Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.

Þskj. 768  —  447. mál.


Frumvarp til laga

um breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989.
1. gr.

    62. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Eftir kröfu gerðarbeiðanda verður fjárnámi lokið án árangurs ef:
     1.      gerðarþoli eða málsvari hans er staddur við gerðina og lýsir yfir að hann eigi engar eignir eða ekki nægar til fullnustu kröfu, sbr. 63. gr.,
     2.      enginn mætir til gerðarinnar af hálfu gerðarþola þótt hann hafi sannanlega verið boðaður til hennar og engin vitneskja liggur fyrir um eign sem gera mætti fjárnám í, eða
     3.      gerðarþoli hvorki finnst né nokkur sem málstað hans getur tekið.

2. gr.

    Við 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna bætist: eða gerðinni hefur verið lokið án árangurs.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við 4. tölul. bætist: eða þar sem hann eða maður honum nákominn situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.
     b.      5. tölul. verður svohljóðandi: tvö félög eða stofnanir ef annað þeirra á verulegan hlut í hinu eða maður nákominn öðru þeirra á slíkan hlut í hinu, situr þar í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.

4. gr.

    Í stað 2. mgr. 6. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Án tillits til þess hvort samningur hefur verið gerður eftir 1. mgr. verður ákvæðum þessara laga um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings sjálfkrafa beitt um útibú erlends félags, sem er starfrækt og á skráð varnarþing hér á landi, ef félagið ber ábyrgð á skuldbindingum útibúsins og hefur áður fengið sömu eða fyllilega sambærilega heimild í sínu heimaríki. Bú slíks útibús verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi, nema bú erlenda félagsins hafi áður verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Ef annað leiðir ekki af 1. eða 2. mgr. hafa heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og gjaldþrotaskipti í öðru ríki ekki áhrif hér á landi nema skuldari eða þrotabú hans afli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að sama eða sambærileg heimild eða fullnustugerð, sem kveðið hefur verið á um með dómsúrlausn í heimaríki hans, hafi eftir því sem átt getur við réttaráhrif hér á landi eftir ákvæðum IV. kafla, 1. og 2. mgr. 40. gr. eða 74. og 116. gr. Beiðni um slíkan úrskurð skal vera skrifleg og greint þar skýrlega frá hverrar heimildar sé leitað, auk nauðsynlegrar reifunar á atvikum máls og þeim erlendu réttarreglum sem átt geta við. Með beiðninni skulu fylgja viðhlítandi gögn um heimildina sem fengin hefur verið í öðru ríki, þar með talið staðfest endurrit úrlausnar dómstóls ásamt þýðingu og staðfesting hans á að heimildin sé enn í gildi og hversu lengi hún muni standa.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 1. mgr. verður svohljóðandi: kröfur sem trygging er fyrir í eign skuldarans að því leyti sem tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins, en að skuldaranum verður ekki gengið vegna slíkrar kröfu í frekara mæli en greinir í 4. mgr. 60. gr.
     b.      1. málsl. 2. mgr. verður svohljóðandi: Lánardrottinn skuldarans getur að tilteknu leyti eða öllu afsalað sér réttindum skv. 1. mgr., þannig að nauðasamningur hafi áhrif á kröfu hans, með yfirlýsingu sem hann gefur við undirbúning skuldarans að öflun heimildar til að leita nauðasamnings eða í kröfulýsingu við nauðasamningsumleitanir.

6. gr.

    Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lánardrottinn fer þó ekki með atkvæðisrétt um nauðasamning nema að því leyti sem hann hefur afsalað sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni, sbr. 2. mgr. 28. gr.

7. gr.

    Í stað orðanna „bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum“ í 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laganna kemur: eftir fjárhæðum krafna þeirra.

8. gr.

    Við 1. mgr. 45. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í kröfulýsingu getur atkvæðismaður að auki greitt atkvæði um frumvarp skuldarans að nauðasamningi, sbr. 1. mgr. 50. gr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi: Jafnframt því sem að framan greinir skal umsjónarmaðurinn gera skrá um kröfur, sem trygging er fyrir í eign skuldarans, án tillits til þess hvort þeim hafi verið lýst. Í skránni skal koma fram fjárhæð hverrar kröfu, gjalddagi, hvort og eftir atvikum að hverju leyti hún er í vanskilum, til hverrar eignar trygging taki og hvort hlutaðeigandi lánardrottinn hafi fallið frá tryggingarréttindum sínum að hluta eða öllu leyti.
     b.      Í stað orðanna „skrá skv. 1. mgr.“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: skrár skv. 1. og 2. mgr.

10. gr.

    2. málsl. 47. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tveggja“ í 1. mgr. kemur: fjögurra.
     b.      4. tölul. 2. mgr. verður svohljóðandi: skrám sínum skv. 1. og 2. mgr. 46. gr. og hvort einhverra krafna, sem hefur verið líst, sé ekki getið í þeim, sbr. 3. mgr. 46. gr.

12. gr.

    Fyrri málsliður 49. gr. laganna verður svohljóðandi: Frumvarp að nauðasamningi telst samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða, og jafnframt 60 hundraðshluta atkvæða eftir höfðatölu allra atkvæðismanna.

13. gr.

    1. mgr. 50. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Atkvæðismenn mega greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi í kröfulýsingu eða skriflega á annan hátt og skal tekið tillit til slíkra atkvæða sem berast umsjónarmanninum í síðasta lagi áður en atkvæðagreiðslu er lokið. Atkvæði þessi skulu þó því aðeins tekin gild að vafalaust sé að þau varði það frumvarp sem til atkvæðagreiðslu er og ótvíræð og skilyrðislaus afstaða atkvæðismanns til þess komi þar fram. Sé annað ekki tekið fram í skriflegu atkvæði skal það standa þótt breyting hafi síðar verið gerð á frumvarpi skuldarans sé breytingin atkvæðismönnum í hag. Sé atkvæði greitt skriflega á annan hátt en í kröfulýsingu skal undirskrift atkvæðismanns vottuð af tveimur vitundarvottum, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða lögbókanda. Atkvæðismaður sem greitt hefur atkvæði skriflega getur dregið það til baka með skriflegri yfirlýsingu, sem vottuð er á sama hátt, ef hún berst umsjónarmanninum áður en atkvæðagreiðsla hefst á fundi eða með því að sækja fundinn og óska eftir að fá að greiða þar atkvæði á nýjan leik.

