Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 560. máls.

Þskj. 950  —  560. mál.



Frumvarp til laga

um greiðsluaðlögun einstaklinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið laganna.

    Markmið laga þessara er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.
    Að uppfylltum skilyrðum laga þessara er einstaklingum heimilt í kjölfar gagnaöflunar að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að hann samþykki umsókn um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun, annaðhvort með samningi við kröfuhafa (frjáls greiðsluaðlögun) eða með úrskurði héraðsdóms um staðfestingu á frumvarpi til greiðsluaðlögunar (þvinguð greiðsluaðlögun) náist ekki samningar við kröfuhafa.

2. gr.
Gildissvið og skilyrði greiðsluaðlögunar.

    Greiðsluaðlögun tekur til allra fjárskuldbindinga einstaklings, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í lögum þessum.
    Einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar getur leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lög þessi. Einstaklingur telst ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar á næstu árum með tilliti til eðlis skuldanna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
    Lögin taka þó ekki til einstaklinga, sem hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu lítill hluti af heildarskuldum.
    Eigi tveir eða fleiri einstaklingar veðtryggða fasteign í óskiptri sameign verða þeir í sameiningu að leita greiðsluaðlögunar, ef greiðsluaðlögun á að taka til veðskulda.
    Hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð geta í sameiningu leitað greiðsluaðlögunar.

3. gr.
Greiðsluaðlögun.

    Með greiðsluaðlögun má kveða á um algera eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, skilmálabreytingar, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn.
    Umboðsmaður skuldara setur verklagsreglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar.

II. KAFLI
Heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
4. gr.
Umsókn um greiðsluaðlögun.

    Skuldari skal leggja umsókn um greiðsluaðlögun fram hjá embætti umboðsmanns skuldara.
    Í umsókninni skal koma fram:
     1.      Fullt nafn skuldara, kennitala hans, lögheimili og dvalarstaður ef hann er annar en lögheimili.
     2.      Sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara.
     3.      Sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda og ábyrgða og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra.
     4.      Hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
     5.      Hvort skuldari hafi borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, einn eða í félagi við aðra, og ef svo er, hve stór hluti skulda hans stafi frá atvinnurekstrinum.
     6.      Mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda sinna, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum.
     7.      Mat skuldara með hliðsjón af framansögðu á því hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa við skuldbindingar sínar.
     8.      Lýsing skuldara á því hvað valdið hafi skuldastöðu hans og hvers vegna hann geti ekki eða sjái ekki fram á að geta staðið að fullu við skuldbindingar sínar.
     9.      Hvort einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar sem kynnu að teljast riftanlegar í skilningi gjaldþrotalaga.
     10.      Hverjir kunna að vera ábyrgðarmenn skuldara, veðþolar hans og samskuldarar og hvort að hann hefur sjálfur gengist í skuldaábyrgð.
     11.      Yfirlýsing um að embætti umboðsmanns skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga, án þess að þagnarskylda þeirra sem búa yfir slíkum upplýsingum hindri það, sé talin þörf á því.
    Upplýsingar samkvæmt framantöldu skal einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum, ef slíks er þörf til að afmarka upplýsingar um útgjöld og tekjur skuldara.
    Umsókninni skulu fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um í reglugerð hvaða upplýsingar einstaklingur sem óskar greiðsluaðlögunar skuli láta af hendi, sem og aðrir sem honum tengjast og hafa sameiginlegt heimilishald.

5. gr.
Aðstoð við gerð umsóknar um greiðsluaðlögun.

    Skuldari á rétt á endurgjaldslausri aðstoð frá umboðsmanni skuldara við að semja umsókn um greiðsluaðlögun og afla gagna í samræmi við ákvæði laga þessara. Skuldari skal þó jafnan sjálfur hafa frumkvæði að öflun nauðsynlegra gagna og koma þeim til umboðsmanns skuldara.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um það í reglugerð hvaða aðstoð skuldara bjóðist við gerð umsóknar og öflun fylgigagna með henni.

6. gr.
Rannsóknarskylda umboðsmanns skuldara.

    Umboðsmaður skuldara skal ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt lögunum og hann getur, ef þörf krefur, krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum.
    Umboðsmaður skuldara skal auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og hegðun skuldara, áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Er umboðsmanni skuldara heimilt að kalla skuldara eða aðra aðila sem málið varðar á sinn fund í því skyni ef þörf krefur.

7. gr.
Aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.

    Synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar ef:
     a.      fyrirliggjandi gögn sýna fram á að skuldari uppfyllir ekki skilyrði laga þessara um að leita greiðsluaðlögunar,
     b.      fullnægjandi gagna hefur ekki verið aflað og skuldari hefur ekki leitast við eftir megni að upplýsa um skuldastöðu sína,
     c.      ekki er unnt að upplýsa um raunverulega skuldastöðu skuldara, t.d. vegna umfangs umdeildra krafna, flókinna eignatengsla eða erlendra skulda,
     d.      aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar,
     e.      skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu, eða
     f.      skuldari hefur áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun. Þó er umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
    Einnig er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef slíkt þykir óhæfilegt. Við mat á slíku skal taka sérstakt tillit til þess hvort:
     a.      stofnað hafi verið til meginhluta skuldanna nýlega og ekki sé um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
     b.      umtalsverður hluti skuldanna eigi rætur að rekja til refsiverðrar háttsemi skuldara samkvæmt dómi,
     c.      skuldari hafi efnt til fjárfestinga eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti,
     d.      skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
     e.      skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

8. gr.
Ákvörðun um greiðsluaðlögun.

    Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að fullbúin umsókn liggur fyrir.
    Samþykki umboðsmaður skuldara umsóknina skal hann upplýsa skuldara um réttinn til að krefjast þvingaðrar greiðsluaðlögunar skv. V. kafla. Jafnframt skal upplýsa skuldara um skyldur sínar skv. 13. gr.
    Ekki er unnt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn til ráðherra. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til félags- og tryggingamálaráðherra innan viku frá því að umsækjanda berst tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara.

9. gr.
Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana.

    Með samþykki umboðsmanns skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefst tímabil greiðsluaðlögunarumleitana og getur það orðið allt að fjórir mánuðir. Umleitunum um frjálsa greiðsluaðlögun skal lokið innan þriggja mánaða og geri skuldari kröfu um þvingaða greiðsluaðlögun skal héraðsdómur kveða upp úrskurð innan mánaðar frá því að krafan barst héraðsdómi.

III. KAFLI
Upphaf frjálsrar greiðsluaðlögunar.
10. gr.
Skipun umsjónarmanns.

    Hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn skuldara um að leita greiðsluaðlögunar skal umboðsmaður skuldara þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður skal hafa lokið embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði. Umsjónarmaður getur verið starfsmaður embættis umboðsmanns skuldara eða annar aðili sem uppfyllir hæfisskilyrði laganna og umboðsmaður skuldara hefur falið að gegna starfinu.

11. gr.
Innköllun krafna.

    Umsjónarmaður skal tafarlaust eftir skipun sína gefa út og fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði innköllun þar sem skorað er á lánardrottna skuldara, sem telja sig eiga kröfur á hendur honum, að lýsa kröfum fyrir umsjónarmanni innan þriggja vikna frá því að innköllunin birtist fyrra sinni. Þegar sérstaklega stendur á getur umsjónarmaður veitt lengri kröfulýsingarfrest, þó ekki lengri en fimm vikur.
    Vanlýst krafa sem vitað er um skal falla undir greiðsluaðlögunina, en viðkomandi kröfuhafa er þá ekki heimilt að hafa afskipti af greiðsluaðlögunarumleitunum.
    Þeim kröfuhöfum sem vitað er um og samábyrgðarmönnum skuldara skal kunngert að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar með því að umsjónarmaður sendir þeim afrit af innkölluninni. Þar skal einnig upplýst hvaða kröfur skuldari hefur gefið upp að viðkomandi kröfuhafi eigi.

12. gr.
Stöðvun greiðslna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

    Þegar umboðsmaður skuldara hefur ákveðið að taka umsókn um greiðsluaðlögun til meðferðar, sbr. 8. gr., hefst greiðslustöðvun, sbr. þó 3. mgr. Í því felst að kröfuhöfum er óheimilt að:
     a.      krefjast eða taka við fullri greiðslu eða hluta af greiðslu eða annars konar greiðslum á kröfum sínum,
     b.      skuldajafna kröfu umsækjanda við kröfu sína nema því aðeins að aðalkrafan og gagnkrafan séu af sömu rót runnar,
     c.      gjaldfella skuldir samkvæmt gjaldfellingarákvæðum,
     d.      gera fjárnám í eigum umsækjanda eða láta selja þær á nauðungaruppboði,
     e.      neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilisfólks, með tilvísan til fyrri vanrækslu á greiðslum, eða
     f.      krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni.
    Vextir falla áfram á skuldir meðan á greiðslufresti stendur en þeir eru ekki gjaldkræfir. Vextir af kröfum sem tryggðar eru með veði í eign sem skuldari fær að halda gjaldfalla þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svarar til verðmætis hinnar veðsettu eignar.
    Greiðslufresturinn nær ekki til krafna um meðlög eða opinber gjöld sem falla til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt.
    Þegar umboðsmaður skuldara hefur ákveðið að taka umsókn um greiðsluaðlögun til meðferðar, sbr. 8. gr., frestast nauðungarsala sem leitað kann að hafa verið á eignum skuldara, meðan reynt er að koma greiðsluaðlögun á.

13. gr.
Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun.

    Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari:
     a.      leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem skuldari þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða,
     b.      segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg skuldara eða heimili hans til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds,
     c.      ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta kröfuhöfum sem greiðsla, nema með samþykki umsjónarmanns,
     d.      ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni kröfuhafa, nema með samþykki umsjónarmanns.
    Telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 17. gr.

14. gr.
Sala eigna skuldara.

