Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 244. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 853  —  244. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um lögskráningu sjómanna.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hlutinn getur ekki stutt álit meiri hluta nefndarinnar um umrætt frumvarp um lögskráningu og telur að efni þess þarfnist mun meiri umfjöllunar við, skoðunar á afleiðingum þess og vissu fyrir því að rafrænt skráningarkerfi geti annað því umfangi sem gert er ráð fyrir.
    Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að 900–1.000 fiskiskip bætast við þau 380 sem nú falla undir lög um lögskráningu. Í greinargerð með frumvarpinu er ekki minnst á þetta gríðarlega aukna umfang lögskráningar. Því verður að ætla að höfundar frumvarpsins hafi ekki verið meðvitaðir um það, enda er stórmál á ferðinni sem vert hefði verið að vekja athygli á.
    Minni hlutinn vekur athygli á að flest þau fiskiskip sem nú eiga að falla undir lögskráningu í fyrsta sinn eru innan raða Landssambands smábátaeigenda. Fyrir liggur vel rökstudd umsögn sambandsins þar sem það hafnar alfarið breytingu á gildandi lögum og vill að fiskiskip minni en 20 brúttótonn verði áfram undanþegin lögskráningu. Það er miður að ekki skuli tekið tillit til sjónarmiða Landssambands smábátaeigenda og í hæsta máta óeðlilegt að ekki skuli haft samráð við sambandið við vinnslu frumvarpsins og hugað að afleiðingum fyrirhugaðra breytinga fyrir aðila þess.
    Minni hlutinn telur þær breytingar sem gerðar voru á lögum um lögskráningu og lögum um eftirlit með skipum 2001 hafa verið vel ígrundaðar og með þeim komið til móts við það sjónarmið Landssambands smábátaeigenda að tryggja með ábyggilegum hætti slysatryggingu sjómanna. Góð reynsla er komin á þær breytingar sem sýnir sig best í að gert er ráð fyrir að þær verði teknar upp í nýjum lögum um lögskráningu.
    Við lagabreytinguna 2001 var ekki talið að gera þyrfti aðrar breytingar á þáttum er varða öryggi sjómanna og eftirlit með réttindum skipstjórnarmanna. Engar breytingar hafa orðið frá þeim tíma er kalla á fyrirhugaðar breytingar, ef undan er skilið aukin skilyrði fyrir eftirlit með rafrænum hætti.
    Í 5. gr. frumvarpsins er skilyrt að ekki megi lögskrá í skiprúm nema fyrir liggi staðfesting á að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna. Þar sem margoft hefur þurft að fresta gildistöku þessa ákvæðis vegna langra biðlista að Slysavarnaskóla sjómanna er útilokað að skólinn geti annað þeim fjölda sem bætist við verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Skal í þessu sambandi vakin athygli á að vegna fjársveltis verður ekkert af árlegri hringferð Sæbjargar til námskeiðahalda á komandi sumri eins og verið hefur. Á þetta atriði hefur minni hlutinn bent í vinnu nefndarinnar við frumvarpið. Gerir minni hlutinn að tillögu sinni að ákvæði nýrra laga um lögskráningu skipa minni en 20 brúttótonn komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. nóvember 2012. Á þeim tíma gefst tækifæri til að reyna hið nýja kerfi og sjá hvort skilvirkni þess uppfyllir kröfur sem til þess eru gerðar um öryggisþætti og hagræðingu. Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn til eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. ná lögin ekki til skipa sem eru minni en 20 brúttótonn frá gildistöku laganna til 1. nóvember 2012.

Alþingi, 23. mars 2010.



Ásbjörn Óttarsson.