Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.

Þskj. 359  —  307. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)



1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, sem verður 43. gr., svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 12. gr. skal tala héraðsdómara frá gildistöku laga þessara vera 43, en ekki skal skipa í embætti héraðsdómara, sem losna eftir 1. janúar 2013, fyrr en þess gerist þörf til að ná þeirri tölu, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 12. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Þeir atburðir sem leiddu til falls bankanna síðastliðið haust hafa haft mikil áhrif á stofnanir réttarvörslukerfisins. Þegar litið er til dómstólanna má greina þessi atriði í tvennt, í fyrsta lagi sakamál vegna efnahagsbrota, m.a. í kjölfar stofnunar embættis sérstaks saksóknara, og í öðru lagi aukinn fjölda einkamála þar meðtalin kærumál vegna slita fjármálafyrirtækja. Til viðbótar hefur dómstólum nýlega verið falið mikilvægt hlutverk við gerð nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og við tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
    Með stofnun embættis sérstaks saksóknara var mótuð sú stefna að gera réttarvörslukerfinu kleift að takast á við afleiðingar efnahagshrunsins. Embættinu var komið á fót 1. febrúar 2009 og hefur þann tilgang að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið og eftir atvikum að fylgja rannsókn þeirra mála eftir með saksókn. Hjá embættinu starfa nú á þriðja tug manna að rannsóknum og eru málin sem þar eru til rannsóknar um 50 talsins. Í svari sérstaks saksóknara við fyrirspurn ráðuneytisins, dags. 16. október 2009, kemur fram það mat að á árinu 2010 verði álag á dómstólana í formi 5–10 umfangsmikilla og tímafrekra mála fyrir dómi auk fjölda rannsóknarúrskurða, svo sem vegna húsleita, ágreinings um rannsóknaraðgerðir lögreglu og gæsluvarðhaldsúrskurða. Fari sem horfir muni stór og umfangsmikil mál á árinu 2011 verða 15–25 auk rannsóknarúrskurða. Á árinu 2012 fari slíkum málum hins vegar að fækka og fækki enn frekar á árinu 2013. Þó verður að gera alla fyrirvara enda margir þættir sem kunna að hafa áhrif á þessa áætlun embættisins.     
    Í bréfi dómstólaráðs til ráðuneytisins, dags. 5. október sl., er vakin athygli á mikilli aukningu mála sem orðið hefur frá árinu 2007. Þingfestum einkamálum fyrstu níu mánuði ársins samanborið við sama tímabil 2007 hefur fjölgað um tæp 70% og munnlega fluttum málum um tæp 60%. Sakamálum frá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra hefur fjölgað um meira en 80% á sama tíma. Sakamálum frá lögreglustjórum hefur þó ekki fjölgað og stafar það einkum af því að lögreglustjórar hafa fengið rýmri heimildir til að ljúka málum með lögreglustjórasátt en áður.
    Ekki er að fullu ljóst hvað leiðir til þessarar miklu fjölgunar mála. Að einhverju leyti má rekja það til þess að einstaklingar og fyrirtæki hafa nú minna fjárhagslegt svigrúm til að gefa eftir í samningum, en óhætt er að fullyrða að hrun fjármálakerfisins muni leiða til mikils fjölda flókinna mála á sviði fjármunaréttar þar sem tekist verður á um ábyrgð á ýmiss konar kröfum og skuldbindingum, t.d. vegna ráðstafana fyrir gjaldþrot fyrirtækja, ábyrgðar stjórnenda fyrirtækja o.fl. Eru þessi áhrif eflaust byrjuð að koma fram að einhverju marki og hefur verið áætlað að kærumál vegna lýstra krafna við slit banka og fjármálastofnana muni hlaupa á hundruðum. Í þessu ljósi hefur dómstólaráð lagt til að heimild verði veitt til að fjölga héraðsdómurum tímabundið um fimm og að heimild verði jafnframt veitt til að ráða fimm löglærða aðstoðarmenn til dómstólanna til að mæta fyrirsjáanlegu álagi. Undir áhyggjur af vanda dómstólanna var tekið í erindi Lögmannafélagsins, dags. 17. september 2009, og hafa ýmsir orðið til þess að hvetja til þess á opinberum vettvangi að tryggt verði að dómstólarnir geti sinnt hlutverki sínu.
    Rétt er að benda á að dómstólaráð hefur þegar komið fram með tillögu um hagræðingu innan dómstólanna með sameiningu þeirra átta dómstóla sem nú starfa á landsvísu í einn dómstól sem starfi í mismunandi þinghám, eins og lagt hefur verið til í frumvarpi sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi (þingskjal 104, 100. mál). Verði það að lögum gefst dómstólaráði þar með tækifæri til þess að hagræða í starfsemi héraðsdómstólanna og að fullnýta þá starfskrafta sem þar eru til staðar, þar með talið héraðsdómara. Þó mun það hvergi nærri duga til og er hér lagt til að lögfest verði heimild til þess að fjölga dómurum tímabundið. Að auki er ráð fyrir því gert að dómstólaráð hafi heimild til að ráða allt að fimm aðstoðarmönnum dómara til viðbótar við þá aðstoðarmenn sem nú starfa við héraðsdómstólana.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er gerð tillaga um að lögfest verði heimild til fjölgunar dómara í samræmi við tillögu dómstólaráðs. Er lagt til að heildarfjöldi dómara verði 43 í stað 38, eins og nú er kveðið á um í 1. mgr. 12. gr. laganna. Verður þá skipað í ný embætti dómara en þeir ekki settir tímabundið. Þó er ráð fyrir því gert að breytingin verði tímabundin með þeim hætti að frá 1. janúar 2013 verði ekki skipað að nýju í þau embætti dómara sem losna eftir þann tíma allt þar til starfandi dómarar verði á ný 38. Þannig verði fjölgun embættisdómara ekki varanleg, heldur tímabundin, til þess að mæta þeim aukna málafjölda sem fyrirsjáanlegur er vegna bankahrunsins.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar við.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla,
nr. 15/1998, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að dómarar í héraði skuli vera 43 í stað 38 eins og nú er. Gert er ráð fyrir að þessi fjölgun um fimm dómara verði tímabundin til 1. janúar 2013. Dómstólaráð hefur jafnframt lagt til, samhliða breytingum í þessu frumvarpi, að veitt verði heimild til að ráða fimm löglærða aðstoðarmenn til dómstólanna, en ekki er kveðið á um fjölda þeirra í lögum um dómstóla. Tillögur þessar eru fram komnar vegna fyrirsjáanlegs álags á dómstólana í kjölfar þeirra atburða sem leiddu til falls bankanna síðastliðið haust. Áætlaður launakostnaður vegna fimm dómara er rúmar 53 m.kr. á ári og kostnaður vegna fimm aðstoðarmanna rúmar 33 m.kr. eða samtals rúmar 86 m.kr. á ári.
    Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í skattamálum, sem nýlega var lagt fram á Alþingi, er meðal annars lagt til að dómstólagjöld hækki samhliða hækkunum á öðrum aukatekjum ríkissjóðs. Það frumvarp gerir ráð fyrir að dómstólagjöld hækki meira en aðrar aukatekjur og er það gert til að skapa fjárhagslegt svigrúm fyrir þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist samtals um 86 m.kr. á ársgrundvelli.