemi sem leiðir til nýrrar og endurbættrar afurðar, þjónustu eða ferlis og markaðslegs ávinnings.
     5.      Nýsköpunarfyrirtæki: Lögaðilar skv. 1. og 3. tölul. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem vinna að nýsköpun.
     6.      Opinber hlutafélög: Hlutafélög eða einkahlutafélög sem eru beint eða óbeint í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á vegum þeirra.
     7.      Rannís: Rannsóknamiðstöð Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra.
     8.      Rannsóknar- og þróunarkostnaður: Beinn kostnaður, svo sem vegna sérhæfðra starfsmanna, tækja, húsnæðis, aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarvinnu og aðfanga.
     9.      Rannsóknir: Tilraunir eða fræðileg vinna sem innt er af hendi með það í huga að afla nýrrar þekkingar á undirstöðum fyrirbæra og atburða.
     10.      Skattaðili: Aðili sem er skattskyldur skv. I. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og á rétt á frádrætti skv. 30. og 31. gr. sömu laga.
     11.      Skattafsláttur: Frádráttur frá tekjuskattsstofni vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtæki, sbr. 30. og 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     12.      Skattfrádráttur: Frádráttur frá álögðum tekjuskatti, eða endurgreiðsla samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     13.      Verkferlar: Skipulag þar sem gert er ráð fyrir þróunarstarfi í starfslýsingu starfsmanna sem hafa þjálfun og reynslu af rannsóknarstörfum og aðstöðu til starfsins.
     14.      Viðskiptaáætlun: Greinargerð um viðskiptahugmynd fyrirtækis, starfsemi þess og möguleika.
     15.      Þróun: Kerfisbundin vinna byggð á fyrirliggjandi þekkingu sem hefur fengist með rannsóknum eða hagnýtri reynslu og miðar að því að framleiða ný efni, vörur og tæki.

II. KAFLI
Umsóknarferli.
4. gr.
Umsóknir til Rannís.

    Umsóknir samkvæmt lögum þessum skulu sendar Rannís á þar til gerðu eyðublaði eða með öðrum sambærilegum hætti.
    Lögaðili sem óskar eftir staðfestingu Rannís á að teljast nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum þessum skal senda umsókn þess efnis til Rannís í síðasta lagi 1. september ár hvert. Tilgreina skal hvort sótt er um staðfestingu vegna skattfrádráttar, sbr. 5. gr., eða hlutafjáraukningar, sbr. 6. gr. Sami lögaðili getur sótt um hvort tveggja.
    

5. gr.
Staðfesting vegna skattfrádráttar.

    Rannís skal veita lögaðila staðfestingu sem nýsköpunarfyrirtæki í skilningi þessa ákvæðis, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:
     1.      að hugmynd að virðisaukandi vöru/þjónustu og viðskiptaáætlun sé vel skilgreind, og
     2.      að sýnt sé fram á með gögnum að varið verði a.m.k. 20 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili, og
     3.      að verkferlar séu vel skilgreindir, starfsmenn hafi þjálfun og reynslu af rannsóknarstörfum og aðstaða sé til starfsins.
    Ef keypt hefur verið rannsóknarvinna af öðrum viðurkenndum fyrirtækjum, háskólum eða stofnunum er Rannís heimilt að taka tillit til þess kostnaðar, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn.

6. gr.
Staðfesting vegna hlutafjáraukningar.

    Rannís skal veita lögaðila staðfestingu sem nýsköpunarfyrirtæki í skilningi þessa ákvæðis, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:
     1.      að rannsóknar- og þróunarkostnaður samkvæmt ársreikningum lögaðilans undanfarin tvö af þremur árum næst á undan umsóknarári hafi numið meira en 1,5% af rekstrartekjum eða rekstrarkostnaði eftir því hvor fjárhæðin er hærri, eða varið hafi verið a.m.k. 40 millj. kr. til rannsókna og þróunar á ári undanfarin tvö ár, og
     2.      að verkferlar séu vel skilgreindir, þ.e. skipulag þar sem gert er ráð fyrir þróunarstarfi í starfslýsingu starfsmanna sem hafa þjálfun og reynslu af rannsóknarstörfum og aðstaða sé til starfsins, og
     3.      að hluthafafundur hafi tekið ákvörðun um aukningu hlutafjár skv. V. kafla laga nr. 2/ 1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
    Ef keypt hefur verið rannsóknarvinna af öðrum viðurkenndum fyrirtækjum, háskólum eða stofnunum er Rannís heimilt að taka tillit til þess kostnaðar, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn.
    Hafi rannsóknar- og þróunarkostnaður ekki verið sérgreindur í ársreikningi skal umsækjandi gera ítarlega grein fyrir honum með öðrum sannanlegum hætti.

7. gr.
Samstarfsverkefni.

    Ef um er að ræða samstarfsverkefni fleiri en eins umsækjanda skal hver um sig hafa hlotið staðfestingu Rannís, sbr. 5. og/eða 6. gr.

8. gr.
Málsmeðferð.

    Rannís skal innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar taka ákvörðun um hvort lögaðili hljóti staðfestingu skv. 5. eða 6. gr. og tilkynna umsækjanda um þá ákvörðun.
    Rannís skal tilkynna til embættis ríkisskattstjóra um lögaðila sem uppfyllt hafa annars vegar skilyrði 5. gr. og hins vegar 6. gr.
    Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir lögaðila sem hlotið hafa staðfestingu Rannís og skal hún vera öllum aðgengileg.
    Um meðferð umsókna hjá Rannís fer eftir lögum þessum og öðrum lögum sem um stofnunina gilda.
    Ákvarðanir Rannís samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

9. gr.
Gildistími staðfestingar.

