Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 905  —  476. mál.




Svar



forseta Alþingis, sbr. 3. mgr. 8. gr. þingskapa, við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um kærur um lögmæti alþingiskosninganna 2009.

     1.      Hefur Alþingi borist kæra um lögmæti alþingiskosninganna sem fram fóru 25. apríl 2009?
    Ein kæra barst en þar var krafist viðurkenningar á því að allir sem náðu kjöri af þeim framboðslistum sem buðu fram hafi verið ólöglega kosnir. Þau rök voru færð fyrir kærunni að misvægi atkvæða milli kjördæma stangaðist á við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Um kæruheimild var vísað til 118. og 120. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis.

     2.      Ef svo er, hvenær barst sú kæra og hver fjallaði um hana?
    Eins og fyrir er mælt í 118. gr. laga um kosningar til Alþingis var kæran, sem er dagsett 1. maí 2009, send dómsmálaráðuneytinu. Kæran barst Alþingi fyrir þingbyrjun en þingsetning fór fram 15. maí sama ár. Á þingsetningarfundi voru kosnir níu þingmenn í kjörbréfanefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanna skuli talin gild, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Kæran var lögð fyrir kjörbréfanefnd sem fjallaði um hana og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru lagalegar forsendur til að úrskurða kosningarnar ólögmætar á þeim forsendum sem kæran byggðist á. Það var því tillaga kjörbréfanefndar að kjörbréf aðalmanna og varamanna yrðu samþykkt, sbr. 46. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 1. gr. og 5. gr. laga um þingsköp Alþingis.
    Í framsöguræðu formanns kjörbréfanefndar á Alþingi var farið yfir kæruna og færð lagarök fyrir afstöðu nefndarinnar til hennar. Þar kom fram að 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar heimili misvægi atkvæða upp að ákveðnu marki og að þetta sérákvæði stjórnarskrárinnar gangi framar almennu ákvæði 65. gr.
    Tillaga kjörbréfanefndar um afgreiðslu kjörbréfa þingmanna var samþykkt. Alþingi fjallaði því um kæruna með því að fallast á tillögu kjörbréfanefndar.

     3.      Hefur kærendum verið svarað með formlegum hætti?
    Afgreiðsla Alþingis á tillögu kjörbréfanefndar og umræður um hana fóru fram fyrir opnum tjöldum og birt í Alþingistíðindum og á vef Alþingis. Ekki hefur tíðkast að tilkynna þeim sem lagt hafa fram kæru út af alþingiskosningum um niðurstöðuna sérstaklega.
    Forseta Alþingis barst bréf frá þeim einstaklingum sem lögðu kæruna fram. Bréfið er dagsett 11. janúar 2010 en þar var óskað eftir því að kærunni yrði svarað með formlegum hætti. Þessu bréfi hefur verið svarað bréflega fyrir hönd forseta.

     4.      Ef svo er, hvenær var það gert, hver var niðurstaðan og á hverju byggðist hún?
    Svarbréf til kærenda er dagsett 3. mars 2010. Í bréfinu er meðferð kærunnar lýst og vitnað til umfjöllunar formanns kjörbréfanefndar um hana þegar hann fylgdi tillögu nefndarinnar úr hlaði á Alþingi. Þar er enn fremur tekið fram að með samþykki Alþingis á tillögu kjörbréfanefndar hafi kæran hlotið afgreiðslu Alþingis og málinu þar með lokið. Svarið byggðist á tillögu kjörbréfanefndar, umfjöllun um málið á Alþingi og samþykkt þingsins á tillögunni.

     5.      Hvaða reglur gilda um málsmeðferð slíkra kærumála?

    Fyrirmæli eru í 118. gr. laga um kosningar til Alþingis um kærur af þessu tagi. Sérhver kjósandi á kærurétt telji hann frambjóðanda sem hlotið hefur kosningu skorta einhver kjörgengisskilyrði eða að framboðslisti hafi verið ólöglega boðinn fram eða kosinn svo að ógilda beri kosninguna. Kæru skal bera fram í tvíriti innan fjögurra vikna frá því að kosningaúrslit voru auglýst en þó áður en næsta Alþingi kemur saman. Hún skal send dómsmálaráðuneytinu sem tilkynnir umboðsmönnum viðkomandi framboðslista um kæruna með því að senda þeim annað samrit hennar. Hitt samritið skal leggja fyrir Alþingi í þingbyrjun, sbr. enn fremur 4. mgr. 5. gr. þingskapa.
    Alþingi ber skv. 1. mgr. 120. gr. laga um kosningar til Alþingis að rannsaka kæruna og fella úrskurð um hana jafnframt því sem það rannsakar kjörbréf hvers nýkjörins þingmanns ásamt gögnum þeim er Alþingi hafa borist frá landskjörstjórn og yfirkjörstjórn viðvíkjandi kosningu hans. Um úrskurð Alþingis um gildi kosningarinnar er vísað til þingskapa. Í ákvæðinu og í 121. gr. er síðan vikið að áhrifum þess ef Alþingi telur annmarka á kosningu einstaks þingmanns eða framboðslista leiða til ógildingar kosningarinnar.
    Ljóst er af 2. mgr. 1. gr. og 4. gr. þingskapa að kærur af þessu tagi ber að leggja fyrir kjörbréfanefnd en hún skal eins og áður segir gera tillögu til Alþingis um hvort kosning skuli talin gild. Við tillögugerðina tekur hún afstöðu til kærunnar.
    Fyrirmæli eru í þingsköpum um meðferð tillagna kjörbréfanefndar á Alþingi. Heimilt er skv. 2. mgr. 1. gr. þingskapa að bera hana upp munnlega, án nokkurs fyrirvara og greiða atkvæði um þær í einu lagi. Við umræðuna gilda sömu reglur og við aðra umræðu um lagafrumvörp. Sömu reglur gilda um umræðuna ef kjörbréfanefnd lætur uppi skriflega tillögu eða ef hún leggur til að kosning skuli teljast ógild, sbr. 2. mgr. 4. gr. þingskapa. Þingmenn geta komið með breytingartillögur og tekið til máls í samræmi við almennar reglur. Þá er þinginu heimilt að fresta því að taka kosningu gilda til þess að fá skýrslur, sbr. 1. mgr. 5. gr. þingskapa. Við prófun kosninga og kjörgengis hefur sérhver þingmaður fullan þingmannsrétt, sbr. 5. mgr. 5. gr. þingskapa. Ef þingið frestar að úrskurða um kjörbréf þingmanns er honum á hinn bóginn óheimilt að taka þátt í störfum þingsins uns málið hefur verið útkljáð og kosning hans og kjörgengi verið viðurkennd.
    Fyrirmæli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem fjalla um málsmeðferð við töku stjórnvaldsákvarðana, einskorðast við ákvörðunartöku handhafa framkvæmdarvalds en gilda ekki um starfsemi Alþingis. Þau eiga því ekki við um meðferð Alþingis á kærum út af alþingiskosningum.