14. gr.

    Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í kröfunni skal meðal annars gerð ítarleg grein fyrir því hvernig skuldarinn telji sig munu geta staðið í skilum við lánardrottna ef nauðasamningur verður staðfestur, þar á meðal með kröfur sem samningurinn hefði ekki áhrif á.

15. gr.

    Á eftir 3. mgr. 60. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Að því leyti sem lánardrottinn, sem hefur samningsveð fyrir kröfu sinni í eign skuldarans, hefur ekki afsalað sér tryggingarréttindunum skv. 2. mgr. 28. gr. getur lánardrottinn á engu stigi eftir staðfestingu nauðasamnings leitað fullnustu fyrir kröfunni gagnvart skuldaranum á annan hátt en með því að ganga að þeirri eign.

16. gr.

    Við 2. mgr. 64. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú láta þeir, sem bærir eru um að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta á búi slíks skuldara sem ekki er einstaklingur, það hjá líða og bera þeir þá skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum skuldarans að því leyti, sem þeir fara af þessum sökum á mis við fullnustu krafna sinna, enda sýni þeir ekki fram á að sú vanræksla hafi ekki verið þeim saknæm.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Orðin „og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans“ í niðurlagi 1. tölul. 2. mgr. falla brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
        5.    að skuldarinn hafi ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin.

18. gr.

    Við 5. tölul. 1. mgr. 85. gr. laganna bætist: nema dómari ákveði lengri frest við skipun skiptastjóra.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
     a.      Við 2. tölul. 1. mgr. bætist: en slík krafa getur þó ekki numið hærri fjárhæð en svara mundi til launa í uppsagnarfresti sem gilda ætti um vinnusamninginn eftir lögum eða kjarasamningi.
     b.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                 Þeir sem nákomnir eru þrotamanni eða félagi eða stofnun sem er til gjaldþrotaskipta njóta ekki réttar skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. fyrir kröfum sínum.

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.
20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

21. gr.

    Ákvæðum 3. gr. verður ekki beitt til skilgreiningar á orðinu nákomnir að því leyti sem reynt getur á merkingu þess varðandi atvik sem gerðust fyrir gildistöku laga þessara, sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar.
    Ákvæði 5.–7. gr., 9. gr., 11.–12. gr. og 14.–15. gr. taka ekki til nauðasamningsumleitana sem leitað hefur verið fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði a-liðar 17. gr. tekur ekki til tilvika þar sem leitað er gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningar, löggeymslu eða fjárnáms sem lokið er fyrir gildistöku þessara laga.
    Ákvæði 19. gr. gilda ekki um kröfu sem fallið hefur í gjalddaga fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið á vegum réttarfarsnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Með því eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
    Tildrög frumvarpsins eru þau að dómsmálaráðuneytið fór þess á leit með bréfi 20. júlí 2009 að réttarfarsnefnd fjallaði um hvort efni væru til að endurskoða nánar tilgreind atriði sem snerta lög um gjaldþrotaskipti o.fl. Áður höfðu þessi atriði verið til umfjöllunar í ráðuneytinu en tilefnið voru ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna áætlunar hans um efnahagsaðstoð við Ísland í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Hinn 10. september 2009 skilaði réttarfarsnefnd álitsgerð til ráðuneytisins um þessar ábendingar, en við vinnslu hennar hafði nefndin efnt til samráðsfundar með nokkrum fjölda lögmanna sem hafa mikla reynslu af störfum á sviði skuldaskilaréttar. Í kjölfarið var frumvarp þetta samið að höfðu samráði við ráðuneytið.
    Til að stuðla að því að nauðasamningur yrði virkara úrræði fyrir skuldara var í upphaflegum frumvarpsdrögum lagt til að nauðasamningur sem kemst á gæti innan ákveðinna marka haft áhrif á kröfur sem trygging er fyrir í eign skuldara. Var í upphaflegum frumvarpsdrögum réttarfarsnefndar því lagt til að í nauðasamningi mætti kveða á um breytingu á greiðsluskilmálum kröfu, sem samningsveð er fyrir, þar á meðal lengja lánstíma eða fresta gjalddaga á greiðslu hluta skuldarinnar eða hennar allrar í allt að þrjú ár. Var heimildin bundin því að skilmálabreytingin væri nauðsynleg til að skuldari fengi til ráðstöfunar fé til að efna samningskröfur eftir ákvæðum nauðasamnings.
    Var talið, að virtum þeim ríku hagsmunum sem byggju að baki, að ekki væri með almennri heimild af þessu tagi sem sett væru knöpp og afdráttarlaus tímamörk gengið of nærri hagsmunum samningsveðhafa. Var þvert á móti talið sennilegra að skuldari gæti til frambúðar staðið í skilum við veðhafa ef honum gæfist færi um skamma hríð að beina kröftum sínum að því að gera upp samningsveðkröfur að því marki sem unnt væri. Tillagan mætti mótstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerði þá kröfu að veðkröfuhafar ættu að fá að kjósa um efni nauðasamnings, eða að öðrum kosti ekki vera hluti af nauðasamningum í skilningi laganna. Hafa þær breytingar sem lutu að stöðu veðkrafna því verið felldar brott úr frumvarpinu.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einnig óskað þess að skýrt yrði nánar hvaða reglur gildi um atkvæðagreiðslu við nauðasamninga, einkum og sér í lagi hver fari með atkvæðisrétt fyrir lýstri kröfu við nauðasamningsumleitanir. Í 33. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða atkvæðisrétt eftir höfðatölu eða kröfufjárhæð. Þeir lánardrottnar sem eiga samningskröfur á hendur skuldara og lýsa þeim við nauðasamningsumleitanir eiga atkvæðisrétt um nauðasamning. Atkvæði eru greidd eftir höfðatölu og eftir kröfufjárhæð. Við atkvæðagreiðsluna fer hver atkvæðismaður því með eitt atkvæði eftir höfðatölu. Í þeim tilvikum þegar tveir eða fleiri atkvæðismenn eiga samningskröfu saman, fara þeir samanlagt með eitt atkvæði eftir höfðatölu, en þó fer hver þeirra með sjálfstæðan atkvæðisrétt fyrir sínu hlutfalli af kröfunni. Þegar atkvæði eru greidd eftir kröfufjárhæðum á að leggja saman heildarfjárhæð krafna allra atkvæðismanna og reikna síðan út hundraðshluta kröfu hvers og eins þeirra af heildarfjárhæðinni. Fer svo hver atkvæðismaður með atkvæði sem nemur hundraðshluta hans.
    Af reglunni leiðir að lánardrottinn sem lýsir kröfu sinni við nauðasamningsumleitanir fer með atkvæðisrétt kröfu sinnar. Þó getur krafa skipt um hendur með framsali eða með öðrum hætti og fylgir þá atkvæðisréttur slíkum aðilaskiptum eða framsali kröfunnar. Mikilvæga takmörkun er þó að finna í 4. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 þegar sami lánardrottinn sem á fleiri samningskröfur en eina á hendur skuldaranum hefur framselt einhverja þeirra þremur mánuðum fyrir frestdag eða síðar. Ber þá að líta svo á að samningskröfurnar séu samanlagðar ein samningskrafa, en framsalshafinn telst þá eiga sitt hlutfall í samningskröfunni í samræmi við fjárhæð hvorrar eða hverrar þeirra, og skal eins farið að við önnur aðilaskipti að kröfu. Af þessari reglu leiðir að atkvæðisréttur við nauðasamning verður ekki aukinn með framsali eða aðilaskiptum kröfu sem eiga sér stað þremur mánuðum fyrir frestdag eða síðar.