    Telji umsjónarmaður það bersýnilega ósanngjarnt að skuldari haldi eftir tilteknum eignum getur hann ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í vafatilvikum skal umsjónarmaður leita nánari upplýsinga frá skuldara og kanna afstöðu kröfuhafa ef kostur er á og nauðsyn krefur.
    Eigi skuldari eignir sem umsjónarmaður ákveður að skuli selja skal ákvörðun umboðsmanns skuldara um að heimila greiðsluaðlögun hafa sömu réttaráhrif og greiðslustöðvun, eftir því sem við getur átt, sbr. 2. þátt laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Eignir skal selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Umsjónarmaður ákveður hvernig sala fer fram og annast söluna sjálfur, nema hann taki sérstaka ákvörðun um annað. Er skuldara skylt að annast söluna sjálfur ef umsjónarmaður ákveður það.
    Umsjónarmaður skal gera veðhöfum viðvart um söluna með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Með sérstöku samþykki umsjónarmanns má aðili sem hefur eignarréttarfyrirvara í viðkomandi eign taka eignina aftur.
    Að sölu lokinni falla niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu sé um veðsettar eignir að ræða. Ef þess gerist þörf ákveður umsjónarmaður hvaða veðréttindi falla niður að lokinni sölu.
    Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 17. gr.

15. gr.
Mat á eignum sem skal halda eftir.

    Umsjónarmaður metur verðmæti þeirra eigna sem skuldara er ekki gert að selja, telji hann það nauðsynlegt. Ef um fasteign er að ræða skal umsjónarmaður almennt miða við mat Fasteignaskrár Íslands.
    Kröfuhafi getur á eigin kostnað óskað mats sérfróðra aðila fallist hann ekki á mat umsjónarmanns.

16. gr.
Tímabil greiðsluaðlögunar.

    Tímabil greiðsluaðlögunar, hvort heldur hún er samkvæmt samkomulagi um frjálsa greiðsluaðlögun eða úrskurði héraðsdóms um þvingaða greiðsluaðlögun, skal að jafnaði vera tvö til fimm ár. Tímabilið skal reikna frá því að samningur kemst á milli skuldara og kröfuhafa eða frá úrskurði héraðsdóms um þvingaða greiðsluaðlögun.

17. gr.
Niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana.

    Ef fram koma upplýsingar sem ætla má að muni hindra að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga þessara skal umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana getur skuldari kært til félags- og tryggingamálaráðherra innan viku frá því að ákvörðunin barst honum.

IV. KAFLI
Frjáls greiðsluaðlögun.
18. gr.
Frumvarp til frjálsrar greiðsluaðlögunar.

    Umsjónarmaður skal, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, leggja fram tillögu að frumvarpi til frjálsrar greiðsluaðlögunar. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.
    Tillaga umsjónarmanns skal vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.
    Feli tillaga umsjónarmanns í sér að skuldari inni af hendi reglulegar afborganir á tilteknu tímabili skal umsjónarmaður miða við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum sem með sanngirni má ætla að dugi til að sjá honum og heimilisfólki hans farborða og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu gagnvart samkvæmt lögum. Ef skuldari hefur rétt til umgengni við börn samkvæmt barnalögum skal tekið tillit til eðlilegra útgjalda í tengslum við umgengnina.
    Afborgunarfjárhæð skv. 3. mgr. skal bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar.

19. gr.
Samþykki frjálsrar greiðsluaðlögunar.

    Umsjónarmaður sendir tillögu að frumvarpi skuldara til frjálsrar greiðsluaðlögunar til allra kröfuhafa sem þekktir eru og málið varðar. Kröfuhöfum skal gefinn þriggja vikna frestur, eftir að þeim hefur verið sent frumvarpið, til að taka afstöðu til frumvarpsins.
    Ef umsjónarmaður telur það nauðsynlegt, eða vegna tilmæla frá kröfuhafa, skal boða til sérstaks fundar með skuldara og kröfuhöfum til að ræða greiðsluaðlögunina áður en frumvarp til frjálsrar greiðsluaðlögunar er sent kröfuhöfum. Sé talin ástæða til skulu veðþolar, ábyrgðarmenn, samskuldarar skuldara og eigendur þeirra skulda sem skuldari er ábyrgðarmaður fyrir einnig boðaðir á fundinn.
    Umsjónarmaður skal leitast við að ná samningi milli skuldara, kröfuhafa og ábyrgðarmanna skuldara um greiðsluaðlögun.
    Kröfuhafi skal ekki leggjast gegn frumvarpi til greiðsluaðlögunar að ástæðulausu. Kröfuhafi sem leggst gegn frumvarpinu skal gera grein fyrir afstöðu sinni og skila skriflegum rökstuðningi til umsjónarmanns innan tilskilins tíma. Stjórnvöld, innheimtumaður eða fyrirsvarsmaður stofnunar eða félags í eigu opinberra aðila, geta samþykkt frumvarp til greiðsluaðlögunar án tillits til ákvæða í öðrum lögum, reglugerðum eða samþykktum, hvað varðar aðrar kröfur en sektir.
    Frumvarp til greiðsluaðlögunar telst samþykkt þegar allir kröfuhafar sem málið snertir hafa samþykkt það. Kröfuhafi sem hefur fengið senda tilkynningu í samræmi við 1. mgr. og hefur ekki lagst gegn frumvarpinu áður en þriggja vikna fresturinn rann út telst hafa samþykkt frumvarpið.
    Ef samningur um greiðsluaðlögun tekst skulu skuldari, kröfuhafar og ábyrgðarmenn skuldara undirrita hann og tekur hann þá þegar gildi.

V. KAFLI
Þvinguð greiðsluaðlögun.
20. gr.
Krafa um þvingaða greiðsluaðlögun.

    Ef skuldari og kröfuhafar komast ekki að samkomulagi um frjálsa greiðsluaðlögun getur skuldari krafist þess að umsjónarmaður sendi kröfu um þvingaða greiðsluaðlögun til héraðsdóms.
    Krafa um þvingaða greiðsluaðlögun skal hafa borist umsjónarmanni eigi síðar en tveimur vikum eftir að ljóst er að samkomulag um frjálsa greiðsluaðlögun hefur ekki tekist. Þá skal umsjónarmaður þegar í stað senda kröfuna til héraðsdóms í því umdæmi þar sem embætti umboðsmanns hefur aðsetur ásamt tillögu umsjónarmanns að frumvarpi til greiðsluaðlögunar sem ekki náðist samkomulag um og öðrum málsgögnum.
    Ef krafist er þvingaðrar greiðsluaðlögunar framlengist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana um einn mánuð. Ef úrskurður héraðsdóms um neitun staðfestingar á þvingaðri greiðsluaðlögun er kærður eða ef Hæstiréttur fellir úr gildi úrskurð héraðsdóms um þvingaða greiðsluaðlögun skal líta svo á að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana standi þar til dómstólar hafa afgreitt málið.

21. gr.
Málsmeðferð fyrir héraðsdómi.

    Héraðsdómur skal þegar í stað tilkynna öllum kröfuhöfum um kröfu skuldara um þvingaða greiðsluaðlögun. Tilkynningunni skal fylgja fyrirliggjandi frumvarp til greiðsluaðlögunar. Þar skal þess einnig getið að kröfuhöfum sé heimilt að senda inn skriflega umsögn um málið innan tveggja vikna. Skuldara er einnig heimilt að senda inn sína umsögn innan sama frests.
Að loknum umsagnarfresti skal héraðsdómari boða til þinghalds þar sem málið er tekið til meðferðar. Gefst skuldara, umsjónarmanni og kröfuhöfum þar tækifæri til að gera stuttlega grein fyrir athugasemdum sínum við fyrirliggjandi frumvarp. Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð um kröfu skuldara áður en tímabili greiðsluaðlögunarumleitana lýkur. Héraðsdómur getur framlengt tímabil greiðsluaðlögunarumleitana ef þess gerist brýn þörf.

22. gr.
Staðfesting héraðsdóms.

    Héraðsdómur skal staðfesta kröfu skuldara um þvingaða greiðsluaðlögun með úrskurði ef hún uppfyllir skilyrði laganna. Héraðsdómur skal hins vegar neita um staðfestingu ef:
     a.      óhæfilegt væri að mati dómara að staðfesta greiðsluaðlögunina,
     b.      fyrir liggja gallar á málsmeðferðinni sem ekki hefur verið ráðin bót á og hafa augljóslega haft áhrif á gerð frumvarps um greiðsluaðlögun, eða
     c.      svo margar af kröfum á hendur skuldara eru umdeildar að ekki er grundvöllur fyrir því að úrskurða um kröfu skuldara.
    Héraðsdómi er heimilt að gera breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi til greiðsluaðlögunar á grundvelli gagna málsins og þeirra athugasemda sem dóminum hafa borist.
    Úrskurð héraðsdóms skal kynna skuldara og kröfuhöfum á þann hátt sem héraðsdómur ákveður. Úrskurðinn má kæra til Hæstaréttar innan tveggja vikna frá úrskurði héraðsdóms.

23. gr.

    Sé bú einstaklings undir gjaldþrotaskiptum er heimilt að ljúka þeim með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í stað þess að þrotamaður leggi frumvarp að nauðasamningi fyrir skiptastjóra og hann láti greiða atkvæði um það skal þrotamaðurinn þá leggja fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun og hann síðan leita greiðsluaðlögunar á sama hátt og umsjónarmaður hefði ella gert á grundvelli V. kafla laga þessara, en um þetta skal beitt fyrirmælum XXI. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum laga þessara.

