Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 111. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 155  —  111. mál.




Svar


iðnaðarráðherra við fyrirspurn Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur um ferðamálaáætlun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Fer fram á vegum ráðuneytisins endurskoðun á gildandi ferðamálaáætlun, í samræmi við
áætlanir þar um, og ef svo er ekki, hvenær er gert ráð fyrir að sú vinna hefjist?


    Þingsályktun um ferðamál sem Alþingi samþykkti á vordögum 2005 er fyrir tímabilið 2006–2015 og því enn í fullu gildi en Ferðamálastofa fer með framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu, ferðamálaáætlunar, eins og segir í lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005.
    Ýmsu af því sem sett er fram í ferðamálaáætlun hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Nægir þar að nefna einföldun leyfisveitinga til fyrirtækja í ferðaþjónustu, aukna samræmingu landkynningar og virka þátttöku stjórnvalda í nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu.
    Ferðamálaáætlun er ein þeirra opinberu áætlana sem ríkisstjórnin hyggst samþætta í samræmda sóknaráætlun fyrir Ísland, ásamt samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun og áætlun um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda. Að auki er stefnt að því að flétta inn í sóknaráætlun áætlanir í mennta- og menningarmálum, umhverfismálum, vísindum, tækni og nýsköpun og áætlun um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
    Ferðamálaáætlun er nú til skoðunar, m.a. í fyrrgreindu ljósi. Við þá vinnu nýtast t.d. tillögur starfshóps samgönguráðuneytis um endurskoðun ferðamálaáætlunar frá árinu 2007, greining iðnaðarráðuneytis á aðkomu stjórnvalda að skipulagi og fjármögnun ferðaþjónustu 1 sem fram fór á árinu 2008, einnig ferðaþjónustureikningar Hagstofunnar frá síðari hluta árs 2008 2 og niðurstöður ferðavenjukönnunar Hagstofunnar sem væntanlegar eru um miðjan nóvember 2009.
    Iðnaðarráðuneytið vinnur nú að því að renna stoðum undir frekari öflun talnagagna í samstarfi við Hagstofuna enda eru þær lykilatriði í allri áætlanagerð. Einnig leitar iðnaðarráðuneytið nú leiða, í samstarfi við fleiri ráðuneyti og hagsmunaaðila, til að fjármagna verndun og viðhald ferðamannastaða til frambúðar í stað takmarkaðra fjármuna sem hingað til hefur verið veitt í þennan mikilvæga málaflokk. Er það gert í þeirri vissu að þrátt fyrir fleiri stoðir og fjölmargar nýjungar verði íslensk náttúra áfram meginauðlind ferðaþjónustunnar.
    Við ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um flutning málefna ferðaþjónustunnar til iðnaðarráðuneytis 1. janúar 2008 breyttist stjórnsýslulegt umhverfi greinarinnar og formlegt samstarf stofnana iðnaðarráðuneytis um framgang atvinnugreinarinnar hófst. Þannig hefur ferðaþjónustan fengið stóran skerf af byggðaáætlun til nýsköpunar í greininni auk þess sem Ferðamálastofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands tóku upp samstarf um fræðslu fyrir klasa á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu, undir heitinu Gáttir, og matartengdrar ferðaþjónustu undir heitinu Krásir, sem og á sviði gæða- og vottunarmála. Öll þessi verkefni eru vel á veg komin og munu verða höfð til hliðsjónar við gerð nýrrar ferðamálaáætlunar.
    Iðnaðarráðuneytið, með Ferðamálastofu sem undirstofnun sína, mun einbeita sér að því að efla innviði greinarinnar: stefnumótun, umsjón með leyfisveitingum og gæðaeftirliti, verndun og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða, stuðning við nýsköpun og atvinnuþróun, móttöku ferðamanna og upplýsingamiðlun.
    Utanríkisráðherra mun á næstu dögum mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um stofnun Íslandsstofu. Verði frumvarpið að lögum mun utanríkisráðuneytið – sendiráðin og Íslandsstofa – fara með framkvæmd kynningar- og markaðsmála ferðaþjónustunnar og fleiri útflutningsgreina á erlendum vettvangi. Með þessu er stefnt að auknum samlegðaráhrifum, samræmdum skilaboðum og stórsparnaði í rekstri sem mun skila sér í auknu verkefnafé. Atvinnugreinin sjálf hefur um árabil kallað eftir þessum breytingum og sjálfsagt að stjórnvöld komi til móts við þær óskir.
    Öll þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru þýðingarmikil fyrir framsýna ferðamálaáætlun sem ætlað er að endurspegla áherslur ríkisvaldsins í þessari mikilvægu atvinnugrein 3 og í samhengi við aðra uppbyggingu innviða og atvinnulífs hér á landi.
Neðanmálsgrein: 1
    1      Skýrslan Tillögur nefndar iðnaðarráðherra um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun ferðaþjónustu er á vef iðnaðarráðuneytis.
Neðanmálsgrein: 2
    2      Ferðaþjónustureikningar 2000–2006 frá Hagstofu Íslands, október 2008, eru á vef iðnaðarráðuneytis.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Sjá Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, tölfræðibækling Ferðamálastofu, október 2009, sem er á vef iðnaðarráðuneytis.