    Staðfesting Rannís skv. 5. og/eða 6. gr. skal miðast við umsóknarár og gildir fyrir það almanaksár. Umsókn um framlengingu staðfestingar skal lögð fram árlega eigi síðar en 1. apríl. Rannís skal taka umsókn um framlengingu til afgreiðslu innan tveggja mánaða frá móttöku hennar. Fallist Rannís á framlengingu gildir staðfestingin fyrir það ár.

III. KAFLI
Framkvæmd.
10. gr.
Skattfrádráttur.

    Nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hefur staðfestingu Rannís á tekjuárinu skv. 5. gr. á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 15 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. skilyrði reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti skal vera 50.000.000 kr. á rekstrarári. Ef um er að ræða aðkeypta þjónustu frá viðurkenndum aðila, sbr. 2. mgr. 5. gr., skal hámark kostnaðar samtals vera 75.000.000 kr. Sé um að ræða samstarfsverkefni, sbr. 7. gr., skal sama hámark gilda fyrir verkefnið í heild en frádrætti skipt hlutfallslega milli nýsköpunarfyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.
    Skilyrði frádráttar er að kostnaði vegna hvers rannsóknar- og þróunarverkefnis sé haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og að gögn séu aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, sbr. X. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Kostnaður vegna rannsókna og þróunar sem fæst endurgreiddur við sölu heimilast ekki til útreiknings á frádrætti samkvæmt ákvæði þessu.
    Árlega skal gera grein fyrir kostnaði vegna rannsókna og þróunar í skattframtali á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður. Kostnaðargreinargerð skal árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara.
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um skiptingu og meðferð óbeins kostnaðar, þ.m.t. um fyrningu, fjármagnskostnað og launakostnað, sem til fellur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna í þessu sambandi.

11. gr.
Greiðsla skattfrádráttar.

    Skattfrádráttur skv. 10. gr. kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda lögaðila, sbr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur eða sé lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps skal frádrátturinn greiddur út, að teknu tilliti til 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við ákvörðun á skattalegu tapi í þessu sambandi skal einungis líta til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem það hlýtur staðfestingu skv. 5. gr.

12. gr.
Opinberar styrkveitingar og útseldar rannsóknir.

    Hafi lögaðili hlotið styrk frá opinberum aðila til sama nýsköpunarverkefnis og umsókn um skattfrádrátt skv. 5. gr. tekur til getur frádráttur skv. 1. mgr. 10. gr. að viðbættri styrkfjárhæð aldrei orðið hærri en 70% af hámarkskostnaði við verkefnið.

13. gr.
Kostnaður á umsóknarári.

    Á því rekstrarári sem nýsköpunarfyrirtæki fær staðfestingu Rannís á að skilyrði 5. gr. séu uppfyllt skal heimilt að telja til rannsóknar- og þróunarkostnaðar í skilningi laganna þau útgjöld sem beint tengjast viðkomandi verkefni og lagt hefur verið í á árinu. Kostnaður sem fellur til vegna umsóknar til Rannís telst ekki með í þessu sambandi.

14. gr.
Skattafsláttur vegna hlutafjáraukningar.

    Skattaðili sem kaupir hlutabréf í nýsköpunarfyrirtæki, sem hlotið hefur staðfestingu Rannís skv. 6. gr., getur dregið kaupverð þeirra hlutabréfa frá skattskyldum tekjum sínum á tekjuárinu innan þeirra marka sem um getur í 3. tölul. 1. mgr. B-liðar 30. gr. og 12. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sama gildir um nýsköpunarfyrirtæki, sbr. 1. málsl., í sömu félagaformum heimilisföstum innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eftir því sem við á sem hlotið hefur viðurkenningu sambærilegrar stofnunar og Rannís.
    Skattafsláttur skv. 1. mgr. er bundinn því skilyrði að um hlutafjáraukningu sé að ræða í viðkomandi nýsköpunarfyrirtæki, sbr. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

15. gr.
Takmarkanir á heildarfjárhæð opinberra styrkveitinga.

    Heildarfjárhæð opinbers stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum þessum takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Hafi lögaðili, sem hlotið hefur staðfestingu skv. 5. og/eða 6. gr., jafnframt notið annars opinbers stuðnings til sama rannsóknar- og þróunarverkefnis getur frádráttur skv. 1. mgr. 10. gr., að viðbættri annarri ríkisaðstoð, aldrei orðið hærri en leyfilegt hámarkshlutfall af styrkhæfum kostnaði vegna viðkomandi verkefnis eftir því sem nánar er kveðið á um í leiðbeinandi reglum um ríkisaðstoð til verkefna á sviði nýsköpunar eða rannsókna og þróunar.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara.

17. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010. Lögin skulu koma til endurskoðunar innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er að finna tillögur sem miða að því að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja, en bætt umhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja er eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Verði frumvarpið að lögum má vænta þess að hagfelldari skattaleg skilyrði hérlendis geti leitt til þess að störfum í rannsóknum og þróun innan íslenskra fyrirtækja fjölgi umtalsvert. Þeirri skipan sem komið yrði á er ætlað að vera hvati fyrir nýsköpun og þróun í bæði nýjum og rótgrónum fyrirtækjum.
    Þeir lögaðilar einir teljast falla undir ákvæði frumvarpsins um stuðning við nýsköpun sem hlotið hafa staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) þar sem sérfræðingar meta umsóknir þeirra um hvort ákveðin verkefni falli undir skilgreiningu frumvarpsins á nýsköpunarfyrirtæki. Skattframkvæmd mun verða í höndum embættis ríkisskattstjóra.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir tveimur leiðum til að styðja við nýsköpun í íslensku atvinnulífi sem báðar stefna að sama marki en með ólíkri framkvæmd og útfærslu.
    Í fyrsta lagi er lagður til skattfrádráttur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna þeirra aðila sem stunda skattskyldan atvinnurekstur á Íslandi og hafa fengið rannsóknar- og þróunarverkefni viðurkennd af Rannís. Lagt er til að nýsköpunarfyrirtæki sem ráðast í verkefni sem hafa að geyma nýja þekkingu, þjónustu, vöru eða tækni sem eflir samkeppnisstöðu þeirra fái sérstakan frádrátt frá álögðum tekjuskatti sínum. Þessi sérstaki frádráttur reiknast sem ákveðið hlutfall, eða 15%, af raunverulegum rannsóknar- og þróunarkostnaði óháð færslu hans í bókhaldi, þ.e. hvort sem hann er gjaldfærður strax þegar hann fellur til eða eignfærður og gjaldfærður síðar. Réttur þessi stendur öllum fyrirtækjum til boða sem fengið hafa staðfestingu hjá Rannís og verður kostnaður vegna rannsókna og þróunar að nema að lágmarki 20 millj. kr. á ári til að réttur skapist. Hámark styrkhæfs kostnaðar er 50 millj. kr. á ári, eða 75 millj. kr. ef um aðkeypta þjónustu er að ræða. Það þýðir að styrkur hvers fyrirtækis getur orðið á bilinu 3–11 millj. kr. á ári.
    Hvatar skattalegs eðlis í þágu nýsköpunarfyrirtækja hafa verið við lýði í mörg ár í nágrannaríkjum Íslands. Árið 1996 var stuðningur í þessu formi virkur hjá 12 ríkjum innan OECD, en árið 2008 voru ríkin orðin 21. Noregur er eitt þeirra og þar hefur sá árangur sem hlotist hefur af þessu fyrirkomulagi verið endurskoðaður reglulega með tilliti til mikilvægis skattafsláttar við fjármögnun vísinda og tækni. Umfang kostnaðar vegna heildarstuðnings við rannsóknir og þróun er breytilegur milli ríkja, og er frá því að vera um 0,01% af vergri landsframleiðslu í Noregi til að vera 0,15% í Kanada.
    Norðmenn hafa á síðustu árum byggt upp kerfi skattfrádráttar vegna útlagðs kostnaðar við rannsóknar- og þróunarverkefni og hefur m.a. verið horft til þess við samningu frumvarpsins. Regluverk Norðmanna hefur verið í gildi frá árinu 2002 og markmið þess er að stuðla að auknum rannsóknum og þróun hjá norskum fyrirtækjum. Þar í landi þarf að uppfylla ýmis skilyrði til að eiga rétt á frádrættinum og hefur verið horft til þeirra skilyrða m.a. hvað varðar hámark og afmörkun kostnaðar, að kostnaður falli til innan rekstrarársins og kostnaður sem fallið hefur til á fyrri stigum komi ekki til álita. Þá hefur verið tekið mið af ýmsu varðandi umsóknarferlið, t.d. varðandi tímafresti. Í Noregi eru reglur um hámark tiltekinna kostnaðarliða og að öðru leyti hvernig skuli reikna út óbeinan kostnað. Lagt er til að höfð verði hliðsjón af þeim reglum varðandi meðferð óbeins kostnaðar og að fjármálaráðherra skuli setja reglugerð þar um.
    Gert er ráð fyrir því að skattyfirvöld meti réttmæti kostnaðarliða svo sem almennt gildir um rekstrarkostnað og sjái um ákvörðun hins sérstaka frádráttar frá skatti við álagningu opinberra gjalda.
    Í öðru lagi er um að ræða frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga manna og lögaðila í nýsköpunarfyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að frádrátturinn muni hvetja menn og lögaðila til slíkra fjárfestinga og um leið aukist eigið fé nýsköpunarfyrirtækja, enda er miðað við að um viðskipti með nýtt hlutafé sé að ræða. Gera má ráð fyrir að aukning eigin fjár leiði til þess að nýsköpunarfyrirtækjum bjóðist betri möguleikar á lánsfjármörkuðum. Fjárfestar öðlast þannig heimild til frádráttar frá skattskyldum tekjum vegna kaupa á hlutabréfum í viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum sem ætti að virkja hvetjandi og auka áhuga þar á.
    Verði frumvarp þetta að lögum er nauðsynlegt að samhliða verði gerðar breytingar á tilteknum ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Með frumvarpinu er kveðið á um tiltekið form ríkisaðstoðar við nýsköpunarfyrirtæki og ber því með vísan til 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um áformaða ríkisaðstoð. Samhliða framlagningu þessa frumvarps á Alþingi hefur ESA verið formlega tilkynnt um frumvarpið. Í samræmi við málsmeðferðarreglur ESA er ekki unnt að hefja veitingu ríkisaðstoðarinnar fyrr en ESA hefur staðfest að hún sé lögmæt og innan þess ramma sem ríkisstyrkjareglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið kveða á um. Um reglur þær sem gilda um ríkisaðstoð til nýsköpunarfyrirtækja vísast nánar til umfjöllunar um 15. gr. frumvarpsins.
    Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni beinan kostnað ríkissjóðs af umræddri ríkisaðstoð við nýsköpunarfyrirtæki, en hann er í raun þríþættur samkvæmt tillögum frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er tillaga um beinan stuðning í formi skattfrádráttar við nýsköpunarfyrirtækið sjálft. Sé tekið mið af reynslu Norðmanna og reynslu Tækniþróunarsjóðs er ekki óvarlegt að ætla að fjöldi samþykktra nýsköpunarverkefna gæti orðið á bilinu 100–150 á ári og meðalstærð verkefnis verði 30–40 millj. kr. Miðað við þær forsendur næmi stuðningurinn 450–750 millj. kr. á ári, væntanlega eitthvað lægri fjárhæð fyrsta árið, en næði hámarki á þriðja ári.
    Í öðru lagi er lagt til að einstaklingum verði veittur skattafsláttur vegna kaupa á hlutabréfum sem gefin eru út af nýsköpunarfyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti varið allt að 300 þús. kr. árlega til hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum, sem myndi frádrátt frá tekjuskattsstofni þeirra og er sú fjárhæð tvöföld hjá hjónum. Sé við það miðað að 1.000 einstaklingar og sami fjöldi hjóna fjárfesti samkvæmt hámarksfjárhæð í slíkum bréfum, eða samtals um 900 millj. kr., lækkar tekjuskattur þessara aðila um 200–250 millj. kr. og tekjur ríkissjóðs samsvarandi. Jafnframt lækka tekjur sveitarfélaga í formi útsvars um liðlega 100 millj. kr. Miðað við framangreindar forsendur nemur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki í þessu formi því um 300–350 millj. kr. Til fróðleiks má nefna að tekjuskattsfrádráttur vegna almenna hlutabréfaafsláttarins, sem hér var við lýði á tímabilinu 1991–2003, varð hæstur samtals 2.660 millj. kr. á árinu 1997, og náði til liðlega 17.500 framteljenda.
    Í þriðja lagi er einnig lagt til að lögaðilar fái heimild til skattafsláttar vegna kaupa á hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja. Í frumvarpinu er miðað við að lögaðilar geti fjárfest fyrir allt að 15 millj. kr. árlega í slíkum bréfum sem samhliða veiti þeim rétt til frádráttar frá tekjuskattsstofni. Sé gengið út frá þeim forsendum að 250 lögaðilar nýti sér þennan rétt árlega, þ.e. kaupi hlutabréf í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir 3,5–4 milljarða kr. gæti það lækkað tekjuskattsgreiðslur þeirra um nálægt 500 millj. kr. á ári.
    Þegar allt er lagt saman gæti ríkisaðstoð í formi þeirra skattaívilnana sem að framan er lýst numið 1.200–1.500 millj. kr., auk þess sem stuðningur sveitarfélaga í formi lægra útsvars næmi liðlega 100 millj. kr. Þá er ótalinn sá stuðningur sem fram kæmi sem aukið hlutafé til viðkomandi nýsköpunarfyrirtækja frá einstaklingum og fyrirtækjum í stað lánsfjár verði frumvarp þetta að lögum, en áhrif þess munu fyrst koma fram við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011. Hafa ber þó í huga að þær fjárhæðir sem hér hafa verið nefndar eru mikilli óvissu háðar og er þeim fyrst og fremst ætlað að gefa lauslega hugmynd um möguleg áhrif af tillögum frumvarpsins.
    Hér að framan hefur einungis verið horft til þeirra útgjalda sem opinberir aðilar kunna að verða fyrir með beinum hætti verði frumvarpið að lögum. Markmið stjórnvalda með slíkum stuðningi er vitaskuld að stuðla að verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Sú verðmætasköpun mun án efa leiða til aukinna skatttekna, bæði beinna og óbeinna, til allrar framtíðar, sem búast má við að geri gott betur en að vega upp beinan kostnað af þeirri ríkisaðstoð sem efnt kann að vera til í þessu sambandi. Hver nettóáhrifin verða til lengri tíma litið á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga og þjóðarbúsins alls er útilokað að meta í fjárhæðum á þessu stigi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið tilgreinir markmið laganna en með þessum sérlögum er stefnt að eflingu fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun. Til að ná markmiðum laganna er í fyrsta lagi gert ráð fyrir sérstökum skattfrádrætti til handa viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum sem hlutfalli af beinum kostnaði við rannsóknar- og þróunarverkefni. Í öðru lagi að hvetja til fjárfestinga manna og lögaðila í hlutafjáraukningu í slíkum fyrirtækjum með því að heimila frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingarinnar. Fyrirmyndin að skattfrádrætti er helst fengin frá svokölluðu SkatteFUNN-kerfi Norðmanna sem verið hefur við lýði í Noregi frá árinu 2002.

