Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 122. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 135  —  122. mál.




Fyrirspurn


til efnahags- og viðskiptaráðherra um lánssamninga í erlendri mynt.

Frá Eygló Harðardóttur.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér skilmála lánssamninga í erlendri mynt með tilliti til orðalags og túlkunar á höfuðstól skuldar, sérstaklega í tilvikum þar sem skýrt er kveðið á um að skuldari viðurkenni að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum?
     2.      Hver er afstaða ráðherra til slíkra lánssamninga, sérstaklega að teknu tilliti til 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og athugasemda við téðar greinar?
     3.      Hversu margar lánastofnanir byggðu lánssamninga í erlendri mynt á því orðalagi sem tilgreint er í 1. tölul.? Óskað er upplýsinga um heildartölu hjá lánastofnunum og áætlað heildarnafnvirði lánssamninganna, en ekki hvaða lánastofnanir veittu lánin né upphæðir hjá einstökum stofnunum.
     4.      Hvað er áætlað að það mundi kosta bankakerfið ef lánssamningar, þar sem segir að skuldari viðurkenni að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum, reyndust ólöglegir og höfuðstóll skuldar stæði því í upphaflegri krónutölu að frádregnu því sem greitt hefur verið af höfuðstól til dagsins í dag?
     5.      Hefur við frágang og uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna verið tekið tillit til þess bókfærða mismunar sem kann að vera á virði erlendra lánssamninga reynist téðir samningar ólöglegir?
     6.      Hefur erlendum kröfuhöfum verið kynnt sú lagalega óvissa sem ríkir um verðmæti skuldbindinga sem gefnar voru út í erlendri mynt eða bundnar dagsgengi erlendrar myntar?