VI. KAFLI
Greiðsla til kröfuhafa.
24. gr.
Skipting greiðslna milli kröfuhafa og undantekningar.

    Greiðsluaðlögun nær til allra fjárskuldbindinga skuldara, nema annað sé tekið fram í lögum þessum.
    Þær eignir eða afborganir sem skipta skal milli kröfuhafa skiptast hlutfallslega eftir fjárhæð krafna með eftirfarandi undantekningum:
     a.      Kröfur tryggðar með veði. Ef skuldari heldur eftir eignum sem tryggðar eru með veði skal hann, meðan á greiðsluaðlögun stendur, greiða af veðkröfum umsamda vexti eða tiltekið hlutfall vaxta af kröfum sem eru innan matsverðs hinnar veðsettu eignar, sbr. 12. gr. Unnt er að semja um að ekki skuli greiða afborganir af þeim hluta höfuðstóls veðkröfu sem er innan matsverðs hinnar veðsettu eignar meðan á greiðsluaðlögun stendur, sbr. ákvæði 3. gr. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.
                  Sá hluti veðtryggðra krafna sem er yfir matsverði þeirra eignar sem stendur til tryggingar skal greiddur samkvæmt greiðsluaðlöguninni á sama hátt og óveðtryggðar kröfur. Falla þær niður að öðru leyti þegar skuldari hefur fullnægt skyldum sínum og greiðsluaðlögun lýkur.
     b.      Kröfur um opinber gjöld. Greiðsluaðlögunin nær ekki til opinberra gjalda sem falla til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar var veitt.
     c.      Framfærslu- og meðlagsskyldur: Meðlag og lífeyri sem skuldara ber að greiða samkvæmt hjúskapar- eða barnalögum, að undanskilinni uppsafnaðri skuld við hið opinbera vegna meðlags, skal greiða að fullu.
     d.      Kröfur sem eiga rætur að rekja til refsiverðs athæfis. Fésektir, sem ákveðnar hafa verið með dómi eða sátt á síðustu þremur árum áður en umsókn um greiðsluaðlögun var lögð fram, skal greiða að fullu. Aðrar sektir falla undir greiðsluaðlögunina. Kröfur um skaða- eða miskabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi skulu greiddar að fullu.
     e.      Minni háttar kröfur. Kröfur sem nema lágum fjárhæðum skulu greiddar að fullu ef umsjónarmaður telur slíkt sanngjarnt og viðeigandi með tilliti til framkvæmdar greiðsluaðlögunar.
     f.      Vextir og útgjöld. Vexti og annan kostnað vegna krafna má greiða í lægra hlutfalli en aðrar kröfur ef ríkar ástæður eru til þess.
     g.      Eðli kröfunnar. Umsjónarmaður getur ákveðið að greiða skuli hærra hlutfall af tilteknum kröfum ef ríkar ástæður eru til þess.
     h.      Námslán. Skuldir vegna námslána falla ekki undir greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður skal þó almennt leggja til að afborganir námslána falli niður á greiðsluaðlögunartíma.
    Ef ekki er unnt að uppfylla kröfur skv. b- til d-lið 1. mgr. og viðkomandi kröfuhafar fallast ekki á lækkun krafnanna verður greiðsluaðlögun ekki við komið.
    Sá hluti skulda sem felldur er niður samkvæmt greiðsluaðlögun myndar ekki skattstofn og skerðir ekki rétt skuldara til hvers konar greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.
    Skuldara er skylt í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun að koma því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni.

25. gr.
Umdeildar kröfur.

    Ef krafa er umdeild að mati umsjónarmanns skal leggja fjármuni til hliðar til að greiða hana. Komi í ljós að skuldara beri að greiða kröfuna fellur hún undir ákvæði greiðsluaðlögunarinnar. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir, með málshöfðun eða öðrum aðgerðum, til þess að fá skorið úr gildi kröfunnar innan sex mánaða frá því að greiðsluaðlögun var samþykkt skal fjármununum skipt milli þeirra kröfuhafa sem greiðsluaðlögunin nær til.

26. gr.
Tryggingarkröfur.

    Ef skuldari er skuldbundinn til að greiða fé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sem hann hefur gefið áður en meðferð beiðni um greiðsluaðlögun hófst, en skylda samkvæmt þeirri yfirlýsingu er enn ekki virk þegar greiðsluaðlögun tekur gildi, skal ekki gert ráð fyrir skuldbindingunni við greiðsluaðlögunina. Verði ábyrgðarskuldbinding virk síðar skal farið eftir ákvæðum laga þessara um breytingar á greiðsluaðlögun eins og við getur átt. Skuldara ber þó ekki að greiða meira af þeirri skuld sem hann hefur tekið ábyrgð á en nemur því hlutfalli af óveðtryggðum kröfum sem honum ber að greiða samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

VII. KAFLI
Breyting, riftun eða ógilding greiðsluaðlögunar.
27. gr.     
Breyting á greiðsluaðlögun að kröfu skuldara.

    Skuldari getur krafist þess að gerðar verði breytingar á skilmálum greiðsluaðlögunar ef á greiðsluaðlögunartímabilinu koma upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt greiðsluaðlöguninni.
    Ef skuldara hefur eftir að greiðsluaðlögunartímabil hófst verið gert kunnugt um kröfu sem stofnaðist fyrir upphaf greiðsluaðlögunarinnar en greiðsluaðlögunin náði ekki til getur hann krafist þess að viðkomandi krafa verði felld undir greiðsluaðlögunina. Verði svo gert skal krafan metin í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunarinnar og af henni greitt í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum, þó einungis frá þeim tíma sem krafan var kynnt skuldara. Skuldara er óheimilt að greiða kröfuna utan greiðsluaðlögunar, nema fyrir liggi samþykki allra kröfuhafa.
    Ekki er unnt að krefjast breytinga í samræmi við þessa grein fyrr en skuldari hefur fullreynt að ná þeim fram með frjálsum samningum við alla kröfuhafa. Náist slíkt samkomulag skal það lagt fyrir umboðsmann skuldara og taka breytingarnar ekki gildi fyrr en umboðsmaður skuldara hefur samþykkt þær. Telji umboðsmaður skuldara breytingarnar ósanngjarnar eða óhæfilegar skal hann hafna þeim. Ákvörðun umboðsmanns skuldara þess efnis má kæra til félags- og tryggingamálaráðherra.

28. gr.
Breyting, riftun eða ógilding greiðsluaðlögunar að kröfu kröfuhafa.

    Kröfuhafi, sem greiðsluaðlögunin nær til, getur krafist þess að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Hafi fjárhagsstaðan batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárupphæð getur kröfuhafi krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli kröfuhafa án þess að greiðsluaðlöguninni sé breytt að öðru leyti.
    Kröfuhafi, sem greiðsluaðlögunin nær til, getur krafist þess að greiðsluaðlögun verði rift eða hún ógilt ef skuldari hefur gerst sekur um óráðvendni eða vanrækt gróflega skyldur sínar samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

29. gr.
Þinghald og málsmeðferð vegna breytinga, riftunar eða ógildingar á greiðsluaðlögun.

    Kröfu um breytingu á samningi um frjálsa greiðsluaðlögun skal beint til umboðsmanns skuldara með skriflegu erindi. Umboðsmaður skuldara sendir aðilum sem málið varðar framkomið erindi og kallar eftir nauðsynlegum upplýsingum. Boðað skal til fundar ef kröfuhafi eða skuldari krefst þess eða umboðsmaður skuldara telur það nauðsynlegt. Umboðsmaður skuldara skal innan mánaðar frá viðtöku kröfu taka ákvörðun um erindið. Ákvörðun umboðsmanns skuldara má kæra til félags- og tryggingamálaráðherra.
    Kröfu um breytingu á þvingaðri greiðsluaðlögun skal beint til héraðsdóms með skriflegu erindi. Skuldara og kröfuhöfum skal gefinn kostur á að gera skriflega grein fyrir afstöðu sinni til kröfunnar. Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð í málinu innan mánaðar frá því að krafan barst dóminum.
    Um kröfur er varða riftun eða ógildingu greiðsluaðlögunar fer skv. 2. mgr.

30. gr.
Upplýsingaskylda skuldara gagnvart kröfuhöfum.

    Ef upp koma aðstæður sem skuldari veit eða má vita að veiti kröfuhöfum rétt til að ógilda eða rifta greiðsluaðlögun, sbr. 28. gr., skal hann innan sanngjarns tíma og á tryggan hátt upplýsa kröfuhafana um þær aðstæður.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
31. gr.
Skráning greiðsluaðlögunar o.fl.

    Umsjónarmaður skal óska eftir því að athugasemd um samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á, til að tryggja rétt kröfuhafa gagnvart réttindum þriðja manns. Skal sú skráning vera gjaldfrjáls.
    Umboðsmaður skuldara skal halda skrá yfir alla sem fengið hafa heimild til greiðsluaðlögunar.
    Þegar greiðsluaðlögunartímabil er liðið skulu yfirvöld og eftirlitsaðilar einungis nota upplýsingar um greiðsluaðlögun skuldara til að kanna hvort skuldari hafi áður fengið greiðsluaðlögun í samræmi við lög þessi.
    Hafi skuldari fengið að halda eftir veðsettum eignum meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur samkvæmt lögum þessum og eignirnar eru skráðar í opinberum skrám skal skrá athugasemd um greiðsluaðlögunina þar.
    Félags- og tryggingamálaráðherra getur gefið frekari fyrirmæli í reglugerð um skráningu greiðsluaðlögunar eða samningaviðræðna um greiðsluaðlögun.

32. gr.
Veðbönd afmáð eftir að greiðsluaðlögun er lokið.

    Þegar greiðsluaðlögun er lokið getur skuldari krafist aflýsingar á veðkröfum sem eru umfram matsverð þeirrar eignar sem stendur til tryggingar í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunarinnar.

33. gr.
Skipting söluandvirðis eigna skv. 14. gr. þegar greiðsluaðlögun hefur ekki komist á.

    Ef greiðsluaðlögun kemst ekki á skiptir umboðsmaður skuldara fjármunum sem lagðir hafa verið til hliðar skv. 14. gr. milli kröfuhafa, þó þannig að kröfuhafar með forgangskröfur vegna kostnaðar fái greiðslur fyrst. Þegar kröfuhafar sem hafa lagt út fé með undangengnum kröfum um greiðslur hafa fengið það sem þeim ber má skipta þeim fjármunum sem umfram eru á annan hátt, ef hlutfallsleg skipting hefði óeðlilegar afleiðingar fyrir skuldara. Við mat á því skal tekið tillit til þess hvort skuldari á gjaldfallnar og ógreiddar skuldir sem tryggðar eru með veði í eigin íbúð.

34. gr.
Ábyrgð skuldara á útgjöldum.