Um 2. gr.


    Ákvæðið tilgreinir gildissvið laganna en það tekur til viðurkenndra nýsköpunarfyrirtækja sem öðlast hafa staðfestingu frá Rannís. Lögunum er ekki ætlað að taka til opinberra stofnana, háskóla eða opinberra hlutafélaga. Þannig falla t.a.m. rannsóknastofnanir eins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er opinber rannsóknastofnun, og Matís, sem er opinbert hlutafélag, auk háskólanna, ekki undir lögin þrátt fyrir að starfsemi þeirra sé á sviði nýsköpunar.

Um 3. gr.


    Ákvæðið felur í sér skýringar á þeim orðum og hugtökum sem finna má í lögunum.

Um 4. gr.


    Umsóknir á þar til gerðum eyðublöðum þurfa að berast til Rannís fyrir 1. september á því tekjuári sem næst fer á undan álagningarári svo unnt sé að taka tillit til skattalegs hagræðis við álagningu. Gert er ráð fyrir rafrænu umsóknarferli. Lögaðila er heimilt að sækja um viðurkenningu á því að flokkast undir nýsköpunarfyrirtæki annaðhvort skv. 5. og/eða 6. gr. laganna. Með staðfestingu Rannís öðlast fyrirtækið rétt til skattfrádráttar í samræmi við skipan þá sem lagt er upp með í frumvarpi þessu og ákvæði tekjuskattslaga en frumvarp um breytingu á síðargreindu lögunum er lagt fram samhliða þessu frumvarpi.
    Um tvenns konar umsóknir verður að ræða. Annars vegar um staðfestingu sem leitt getur til hins sérstaka frádráttar frá skatti, sbr. 10. og 11. gr., og hins vegar staðfestingu á því að uppfyllt séu skilyrði fyrir því að þeir sem kaupa hlutabréf í viðkomandi félagi geti af þeim sökum átt rétt á frádrætti frá skattskyldum tekjum sínum, sbr. 14. gr.
    Gert er ráð fyrir því að umsóknir geti borist allt árið um kring en sækja þurfi um fyrir 1. september til að öðlast rétt vegna þess sama rekstrar- eða tekjuárs. Á upphafsári má því gera ráð fyrir því að umsóknir berist Rannís allt frá gildistöku laganna til 1. september 2010.
    Framkvæmd umsókna og matsferli skv. II. kafla laganna verður í höndum Rannís.

