Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 27. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 85  —  27. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um þýðingar á EES-efni.

     1.      Hversu mikið er óþýtt af EES-efni og hvað tekur langan tíma að þýða það?
    Óþýtt efni vegna EES-samningsins er um þessar mundir um 1,7 ársverk fyrir Þýðingamiðstöðina í núverandi stærð. Þetta er núverandi staða en þess ber að geta að stöðugt bætist við nýtt efni.

     2.      Ber þýðingu ekki að vera lokið áður en Ísland gengur í Evrópusambandið, ef til þess kemur?
    Utanríkisráðuneytið miðar verkáætlun Þýðingamiðstöðvarinnar við að þýðingum verði lokið í árslok 2012 og hefur litið svo á að ekki verði hjá því komist að ljúka umræddum þýðingum áður en til aðildar getur komið.

     3.      Hver ber kostnað af þessum þýðingum og hvað er áætlað að hann verði mikill?
    Kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna þýðinga á EES-efni er 185,7 millj. kr. samkvæmt fjárlögum ársins 2009. Gert er ráð fyrir að framlög vegna EES-þýðinga verði sambærileg á næstu árum en hafa ber þó í huga að nokkur óvissa er um hvert þýðingamagnið verður næstu árin og því erfitt að segja til um hver kostnaður verður. Rétt er að hafa í huga að þessi kostnaður færist til Evrópusambandsins ef til aðildar Íslands kemur.