II.

    Um nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta er fjallað í III. þætti laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Allt frá gildistöku laganna og fram til ársins 2008 voru fá mál árlega þar sem leitað var eftir slíkri heimild. Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur hins vegar fjölgað beiðnum um heimild til að leita nauðasamnings, auk þess sem reynt hefur á nokkur tilvik þar sem í hlut eiga fyrirtæki meðal þeirra stærstu hér á landi. Við meðferð þessara mála hafa risið ýmis álitaefni, auk þess sem komið hefur í ljós að tilefni sé til að breyta nokkrum ákvæðum III. þáttar laganna. Öðru fremur þykja efni til að gera málsmeðferðina einfaldari og skilvirkari til að greiða fyrir að nauðasamningur komist á fyrir skuldara. Verður þessum tillögum frumvarpsins lýst hér nánar í helstu atriðum.
    Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laganna skal fylgja beiðni um heimild til að leita nauðasamnings skrifleg yfirlýsing frá að minnsta kosti fjórðungi atkvæðismanna samkvæmt talningu skulda í beiðni skuldarans, bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum, um að þeir mæli með nauðasamningi á grundvelli frumvarps skuldarans. Hjá stærri fyrirtækjum þar sem kröfur geta verið fjölmargar, og jafnvel stór hluti þeirra hljóðar ekki á teljandi fjárhæðir, getur verið mikil fyrirhöfn að afla meðmæla frá fjórðungi kröfuhafa talið eftir höfðatölu. Því er lagt til að þetta skilyrði verði fellt brott.
    Í 47. gr. laganna er að finna heimild fyrir skuldara til að gera breytingar á frumvarpi að nauðasamningi eftir að skuldara hefur verið heimilað að leita hans og þar til atkvæðagreiðslu er endanlega lokið um frumvarpið. Þetta tekur mið af því að gleggri yfirsýn getur fengist yfir fjárhag skuldara eftir því sem líður á nauðasamningsumleitanirnar þegar kröfulýsingar hafa borist og umsjónarmaður með þeim hefur kannað málefni skuldarans. Þá kann ýmist að vera að skuldari geti greitt meira eða minna en talið var í upphafi. Í niðurlagi 47. gr. laganna er gerður sá áskilnaður til að breytt frumvarp verði borið undir atkvæði að skuldari þurfi að afla meðmæla kröfuhafa ef breytingin felur í sér ívilnun fyrir hann. Þetta er þungt í vöfum og ástæðulaust til þess eins að frumvarp verði borið upp til atkvæða í breyttri mynd. Þess í stað liggur beint við að kröfuhafar láti í ljós afstöðu með atkvæði sínu og má skuldari reikna með að kröfuhafar leggist gegn breyttu frumvarpi ef það felur í sér meiri ívilnun til hans en efni standa til.
    Atkvæði um nauðasamning eru að meginreglu greidd á fundi sem haldinn er með kröfuhöfum í samræmi við 48. gr. laganna. Einnig er þó heimilt að greiða atkvæði skriflega, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna. Til að auðvelda enn frekar atkvæðagreiðsluna eru lagðar til viðeigandi breytingar á 45. og 50. gr. laganna þannig að kröfuhafi geti þegar greitt atkvæði sitt í kröfulýsingu. Þetta er þó háð því að ótvírætt sé að skriflegt atkvæðið varði þar frumvarp sem greitt er atkvæði um. Lagt er til að skuldara verði þó heimilt að gera breytingar á frumvarpinu atkvæðismönnum í hag án þess að atkvæði greitt skriflega falli brott.
    Í 49. gr. laganna er mælt fyrir um hvert fylgi frumvarp að nauðasamningi þurfi að fá svo það teljist samþykkt. Samkvæmt ákvæðinu er frumvarp samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða og eftirgjöf af samningskröfum á að nema, bæði eftir höfðatölu allra atkvæðismanna og fjárhæðum krafna þeirra, en þó aldrei minna en 60% á báða vegu. Til frekari skýringar má taka sem dæmi að frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að 30% krafna verði greidd þyrfti að fá 70% atkvæða bæði miðað við höfðatölu og fjárhæð krafna. Ef skuldari býður hins vegar 50% greiðslu gildir lágmarkið um að frumvarpið fái 60% atkvæða á báða vegu. Til að greiða fyrir því að skuldara sé kleift að fá frumvarp að nauðasamningi samþykkt er lagt til að þessari reglu verði breytt á þann veg að fullnægjandi sé að 60% kröfuhafa eftir höfðatölu greiði frumvarpi skuldara atkvæði án tillits til efni þess. Reglan gildi hins vegar óbreytt um hvaða fylgi frumvarp þurfi að fá eftir kröfufjárhæðum. Miðað við þá ríku hagsmuni sem hér eru í húfi fyrir skuldara verður ekki talið að þessi breyting gangi of nærri hagsmunum kröfuhafa.