Um 5. og 6. gr.


    Ákvæði þessi fjalla um þau skilyrði sem leggja skal til grundvallar mati á þeim forsendum sem settar eru til þess að umsækjendur geti hlotið staðfestingu Rannís sem nýsköpunarfyrirtæki. Ljóst er að við mat á umsóknum þarf að taka mið af jafnt hlutlægum sem huglægum atriðum varðandi það hvort fyrirhugað verkefni feli í sér nýsköpun eða hvort um er að ræða rekstur sem snýst um að afrita eða búa til vörur eða þjónustu sem aðrir hafa hannað. Rannís hefur mikla þekkingu og reynslu af slíku mati.
    Í 5. gr. frumvarpsins er m.a. miðað við að fyrirtæki verji eða sýni fram á að varið verði a.m.k. 20 millj. kr. til rannsóknar og þróunar á ári til þess að uppfylla skilyrði fyrir skattfrádrætti enda þykja ekki forsendur til að styrkja með þessum hætti verkefni af minna umfangi.
    Til þess að uppfylla skilyrði um að frádráttur vegna hlutabréfakaupa komi til álita þurfa fyrirtæki að verja meira en 1,5% af veltu eða að lágmarki 40 millj. kr. til rannsókna og þróunar. Talið er að fyrirtæki sem uppfylla síðari skilyrðin, sé litið til tveggja af undanfarandi þremur árum, hafi nægilega þróaða innviði til að fá staðfestingu skv. 6. gr.
    Þegar staðfesting Rannís liggur fyrir gefast möguleikar eftir atvikum á skattfrádrætti viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis og/eða þeirra manna og lögaðila sem fjárfest hafa beint í nýju hlutafé í þeim. Frádráttur nýsköpunarfyrirtækja kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti eða til útgreiðslu ef ekki er um tekjuskatt að ræða. Frádrátt vegna hlutabréfakaupa fá þeir aðilar sem fjárfesta í viðurkenndu nýsköpunarfyrirtæki en kaup á slíkum hlutabréfum þurfa að fela í sér aukningu á hlutafé félagsins. Að öðrum kosti kemur frádráttur ekki til álita. Tekið skal fram að fyrirtæki sem uppfyllir skilyrði 6. gr. uppfyllir þegar af þeirri ástæðu skilyrði 5. gr. en ekki öfugt.
    Sjá nánari umfjöllun um fyrirkomulag frádráttar og útgreiðslu í athugasemdum við 10. og 11. gr.

Um 7. gr.


    Séu nýsköpunarverkefni unnin í samstarfi fleiri en eins aðila þarf hver aðili um sig að hafa hlotið staðfestingu Rannís til að frádráttur samkvæmt lögunum komi til álita og uppfylla þau skilyrði sem sett eru í þeim efnum.

Um 8. gr.


    Ákvæðið fjallar um málsmeðferð hjá Rannís við mat á umsóknum og afgreiðslu þeirra. Um stofnunina, sem er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið, gilda sérlög ásamt ákvæðum stjórnsýslulaga. Gert er ráð fyrir því að ákvörðun Rannís verði endanleg á stjórnsýslustigi. Ákvarðanir Rannís um hvaða fyrirtæki hljóta viðurkenningu sem nýsköpunarfyrirtæki eru því ekki kæranlegar til ráðuneytisins. Málsmeðferð Rannís tekur mið af því verklagi sem systurstofnun hennar, Norsk Forskningsråd, hefur þróað vegna SkatteFUNN.

Um 9. gr.


    Staðfesting Rannís á fyrsta ári gildir fyrir það tekjuár. Sá lögaðili sem vill njóta áframhaldandi réttinda verður að endurnýja umsókn sína og sýna fram á áframhaldandi starfsemi í nýsköpun, þ.e. senda Rannís gögn og upplýsingar til mats á stöðu sinni eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Reynist umsókn ófullnægjandi kemur ekki til áframhaldandi staðfestingar og réttur samkvæmt lögunum fellur niður. Mikilvægt er að svo fljótt sem við verður komið liggi fyrir hvort nýsköpunarfyrirtæki og þeir sem hyggjast fjárfesta í þeim eigi rétt á frádrætti og eru því framangreind tímamörk sett.

Um 10. gr.


