Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 543. máls.

Þskj. 933  —  543. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 44/2002, um geislavarnir,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                  Einstaklingum yngri en 18 ára eru óheimil afnot af sólarlömpum, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð. Um eftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     b.      Við 2. mgr. bætist: og öðrum takmörkunum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í heilbrigðisráðuneytinu í samstarfi við Geislavarnir ríkisins. Með því er lagt til að einstaklingum yngri en 18 ára verði bannað að nota sólarlampa eða ljósabekki eins og rætt er um í daglegu tali. Bannið er sett á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og í ljósi þess að útfjólublá geislun frá sólarlömpum er nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi.
Útfjólublá geislun eykur marktækt líkur á húðkrabbameinum. Börn og ungmenni eru viðkvæmari en aðrir fyrir henni. Þeir sem sólbrenna ungir eiga frekar á hættu að fá illkynja sortuæxli síðar á ævinni. Illkynja sortuæxli eru talin alvarlegasta gerð húðkrabbameina. Samkvæmt alþjóðlega viðurkenndri meginreglu í geislavörnum skal sérhver notkun geislunar vera réttlætanleg, þannig að gagn vegi þyngra en skaði.
    Árið 2005 ráðlögðu norrænar geislavarnastofnanir ungmennum undir 18 ára aldri og fólki með ljósa húð að nota ekki ljósabekki. Umfjöllun og yfirlýsinguna sjálfa er að finna á vefslóðinni www.gr.is/frettir/nr/167. Í sameiginlegri yfirlýsingu fjögurra geislavarnastofnana Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Íslands frá 11. nóvember 2009 er nú lagt til að 18 ára aldurstakmark verði sett varðandi notkun ljósabekkja. Umfjöllun og yfirlýsinguna sjálfa er að finna á vefslóðinni www.gr.is/frettir/nr/409. Þá tilkynnti Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum (IARC) í Lyon, sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), þann 29. júlí 2009 að útfjólublá geislun frá ljósabekkjum væri nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi en hún hafði áður verið flokkuð sem líklega krabbameinsvaldandi. Í tilkynningu stofnunarinnar kemur fram að hætta á húðkrabbameini eykst verulega ef notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur.
    Í samræmi við þessa þróun hafa Geislavarnir ríkisins nú gert tillögu til heilbrigðisráðuneytisins um að það beiti sér fyrir innleiðingu 18 ára aldurstakmarks vegna notkunar sólarlampa í fegrunarskyni. Aldursmörkunum er ætlað að taka til notkunar sólarlampa á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo sem á sólbaðsstofum, heilsuræktarstöðvum og íþróttamiðstöðvum. Samstarfshópur um útfjólubláa geislun styður þessa tillögu eindregið en í hópnum eru, auk fulltrúa Geislavarna ríkisins, fulltrúi Krabbameinsfélagsins, landlæknis, Lýðheilsustöðvar og Félags húðlækna.
    Á vegum samstarfshóps um útfjólubláa geislun hefur Capacent-Gallup gert árlegar kannanir á notkun ljósabekkja frá árinu 2004, annars vegar meðal 1300 manna þjóðarúrtaks 16–75 ára og hins vegar meðal 1800 manna úrtaks ungmenna 12–23 ára. Notendum á aldrinum 12–23 ára hefur fækkað marktækt frá árinu 2004 en engu að síður er fækkunin ekki jafnmikil og kannanir meðal 16–75 ára hafa sýnt. Á meðal 12–15 ára grunnskólanemenda mældist mikil fækkun notenda árið 2004 þegar átakinu Hættan er ljós var hleypt af stokkunum en því var sérstaklega beint gegn notkun fermingarbarna á ljósabekkjum. Á seinni árum hefur notendum í þessum aldurshópi hins vegar ekki fækkað. Niðurstöðurnar benda til þess að erfitt sé að hafa langvarandi áhrif á lífsvenjur unglinga með kynningarstarfi og fræðslu.
    Þess ber að geta að í könnun sem gerð var í desember 2009 á vegum Lýðheilsustöðvar um viðhorf til lagasetningar um bann við ljósabekkjanotkun ungmenna undir 18 ára aldri kom fram að yfir 72% þátttakenda væru hlynntir slíkri lagasetningu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

     Um a-lið.
    Hér er lagt til að bannað verði með lögum að börn og ungmenni undir 18 ára aldri geti notað sólarlampa eða ljósabekki á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo sem á sólbaðsstofum, heilsuræktarstöðvum og íþróttamiðstöðvum. Á grundvelli heilbrigðissjónarmiða þykir rétt að sporna við notkun ungmenna á sólarlömpum vegna skaðlegra áhrifa þeirra á unga húð. Gert er ráð fyrir að eftirlit verði á hendi heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaga samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Bannið kemur ekki í veg fyrir að sólarlampar séu notaðir að læknisráði.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti útfært bannið nánar í reglugerð. Er þar m.a. haft í huga framvísun skírteina til að sýna fram á aldur viðskiptavina, merkingar á viðkomandi stað og á tækjunum sjálfum.
     Um b-lið.
    Með ákvæðinu er lagt til að reglugerðarheimild 2. mgr. 9. gr. verði útvíkkuð og við hana bætist að ráðherra geti í reglugerð mælt fyrir um að notkun geislatækja sem gefa frá sér ójónandi geislun geti verið háð takmörkunum. Eru þar t.d. höfð í huga skilyrði um merkingar, þ.m.t. viðvaranir um hættu af notkun sólarlampa.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir að verði frumvarp þetta að lögum taki ákvæði þess gildi 1. janúar 2011. Þannig gefst tími fyrir þá aðila sem veita almenningi aðgang að sólarlömpum að laga sig að þeim breyttu reglum sem frumvarpið felur í sér.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/2002,
um geislavarnir, með síðari breytingum

    Með frumvarpinu er lagt til að lögum nr. 44/2002 um geislavarnir verði breytt þannig að einstaklingum yngri en 18 ára verði óheimil, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, afnot af sólarlömpum á stöðum sem almenningur hefur aðgang að.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.