Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.

Þskj. 901  —  514. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum,
nr. 106/2000, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    4. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Úrskurður í kærumáli samkvæmt þessari grein skal kveðinn upp innan þriggja mánaða frá því að kærufrestur rann út. Þó er heimilt að framlengja frest til úrskurðar um allt að þrjá mánuði til viðbótar ef mál er umfangsmikið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum varðandi fresti umhverfisráðherra til að úrskurða í kærumálum vegna þeirra ákvarðana sem tilgreindar eru í 1. og 3. mgr. 14. gr. laganna. Þær ákvarðanir sem þar eru tilgreindar eru m.a. ákvarðanir sem Skipulagsstofnun tekur skv. 6. gr. laganna um hvort framkvæmdir sem tilgreindar er í 2. viðauka laganna séu matsskyldar og ákvarðanir stofnunarinnar um hvort meta skuli matsskyldar framkvæmdir sameiginlega, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Lagt er til að úrskurðarfrestur ráðherra sé lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá mánuði, þ.e. um einn mánuð. Þó er heimilt að framlengja frest til úrskurðar um allt að þrjá mánuði til viðbótar ef um er að ræða umfangsmikil mál. Er þá gert ráð fyrir að umhverfisráðherra meti við móttöku kæru í upphafi umfang máls og ákveði hvort nýta þurfi að hluta eða að öllu leyti heimild til viðbótarfrests og tilkynni það aðilum máls. Þá er mögulegt að við meðferð máls komi í ljós að afla þurfi frekari gagna, upplýsinga eða umsagna, sem muni lengja málsmeðferðina, og ber þá einnig að tilkynna það aðilum máls. Þannig er lagt til að hámarksfrestur ráðherra til að kveða upp úrskurði á grundvelli 14. gr. laganna verði þrír til sex mánuðir frá því að kærufrestur rennur út. Kærufrestur er einn mánuður frá tilkynningu um ákvörðun Skipulagsstofnunar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Til nánari skýringa skal tekið dæmi: Ef ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir 30. mars er frestur til að kæra viðkomandi ákvörðun til ráðherra til 30. apríl. Hér er lagt til að frestur ráðherra til að úrskurða í slíku tilviki verði til 30. júlí í stað 30. júní samkvæmt gildandi lögum, með fyrirvara um að nauðsynlegt kunni að vera að framlengja frest vegna umfangs máls, en þó aldrei lengur en til 30. október.
    Ástæður þeirra breytinga sem hér eru lagðar til eru þær að miðað við umfang og eðli þeirra mála sem hér um ræðir eru gildandi úrskurðarfrestir ekki raunhæfir. Ákvarðanir um áhrif framkvæmda á umhverfið eru í eðli sínu matskenndar og við það mat þarf m.a. að leita umsagna hjá sérfræðistofnunum á viðkomandi fagsviði eða jafnvel að láta vinna sérfræðiálit um tiltekna þætti málsins. Í úrskurðum vegna slíkra kærumála er þannig lagt mat á áhrif framkvæmda á umhverfið á grundvelli slíkrar gagnaöflunar og er hún forsenda þess að hægt sé að kveða upp úrskurði. Jafnframt þarf í slíkum kærumálum að leita eftir umsögnum viðkomandi sveitarfélaga en þau taka ákvarðanir um hvort veita eigi leyfi fyrir matsskyldum framkvæmdum. Eðli þessara kærumála eru því með þeim hætti að ríkar kröfur eru gerðar til rannsóknar mála, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með hliðsjón af framkvæmdinni getur tekið nokkurn tíma að fá fullnægjandi upplýsingar um mál og þegar nauðsynlegar umsagnir liggja fyrir ber að senda kærendum þær umsagnir og gefa þeim tækifæri á að gera athugasemdir við þær í samræmi við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af framangreindu og þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laganna hvað varðar úrskurðartíma er tveggja mánaða frestur til að kveða upp úrskurði ekki raunhæfur og því er lögð til sú breyting sem frumvarp þetta kveður á um.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum,
nr. 106/2000, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að frestur ráðherra til að úrskurða í kærumálum vegna ákvarðana Skipulagsstofnunar á grundvelli laganna verði lengdur úr tveimur mánuðum í sex mánuði. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að miðað við umfang og eðli þeirra mála sem hér um ræðir og með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laganna séu gildandi úrskurðarfrestir ekki raunhæfir.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.