III.

    Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hefur nauðasamningur fyrir skuldarann ekki áhrif á kröfur sem trygging er fyrir í eign hans að því leyti sem andvirði eignarinnar hrekkur til að fullnægja þeim og tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins. Með tryggingu í eign skuldara er átt við veðréttindi eða sambærileg tryggingarréttindi, til dæmis haldsrétt.
    Aðalreglan er sú að nauðasamningur hefur ekki áhrif á kröfur sem trygging er fyrir í eign skuldara að því marki sem andvirði hennar hrekkur til að fullnægja þeim, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þegar eign hefur ekki verið ráðstafað kann hins vegar að leika vafi á um verðmæti hennar og hvort hún hrökkvi að fullu fyrir áhvílandi kröfum. Í lögunum er ekki að finna reglur um hvernig þetta skuli metið og hefur það valdið nokkrum vandkvæðum í framkvæmd þegar skera þarf úr um hvort eða að hve miklu leyti krafa telst veðkrafa eða samningskrafa þannig að kröfuhafi fari með atkvæði við samningsumleitanir. Lagt er til að úr þessu verði bætt en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kröfuhafi sjálfur þurfi að taka ákvörðun um að hve miklu leyti hann telur að veðið standi til fullnustu á kröfunni. Er þá gert ráð fyrir að hann afsali sér tryggingarréttindum skv. 2. mgr. 28. gr. laganna að því marki sem hann telur að andvirði veðsins hrökkvi ekki fyrir kröfunni. Að því leyti sem trygging er gefin eftir samkvæmt þessu fellur krafan undir nauðasamninginn og ber að efna í samræmi við það. Ef væntingar kröfuhafa um fullnustu af veðbundinni eign ganga ekki eftir er hann hins vegar bundinn við ákvörðun sína og getur ekki leitað fullnustu hjá skuldara á annan hátt, sbr. þá reglu sem er að finna í 15. gr. frumvarpsins. Þykir standa kröfuhafa næst að meta sjálfur hagsmuni sína að þessu leyti. Með þessu er einnig komist hjá því að meta eignir undir nauðasamningsumleitunum en slík málsmeðferð gæti bæði orðið kostnaðarsöm og tímafrek.

IV.

    Í 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er hugtakið nákomnir skilgreint, en með því er átt við menn eða lögpersónur sem tengjast skuldara með tilteknu móti. Til að einhver teljist nákominn í skilningi ákvæðisins þarf hann að hafa nánar tilgreinda stöðu gagnvart skuldara, ýmist vegna fjölskyldutengsla eða skyldleika eða vegna eignarhalds þegar um lögaðila er að ræða. Hugtakið nákomnir hefur einkum áhrif í tengslum við reglur um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, sbr. XVII. kafla laganna, og riftun ráðstafana þrotamanns, sbr. XX. kafla. Að baki býr það sjónarmið að hætt er við að þeir sem eru nákomnir geti haft áhrif á skuldara og því eru löggerningar sem snerta þá varhugaverðari en þegar um aðra er að ræða. Af þeim sökum eru skilyrði til riftunar rýmri þegar nákomnir eiga í hlut.
    Við stjórn félaga eða annarra lögaðila hafa þeir helst áhrif sem sitja í stjórn eða stýra daglegum rekstri. Yfirleitt komast stjórnendur lögaðila í þá aðstöðu í krafti eignaraðildar og teljast því nákomnir í skilningi 3. gr. laganna. Þó er ekki sjálfgefið að sá sem situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri sé eigandi. Því þykir rétt að rýmka hugtakið nákomnir þannig að það taki einnig til stjórnenda, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laganna njóta hvorki nákomnir né þeir sem átt hafa sæti í stjórn eða hafa haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar forgangsréttar í þrotabú fyrir launum og öðrum kröfum sem taldar eru 1..3. tölul. 1. mgr. sömu greinar. Með því að rýmka hugtakið nákomnir eins og lagt er til með 3. gr. frumvarpsins, þannig að það taki jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri, er óþarfi að hafa slíka upptalningu sem nú er í 3. mgr. 112. gr. laganna og er því lagt til með b-lið 19. gr. frumvarpsins að þar verði þess í stað rætt um að nákomnir njóti ekki þessa forgangsréttar.

V.

