Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.

Þskj. 946  —  556. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna
við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist: til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna.

2. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: þar á meðal vanefndir framseljanda á skyldum sínum fyrir aðilaskiptin.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, var ætlað að innleiða tilskipun nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti. Í ljósi túlkunar Hæstaréttar Íslands á 1. mgr. 3. gr. laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum í máli nr. 375/ 2004, Blaðamannafélag Íslands gegn Frétt ehf., hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir við fyrrnefnt ákvæði laganna en því er ætlað að innleiða 3. gr. umræddrar tilskipunar. Mál þetta varðaði ágreining um greiðslu vangoldinna launa blaðamanns er starfaði hjá Fréttablaðinu ehf. í kjölfar aðilaskipta að félaginu. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að aðilaskipti hefðu farið fram að félaginu Fréttablaðinu ehf. í skilningi laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er félagið Frétt ehf. tók yfir rekstur Fréttablaðsins ehf. sumarið 2002. Hins vegar taldi dómstóllinn að 1. mgr. 3. gr. laganna ætti eingöngu við um réttarstöðu starfsmanna en ekki skuldir framseljanda. Var því talið að réttur blaðamannsins til ógreiddra launa sem komu til fyrir aðilaskiptin yrði ekki byggður á lögunum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Engu síður hafi framsalshafa borið að virða ráðningarsamning blaðamannsins við framseljanda frá kaupsamningsdegi og þar til nýr ráðningarsamningur var gerður milli starfsmannsins og framsalshafa.
    Eftirlitsstofnun EFTA telur þessa túlkun Hæstaréttar ekki vera í samræmi við dómafordæmi Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins í málum er varða túlkun á 3. gr. tilskipunarinnar. Í þessu sambandi ber að geta þess að almennt er lögð áhersla á að líta skuli til fordæma Evrópudómstólsins í málum er varða túlkun á efni tilskipana og hefur fyrri tilskipunum Evrópusambandsins um þetta efni meðal annars verið breytt með vísan til fordæma dómstólsins. Því ber við túlkun innlendra laga aðildarríkjanna sem ætlað er að innleiða tilskipunina að líta til túlkunar Evrópudómstólsins á ákvæðum tilskipunarinnar. Hið sama gildir við túlkun þeirra laga sem ætlað er að innleiða tilskipunina í ríkjunum sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en þá ber jafnframt að líta til fordæma EFTA-dómstólsins. Evrópudómstóllinn hefur meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að tilgangur tilskipunarinnar sé að tryggja réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum þannig að þeir geti haldið áfram að starfa fyrir nýjan vinnuveitanda á grundvelli sömu starfsskilyrða og þeir höfðu hjá fyrri vinnuveitanda. Enn fremur verði að líta á reglur tilskipunarinnar sem ófrávíkjanlegar (e. mandatory) og því ekki unnt að semja sig frá þeim þannig að þær verði starfsmönnum í óhag. Í því sambandi má nefna að í máli nr. C-305/94 ( Rotsart) komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að í ljósi þessarar lögboðnu verndar sem tilskipuninni væri ætlað að veita starfsmönnum við aðilaskipti að fyrirtækjum geti aðilaskipti að ráðningarsamningi ekki verið háð vilja framsalshafa eða framseljanda auk þess sem framsalshafi geti ekki hindrað aðilaskiptin með því að neita að uppfylla skyldur sínar. Þannig færist ráðningarsamningurinn milli framseljanda og launamanns í fyrirtækinu sjálfkrafa frá framseljanda til framsalshafa eingöngu vegna aðilaskiptanna (e. by the mere fact of the transfer of the undertaking) án tillits til gagnstæðs vilja framseljanda eða framsalshafa og þrátt fyrir mótmæli þess síðarnefnda um að uppfylla skyldur sínar. Enn fremur hefur Evrópudómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að framseljandi sé laus allra skuldbindinga á grundvelli ráðningarsambandsins að því gefnu að landslög leggi ekki sameiginlega ábyrgð á framsalshafa og framseljanda eftir að aðilaskiptin hafa farið fram eins og tilskipunin heimilar. Í þessu sambandi má nefna að í máli nr. C-144 og 145/87 ( Harry Berg) komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að framseljandinn hafi verið laus frá skyldum sínum sem vinnuveitandi eingöngu vegna aðilaskiptanna og að þau réttaráhrif aðilaskiptanna hafi ekki verið háð samþykki hlutaðeigandi starfsmanna.
