Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 40. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 156  —  40. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um notkun lyfsins Tysabri.

     1.      Hve margir MS-sjúklingar hafa fengið lyfið Tysabri?
    Á LSH hafa samtals 53 MS-sjúklingar fengið lyfið Tysabri. Einn hefur hætt í meðferðinni vegna mótefnamyndunar og þrír vegna óþols. Því fá 49 sjúklingar Tysabri-meðferð á Landspítala núna. Á FSA hafa fjórir MS-sjúklingar fengið lyfið.

     2.      Hve margir hafa sótt um að fá lyfið?
    Sótt hefur verið um meðferð fyrir 56 sjúklinga á LSH, fjórir hafa hætt í meðferð og ekki er búið að afgreiða þrjár umsóknir. Á FSA hefur verið sótt um meðferð með Tysabri fyrir fjóra MS-sjúklinga og þeir allir fengið lyfið.

     3.      Hvernig stendur á því að lyfið er ekki notað sem lyf nr. 1 þótt sýnt hafi verið fram á virkni þess sem fyrirbyggjandi lyfs?

    Engar samanburðarrannsóknir hafa verið gerðar á Tysabri og eldri lyfjum sem fyrirbyggjandi meðferð við MS-sjúkdómnum. Ekki er komin eins mikil reynsla á lyfið og eldri lyf við MS-sjúkdómnum þótt það virðist lofa góðu. Það neikvæða við Tysabri eru nokkur tilvik af lífshættulegri heilabólgu sem m.a. seinkaði skráningu lyfsins og leiddi til þess að farið er mjög varlega í að beita því. Einnig er um mjög dýra meðferð að ræða og því eðlilegt að fara varlega þar til meiri reynsla er komin af lyfinu. Þess skal getið að hlutfallslega nota mun fleiri sjúklingar lyfið Tysabri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Lyfið hentar ekki öllum MS-sjúklingum. Við val á sjúklingum er fylgt klínískum leiðbeiningum sem samdar voru af sérfræðingum Landspítalans í taugalækningum með hliðsjón af sambærilegum leiðbeiningum í nágrannalöndunum og samþykktar af yfirstjórn spítalans. Ekki er skipt um lyf hjá þeim sjúklingum sem hafa góða reynslu af eldri ónæmisörvandi lyfjum, þ.e. glatíramer-asetat- lyfinu Copaxone og beta-interferón-lyfjunum Avonex, Rebif og Betaferon.

     4.      Hver er kostnaður við notkun Tysabri samanborið við interferon-lyf sem nú eru notuð?
    Kostnaður vegna ársmeðferðar hvers einstaklings með ónæmisörvandi lyfjum við MS- sjúkdómnum er eftirfarandi:
          Tysabri: 4.560.447 kr.
          Avonex: 2.538.504 kr.
          Rebif: 3.158.454 kr.
          Betaferon: 2.165.399 kr.
          Copaxone: 2.048.401 kr.

     5.      Er það sökum kostnaðar sem lyfið er ekki meira notað? Ef svo er, hver er kostnaðarmunurinn þegar með er talinn kostnaður vegna MS-sjúklinga sem eru háðir sjúkrastofnunum?
    Sjá svar við 3. lið fyrirspurnarinnar. Þó skal tekið fram að kostnaður hefur ekki verið afgerandi þáttur við val á milli lyfjaflokka, þ.e. hvort notuð eru nýju lyfin eða þau eldri sem meiri reynsla er komin á við MS-sjúkdómnum.

     6.      Er það ekki markmið að sjúklingar fái aðgang að besta mögulega lyfi?
    Markmiðið er að sjúklingar fái aðgang að bestu og hagkvæmustu meðferð en eins og fram kemur í svari við 3. lið er Tysabri ekki alltaf besta lyfið fyrir alla MS-sjúklinga.