    Sá sem af ásetningi eða gáleysi stofnar til greiðsluaðlögunar í samræmi við þessi lög án tilefnis er skuldbundinn til að endurgreiða allan kostnað hins opinbera og kostnað kröfuhafa vegna málsins.

35. gr.
Greiðsla málskostnaðar.

    Umboðsmaður skuldara ber kostnað vegna meðferðar umsóknar um greiðsluaðlögun og starfa umsjónarmanna. Kröfuhafar greiða þann kostnað sem á þá fellur af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður við sölu eigna greiðist af söluandvirði þeirrar eignar sem seld er.
    Félags- og tryggingamálaráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um greiðslu málskostnaðar samkvæmt þessari grein.

36. gr.
Kröfur sem hefur ekki verið tilkynnt um.

    Samningskröfur sem stofnuðust fyrir upphaf tímabils greiðsluaðlögunarumleitana og skuldari hefur ekki verið krafinn um að greiða á greiðsluaðlögunartímabilinu falla niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.

37. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

38. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

     1.      Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, með síðari breytingum: 3. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. greiðsluaðlögun, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur á hendur lántaka eða aðalskuldara hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.
     2.      Frá 1. júní 2011 verða eftirfarandi breytingar á lögum:
                  a.      X. kafli a laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, o.fl., með síðari breytingum, fellur brott.
              b.      Lög nr. 65/1996, um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga, falla brott.
              c.      Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði:
                   a.    2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Um meðferð hennar fyrir dómi og heimild til málskots gilda sömu reglur og um meðferð beiðni um þvingaða greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga.
                   b.    1. og 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Taki héraðsdómari til greina beiðni skal hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Um skipun og stöðu umsjónarmanns með greiðsluaðlögun fer skv. 2. mgr. 39. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir gildistöku laga þessara verður unnt að sækja um greiðsluaðlögun á grundvelli X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og óska eftir réttaraðstoð á grundvelli laga nr. 65/1996 til ársloka 2010. Skal meðferð umsókna á grundvelli framangreindra laga vera lokið fyrir 1. júní 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennar athugasemdir.
    Frumvarp þetta er flutt af félags- og tryggingamálaráðherra, en það var samið að frumkvæði dómsmála- og mannréttindaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra. Þar sem í frumvarpinu felst að sett verði heilsteypt löggjöf um frjálsa og þvingaða greiðsluaðlögun fyrir einstaklinga þótti rétt að verkefnið yrði á hendi félags- og tryggingamálaráðuneytis, enda um félagslegt úrlausnarefni að ræða.
    Á 116. löggjafarþingi 1992–1993 lögðu þingmennirnir Össur Skarphéðinsson og Sigbjörn Gunnarsson fram tillögu til þingsályktunar (520. mál) um að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd til að undirbúa samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum. Nefndin átti m.a. að kanna svipuð lög annars staðar á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af þeim. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að samkvæmt upplýsingum Neytendasamtakanna hafi skuldir heimilanna aukist úr rúmum 60 milljörðum í 226 milljarða kr. frá árinu 1981 til loka ársins 1992 eða nær fjórfaldast. Sem hlutfall af landsframleiðslu hafi þær á þessum tíma hækkað úr 14% í tæp 54%. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, skipaði í kjölfarið nefnd árið 1993 sem falið var að meta hvort setja skyldi lög um greiðsluaðlögun. Nefndin skilaði niðurstöðu 1994 og lagði til löggjöf áþekka þeirri sem hér er lögð fram. Þingmannafrumvörp komu ítrekað fram um málið frá 1995 til 2006, en voru aldrei afgreidd úr nefnd.
    Á 118. löggjafarþingi 1994–1995 (396. mál) lagði Finnur Ingólfsson ásamt 12 öðrum þingmönnum fram frumvarp til laga um greiðsluaðlögun. Í greinargerð með frumvarpinu er sagt að tilgangur þess sé að gefa þeim einstaklingum sem séu í alvarlegum og viðvarandi greiðsluerfiðleikum möguleika á því að ná stjórn á fjármálum sínum því að neyðarástand hafi skapast á þúsundum heimila í landinu þar sem gjaldþrot blasi við mörgum þeirra.
    Á 119. löggjafarþingi 1995–1996 (41. mál) flutti Ólafur Ragnar Grímsson ásamt þremur öðrum þingmönnum frumvarp um greiðsluaðlögun og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það hafi verið flutt á síðasta þingi af þingflokki Framsóknarflokksins og hafi Finnur Ingólfsson verið fyrsti flutningsmaður.
    Á 123. löggjafarþing 1998–1999 (96. mál) flutti Jóhanna Sigurðardóttir ásamt 10 öðrum þingmönnum frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Í greinargerð er markmiði með flutningi frumvarpsins lýst og efnislega er það hið sama og fram kemur í framangreindri tillögu til þingsályktunar og frumvörpum.
    Á 127., 128., 130., 131., 132. og 133. löggjafarþingi flutti Jóhanna Sigurðardóttir ásamt öðrum þingmönnum sama frumvarp, þ.e. síðast á löggjafarþingi 2006–2007. Á því löggjafarþingi beindi Jóhanna fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvort hann væri reiðubúinn til þess að beita sér fyrir löggjöf um greiðsluaðlögun (481. mál). Í svari ráðherra kom fram að svo væri og teldi hann að um mikilvægt mál væri að ræða fyrir neytendur og heimilin í landinu. Þá hófst vinna í viðskiptaráðuneytinu að löggjöf um greiðsluaðlögun, sem lauk með gerð frumvarps sem lagt var fram í ríkisstjórn í ársbyrjun 2008, en ekki varð samstaða um framlagningu þess á þingi. Þá hófst undirbúningur að löggjöf um greiðsluaðlögun í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem þó tæki aðeins til samningskrafna.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun í febrúar 2009. Við meðferð þess frumvarps í allsherjarnefnd kom fram vilji til að greiðsluaðlögun gæti líka tekið til veðkrafna. Því lét allsherjarnefnd útbúa frumvarp um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Bæði frumvörpin urðu að lögum í apríl 2009.
    Það frumvarp sem hér er lagt fram er í anda þeirrar upphaflegu hugmyndar að ein lög um greiðsluaðlögun gildi um jafnt veðkröfur sem samningskröfur. Stöðugt endurmat hefur átt sér stað á greiðsluaðlögunarúrræðinu frá því að það kom til árið 2009 og meðal annars um það fjallað í samráði stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um úrlausnir á skuldavanda heimilanna. Mikil samstaða er um þá lausn sem hér er kynnt meðal hagsmunasamtaka og hafa sérfræðingar á vegum Alþýðusambandsins og BSRB komið að lokavinnslu málsins.
    Markmið frumvarpsins er að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og byrja upp á nýtt. Skilyrði fyrir greiðsluaðlögun er að skuldari sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Skuldari þarf að safna saman og leggja fram gögn sem leiða í ljós ógjaldfærni hans og fá í kjölfarið lagða inn umsókn til umboðsmanns skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samþykki umboðsmaður skuldara umsóknina er skuldara og kröfuhöfum ætlaður ákveðinn tími til að ná samkomulagi um uppgjör skulda, þ.e. samkomulagi um frjálsa greiðsluaðlögun. Takist það ekki getur skuldari vísað málinu til héraðsdóms og fengið staðfestan úrskurð um þvingaða greiðsluaðlögun sem er bindandi fyrir kröfuhafa og skuldara. Greiðsluaðlögunartímabilið skal að jafnaði standa í tvö til fimm ár, eftir að greiðsluaðlögun er komið á. Að loknu greiðsluaðlögunartímabili skulu samningskröfur afskrifaðar, en áfram skal greitt af veðkröfum sem rúmast innan matsvirðis eignar sem þær hvíla á.
    Greiðsluaðlögun er ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Greiðsluaðlögun er að þessu leyti ólík gjaldþrotaskiptum sem eru fyrst og fremst sameiginlegt uppgjör kröfuhafa á búi skuldara, enda er skiptastjóri í raun starfsmaður kröfuhafa og ber honum sem slíkum að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi í störfum sínum við uppgjör búsins. Við skuldauppgjör samkvæmt þessu frumvarpi eru hagsmunir skuldara hins vegar hafðir að leiðarljósi. Með frumvarpinu er ætlunin að festa í lög sértækar reglur, m.a. að norskri fyrirmynd (Lov, av 17. juli 1992 nr. 99, om frivillig og tvungen gjeldsordning for privatpersoner (gjeldsordningsloven)), sem er ætlað að ná því markmiði að færa raunvirði fjárkrafna að veruleikanum. Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu sinna fjármála en leið gjaldþrotaréttarins.
    Eftir gjaldeyris- og bankahrunið haustið 2008 eiga margir í miklum greiðsluvanda enda þótt vandinn verði ekki í öllum tilvikum rakinn til hruns fjármálakerfisins. Fjöldi einstaklinga stendur ekki lengur undir greiðslubyrði lána, sem hefur þyngst mjög undanfarin missiri, enda hafa skuldbindingar fólks í mörgum tilvikum vaxið langt umfram virði eigna sem standa þeim til tryggingar. Löggjöfin mun hraða endurreisn efnahagslífsins með því að auðvelda endurskipulagningu fjárhags einstaklinga.
    Afleiðingar hrunsins í október 2008 birtast í margvíslegum myndum. Þar vegur þyngst verðlækkun eigna og mikil verðbólga í kjölfar falls krónunnar. Hrunið hafði að sjálfsögðu í för með sér snöggan samdrátt í framleiðslu og minnkandi eftirspurn í hagkerfinu. Sá samdráttur hefur haft alvarleg áhrif á atvinnustig og eftirspurn eftir vinnuafli. Þar sem stærsti hluti fjárskuldbindinga er verðtryggður eða gengistryggður jukust skuldir lántakenda mjög við hrunið. Því er brýnt að góð greiðsluaðlögunarlöggjöf sé fyrir hendi til að forða gjaldþrotum og nauðungarsölum íbúða í þúsundatali og koma í veg fyrir óþarft samfélagslegt tjón af aðlögun skuldastöðunnar að raunveruleikanum.
    Þegar umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar felst í því viðurkenning eða mat stjórnvalda á að litlar sem engar líkur séu á að kröfuhafar fái fullar efndir krafna sinna og nauðsynlegt sé að afskrifa þær að hluta eða í heild. Krafa sé því ekki meira virði en þær greiðslur sem skuldari getur staðið undir. Eftir þær hamfarir sem dunið hafa á íslensku efnahagslífi er nauðsynlegt að aðlaga virði eigna og krafna að veruleikanum og eðlilegri greiðslugetu skuldara.
    Sú breyting sem gerð var á gjaldþrotalögum með lögfestingu X. kafla a um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar hefur um margt reynst vel. Það hefur þó verið gagnrýnt að lögin taki um of mið af gjaldþrotaréttinum og hagsmunum kröfuhafa, skilyrði til greiðsluaðlögunar séu of ströng, mun fyllri ákvæði vanti um framkvæmdina sjálfa og þau kveði ekki nægilega skýrt á um það hvernig breytingum verði háttað eftir að nauðasamningur um greiðsluaðlögun hefur tekið gildi. Þá taki lögin ekki til veðkrafna. Það gera hins vegar að hluta til lög nr. 50/ 2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Hið mikla álag sem er á dómstólum landsins um þessar mundir hefur valdið því að óeðlilega löng bið er eftir því að sumir dómstólar afgreiði beiðnir um heimild til að leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Þá blasir einnig við að álag á dómstóla muni aukast á næstu missirum. Í frumvarpi þessu er lagt til að heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði að hluta færð frá dómstólum til umboðsmanns skuldara og skuli hann að jafnaði afgreiða umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún er fullbúin.
    Þau úrræði sem hér er ætlunin að leiða í lög hafa þegar verið lögfest annars staðar á Norðurlöndum. Fyrst voru reglur þessa efnis lögfestar í Danmörku árið 1984. Þar var þeim skipað í 4. þátt gjaldþrotaskiptalaganna. Danir nefna þetta réttarúrræði „gældssanering“. Næst var sams konar úrræði lögleitt í Noregi 1992 og er þar nefnt „gjeldsordning“. Eins og áður hefur komið fram var einkum höfð hliðsjón af norsku lögunum við samningu þessa frumvarps. Þá voru lög um þetta efni sett í Finnlandi 1993 og í Svíþjóð 1994, en í þeim löndum er úrræðið nefnt „skuldsanering“.