    Í 8. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, er að finna ákvæði um hvenær fjárnámi verði lokið án árangurs. Með því að fjárnámi sé lokið sem árangurslausu er átt við að ekki hafi komið fram við gerðina eignir sem nægja til að tryggja kröfu gerðarbeiðanda. Árangurslaust fjárnám getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir gerðarþola og má í þeim efnum nefna að slík gerð getur verið undanfari gjaldþrotaskipta á búi hans. Þá þarf ekki að taka fram að árangurslaust fjárnám hefur veruleg áhrif á lánstraust gerðarþola. Til að girða fyrir að árangurslaust fjárnám verði gert að ástæðulausu voru lögfest skilyrði í aðfararlögum fyrir því að fjárnámi verði lokið með því móti. Meðal þeirra skilyrða er að gerðarþoli verður sjálfur að hafa verið staddur við gerðina eða málsvari hans, eða hann hvorki finnst né neinn, sem málstað hans getur tekið, sbr. 62. gr. laganna. Að baki þessu býr að ekki er sjálfgefið að gerðarbeiðandi búi yfir vitneskju um eignir gerðarþola sem gera má fjárnám í. Því er mikilvægt að gerðarþoli eða málsvari hans í skilningi 2. mgr. 24. gr. laganna sé staddur við gerðina svo fram komi áreiðanlegar upplýsingar um að gerðarþoli eigi engar eignir til að tryggja kröfu gerðarbeiðanda. Verður fjárnámi ekki lokið án árangurs að gerðarþola eða málsvara fjarstöddum nema reynt hafi verið til þrautar að hafa uppi á honum. Eftir atvikum er nauðsynlegt að leitað hafi verið aðstoðar lögreglu til að færa gerðarþola eða fyrirsvarsmann hans til gerðarinnar, sbr. 3. mgr. 24. gr. laganna.
    Af áskilnaði um viðveru gerðarþola eða málsvara til að fjárnámi verði lokið án árangurs leiðir að sýslumaður verður að fara á heimili gerðarþola eða vinnustað ef hann mætir ekki til gerðarinnar á starfsstofu sýslumanns. Því fylgja ekki aðeins óhagræði og tafir heldur er einnig undir hælinn lagt hvort gerðarþoli eða málsvari hittist fyrir. Þá hefur lögregla í stærri umdæmum landsins ekki annað að veita sýslumanni nauðsynlegt liðsinni í þessum efnum. Afleiðingin af þessu er að safnast hefur mikill fjöldi aðfararbeiðna hjá sýslumönnum þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um eignir gerðarþola og hann virðir að vettugi ítrekaðar boðanir um að mæta í fjárnám. Af þessu tilefni hafa sýslumenn ítrekað á liðnum árum farið þess á leit að brugðist verði við þessum vanda með því að fella brott úr lögum áskilnað um viðveru gerðarþola eða málsvara hans fyrir því að fjárnámi verði lokið án árangurs.
    Til að auðvelda afgreiðslu aðfararbeiðna hjá sýslumönnum er lagt til með frumvarpinu að heimilt verði að ljúka fjárnámi án árangurs þótt enginn mæti til gerðarinnar af hálfu gerðarþola ef hann hefur sannanlega verið boðaður til hennar og engin vitneskja liggur fyrir um eign sem gera mætti fjárnám í. Til að tryggja réttarstöðu gerðarþola er samhliða lagt til að lögfest verði heimild fyrir hann til að krefjast endurupptöku gerðarinnar ef henni hefur verið lokið án árangurs og hann getur bent á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Með því móti getur gerðarþoli brugðist við ef gerðinni hefur að ástæðulausu verið lokið á þann veg. Þessi breyting á reglum um árangurslaust fjárnám verður ekki talin ganga of nærri hagsmunum gerðarþola, enda stendur honum næst að leita eftir leiðréttingu ef gerðinni hefur lokið með þessu móti vegna þess að hann hefur ekki sinnt boði sýslumanns að mæta til gerðarinnar. Að sama skapi er óeðlilegt að gerðarþoli geti hindrað að aðfararbeiðni verði tekin fyrir með því einu að virða að vettugi fjárnámsboðun og haga málum þannig að erfitt reynist að hafa uppi á honum eða málsvara.
    Svo sem hér hefur verið rakið er heimilt að ljúka fjárnámi sem árangurslausu án þess að gerðarþoli eða málsvari hans sé mættur við gerðina ef gerðarþoli hvorki finnst né neinn sem málstað hans getur tekið. Slík gerð hefur hins vegar ekki verið talin viðhlítandi grundvöllur undir gjaldþrotaskipti á búi gerðarþola, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar frá 8. apríl 2003 í máli nr. 90/2003. Að baki þessari niðurstöðu býr sá áskilnaður 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að ekki megi vera ástæða til að ætla að árangurslaus gerð gefi ranga mynd af fjárhag skuldara. Með frumvarpinu er lagt til að þessi áskilnaður verði felldur brott þannig að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta þótt hvorki hann né málsvari hafi mætt við gerðina. Þetta breytir því ekki að skuldari getur eftir sem áður varist kröfu um gjaldþrotaskipti á búi sínu ef hann er í raun gjaldfær. Leiðir það af upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en þar segir efnislega að bú verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta ef skuldari sýnir fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Þessi breyting á því ekki að valda því að gjaldfær skuldari sæti gjaldþrotaskiptum, heldur eingöngu að greiða fyrir því að skipti fari fram þegar þau eru óhjákvæmileg.

VI.

