Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 123  —  28. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um ESB-þýðingar.

     1.      Hvað er gert ráð fyrir að þýðingar á efni sem tengist mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á hæfi Íslands til að sækja um aðild að ESB séu umfangsmiklar?
    Spurningar og svör vegna aðildarumsóknar Íslands nema 8.872 blaðsíðum alls. Þar af eru
spurningar og bein svör við þeim um 2.400 blaðsíður en viðaukar eru 6.472 blaðsíður. Megnið af fylgigögnunum er til á íslensku en hluti þeirra er efni sérstaklega samið vegna aðildarumsóknarinnar á ensku. Fljótt á litið gæti þurft að þýða um 500 síður af fylgigögnunum.

     2.      Hve mikið mundu þessar þýðingar kosta?
    Verð á þýðingum á almennum markaði hefur undanfarið reynst vera að jafnaði um 30 kr. á orðið. Samkvæmt því mundi þýðing á umræddu efni á almennum markaði kosta um 54,2 millj. kr. með virðisaukaskatti. Þá er ekki metin til verðs sú vinna sem fælist í yfirferð þýðinganna í ráðuneytum og stofnunum.

     3.      Hversu tímafrekt yrði að þýða efnið?
    Ætla má að um sé að ræða um tólf mánaða vinnu fyrir sex þýðendur.

     4.      Er framkvæmdastjórnin reiðubúin að leggja íslenskum stjórnvöldum til stuðning vegna þýðinga í tengslum við ESB-aðild?
    Ekki er gert ráð fyrir fjárstuðningi frá Evrópusambandinu vegna kostnaðar sem til fellur á þessu stigi aðildarferlisins. Hugsanlegt er að hægt verði að sækja í sjóði Evrópusambandsins sem ætlaðir eru til stuðnings og styrkingar stjórnkerfi umsóknarríkja á næstu stigum, til að efla þýðingar á löggjöf Evrópusambandsins. Komi til aðildar Íslands verður íslenska eitt af opinberum tungumálum Evrópusambandsins og allur þýðingakostnaður færist á Evrópusambandið. Þar með mundi kostnaður íslenskra stjórnvalda af EES-þýðingum einnig falla niður.