Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 367  —  315. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,
Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að styðja við tilraunaverkefni vestnorrænna háskóla á sviði fjarkennslu. Markmiðið með verkefninu verði að leggja grunn að formlegu framtíðarsamstarfi Vestur-Norðurlanda á sviði fjarkennslu á háskólastigi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum.
    Tillagan á rætur að rekja til þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var á Suður- Grænlandi 4.–7. ágúst 2009. Í óformlegum umræðum, sem fóru fram á ráðstefnunni, vaknaði áhugi á því að kanna hvort og þá með hvaða hætti Háskóli Íslands gæti boðið upp á fjarnámskennslu á dönsku eða ensku við háskólana á Grænlandi og í Færeyjum. Í kjölfarið samþykkti ársfundur Vestnorræna ráðsins að frumkvæði landsdeildar Grænlands ályktun þar sem gerð er tillaga að tilraunaverkefni um fjarkennslu á sviði kennaramenntunar, sem síðan muni liggja til grundvallar formlegu framtíðarsamstarfi Vestur-Norðurlanda á sviði fjarkennslu.
    Á Íslandi hefur í hartnær 15 ár verið boðið upp á fjarkennslu fyrir kennaranema sem vegna búsetu og vinnu við kennslu í afskekktum byggðarlögum hafa ekki haft tök á að sækja tíma í hefðbundnu námi. Í sumum námskeiðum í Háskóla Íslands er ekki gerð krafa um tímasókn en í öðrum er gerð krafa um að mæta tvisvar til þrisvar sinnum í tíma meðan á námskeiði stendur. Einnig býður Háskólinn á Akureyri upp á fjarnám á fleiri en einu sviði sem tengist kennaramenntun. Hugsanlega væri hægt að bjóða háskólanemum á Grænlandi og í Færeyjum að taka fjarkennslunámskeið sem háskólar á Íslandi bjóða upp á.
    Forsendur fyrir því að útvíkka fjarkennslu til skólanna á Grænlandi og í Færeyjum er fyrir hendi að mati Háskóla Íslands. Í fyrsta lagi er fjöldi kennara við íslenska háskóla með sérhæfingu í fjarkennslu. Í öðru lagi eru tæknilegar forsendur fyrir hendi. Í þriðja lagi gæti slíkt tilraunaverkefni fallið inn í rannsóknarverkefni um fjarkennslu. Sem dæmi er einn doktorsnemi í Háskóla Íslands að rannsaka styrkleika og veikleika fjarkennslunáms fyrir kennara á grundvelli reynslu af Vestfjörðum. Þar er m.a. verið að kanna hvernig kennslan hefur þróast og haft áhrif á skólana sem kennararnir starfa við og að hvaða leyti útvíkkun kennaranáms með tilkomu fjarkennslu hefur haft áhrif á námið sjálft eða miðlun þekkingar til kennaranema. Í fjórða lagi eru margir kennarar sem sjá um fjarkennslu færir um að miðla kennslunni á dönsku eða ensku.
    Hvað Grænlandi viðvíkur er lagt til að haft sé samráð við menntastofnanir á sviði kennaranáms eins og Ilinniarfissuaq, Perorsaanermik Ilinniarfik og Kennarastofnunina (Institut for Uddannelsesvidenskab) um samvinnu á sviði fjarkennslu. Tilraunaverkefnið mundi meðal annars ganga út á það að bjóða upp á tiltekin fjarkennslunámskeið frá Íslandi í bæklingi sem Kennarastofnunin sendir í lok árs til nemenda og veitir yfirlit yfir öll námskeið sem eru í boði hverju sinni.
    Forsenda þess að hægt verði að ráðast í verkefnið er að það hafi ekki mikinn kostnað í för með sér fyrir íslenskt menntakerfi heldur verði hægt að nýta kennslu, tækjabúnað og skipulag sem fyrir hendi er. Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðuneytið geri kostnaðaráætlun fyrir tilraunaverkefnið í samráði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Jafnframt er lagt til að ríkisstjórnin fjármagni tilraunaverkefnið ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands að svo miklu leyti sem löndin taka þátt í verkefninu.