Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 84. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 280  —  84. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Önnu Margrétar Guðjónsdóttur um háskóla- og fræðasetur utan höfuðborgarsvæðisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hyggst ráðherra standa vörð um háskóla- og fræðasetur utan höfuðborgarsvæðisins á komandi árum?

    Á undanförnum árum hafa verið stofnsett margvísleg mennta-, menningar- og þekkingarsetur víðs vegar um landið. Mismunandi er hvernig stofnað hefur verið til setranna, hverjir hafa staðið að stofnun þeirra og fjármögnun.
    Í tengslum við þá vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun á háskólakerfinu hefur verið ákveðið að taka út fjölda setra og stofnana sem tengjast menntun, menningu og rannsóknum og heyra undir ráðuneyti mennta- og menningarmála. Markmiðið er að efla áhrif setranna með auknu samstarfi og samvinnu. Í tengslum við þá vinnu hafa komið fram tillögur um að einnig verði fjallað um setur sem heyra undir önnur ráðuneyti eða aðrar sjálfstæðar stofnanir eða sveitafélög til að ná enn betri árangri í þekkingartengdri starfsemi á landsbyggðinni.
    Með vinnunni ætti að fást haldgott yfirlit yfir starfsemi setranna, hvar þau eru staðsett, fjármögnun, hlutverk þeirra og rekstur. Stefnt er að því að yfirlitið verði flokkað eftir landshlutum og tekið verði mið af svæðaskiptingu Sóknaráætlunar 20/20, að því marki sem við á.
    Á grundvelli þeirrar vinnu sem hér hefur verið lýst er stefnt að því að finna leiðir til að efla og styrkja samstarf hagsmunaaðila og auka þannig sóknarfæri til eflingar mennta-, menningar-, rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi um land allt. Í því sambandi stendur til að athuga sérstaklega hvernig aukið samstarf háskóla við hvers kyns fræðastarfsemi í landinu geti aukið aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru. Skoða á hvort og þá hvaða hindranir séu til staðar milli stofnana, landshluta eða svæða í því tilliti.
    Leggja verður áherslu á að standa vörð um starfsemi háskóla- og fræðasetra á næstu árum eins og framast er unnt, þó svo að hún verði fyrir einhverri skerðingu eins og óhjákvæmilegt er miðað við núverandi aðstæður. Í frumvarpi til fjárlaga 2010 er þannig gert ráð fyrir 5% hagræðingarkröfu á framlögum sem heyra undir símenntun og fjarkennslu, en að teknu tilliti til verðlagsbóta eru fjárframlög þó nær óbreytt frá yfirstandandi fjárlögum. Sama á við um önnur fræðasetur.