    Þá hefur EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að framseljandi verði laus frá skyldum sínum á grundvelli ráðningarsambandsins og jafnframt að réttindi starfsmanna verði eingöngu varin séu allar þær skyldur sem um er að ræða færðar yfir til framsalshafa frá dagsetningu aðilaskiptanna, sbr. mál nr. E-2/04 ( Rassmusssen).
    Eftirlitsstofnun EFTA bendir á að Hæstiréttur Íslands hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ábyrgðin á vangreiddum launum sem komu til fyrir framsalið liggi eingöngu á herðum framseljanda enda þótt sýnt hafi verið fram á að aðilaskipti hafi orðið að rekstri félagsins í skilningi laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Sú túlkun að framseljandi beri einn ábyrgð á hugsanlegum vanefndum á réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem séu fyrir hendi á þeim degi er aðilaskiptin eiga sér stað samræmist hins vegar ekki efni 3. gr. tilskipunarinnar að mati Eftirlitsstofnunarinnar því þar sé gert ráð fyrir að framsalshafi taki við réttindum og skyldum framseljanda á þeim degi er aðilaskipti eiga sér staða nema lög heimili að framsalshafi og framseljandi beri sameiginlega ábyrgð.
    Við innleiðingu tilskipunar nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti, hér á landi með lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, var ekki gert ráð fyrir að framseljandi og framsalshafi bæru sameiginlega ábyrgð eins og tilskipunin gerir ráð fyrir að aðildarríkin geti ákveðið heldur eingöngu að réttindi og skyldur á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands færðust yfir til framsalshafa.
    Eftirlitsstofnun EFTA bendir á að þrátt fyrir að orðalag ákvæðis 1. mgr. 3. gr. laganna útiloki ekki samkvæmt orðanna hljóðan að greiðsla vangreiddra launa falli undir ákvæðið verði að horfa til þeirrar túlkunar sem Hæstiréttur hefur viðhaft á ákvæðinu í dómum sínum. Í ljósi þess verði ekki talið að ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna feli í sér með fullnægjandi hætti innleiðingu á efni 3. gr. tilskipunarinnar nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti. Því er í frumvarpi þessu lögð til breyting á ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna í því skyni að orðalag þess samræmist betur þeirri túlkun Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins á 3. gr. tilskipunarinnar sem rakin er hér að framan. Breytingin hefur það í för með sér að við aðilaskipti tekur framsalshafi yfir réttindi og skyldur framseljanda, þar með taldar vanefndir á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands sem komu til fyrir aðilaskiptin, og tekur breytingin þannig af allan vafa hvað þetta varðar.
    Jafnframt er lögð til breyting á 1. mgr. 1. gr. laganna en við þá breytingu sem gerð var á lögunum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum með lögum nr. 108/2006, um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, virðist sem fallið hafi brott seinni hluti þágildandi 1. mgr. 1. gr. laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í ljósi þess að með lögum nr. 108/2006 var ekki ætlunin að breyta gildissviði laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum að þessu leyti er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt í fyrra horf.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til breytingar á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum

    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum nr. 22/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er verið að breyta ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna í því skyni að orðalag þess samræmist betur þeirri túlkun Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins á 3. gr. tilskipunarinnar nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti. Er þessi breyting gerð eftir ábendingu frá Eftirlitsstofnunar EFTA. Í öðru lagi er lögð til breyting á 1. mgr. 1. gr. laganna þar sem orðalagi ákvæðisins er breytt í fyrra horf en með breytingum sem gerðar var á lögunum árið 2006 virðist sem fallið hafi á brott seinni hluti þágildandi 1. mgr. 1. gr. laganna.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.