Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 421  —  222. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um sérverkefni fyrir forsetaembættið á núverandi kjörtímabili.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Við hvaða ráðgjafarfyrirtæki eða einstaklinga hefur forsetaembættið samið um að sinna sérverkefnum fyrir sig frá síðasta endurkjöri forseta Íslands 28. júní 2008?
     2.      Hver voru tilefnin og hversu háar hafa greiðslur verið til hvers og eins?
     3.      Ef verkefnin standa enn, hvað má þá ætla að heildarkostnaður við þau verði?
     4.      Voru verkefnin boðin út?
     5.      Hefur sami aðili í einhverjum tilvikum sinnt tveimur eða fleiri sérverkefnum fyrir embættið?
     6.      Hefur einhver þessara aðila, eða annað ráðgjafarfyrirtæki eða einstaklingur, unnið að verkefnum sem forseti Íslands eða forsetaembættið hefur tengst, en fengið greiðslur fyrir frá öðrum? Ef svo er:
              a.      hvaða einstaklinga eða ráðgjafarfyrirtæki er um að ræða,
              b.      hver voru tilefnin,
              c.      hver var greiðandi verkefnanna,
              d.      á hvaða tíma voru verkin unnin?
     7.      Hvaða verklagsreglur eru í gildi hjá forsetaembættinu um samskipti og aðstoð við fyrirtæki og athafnamenn?


    Í tilefni af fyrirspurninni fór forsætisráðuneytið þess á leit við forsetaembættið að það veiti svör við framangreindri fyrirspurn og voru svör skrifstofu forseta Íslands svohljóðandi:
     1.      Á umræddu tímabili, frá 28. júní 2008 til dagsins í dag, hefur embætti forseta samið um sérstök verkefni við Alþjóðaver, Þýðingarstofu JC ehf., Skjal ehf. og Pétur Rasmussen þýðanda. Öllum þessum verkefnum er lokið. Ekki var um útboð vegna þeirra að ræða.
             Þau verkefni sem Þýðingarstofa JC ehf., Skjal ehf. og Pétur Rasmussen þýðandi unnu voru öll þýðingar texta, ráðgjöf og yfirlestur texta á erlendum tungumálum. Heildargreiðslur til þessara aðila voru:
             Þýðingarstofa JC ehf.: 556.565 kr.
             Skjal ehf.: 11.018 kr.
             Pétur Rasmussen þýðandi: 4.980 kr.
     2.      Greiðslur til Alþjóðavers eru samtals 1.020.900 kr. Þau verkefni sem Alþjóðaver kom að á tímabilinu voru þrjú:
             Forseti átti frumkvæði að alþjóðlegu samstarfsverkefni íslenskra og indverskra jöklafræðinga um rannsóknir á bráðnun jökla í Himalaya-fjallgarðinum. Á vegum Alþjóðavers lagði Dagfinnur Sveinbjörnsson forseta lið við að skipuleggja verkefnið og ýta því úr vör en fyrirmynd að framkvæmd þess er sótt til vinnu íslenskra jöklafræðinga og rannsókna þeirra á íslenskum jöklum. Lesa má um verkefnið á vefsetri forsetaembættisins, t.d. í fréttatilkynningu frá 7. febrúar 2008.
             Forseti tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Dacca í Bangladesh um áhrif loftslagsbreytinga á gróðurfar og nýtingu landgræðslu til að hamla óafturkræfum loftslagsbreytingum. Forseti flutti einnig lokaræðu ráðstefnunnar. Dagfinnur Sveinbjörnsson vann rannsóknar- og undirbúningsvinnu á vegum Alþjóðavers vegna þátttöku forseta í ráðstefnunni og tók einnig þátt í henni og flutti þar fyrirlestur.
             Alþjóðaver vann að undirbúningi og framkvæmd alþjóðlegrar ráðstefnu og sýningar um skipalestir bandamanna til Rússlands um Ísland í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðstefnan var haldin á vegum Háskóla Íslands í júlí 2008 í samstarfi við sendiráð Bandaríkjanna, Bretlands, Rússlands, Noregs og Kanada. Forseti Íslands tók virkan þátt í skipulagningu ráðstefnunnar, var verndari hennar og flutti ávarp við setninguna.
             Vegna 6. liðar fyrirspurnar Eyglóar Harðardóttur alþingismanns er rétt að taka fram að Alþjóðaver tók einnig þátt í undirbúningi og framkvæmd Forvarnardagsins 2008 ásamt Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík en forseti er verndari og hvatamaður Forvarnardagsins sem árlega er haldinn í samstarfi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Skátahreyfingarinnar, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Embætti forseta hefur engar upplýsingar um greiðslur til Alþjóðavers vegna þeirrar vinnu.
     3.      Vegna 7. liðar fyrirspurnar Eyglóar Harðardóttur alþingismanns er því til að svara að engar formlegar verklagsreglur eru í gildi um þau efni sem spurningin varðar en tekið er mið af venjum sem skapast hafa á löngum tíma.“