Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 800  —  432. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um þýðingu Lissabonsáttmálans.

    Fyrirspurning hljóðar svo:
Stendur til að þýða Lissabonsáttmálann yfir á íslensku og ef svo er, hvenær verður því verki lokið og hvað er áætlað að þýðingarkostnaðurinn verði hár?

    Líkt og fram kom við meðferð tillögu ríkisstjórnarinnar til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er gert ráð fyrir að regluverk ESB verði þýtt yfir á íslenska tungu áður en til aðildar kemur. Um þetta er fjallað í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um tillöguna. Í álitinu er og vikið að áætluðum kostnaði almennt við þýðingar án þess að einstakir þættir þýðinga séu áætlaðir sérstaklega. Í samræmi við þetta hefur verið gert ráð fyrir auknum fjármunum til þýðingarmála í fjárlögum ársins 2010 í formi viðbótarframlags til Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, alls 114 millj. kr.
    Gert er ráð fyrir að þýðing regluverks ESB liggi fyrir við aðild að sambandinu. Í áætlunum ráðuneytisins er miðað við að þýðing stofnsáttmála ESB og Lissabonsáttmálans hefjist á næstu vikum og verði lokið síðar á þessu ári.