    Nýsköpunarfyrirtæki, sem hlotið hefur staðfestingu Rannís á að skilyrði 5. gr. séu uppfyllt, á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti miðað við þann rannsóknar- og þróunarkostnað sem lagt hefur verið í vegna viðkomandi nýsköpunarverkefnis, að hámarki 50 millj. kr., sem gildir fyrir hvert verkefni um sig óháð því hvort það er unnið af fleiri en einu nýsköpunarfyrirtæki. Sé jafnframt um að ræða aðkeypta þjónustu frá viðurkenndum aðilum getur hámark heildarkostnaðar þó numið 75 millj. kr. Frádráttur getur orðið allt að 15 hundraðshlutum af rannsóknar- og þróunarkostnaði eftir atvikum, á bilinu 3.000.000–11.250.000 kr. Framangreindar fjárhæðir kostnaðar gilda í heild fyrir hvert verkefni og skiptist heildarfjárhæðin eftir atvikum í hlutfalli við þátttökufjölda viðurkenndra aðila í kostnaði við samstarfsverkefnið.
    Hinn sérstaki frádráttur dregst frá álögðum tekjuskatti og hefur engin áhrif á meðferð raunverulegs kostnaðar sem eftir atvikum kemur að fullu til frádráttar sem rekstrarkostnaður strax eða á síðari stigum. Sé ekki um álagðan tekjuskatt að ræða greiðist frádrátturinn út skv. 11. gr. Sé um samstarfsverkefni að ræða skiptist frádráttur hlutfallslega miðað við útlagðan kostnað við verkefnið. Sá kostnaður sem myndar andlag sérstaks frádráttar þarf að uppfylla almenn skilyrði fyrir frádráttarbærni í skattalegum skilningi, svo sem um tengsl kostnaðar við viðkomandi verkefni. Þá þarf að halda sérstaklega utan um þennan rannsóknar- og þróunarkostnað og gera grein fyrir honum á þann veg sem ríkisskattstjóri ákveður. Gert er ráð fyrir að sú kostnaðargreinargerð sem lögð verði fram með skattframtali verði árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara.
    Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður sem fellur til í atvinnurekstri tengdum rannsóknum og þróun skapi frádráttarrétt hjá söluaðila, enda færist slíkur kostnaður til frádráttar hjá kaupanda og telst eftir atvikum með kostnaði til ákvörðunar frádráttar hjá honum. Þá hafa þau fyrirtæki sem vinna að nýsköpunarverkefnum oft og tíðum jafnframt með höndum annan rekstur eins og sölu á fyrri framleiðslu, ekki síst ef þau eru orðin rótgróin. Þannig fellur til kostnaður sem er sameiginlegur með fleiri en einum rekstrarþætti eða verkefni, t.d. stjórnunar- og fjármagnskostnaður. Þá eru fasteignir, tæki og tól nýtt bæði til nýsköpunar og almenns rekstrar. Heimfærsla slíks kostnaðar getur verið erfið og matskennd. Af þessum sökum er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem skýrt verður nánar hvernig með kostnaðinn skuli fara að þessu leyti en almennt gilda ákvæði tekjuskattslaga um ákvörðun frádráttarbærs rekstrarkostnaðar við ákvörðun á andlagi sérstaks frádráttar.

Um 11. gr.


    Ákvæðið fjallar um meðferð frádráttar skv. 10. gr. Almennt er gert ráð fyrir að fjárhæðin/ útreiknaður frádráttur dragist frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækis við álagningu opinberra gjalda lögaðila og getur lækkun álagðs tekjuskatts orðið á bilinu 3.000.000– 11.250.000 kr. Sé álagður tekjuskattur aftur á móti lægri en frádrátturinn verði mismunurinn greiddur út. Þegar staðan er sú að skattalegt tap er af rekstri nýsköpunarfyrirtækis kemur eðli málsins samkvæmt ekki til lækkunar á tekjuskatti og því ekki mikill ávinningur af frádrættinum öfugt við það sem gerist hjá þeim fyrirtækjum sem skila skattalegum hagnaði. Því er gert ráð fyrir að sé fyrirtæki ekki gert að greiða tekjuskatt vegna skattalegs taps verði frádráttur skv. 10. gr. greiddur út. Ekki er gert ráð fyrir að tekið sé tillit til rekstrartaps sem fallið hefur til áður en fyrirtæki hefur hlotið staðfestingu Rannís samkvæmt lögunum.

Fyrirtæki 1 Fyrirtæki 2 Fyrirtæki 3
Kostnaður við rannsóknir og þróun 20.000.000 kr. 20.000.000 kr. 20.000.000 kr.
Álagður tekjuskattur 1.500.000 kr. 3.000.000 kr. 0 kr.
Skattfrádráttur skv. 10. gr. 3.000.000 kr. 3.000.000 kr. 3.000.000 kr.
Tekjuskattur til greiðslu 0 kr. 0 kr. 0 kr.
Útgreiddur frádráttur 1.500.000 kr. 0 kr. 3.000.000 kr.

    Í framangreindri töflu eru tekin þrjú dæmi um útreikning skattfrádráttar, þar sem rannsóknar- og þróunarkostnaður er 20.000.000 kr. Í öllum tilvikum er heildarskattfrádráttur samtals 3.000.000 kr., en það veltur hins vegar á því hversu hár álagður tekjuskattur er hvort hluti frádráttarins er greiddur út.

Um 12. gr.


    Með ákvæði þessu er tekið tillit til þess hvort nýsköpunarfyrirtæki hefur hlotið styrk frá opinberum aðila til sama nýsköpunarverkefnis og hinn sérstaki frádráttur reiknast vegna. Við þær aðstæður þykir rétt að takmarka upp að vissu marki frádrátt skv. 10. gr. og eftir atvikum útgreiðslu skv. 11. gr. þannig að samanlagt geti styrkur og frádráttur aldrei orðið hærri en 70% af kostnaði vegna verkefnisins. Jafnframt þykir rétt að taka af öll tvímæli um að kostnaður, sem fellur til við rannsóknar- eða þróunarverkefni sem unnin eru fyrir annars reikning eða seld eru út, er ekki samtímis andlag frádráttar frá skatti.

Um 13. gr.