II. Samþykkt lög frá hruni fjármálakerfisins.
    Frá hruninu í október 2008 hefur löggjafinn leitað ýmissa leiða til að takast á við og leysa úr greiðsluvanda einstaklinga og fyrirtækja. Með lögum nr. 24/2009 var gerð breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., með innleiðingu X. kafla a, en sá kafli tekur til greiðsluaðlögunar vegna samningskrafna. Með samningskröfum er vísað til 1. mgr. 29. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en með þeim er átt við allar kröfur á hendur skuldara, aðrar en þær sem eru undanþegnar áhrifum af nauðasamningi eða falla niður við staðfestingu hans, sbr. 1. og 3. mgr. 28. gr. laganna. Enn fremur tekur nauðasamningur til greiðsluaðlögunar ekki til krafna sem hefði verið skipað eftir 114. gr. laganna ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Verði frumvarp þetta að lögum falla úr gildi ákvæði X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti. Þá hafa einnig verið samþykkt lög um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga, sbr. lög nr. 32/2009, auk laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Í kjölfar samþykktar þeirra laga gerðu flest fjármálafyrirtæki landsins með sér samkomulag um að setja upp verkferla innan sinna fyrirtækja, svokallaða sértæka skuldaaðlögun, til að fella meðferð og afgreiðslu skuldamála einstaklinga og fyrirtækja í sambærilegan farveg innan flestra fjármálafyrirtækja. Framgangur mála í sértækri skuldaaðlögun hefur ekki verið eins hraður og vonast var til. Mikilvægt er að allir kröfuhafar átti sig á því að ekki þýðir í frjálsum samningum um skuldaskil að bjóða skuldurum lakari rétt en þeir geta fengið með greiðsluaðlögun. Því fyrr sem sú staðreynd verður ljós, þeim mun betur mun ganga við meðferð skuldamála í frjálsum samningum.

III. Málsmeðferð.
    Einstaklingur sem hyggst sækja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar skal senda umsókn til umboðsmanns skuldara, en lagt er til í frumvarpi, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, að sett verði á stofn sérstök stofnun sem beri nafnið umboðsmaður skuldara og starfi hún á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Gert er ráð fyrir að umboðsmaður skuldara veitir skuldara aðstoð við útfyllingu umsóknar og öflun nauðsynlegra gagna. Með umsókn skal m.a. fylgja greiðsluáætlun skuldara, hvað hann telji sig geta greitt af skuldum sínum, í einu lagi eða mánaðarlega, en í frumvarpinu er nánar tilgreint hvaða upplýsingar skuldari þurfi að leggja fram. Þrátt fyrir aðstoð umboðsmanns skuldara er skuldara sjálfum ætlað verulegt hlutverk við öflun nauðsynlegra gagna til undirbúnings umsókn um greiðsluaðlögun. Þegar allra gagna hefur verið aflað tekur umboðsmaður skuldara ákvörðun um samþykki eða synjun umsóknar. Hefur stofnunin tvær vikur frá því að fullbúin umsókn lá fyrir til að taka þá ákvörðun. Hafni umboðsmaður skuldara umsókn skal hann rökstyðja ákvörðun sína skriflega. Þá ákvörðun má kæra til ráðherra. Veiti umboðsmaður samþykki sitt skal hann þegar í stað tilnefna umsjónarmann með greiðsluaðlögun sem auglýsir innköllun krafna í Lögbirtingablaðinu. Frestur til að lýsa kröfum er þrjár vikur. Þeir kröfuhafar sem lýsa kröfum innan frestsins eiga einir rétt á því að láta málið til sín taka. Kostnaður vegna starfa umsjónarmanns greiðist af umboðsmanni skuldara.
    Að lokinni innköllun leggur umsjónarmaður fram tillögu að frumvarpi til frjálsrar greiðsluaðlögunar fyrir kröfuhafa og skuldara en tillagan skal unnin í samráði við skuldara. Frumvarpið skal taka mið af því hvað raunhæft sé að ætla að skuldari geti greitt að teknu tilliti til fjárhags, framfærslukostnaðar og heimilishalds.
    Kröfuhafar taka skriflega afstöðu til tillögu umsjónarmanns eigi síðar en þremur vikum frá því að þeim berst tillagan. Þeir geta hafnað tillögunni eða samþykkt eftir atvikum eða lagt til á henni breytingar. Viðræðum um frjálsa greiðsluaðlögun skal lokið innan þriggja mánaða frá samþykki umboðsmanns skuldara. Samþykki allir kröfuhafar frumvarpið er kominn á samningur. Þeir kröfuhafar sem ekki gera grein fyrir afstöðu sinni til tillögu umsjónarmanns innan tilskilins frests teljast hafa samþykkt hana.
    Takist ekki samkomulag getur skuldari krafist þvingaðrar greiðsluaðlögunar fyrir héraðsdómi. Komi til þess framlengist þriggja mánaða viðræðufrestur um einn mánuð og geta því lengst liðið fjórir mánuðir frá samþykkt heimildar til að leita greiðsluaðlögunar þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Krafa um þvingaða greiðsluaðlögun verður að berast umsjónarmanni eigi síðar en tveimur vikum eftir að ljóst er að samkomulag um frjálsa greiðsluaðlögun tekst ekki. Umsjónarmaður sendir Héraðsdómi Reykjavíkur þegar í stað kröfu skuldara ásamt frumvarpi umsjónarmanns og öðrum málsgögnum. Tekur þá héraðsdómur við málinu og gefur aðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir sem eru tillögunni andvígir verða að rökstyðja það sjónarmið sitt sérstaklega fyrir héraðsdómi. Héraðsdómur getur fallist á kröfu skuldara með því að staðfesta frumvarp umsjónarmanns, breytt eða óbreytt, eða hafnað kröfu skuldara uppfylli frumvarpið eða skuldarinn ekki skilyrði laganna.

IV. Gildissvið og skilyrði greiðsluaðlögunar.
    Forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er sú að skuldari eigi í verulegum greiðsluerfiðleikum. Ekki er skilyrði að skuldari sé þegar orðinn ófær um að standa í skilum heldur er nægjanlegt að það sé fyrirsjáanlegt. Greiðsluerfiðleikar verða að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og að lausn þeirra sé ekki í sjónmáli. Skuldari verður að sýna fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum. Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þarf að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna ber umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Þá telst það ekki heldur viðvarandi greiðsluvandi þó að skuldari verði skyndilega atvinnulaus. Í Noregi hefur m.a. verið horft til þess að einstaklingur þurfi að hafa verið atvinnulaus í a.m.k. eitt ár svo hægt sé að tala um viðvarandi greiðsluvanda. Það er nokkuð langur tími. Þetta þarf þó að meta í hverju tilviki. Þegar um tímabundna greiðsluerfiðleika er að ræða nægir oft að breyta greiðsluskilmálum lánasamninga til þess að einstaklingar ráði við skuldabyrði sína. Þá má ekki gleyma því að lög nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, halda gildi sínu og samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á þeim lögum sem rýmka frekar heimildir fólks til að njóta þess úrræðis við tekjufall. Ef skuldari verður fyrir slysi og hlýtur af varanlega örorku má gera ráð fyrir að greiðsluerfiðleikar hans verði varanlegir. Ekki er það gert að skilyrði fyrir því að heimilt sé að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun að skuldir hafi náð tiltekinni upphæð eða að skuldari hafi náð tilteknum aldri. Það kann þó í einhverjum tilvikum að kalla á sérstaka rannsókn af hálfu umboðsmanns skuldara ef upphæð skulda er óvenju lág þegar sótt er um heimild. Ekki er þó ástæða til að leggja mikla rannsóknarkvöð á umboðsmann af þessu tilefni.
    Ekki má samþykkja umsókn ef hún telst á einhvern hátt óeðlileg. Það á t.d. við ef skuldasöfnun á rætur að rekja til ólögmætra eða ósiðlegra athafna skuldara. Í því samhengi má nefna að ef greiðsluerfiðleikar stafa af brotastarfsemi eða margvíslegri misnotkun kemur ekki til álita að samþykkja greiðsluaðlögun. Einnig ber að hafna greiðsluaðlögun ef skuldari gefur í umsókninni rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína. Enn fremur ber að hafna umsókn ef skuldari hefur fært eignir yfir á skyldmenni sín til að láta efnahagsreikning sinn líta verr út en ella. Við mat á umsókn verður einnig að taka tillit til þess hvort nýverið hafi verið stofnað til skuldanna – jafnvel í þeim tilgangi að fá greiðsluaðlögun. Nýleg endurfjármögnun eldri lána, t.d. vegna húsnæðis, telst þó ekki til nýfenginna lána og því ekki ástæða til að hafna umsókn af því tilefni. Ef skuldari sýnir lítinn sem engan áhuga á að leysa sín mál eftir bestu getu, eða hann hefur efnt til fjárfestinga eða gert ráðstafanir sem væru riftanlegar ef bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta, ber að hafna umsókn.