    Hér á landi er yfirleitt ekki vandkvæðum bundið fyrir kröfuhafa að fá tekna til greina kröfu um að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipti ef efnahag hans er þannig komið að skilyrði til skipta eru fyrir hendi. Má geta þess að löggjöf hér á landi um skilyrði gjaldþrotaskipta eru ekki frábrugðin lögum annars staðar á Norðurlöndum að því þó frátöldu að í Danmörku eru rýmri heimildir til að taka bú til skipta þegar skuldari hefur í reynd stöðvað greiðslur til kröfuhafa, sbr. 18. gr. dönsku gjaldþrotaskiptalaganna. Þess eru þó dæmi hér á landi að dregist hafi úr hömlu að bú skuldara verði tekið til skipta vegna vandkvæða við að ljúka fjárnámi án árangurs hjá skuldara en slík gerð er venjulega aðdragandi gjaldþrotaskipta að kröfu lánardrottins. Með frumvarpinu er lagt til að úr þessu verði bætt, svo sem lýst er hér í næsta kafla á undan. Eftir stendur þó að nokkurn tíma getur tekið fyrir kröfuhafa að afla sér aðfararheimildar fyrir kröfu sinni til að geta krafist fjárnáms hjá skuldara. Þegar þannig hagar til er kröfuhafa vissulega kleift að krefjast kyrrsetningar hjá skuldara skv. 5. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, en skilyrði fyrir því eru ströng. Því er lagt til með frumvarpinu að greitt verði fyrir því að bú verði tekið til skipta ef þau eru á annað borð óhjákvæmileg. Er þá haft í huga að dráttur á skiptum er til þess fallinn að valda tjóni þar sem eignir geta rýrnað og farið forgörðum. Jafnframt er tekið tillit til þess að þörf getur verið á greiðari leið í þessum efnum þegar í hlut eiga stærri atvinnufyrirtæki sem lánardrottnar telja einsýnt að muni ekki geta staðið í skilum.
    Til að flýta fyrir gjaldþrotaskiptum á búi skuldara, þegar hjá þeim verður ekki komist, er lagt til að lánardrottni sé kleift að krefjast gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að skuldari hafi ekki orðið við formlegri áskorun um að gefa skriflega staðfestingu á því að hann sé greiðslufær. Með þessu er girt fyrir að skuldari geti tafið skipti með því einu að halda að sér höndum og aðhafast ekkert, en slík viðbrögð eru þekkt þegar í óefni er komið. Samhliða og í sama skyni er lagt til að brýnt verði á skyldu sem hvílir á fyrirsvarsmanni til að hlutast um gjaldþrotaskipti á búi lögaðila í samræmi við 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með því að lögfesta skaðabótareglu vegna tjóns sem af þessu hlýst fyrir kröfuhafa. Er jafnframt lagt til að um verði að ræða stranga bótaábyrgð eða svokallaða sakarlíkindareglu þannig að fyrirsvarsmaður skuldara þurfi að sýna fram á að vanrækslan hafi ekki verið honum saknæm.

VII.

    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er íslenska ríkinu heimilt að gera samninga við önnur ríki þess efnis að heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, sem veitt er í einu samningsríki, gildi sjálfkrafa í öðru samningsríki með þeim réttaráhrifum sem fylgja slíkri heimild í öðru hvoru ríkinu. Á sama hátt er ríkinu heimilt að gera samninga við önnur ríki um að gjaldþrotaskipti í einu samningsríki nái einnig til eigna eða réttinda þrotamanns í öðru samningsríki, en ákveða má í slíkum samningi að gjaldþrotaskipti fari að einhverju leyti eða öllu sjálfstætt fram í hverju samningsríki fyrir sig eftir löggjöf þess eða annars tiltekins ríkis. Ef samningur hefur ekki verið gerður eftir ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna hefur heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og gjaldþrotaskipti í öðru ríki ekki áhrif hér á landi.
    Þessi heimild í 6. gr. laga nr. 21/1991 til að gera milliríkjasamninga hefur ekki verið nýtt og á Ísland aðeins aðild að einum slíkum samningi, en hann var gerður milli Norðurlandanna löngu fyrir gildistöku laganna, sbr. lög nr. 21/1934.
    Til að greiða fyrir erlendri réttaraðstoð á þessu sviði er mikilvægt að hér á landi sé unnt að bregðast við beiðnum um hana frá öðrum ríkjum. Er þá fullnægt því sem gjarnan er skilyrði í samskiptum ríkja að aðstoðin sé gagnkvæm. Því er lagt til að lögfest verði heimild til að bregðast við beiðni um réttaraðstoð frá öðru ríki án þess að um hana sé fjallað í milliríkjasamningi. Er gert ráð fyrir að heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og gjaldþrotaskipti í öðru ríki geti haft tiltekin réttaráhrif hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á 62. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, til að unnt verði að ljúka fjárnámi án árangurs þótt enginn mæti til gerðarinnar af hálfu gerðarþola ef hann hefur sannanlega verið boðaður til hennar. Jafnframt er í 2. gr. lagt til að í 67. gr. laganna verði tekin upp sérstök heimild fyrir gerðarþola til að krefjast endurupptöku gerðar sem lokið hefur verið án árangurs í því skyni að hann geti bent á eignir til fjárnáms. Þessar greinar eru nánar skýrðar hér að framan í V. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 3. gr.

    Þetta ákvæði hefur að geyma rýmri skilgreiningu á hugtakinu nákomnir en nú er að finna í 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Nánar tiltekið er lagt til að hugtakið nái einnig til þeirra sem sitja í stjórn eða stýra daglegum rekstri félaga eða annarra lögaðila. Að þessu er nánar vikið í IV. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði heimild til að veita alþjóðlega réttaraðstoð á sviði skuldaskilaréttar. Með því að unnt sé að veita slíka aðstoð hér á landi er greitt fyrir því að slík réttaraðstoð verði veitt gagnvart Íslandi í öðrum ríkjum. Til að úrlausn erlends dómstóls hafi réttaráhrif hér á landi er lagt til að aflað verði úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur. Fram kemur hvernig slík beiðni verður úr garði gerð og hvaða gögn þurfi að fylgja henni. Jafnframt er tilgreint hvaða réttaráhrif erlend dómsúrlausn getur haft. Að þessari grein er nánar vikið í VII. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 5. og 6. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að lánardrottinn, sem nýtur samningsveðs fyrir kröfu sinni í eign skuldara og afsalar sér ekki þeim rétti, geti ekki leitað fullnustu hjá skuldara á annan hátt en með því að ganga að veðinu. Í samræmi við þetta er með 5. gr. frumvarpsins lögð til viðeigandi breyting á 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laganna og 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Miðað er við að lánardrottinn gefi í síðasta lagi afsal á veðrétti í kröfulýsingu til að öðlast rétt á hendur skuldara samkvæmt nauðasamningi. Til að taka af allan vafa er lagt til í 6. gr. frumvarpsins að ótvírætt komi fram í 33. gr. laganna að samningsveðhafi fer ekki með atkvæðisrétt um nauðasamning nema að því leyti sem hann hefur afsalað sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni.

Um 7. gr.