    Með þessu ákvæði er heimilað að telja með rannsóknar- og þróunarkostnað til ákvörðunar á frádrætti, skv. 10. gr., þrátt fyrir að lagt hafi verið í kostnaðinn áður en staðfesting Rannís á að skilyrði 5. gr. séu uppfyllt, enda hafi hann fallið til á því tekjuári sem staðfesting er veitt. Kostnaður sem fellur til fyrir þann tíma eða á fyrri árum skal ekki meðtalinn. Sama gildir um kostnað sem varðar umsóknina sjálfa, svo sem við gerð viðskiptaáætlana og slíkt.

Um 14. gr.


    Ákvæðið vísar til heimilda sem settar verði í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, samhliða lögfestingu þessa frumvarps. Um er að ræða heimild til handa mönnum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003 og lögaðilum sem skattskyldir eru skv. 2. gr. laganna, til að draga frá skattskyldum tekjum kaupverð hlutabréfa í þeim nýsköpunarfyrirtækjum sem fengið hafa staðfestingu Rannís á að skilyrði þar að lútandi séu uppfyllt. Sama gildir um nýsköpunarfyrirtæki í sömu félagaformum heimilisföstum innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eftir því sem við á.
    Frádráttur vegna slíkra hlutabréfakaupa er bundinn því grundvallarskilyrði að kaupin eigi sér stað beint í hækkun hlutafjár í viðkomandi félagi þannig að aukning á eigin fé nýsköpunarfyrirtækis eigi sér stað í reynd. Þannig verður ekki um að ræða frádrátt vegna kaupa á hlutabréfum þar sem hönd selur hendi heldur einungis ef um kaup á nýju hlutafé er að ræða.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins er kveðið á um meginregluna um bann við ríkisaðstoð. Nánar tiltekið er ákvæðið svohljóðandi: „Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.“
    Það ríkisaðstoðarkerfi sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu fellur undir framangreinda málsgrein þar sem það gengur út á að ívilna ákveðnum fyrirtækjum, þ.e. nýsköpunarfyrirtækjum. Þarf því að fella frumvarpið undir einhverjar af þeim undanþágum eða réttlætingarástæðum sem tilgreindar eru í 2. og 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Kemur þar fyrst og fremst til álita c-liður 3. mgr. 61. gr. sem kveður á um að „aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða“ sé samrýmanleg EES-samningnum „enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum“. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett leiðbeinandi reglur, frá febrúar 2007, um ríkisaðstoð til rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefna (State aid for research and development and innovation). Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tekið upp þær reglur og eru þær til leiðbeiningar um það hvaða ríkisaðstoð sé heimil til fyrirtækja sem starfa að nýsköpun eða rannsóknum og þróun. Hámark leyfilegrar aðstoðar fer í hverju tilviki bæði eftir stærð fyrirtækis og eðli verkefnis.
    Með vísan til framangreinds er í 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins kveðið á um að heildarfjárhæð opinbers stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum þessum takmarkist af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Sams konar ákvæði er að finna í öðrum lögum sem innleiða ríkisaðstoðarkerfi, sbr. t.d. 11. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.
    Í 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins er lögð til sú regla að hafi lögaðili, sem hlotið hefur staðfestingu skv. 5. eða 6. gr., jafnframt notið annars opinbers stuðnings til sama rannsóknar- og þróunarverkefnis geti frádráttur skv. 1. mgr. 10. gr., að viðbættri annarri ríkisaðstoð, aldrei orðið hærri en leyfilegt hámarkshlutfall af skilgreindum kostnaði vegna viðkomandi verkefnis. Er sú regla í samræmi við ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins um að taka beri tillit til ríkisaðstoðar sem berst sama fyrirtæki frá ólíkum áttum.

Um 16. gr.


    Með greininni er lagt til að fjármálaráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki og þarfnast ákvæðið ekki nánari skýringar.

Um 17. gr.