V. Sjónarmið þegar skuldir eiga rót sína að rekja til ábyrgðar vegna atvinnurekstrar.
    Þegar skuldir eiga rót sína að rekja til atvinnurekstrar er margs að gæta við ákvörðun um hvort rétt sé að fella þær undir mögulega greiðsluaðlögun. Rétt er þó að hafa í huga að lögunum er ætlað að taka til greiðsluvanda einstaklinga en ekki fyrirtækja. Það breytir ekki því að skuldirnar hvíla á einstaklingnum þó að upptök þeirra megi rekja til starfsemi fyrirtækja, t.d. vegna ábyrgða. Í mörgum tilvikum getur það skipt verulegu máli fyrir samfélagið hvort skuldir, sem eiga rót sína að rekja til atvinnurekstrar, falli undir greiðsluaðlögun. Þetta á við ef höfnun umsóknar leiðir til þess að starfsemi leggst niður og fólk missir atvinnu. Á hitt er þó að líta að við þessar aðstæður kann að vera eðlilegra að viðkomandi atvinnurekstur verði látinn fara leið gjaldþrotalaga, þ.e. í gegnum nauðasamninga eða skiptameðferð. Stundum getur verið erfitt að gera glöggan greinarmun á skuldum einstaklinga og fyrirtækja. Einkum koma slík vafamál upp þegar skuldir eiga rætur að rekja til ótakmarkaðrar ábyrgðar einstaklings á atvinnurekstri. Ef umsókn um greiðsluaðlögun er samþykkt kann það að leiða til þess að fyrirtækið sjálft fari í raun í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu vegna niðurfellingar skulda einstaklingsins sem hefur fengið greiðsluaðlögun. Ýmis sjónarmið, m.a. samkeppnissjónarmið um jafnræði fyrirtækja á markaði, kunna að mæla því í mót að þessi leið sé farin. Mestu skiptir þó, þegar metið er hvort einstaklingur eigi rétt á greiðsluaðlögun, hve miklar skuldir verða raktar til þessarar starfsemi. Þetta vandamál kemur síður upp ef um er að ræða skuldir sem rekja má til ábyrgða vegna félaga sem bera takmarkaða ábyrgð, svo sem hlutafélaga. Það þarf þó ekki að vera einhlítt. Í þeim tilvikum er a.m.k. auðveldara að greina á milli skulda félags og einstaklings og ólíklegra en ella að greiðsluaðlögun einstaklingsins hafi áhrif á það hvort fyrirtækið lifir eða deyr.

VI. Greiðsluaðlögun tekur til allra fjárskuldbindinga einstaklings.
    Greiðsluaðlögun tekur til allra fjárskuldbindinga nema lög kveði sérstaklega á um annað. Greiðsluaðlögun tekur til veð- og samningskrafna. Sú breyting er gerð frá gildandi lögum um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar, sem taka einungis til samningskrafna, að undir greiðsluaðlögun samkvæmt þessu frumvarpi falla veð- og samningskröfur. Í sumum tilvikum er ekki fullljóst hvort krafa telst vera veð- eða samningskrafa. Til að skera úr um það þarf í einhverjum tilvikum að fara fram sala eða mat á virði veðsettra eigna. Ef eign er seld eru veðkröfur greiddar í samræmi við andvirði hinnar seldu eignar. Áhvílandi kröfur sem ekki fást greiddar af andvirði eignarinnar teljast til samningskrafna. Það sama á við þegar veðsett eign er metin til verðs, þ.e. að sá hluti kröfu sem fellur innan matsverðs telst veðkrafa en sá hluti sem er utan matsverðs telst samningskrafa. Greiðsluaðlögun tekur jafnt til krafna einkaaðila sem opinberra aðila. Lögin taka þó ekki til skatta og gjalda sem verða til eftir að heimild umboðsmanns skuldara til greiðsluaðlögunar hefur verið fengin. Fésektir vegna refsiverðs verknaðar ber og að greiða að fullu og er því haldið utan greiðsluaðlögunar. Greiðslur vegna framfærslu og meðlag með börnum eru undanþegnar greiðsluaðlögun. Ef skuldari hefur fyrir börnum að sjá skal reyna við mat á framfærslukostnaði að tryggja þeim sambærileg tækifæri og öðrum börnum á sama aldri á sama svæði eins og nokkur kostur er.

VII. Lagarammi og skipting greiðslna milli kröfuhafa.
    Lögin setja samningsferlinu um greiðsluaðlögun ákveðinn ramma, kveða á um aðkomu stjórnvalda, aðstoð umsjónarmanns, afborgunarfjárhæð, greiðsluaðlögunartímabil, réttaráhrif, gildistíma o.fl. Eins og áður hefur komið fram er markmið laganna að aðstoða skuldara við að ná tökum á fjármálum sínum. Áherslur við greiðsluaðlögun eru því aðrar en við gjaldþrot. Þegar ákvarða skal hversu mikið af tekjum skuldara fari til greiðslu skulda skal fyrst taka mið af nauðsynlegum kostnaði skuldara við að sjá sér og sínum farborða. Að jafnaði skal gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt vegna stærðar, staðsetningar, verðmætis þess o.fl. Ef sala á húsnæði er óhjákvæmileg verður að tryggja að skuldari geti útvegað sér annað húsnæði, með kaupum eða leigu eftir atvikum. Ef ákveðið er að selja eign skuldara fer tillaga umsjónarmanns eftir því hvort greiðist upp í veðkröfur eða ekki. Ef allar veðkröfur fást greiddar skal það sem eftir stendur renna til skuldara svo hann geti keypt eða leigt nýtt húsnæði eftir atvikum. Annars verður umsjónarmaður að meta nauðsynina hverju sinni. Þegar tekið hefur verið frá fyrir nauðsynlegum framfærslu- og rekstrarkostnaði skuldara og fjölskyldu hans liggur fyrir hve mikið stendur eftir til að greiða kröfuhöfum. Greiðsla til hvers kröfuhafa skal vera í réttu hlutfalli við hlutfallslega stærð kröfu hans af heildarfjárhæð krafna. Á því eru þó undantekningar. Heimild er til þess að á greiðsluaðlögunartímabilinu verði t.d. ekki greitt af höfuðstól veðtryggðra lána og því ekki greiddar afborganir af þeim kröfum. Veðkröfuhafar verða því að sætta sig við að fá aðeins greidda vexti, eða hlutfall af þeim, á greiðsluaðlögunartímabilinu, ella væri hætta á að lítið fengist upp í aðrar samningskröfur. Rökin fyrir þessu eru þau að veðkröfuhafar fá á endanum kröfur sínar greiddar að mestu, enda tryggðar með veði í eignum skuldara, en samningskröfuhafar þurfa aftur á móti að sætta sig við að kröfur þeirra falli niður og verði afskrifaðar að greiðsluaðlögunartímanum liðnum. Veðkröfuhafar þurfa því að þola bið og fá hlutfallslega minna í sinn hlut á þessu tímabili en aðrir kröfuhafar. Það verður að teljast sanngjarnt. Hvernig skipting greiðslna milli kröfuhafa er nákvæmlega ræðst af frumvarpi umsjónarmanns til greiðsluaðlögunar og endanlegri afgreiðslu þess við frjálsa eða þvingaða greiðsluaðlögun. Í aðalatriðum gilda sömu reglur um opinber gjöld og samningskröfur nema lög kveði sérstaklega á um annað.