    Hér er lögð til sú breyting á 35. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að ekki verði lengur þörf á að afla meðmæla með frumvarpi að nauðasamningi frá fjórðungi atkvæðismanna talið eftir höfðatölu, heldur verði látið við það sitja að áskilja sem hingað til að afla þurfi meðmæla þess fjölda atkvæðismanna talið eftir kröfufjárhæðum. Er þetta gert til að greiða fyrir að skuldari geti leitað nauðasamnings, en í framkvæmd hefur þess gætt nokkuð að áskilnaður um meðmæli tilskilins fjölda kröfuhafa eftir höfðatölu þeirra hafi gert erfitt fyrir í þessum efnum og fært eigendum lágra krafna jafnvel óeðlileg áhrif á framvindu mála.

Um 8. gr.

    Með þessu ákvæði frumvarpsins eru lögð til þau nýmæli að lánardrottni, sem fer með atkvæðisrétt um frumvarp skuldara að nauðasamningi, verði heimilt að greiða atkvæði sitt í kröfulýsingu. Með reglu um þetta, sem kæmi í fyrirmælum um efni kröfulýsinga í 1. mgr. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., er leitast við að greiða fyrir að lánardrottinn fái að neyta atkvæðisréttar á mjög einfaldan hátt, en í tengslum við þetta má vekja athygli á því að með 13. gr. frumvarpsins eru gerðar tillögur um nánari fyrirmæli um skriflega atkvæðagreiðslu í 1. mgr. 50. gr. laganna.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Í 47. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er að finna heimild fyrir skuldara til að gera breytingar á frumvarpi sínu að nauðasamningi eftir að honum hefur verið heimilað að leita hans og þar til atkvæðagreiðslu er endanlega lokið um frumvarpið. Með þessari grein er lagt til að felldur verði niður sá áskilnaður að skuldarinn þurfi að afla meðmæla með breytingu á frumvarpinu ef hún er honum til ívilnunar. Að þessu er nánar vikið í II. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið og vísast þangað um frekari skýringar á þessu ákvæði.

Um 11. gr.

    Í 48. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er fjallað um fund sem haldinn er til að greiða atkvæði um frumvarp skuldarans að nauðasamningi. Samkvæmt 1. mgr. skal þessi fundur haldinn innan tveggja vikna frá því kröfulýsingarfresti er lokið. Reynslan hefur leitt í ljós að þessi frestur getur verið of knappur þegar stærri fyrirtæki eiga í hlut. Er því lagt til í a-lið 11. gr. frumvarpsins að fresturinn verði lengdur í fjórar vikur. Það skal þó sérstaklega áréttað að ástæðulaust er með öllu að sá frestur sé ávallt nýttur til fulls.

Um 12. gr.

    Í 49. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er að finna ákvæði um það fylgi sem frumvarp skuldarans að nauðasamningi verður að fá svo að það teljist samþykkt. Lögð er til sú breyting með þessari grein frumvarpsins að fullnægjandi sé að nauðasamningsfrumvarp hljóti atkvæði 60% kröfuhafa eftir höfðatölu án tillits til efnis frumvarpsins, en samkvæmt gildandi reglum verður það að hljóta sama hlutfall atkvæða eftir höfðatölu atkvæðismanna og nemur eftirgjöf af samningskröfum, en þó aldrei lægra en 60%. Hins vegar er gert ráð fyrir að sú regla gildi áfram óbreytt um nauðsynlegan fjölda atkvæða eftir kröfufjárhæðum. Að öðru leyti skal vísað hér til skýringa á þessari breytingu í II. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 13. gr.

    Í 1. mgr. 50. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er að finna fyrirmæli um heimildir lánardrottna til að greiða atkvæði skriflega um frumvarp skuldara að nauðasamningi í stað þess að þeir mæti til fundar sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum heldur til atkvæðagreiðslu. Eins og áður kom fram er lagt til í 8. gr. frumvarpsins að atkvæðismanni verði heimilað að greiða atkvæði þegar í kröfulýsingu sinni. Í 13. gr. frumvarpsins er með tilliti til þeirrar breytingar áréttaður sá augljósi áskilnaður að atkvæði greitt skriflega, hvort sem það er gert í kröfulýsingu eða á annan hátt, skuli aðeins talið gilt að vafalaust sé að það varði það frumvarp sem borið er undir atkvæði. Í þessari grein er jafnframt lagt til að sú regla verði lögfest að skriflegt atkvæði haldi allt að einu gildi sínu þótt gerð hafi verið breyting á frumvarpi skuldarans atkvæðismönnum í hag. Loks er gert ráð fyrir að skriflegt atkvæði verði ekki dregið til baka nema með skriflegri yfirlýsingu atkvæðismanns eða þá með því að hann sæki fund þar sem atkvæði eru greidd og óski eftir að fá að greiða atkvæði á nýjan leik.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. 54. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er fjallað um kröfu sem skuldarinn verður að bera upp við héraðsdóm um staðfestingu nauðasamnings í kjölfar þess að nauðasamningsumleitunum hefur lokið með samþykki frumvarps hans. Með þessari grein frumvarpsins er lagt til að bætt verði við gildandi reglu fyrirmælum um að skuldari þurfi í kröfunni meðal annars að gera ítarlega grein fyrir því hvernig hann telji sig munu geta staðið í skilum við lánardrottna ef nauðasamningur verður staðfestur, þar á meðal með kröfur sem samningurinn hefði ekki áhrif á. Þótt þetta hafi almennt verið gert í framkvæmd eftir gildandi lögum þykir rétt að festa reglu um þetta í sessi, enda geta þessar upplýsingar haft áhrif á hvort héraðsdómur taki til grein kröfu skuldarans um að nauðasamningur verði staðfestur.

Um 15. gr.

    Í 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er að finna helstu reglurnar um réttaráhrif nauðasamnings. Hér eru ráðgerðar viðeigandi breytingar á því ákvæði í samræmi við nýmæli sem lögð eru til í frumvarpinu.