    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

    Með frumvarpi þessu eru settar fram tillögur sem hafa það að markmiði að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf og stuðla þannig að aukinni atvinnusköpun á því sviði. Annars vegar er ætlunin að veita slíkum fyrirtækjum skattfrádrátt vegna kostnaðar sem til fellur vegna nýsköpunarverkefna og hins vegar að veita frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga einstaklinga og lögaðila í fyrirtækjunum. Þeir aðilar sem óska eftir að fá fyrirtæki sín skráð sem nýsköpunarfyrirtæki þurfa samkvæmt frumvarpinu að sækja sérstaklega um það til Rannsóknarmiðstöðvar Íslands, Rannís. Hægt verði að sækja annars vegar um skattafslátt og hins vegar um hlutafjáraukningu. Sama fyrirtæki getur sótt um hvort tveggja. Rannís veitir síðan staðfestingu á nýsköpunarfyrirtækinu í skilningi laganna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Vegna skattafsláttar þarf hugmynd að nýsköpunarverkefni að vera vel skilgreind, aðstaða og starfsmenn með þjálfun og reynslu af rannsóknarstörfum að vera til staðar og auk þess verður að verja a.m.k. 20 m.kr. til verkefnisins á 12 mánaða tímabili. Vegna hlutafjáraukningar þarf rannsóknar- og þróunarkostnaður samkvæmt ársreikningi undanfarin tvö af þremur árum að hafa numið meira en 1,5% af veltu eða að varið hafi verið a.m.k. 40 m.kr. til rannsókna og þróunar á ári undanfarin tvö ár.
    Í frumvarpinu er lagt til að fyrirtæki sem hlotið hafa staðfestingu sem nýsköpunarfyrirtæki geti fengið 15% frádrátt frá álögðum tekjuskatti miðað við útlagðan kostnað vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna. Hámark kostnaðar verði 50 m.kr. á rekstrarári en geti þó orðið 75 m.kr. ef um er að ræða aðkeypta þjónustu frá viðurkenndum aðila. Ef um er að ræða samstarfsverkefni tveggja eða fleiri aðila gildi sama hámark fyrir verkefnið í heild. Skattfrádráttur kemur til lækkunar álögðum gjöldum en sé álagður tekjuskattur lægri eða tekjuskattur ekki álagður verði frádrátturinn greiddur út. Lækkun álagðs tekjuskatts eða útgreiddur styrkur gæti samkvæmt þessu verið á bilinu 3–11,3 m.kr. fyrir nýsköpunarverkefni. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði sem girða fyrir að þessar ívilnanir að viðbættum öðrum opinberum styrkjum til slíkra verkefna geti orðið hærri en 70% af heildarkostnaði.
    Við núverandi aðstæður í efnahagslífinu er umtalsverð óvissa um hversu mörg fyrirtæki munu óska eftir og fá staðfestingu Rannís sem nýsköpunarfyrirtæki og því afar erfitt að segja fyrir um hvaða áhrif lagasetningin kynni að hafa á afkomu ríkisins, hvort sem er til skemmri eða lengri tíma litið. Einungis er hægt að setja fram lauslega áætlun miðað við gefnar forsendur til þess að gefa til kynna hugsanlega stærðargráðu. Þannig eru í athugasemdum með frumvarpinu settar fram forsendur um að um gæti verið að ræða verkefni á bilinu 100–150 talsins og að meðalfjárhæð þeirra gæti verið á bilinu 30-40 m.kr. Miðað við þessar forsendur gæti skattafsláttur slíkra fyrirtækja orðið á bilinu 450–750 m.kr. á ári þegar lögin væru að fullu komin til framkvæmda en þó væntanlega lægri fyrstu eitt til tvö árin. Þótt fyrirkomulag stuðningsins verði í mynd bæði skattfrádráttar og útgreiðslna í gegnum skattkerfið má telja líklegt út frá reikningshaldslegum viðmiðum og ákvæðum laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að þessir styrkir verði gjaldfærðir í rekstrarreikningi ríkisins, þ.e. á útgjaldahlið. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skattfrádráttur nýsköpunarfyrirtækja geti komið til framkvæmda vegna tekjuársins 2010 og hefði það því fyrst áhrif á útgjöld ríkissjóðs við álagningu árið 2011.
    Frumvarpið felur einnig í sér að einstaklingar og fyrirtæki sem fjárfesta í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja geta dregið kaupverð þeirra hlutabréfa frá skattskyldum tekjum sínum á tekjuárinu innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum um tekjuskatt. Í frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi um breytingu á lögum um tekjuskatt er lagt til að einstaklingum sem ekki tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum verðmæti keyptra hlutabréfa í nýsköpunarfyrirtækjum umfram seld bréf í sams konar félögum. Frádrátturinn verði þó aldrei hærri en 300.000 kr. hjá einstaklingi og 600.000 kr. hjá hjónum á ári. Lögaðilum og þeim sem tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi verði á svipaðan hátt heimilt að draga frá tekjuskattsstofni sínum kaup á hlutabréfum sem nemi allt að 15 m.kr.
    Mikil óvissa er um fjölda þeirra sem kynnu að vilja fjárfesta í slíkum fyrirtækjum og nýta sér þennan frádrátt. Ef gengið út frá þeirri forsendu að 1.000 einstaklingar og sami fjöldi hjóna nýti sér hámarksfrádrátt, eða sem svarar til 900 m.kr., gæti skattafslátturinn orðið ríflega 200 m.kr. á ári miðað við núverandi tekjuskattshlutfall. Auk þess mundu útsvarstekjur sveitarfélaga þá lækka um liðlega 100 m.kr. Að sama skapi má áætla lauslega að skattafsláttur til lögaðila gæti orðið um 550 m.kr. árlega ef gengið er út frá þeirri forsendu að 250 lögaðilar nýti sér heimildina að fullu. Væntanlega verður litið á slíkan afslátt vegna hlutabréfakaupa sem hluta af skattlagningunni, þ.e. sem lið í ákvörðun tekjuskattsstofnsins líkt og gert var vegna almenna hlutabréfaafsláttarins sem gilti á árunum 1991–2003. Sá afsláttur mundi þá færast til frádráttar á tekjuhlið ríkissjóðs. Áhrif af því kæmu fram við álagningu skatta árið 2011 vegna tekna ársins 2010.
    Miðað við þessar gefnu forsendur mundu útgjöld ríkissjóðs hækka um 450–750 m.kr. en tekjur lækka um 750 m.kr. og afkoma ríkissjóðs þar með verða lakari sem nemur um 1.200– 1.500 m.kr. á ári þegar einungis er litið til þessara beinu áhrifa. Þetta mundi þá svara til heildarstuðnings ríkisins til nýsköpunarfyrirtækja í þessari mynd en því til viðbótar eru beinir styrkir og hlutafjárframlög sem veitt eru úr ýmsum opinberum sjóðum. Tilgangurinn með frumvarpinu er hins vegar að örva nýsköpun, fjölga störfum og stuðla að verðmætaaukningu í efnahagslífinu. Það mun skila sér í auknum skatttekjum ríkissjóðs þegar fram í sækir, sem gæti orðið mun meiri en nemur tilkostnaðinum ef vel tekst til við að byggja upp nýsköpunarstarf og þróa nýja starfsemi sem nær fótfestu til langframa. Við þær óvissu aðstæður í efnahagsmálum sem nú ríkja er þó með engu móti hægt að setja fram töluleg viðmið í því sambandi.
    Gera má ráð fyrir að einhver umsýslukostnaður kunni að hljótast af umsýslu og framkvæmd laganna hjá Rannís og ríkisskattstjóra en áætlað er að það muni rúmast innan fjárheimilda viðkomandi ráðuneyta í fjárlögum.