VIII. Sala á eignum skuldara.
    Samkvæmt frumvarpinu er umsjónarmanni með greiðsluaðlögun gert heimilt að ákveða að skuldari selji þær eignir sínar sem bersýnilega er ósanngjarnt að hann haldi eftir. Umsjónarmaður skal þó ekki taka slíka ákvörðun nema að vel athuguðu máli og koma þá einkum til skoðunar þau áhrif sem sala eigna hefði á skuldarann og heimilishald hans. Sérstakt tillit skal þá tekið til áhrifa eignasölu á börn skuldara þannig að tryggt sé að salan leiði ekki af sér að þau búi við skert tækifæri, t.d. hvað varðar menntun og félagslegt starf. Komi sala eigna til athugunar skulu einnig bornir saman hagsmunir kröfuhafa og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir verðmæti hins selda og fjölda kröfuhafa. Er þá almennt miðað við að ekki verði krafist sölu nema hún hafi áhrif svo um munar á greiðslur eða greiðsluhlutfall samkvæmt skilmálum frumvarps greiðsluaðlögunar. Í ljósi hins skamma tíma sem greiðsluaðlögunarumleitunum eru ætlaðar er jafnframt mikilvægt að umsjónarmaður kynni sér markaðsaðstæður eins og kostur og leggi mat á hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan þess tíma. Er því miðað við að umsjónarmaður kynni skuldara ekki um ákvörðun um eignasölu fyrr en slíkt mat hefur farið fram. Ekki er nauðsynlegt að sala fari fram á þeim tíma sem greiðsluaðlögunarumleitun fer fram. Umsjónarmanni er heimilt að taka tillit til markaðsaðstæðna og mæla fyrir um að sala fari fram síðar á greiðsluaðlögunartíma og hvernig söluverði skuli þá ráðstafað.
    Viðbúið er að í þessu sambandi komi fyrst og fremst til skoðunar sala fasteigna, einkum íbúðarhúsnæðis, og verðmætra lausafjármuna eins og bifreiða. Í því samhengi má minna á að í sértækri skuldaaðlögun er gengið út frá því að skuldari haldi eftir hóflegu húsnæði og einni bifreið. Í ljósi mikillar nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Til að sala íbúðarhúsnæðis komi til athugunar verða því almennt að vera uppi þær aðstæður að veðskuldir séu undir söluverði íbúðarinnar og að söluandvirðinu verði, að frádreginni greiðslu veðskulda, unnt að ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýju húsnæði fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Grundvallarforsenda er því ávallt sú að skuldari verði ekki skilinn eftir í óvissu um bústað sinn eftir sölu íbúðar. Því skulu markaðsaðstæður metnar sérstaklega vel í þessum tilfellum. Enn fremur skal taka sérstakt tillit til fjölskylduhaga skuldara og skal síður ákveða sölu íbúðar ef hún er talin hæfa skuldara og fjölskyldu hans að stærð og staðsetningu, sama hver staða veðskulda er. Komi sala til athugunar er einnig rétt að hafa í huga hvaða áhrif búferlaflutningar geta haft á skuldara og fjölskyldu hans, einkum hvað varðar starfsstöð og félagslegar aðstæður eins og skólagöngu. Ofangreind sjónarmið koma hins vegar síður til álita ef um er að ræða aðrar fasteignir en þá sem skuldari býr í, svo sem aðrar íbúðir, sumarbústaði o.fl.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að skuldari eigi rétt á að halda eftir lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verða undanþegnar við fjárnám samkvæmt lögum nr. 90/1989, um aðför. Sé sala lausafjármuna ákveðin skal almennt miðað við að um svo verðmæta muni sé að ræða að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta. Þá skal eins og áður var nefnt ávallt miðað við að skuldari geti bersýnilega verið án munanna, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Hér kæmi til dæmis til skoðunar að krefjast sölu bifreiða þegar skuldari hefur fleiri en eina bifreið til ráðstöfunar. Um óskráða lausafjármuni má ætla að umsjónarmaður krefjist eingöngu sölu í undantekningartilvikum, þ.e. þegar um verulega verðmæta muni er að ræða. Allt er þetta þó háð mati hverju sinni.
    Sé umsjónarmaður í vafa um hvort krafa um sölu sé tilhlýðileg skal hann leita afstöðu skuldara og fá nánari upplýsingar eða skýringar frá honum. Eins skal hann eftir atvikum leita afstöðu kröfuhafa, enda ekki ástæða til að krefjast sölu ef kröfuhafar fallast á að skuldari fái að halda viðkomandi eignum eftir. Fallist skuldari ekki á ákvörðun umsjónarmanns um sölu eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir að af sölu verði skal umsjónarmaður óska þess við sýslumann að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður.
    Mikilvægt er að umsjónarmanni sé gert heimilt að kveða á um sölu eigna skuldara. Verður að telja sanngjarnt að skuldara, sem leitar eftir eftirgjöf skulda sinna, verði gert að koma í verð þeim eignum sem honum eru bersýnilega ónauðsynlegar. Þá er einnig sá möguleiki fyrir hendi að við athugun umsjónarmanns komi í ljós að sala slíkra eigna leiði til þess að hægt sé að leysa greiðsluerfiðleika skuldara að fullu, án greiðsluaðlögunar.

IX. Lengd greiðsluaðlögunartímabils og skipulag greiðslna.
    Á greiðsluaðlögunartímabilinu greiðir skuldari af öllum skuldum, hvort heldur samningur kemst á samkvæmt frjálsri eða þvingaðri greiðsluaðlögun. Samningur kveður á um hversu háa afborgunarfjárhæð skuli greiða og hvort greiðsla skuli innt af hendi í einu lagi eða mánaðarlega. Í gildandi lögum um greiðsluaðlögun, X. kafla a gjaldþrotalaga, er ekki kveðið á um hversu langt þetta greiðsluaðlögunartímabil skuli vera. Samkvæmt reynslu frá Norðurlöndunum er nú algengast að greiðslutímabilinu sé ætlað að standa í þrjú til fimm ár. En þar, m.a. í Svíþjóð, hefur verið til umræðu að stytta þetta tímabil jafnvel niður í eitt ár. Í þessu frumvarpi er lagt til að tímabilið verði að jafnaði tvö til fimm ár. Við ákvörðun um lengd tímabilsins ber að hafa ýmis sjónarmið í huga. Fjárhæð skulda skiptir þar að sjálfsögðu máli. Einnig er rétt að taka tillit til þess hvort skuldari hefur börn á framfæri. Mikilvægt er að fjárhagsstaða forsjáraðila takmarki ekki um of möguleika barna til náms og aðhlynningar. Þá verður skuldari að geta tekist á við óvænt útgjöld, t.d. læknis- og tannlækningakostnað. Leitast skal við að tryggja að börn skuldara geti tekið fullan þátt í almennu tómstundastarfi barna á sama aldri í samfélaginu. Ef skuldari fer með forsjá barns ætti það frekar að verða til þess að stytta greiðslutímabilið en hitt. Ef á hinn bóginn þrengingar skuldara á þessu tímabili eru ekki miklar og breytingar á lífsgæðum hans eða fjölskyldu eru afar takmarkaðar er það frekar til þess fallið að lengja tímabilið en hitt. Aldur skuldara skiptir hér einnig máli. Augljóst er að ef skuldari er kominn nærri eftirlaunaaldri er aflahæfi hans orðið afar takmarkað og mælir það með að greiðsluaðlögunartímabilið geti verið enn styttra. Þá þarf að hafa í huga þau sálrænu áhrif sem tímalengd greiðsluaðlögunarinnar hefur á greiðslugetu og tekjuöflunarvilja skuldara. Þetta verður að meta í hverju tilviki. Í greinargerð með lagaákvæðinu er fjallað sérstaklega um þau sjónarmið sem hafa skal til hliðsjónar við mat á því hversu langt þetta tímabil skuli vera.
    Í samningi þarf að koma skýrt fram hvaða fjárhæð renni til greiðslu skulda, hvort sem um er að ræða eina afborgunarupphæð eða mánaðarlegar greiðslur. Enn fremur þarf að liggja ljóst fyrir hvernig þær greiðslur skiptist milli kröfuhafa. Kveðið er á um það í 24. gr. frumvarpsins að skuldari skuli í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun koma því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni. Hefur það fyrirkomulag gefist vel við tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

X. Hlutverk umboðsmanns skuldara og umsjónarmanns.
    Umboðsmanni skuldara er ætlað mikilvægt hlutverk í greiðsluaðlögunarferlinu. Því er brýnt að hann sé hlutlaus í afstöðu sinni til skuldara og kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara veitir viðtöku umsókn frá skuldara og tekur ákvörðun um hvort heimila skuli honum að leita eftir greiðsluaðlögun. Þá er honum falið að skipa umsjónarmann með greiðsluaðlögun. Það kemur í hlut umboðsmanns að taka ákvörðun um hvort fella eigi niður heimild til að leita greiðsluaðlögunar, svo sem ef síðar kemur í ljós að skuldari uppfyllir ekki skilyrði laganna. Ef síðar er krafist breytinga á greiðsluaðlögunarsamningi, sem komst á með frjálsri greiðsluaðlögun, kemur það í hlut umboðsmanns skuldara að taka endanlega ákvörðun um breytingarnar.
    Umsjónarmaður auglýsir og innkallar kröfur, auk þess að leggja fram útfærða tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir skuldara. Umsjónarmaður skal hafa samráð við skuldara áður en hann gerir endanlega tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður leggur til við umboðsmann skuldara að heimild til greiðsluaðlögunarumleitana falli niður ef síðar kemur í ljós að skuldari uppfyllir ekki skilyrði til að fá greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður skal hafa frumkvæði að því að leita niðurstöðu í málefnum skuldara með samningum við kröfuhafa. Mikilvægt er að hann reyni með öllum ráðum að ná samkomulagi milli kröfuhafa og skuldara þegar honum hefur verið veitt heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður tekur ákvörðun um og annast sölu eigna skuldara. Ef ekki tekst samkomulag um frjálsa greiðsluaðlögun kemur það í hlut umsjónarmanns að leggja beiðni fyrir héraðsdóm um þvingaða greiðsluaðlögun krefjist skuldari þess. Umsjónarmaður skal einnig sjá um að ganga frá öllum lausum endum, t.d. að semja um greiðslumiðlun eftir að greiðsluaðlögun er komin á, gæta að þinglýsingum o.s.frv.