Um 16. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hvíldir sú skylda á bókhaldsskyldum skuldara að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Í lögum er ekki vikið að því hvaða afleiðingar það hefur þegar þessi skylda er vanrækt, en í framkvæmd jafnt sem fræðikenningum hefur verið gengið út frá því að slík háttsemi geti fellt skaðabótaskyldu á þá sem í hlut eiga. Með þessari grein frumvarpsins er lagt til að regla um þetta verði lögfest og tekin þannig af öll tvímæli um bótaábyrgð stjórnenda lögaðila sem rækja ekki þessa skyldu. Samkvæmt ákvæðinu öðlast lánardrottnar bótarétt að því leyti sem þeir fara af þessum sökum á mis við fullnustu krafna sinna. Ákvæðið hefur að geyma svokallaða sakarlíkindareglu og því þarf sá sem getur tekið ákvörðun um málefni lögaðilans að sýna fram á að vanrækslan sé honum ekki saknæm. Markmiðið með þessu er að skerpa á þessari ábyrgð gagnvart stjórnendum lögaðila og stuðla um leið að því að þeir sinni þeirri skyldu sem hvílir á þeim að gildandi lögum í þessum efnum.

Um 17. gr.

    Hér er í fyrsta lagi lagt til að fellt verði brott það skilyrði, sem nú er í 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir því að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningar, löggeymslu eða fjárnáms, að gerðin þyki ekki gefa ranga mynd af fjárhag hans. Þessi breyting er nauðsynleg svo að unnt verði að taka bú skuldara til gjaldþrotaskipta á grundvelli gerðar þar sem hvorki gerðarþoli né málsvari hefur mætti við gerðina, sbr. ákvæði 1. gr. frumvarpsins, svo sem nánar er vikið að í V. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið. Í öðru lagi er lagt til með 17. gr. frumvarpsins að heimilt verði að taka bú skuldara til gjaldþrotaskipta ef hann hefur ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin. Í þessu felst að skuldari þarf að lýsa því yfir að efnahag hans sé ekki þannig komið að hann sé ógreiðslufær. Með ákvæði um þetta er leitast við að koma í veg fyrir að skuldari geti tafið gjaldþrotaskipti sem skilyrði eru fyrir með því einu að halda að sér höndum.
    Þær tillögur sem er að finna í þessari grein koma ekki í veg fyrir að skuldari geti varist kröfu um gjaldþrotaskipti þegar skilyrði til þeirra eru ekki fyrir hendi. Þannig yrði bú skuldarans ekki tekið til gjaldþrotaskipta ef hann sýnir fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma, sbr. 2. mgr. 65. gr. laganna.

Um 18. gr.

    Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 85. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur á hendur þrotabúi haldinn innan mánaðar frá lokum kröfulýsingarfrests. Þegar um er að ræða skipti á stórum þrotabúum, þar sem búast má við miklum fjölda kröfulýsinga, getur þessi frestur reynst of stuttur. Ef þannig stendur á er lagt til með 18. gr. frumvarpsins að dómari geti lengt þennan frest þegar hann skipar skiptastjóra.

Um 19. gr.

    Meðal forgangskrafna við gjaldþrotaskipti skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eru kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag eða eftir hann, sbr. 2. tölul. þeirrar málsgreinar. Réttur launþega til bóta vegna slita á ráðningarsamningi fer eftir almennum reglum vinnuréttar og ræðst ýmist af ráðningar- eða kjarasamningi eða af lögum. Dómstólar hafa þó takmarkað forgangsrétt fyrir slíkum kröfum ef samningsákvæði um uppsagnarfrest hafa verið óvenjuleg og lengri en venjulegt getur talist, sbr. dóm Hæstaréttar frá 4. júní 1991, sem birtist í dómasafni réttarins það ár á bls. 903, en hann gekk í gildistíð eldri laga nr. 6/1978. Rétt þykir að þessi takmörkun á forgangsrétti komi ótvírætt fram í lögum og því er lagt til í a-lið 19. gr. frumvarpsins að lögfest verði sú regla að forgangsrétturinn taki að þessu leyti mið af því sem leiðir af lögum eða kjarasamningi en ekki sérstökum samningsákvæðum um lengri uppsagnarfrest.
    Í b-lið 19. gr. er lögð til breyting á 3. mgr. 112. gr. laganna, en hún tengist breyttri skilgreiningu á hugtakinu nákomnir í 3. gr. frumvarpsins, svo sem nánar er skýrt í IV. kafla í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 20. gr.

    Gildistökuákvæði frumvarpsins þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989,
og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um aðför og lögum um gjaldþrotaskipti sem byggjast á skýrslu réttarfarsnefndar. Dómsmálaráðuneytið fór þess á leit við nefndina að kannað yrði hvort ástæða væri til að endurskoða ákvæði í lögum um aðför og gjaldþrotaskipti meðal annars vegna ábendinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við áætlun um efnahagsaðstoð við Ísland í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Í samræmi við skýrslu nefndarinnar er lagt til að heimilt verði að gera árangurslaust fjárnám sem geti verið grundvöllur gjaldþrotaskipta án þess að gerðarþoli eða einhver til að taka málstað hans sé viðstaddur enda hafi hann sannanlega verið boðaður til gerðarinnar og eigi ekki neinar eignir sem unnt er að gera fjárnám í. Þá eru lagðar til ýmsar tæknilegar breytingar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna sem einfalda ferli nauðasamninga hvað varðar samþykki frumvarps til nauðasamnings. Lögð er til regla er kveði á um hvernig meta á að hvaða marki krafa sem tryggð er með veði teljist veðkrafa og að hvaða marki samningskrafa þegar veðið hrekkur ekki til greiðslu skuldarinnar að fullu. Þá er hugtakið nákomnir í skilningi gjaldþrotaskiptalaga rýmkað þannig að það nái einnig til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri fyrirtækja. Lagðar eru til breytingar sem auðvelda kröfuhöfum að fá staðfestingu á að skuldari sé ekki fær um að greiða skuld sína til að koma í veg fyrir að skuldari geti á óeðlilegan hátt komið sér hjá gjaldþrotaskiptum með aðgerðaleysi sínu. Þá er rýmkuð heimild til að láta erlenda ákvörðun um gjaldþrotaskipti eða nauðasamninga ná til eigna hér á landi þannig að hún sé ekki bundin við að gerður hafi verið alþjóðasamningur um slíkt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.