Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 516  —  256. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um tekjuöflun ríkisins.

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Frumvarp þetta gengur út á það að afla ríkinu aukinna tekna með breytingum á ýmsum lögum, m.a. um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, fjármagnstekjur og tryggingagjald.
    Fjölþrepa tekjuskattskerfi er að mörgu leyti æskilegt og leiðir til meiri jafnaðar þótt alltaf þurfi að varast að ganga of langt í að leggja einhvers konar hátekjuskatt á of lágar tekjur, sem og að hafa skattprósentuna það háa að hvatinn til vinnu dofni um of.
    Hvað varðar áhrif skattbreytinganna á efnahagslífið almennt og þjóðarhag telur 2. minni hluti að sá rökstuðningur sem er í frumvarpinu gangi ekki upp við þær aðstæður sem eru í íslensku efnahagslífi nú um stundir. Þær byggjast á því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu hafi örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu (samdrætti) en 2. minni hluti telur jafnframt til misskilnings að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram að aukin útgjöld ríkissjóðs muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi eru góð og gild við ákveðnar aðstæður og hafa reynst vel sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir og kenningin sem slík gengur upp í reynd þótt ýmislegt beri að varast við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun þeirra og varanleika.
    Ljóst er að tekjuskattsstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög og sumir allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við nú eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir og geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram.
    Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim og að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu sem getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga.
    Því er hætt við að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu, þá er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram og hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.
    Annar minni hluti leggur til að tekið verði tillit til þeirra breytinga sem Hreyfingin hefur lagt til fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga.

Alþingi, 17. des. 2009.



Þór Saari.