XI. Breyting, riftun eða ógilding greiðsluaðlögunar.
    Skuldari og kröfuhafar geta náð fram breytingum á greiðsluaðlögun á tímabilinu. Margvíslegar breytingar geta orðið á högum skuldara sem kunna að réttlæta breytingar á greiðsluaðlögun. Í fyrsta lagi getur fjárhagsstaða skuldara batnað eða versnað eftir atvikum á tímabilinu. Í öðru lagi kann skuldari að hafa brugðist skyldum sínum eða hegðað sér á þann hátt, t.d. með auknum lántökum á greiðsluaðlögunartímabilinu, að kröfuhafar telji á sér brotið og krefjist breytinga, riftunar eða ógildingar greiðsluaðlögunar. Þá getur sviksamleg hegðun eða vanefndir leitt til þess að greiðsluaðlögunarsamningi verði rift eða hann ógiltur að kröfu kröfuhafa og hann jafnvel krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara í framhaldinu. Í þriðja lagi getur viljað svo til að skuldari fái óvænta eingreiðslu, t.d. arf eða annað þess háttar, sem ástæða er til að kröfuhafar fái hlutdeild í, án þess að greiðsluaðlögun sé tekin upp að öðru leyti. Þá er sama afborgunarfjárhæð greidd áfram, en kröfuhafar fá hlutdeild í ávinningnum samkvæmt samkomulagi. Takist ekki samkomulag geta kröfuhafar óskað eftir því við sýslumann að hann ákveði hlutdeild kröfuhafa í ávinningnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Markmiðið með greiðsluaðlögun er að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og byrja upp á nýtt. Greiðsluaðlögun er ætlað að gefa einstaklingum kost á því að endurskipuleggja fjármál sín og aðlaga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að ætla að skuldari geti staðið við sínar skuldbindingar. Markmið og tilgangur greiðsluaðlögunar er því annað en gjaldþrotaskipta, sem er sameiginlegt uppgjör kröfuhafa á búi skuldara, þar sem hagsmunir kröfuhafa eru leiðarljós við uppgjör búsins.
    Forsenda þess að skuldari geti sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er sú að hann eigi við verulega greiðsluerfiðleika að etja. Þeir verða að hafa staðið um nokkurn tíma og að lausn þeirra virðist ekki í sjónmáli um fyrirsjáanlega framtíð. Skuldari verður að sýna fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum. Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þarf að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna ber umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð.
    Þegar umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar felst í því viðurkenning stjórnvalda á að litlar sem engar líkur séu á að kröfuhafar fái fullar efndir krafna sinna og nauðsynlegt sé að afskrifa þær að hluta eða í heild. Krafa er ekki meira virði en þær greiðslur sem skuldari getur staðið undir. Sú niðurstaða er bæði kröfuhöfum og skuldurum í hag enda blasi að óbreyttu ekkert annað við en að viðkomandi skuldari verði tekinn til gjaldþrotaskipta, þar sem vænta mætti þess að kröfuhafar fengju minna eða ekkert upp í sínar kröfur.

Um 2. gr.


    Greiðsluaðlögun skal ná til allra fjárskuldbindinga skuldara, nema um annað sé sérstaklega kveðið á í frumvarpinu. Undir greiðsluaðlögun falla því bæði veðkröfur og samningskröfur og er hugsunin með framlagningu frumvarpsins að skapa heildarlausn fyrir skuldara bæði varðandi veðkröfur og samningskröfur.
    Til að umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt er það skilyrði sett í 2. mgr. að skuldari sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Er hér um tvö aðskilin skilyrði að ræða, þótt við það sé miðað að um viðvarandi greiðsluvanda verði að ræða. Með því er átt við að sá skuldari sem lendir í tímabundnum greiðsluerfiðleikum, svo sem vegna atvinnumissis eða annarra ástæðna, geti ekki umsvifalaust leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum þessum heldur skuli hann áður leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar að tímabundnum aðstæðum, svo sem með greiðslufresti eða öðrum skilmálabreytingum eða með tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Sé um atvinnuleysi að ræða er því miðað við að það þurfi að hafa varað um nokkurn tíma og að ólíklegt sé að úr uppsöfnuðum greiðsluvanda skuldarans megi leysa hefji skuldari störf á ný. Í Noregi hefur m.a. verið miðað við að einstaklingur þurfi að hafa verið atvinnulaus í a.m.k. eitt ár svo hægt sé að tala um viðvarandi greiðsluvanda. Það er nokkuð langur tími en þetta þarf þó að meta í hverju tilviki. Oft nægir í tilvikum sem þessum að breyta greiðsluskilmálum lánasamninga til þess að einstaklingar ráði við skuldabyrði sína. Ef skuldari verður fyrir slysi og hlýtur af varanlega örorku má gera ráð fyrir að greiðsluerfiðleikar hans verði varanlegir. Þegar afstaða er tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita frjálsrar greiðsluaðlögunar þarf að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna ber umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Ekki er það gert að skilyrði fyrir því að heimilt sé að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun að skuldir hafi náð tiltekinni upphæð eða að skuldari hafi náð tilteknum aldri.
    Í eldri lögum um greiðsluaðlögun var gert að skilyrði að umsækjandi ætti lögheimili á Íslandi. Slíkt skilyrði er ekki gert lengur, enda þykir það ekki þjóna sjálfstæðum tilgangi. Þvert á móti eru öll rök með því að gera fólki kleift að leita greiðsluaðlögunar sem flutt hefur til útlanda til náms eða í atvinnuleit.
    Það skilyrði kemur fram í 3. mgr. að lögin taki ekki til skuldara sem hefur borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi undangengin þrjú ár, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn eða í félagi við aðra, nema að skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu aðeins lítill hluti heildarskulda hans. Ekki er gert að skilyrði að atvinnustarfsemi hafi verið hætt. Þá þykir ekki rétt að setja í ákvæðið hversu mikill hluti skulda einstaklingsins megi stafa frá atvinnurekstrinum og skal það vera í höndum umboðsmanns skuldara að meta hvert tilvik fyrir sig. Eðlilegt er þó að miða við að hlutfall skulda vegna atvinnurekstrar fari ekki upp fyrir þau mörk að án þess hluta skuldanna væri skuldari ekki orðinn ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Í slíkum tilfellum gæti verið eðlilegra að fyrirtækið sjálft yrði tekið til skiptameðferðar eða leitaði nauðasamninga.
    Í 4. mgr. er kveðið svo á að eigi tveir eða fleiri einstaklingar veðtryggða fasteign í óskiptri sameign verði þeir í sameiningu að leita greiðsluaðlögunar enda er úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum.
    Samkvæmt 5. mgr. er tveimur eða fleiri einstaklingum sem búa saman og hafa sameiginlegt heimilishald heimilað að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu, séu þeir í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hver annars. Er hér einkum verið að miða við hjón. Séu horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti skal slíkt heimilt, en þetta er þó háð mati hverju sinni.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er að finna skilgreiningu á því hvað felst í greiðsluaðlögun og er þar að mestu miðað við þá skilgreiningu sem finna má í gildandi lögum. Kemur fram í greininni að með greiðsluaðlögun megi kveða á um algera eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist reglulega á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn.
    Eins og síðar er lýst í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar skuli kveðið á um mismunandi meðferð mismunandi rétthárra krafna. Er þar einkum tekið tillit til mismunandi meðferðar veðkrafna og samningskrafna og er miðað við að almennt skuli breyta skilmálum greiðslna veðkrafna eða veita gjaldfrest á þeim. Að öðru leyti skuli þær haldast óbreyttar á hendur skuldara, að teknu tilliti til nauðsynlegra skilmálabreytinga og matsverðs hinnar veðsettu eignar. Um samningskröfur skuli hins vegar almennt miðað við algera eða hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim eða greiðslu þeirra með afborgunum að teknu tilliti til greiðslugetu skuldara. Í flokk samningskrafna skuli falla sá hluti kröfu sem tryggður er með veði í eign, en matsverð eignar nær ekki upp í. Í ljósi þessarar mismunandi meðferðar er því hugsanlegt að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar verði kveðið á um algera eftirgjöf samningskrafna en greiðslufrest eða breytt form á greiðslu veðkrafna. Í frumvarpinu eru hugtökin samningskröfur og veðkröfur miðuð við skilgreiningar 28. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Í 2. mgr. 3. gr. er kveðið á um það að umboðsmaður skuldara skuli setja verklagsreglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar. Markmiðið með því er að ná sem mestu samræmi í framkvæmd greiðsluaðlögunar, óháð því hver er umsjónarmaður með greiðsluaðlögun.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. frumvarpsins eru ákvæði um umsókn um greiðsluaðlögun. Lagt er til að þeir einstaklingar sem eiga í greiðsluerfiðleikum og vilja leita greiðsluaðlögunar skuli beina erindi sínu til umboðsmanns skuldara, en í frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á stofn sérstök stofnun er nefnist umboðsmaður skuldara og er gert ráð fyrir að hún verði byggð á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
    Í 2. mgr. 4. gr. eru í ellefu liðum dregnar saman þær upplýsingar sem skulu koma fram í umsókn til umboðsmanns skuldara. Gert er ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Er upptalning 2. mgr. ekki tæmandi, enda er gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en kveðið er á um í ákvæðinu. Upplýsingar skv. 2. mgr. skal skv. 3. mgr. eftir atvikum einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum, ef skuldari eða umboðsmaður skuldara telja slíkt nauðsynlegt. Slíkar upplýsingar kynnu eftir atvikum að varpa skýrara ljósi á rekstrarkostnað við heimilishald skuldara, jafnvel þótt ljóst sé að allir heimilismenn skuldarans beri ekki gagnkvæma framfærsluskyldu gagnvart honum og taki þátt í greiðslu skulda hans, enda ber hvorki maki hans né aðrir sem halda heimili með honum ábyrgð á skuldbindingum hans nema það leiði annaðhvort af lögum, svo sem vegna samábyrgðar hjóna á greiðslu vissra skatta, eða þess að viðkomandi hafi gengist í ábyrgð fyrir skuld.
    Í 4. mgr. 4. gr. kemur fram að umsókninni skuli fylgja gögn til staðfestingar upplýsingum í henni og er þar meðal annars vísað til vottorðs um hjúskaparstöðu og fjölskyldu til að fyrir liggi staðfesting á fjölskylduhögum skuldara. Þá er gerður áskilnaður um að fjögur síðustu skattframtöl skuldara fylgi umsókninni.
    Í ákvæðum 4. og 5. gr. er ekki kveðið á um sérstakan tímaramma sem umboðsmaður skuldara hefur til að undirbúa umsókn skuldara, enda er undirbúningurinn að mörgu leyti háður því hvenær nauðsynlegar upplýsingar berast, m.a. að tilhlutan skuldara sjálfs.
    Í ákvæðinu er loks kveðið á um það að félags- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að kveða nánar á um í reglugerð hvaða upplýsingar einstaklingur sem óskar greiðsluaðlögunar skuli láta af hendi, sem og aðrir sem honum tengjast og hafa sameiginlegt heimilishald.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um rétt skuldara til að fá endurgjaldslausa aðstoð við að útbúa umsókn um greiðsluaðlögun og afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru við framlagningu umsóknar. Ljóst er að margir skuldarar munu þurfa aðstoð við þetta, þó að gert sé ráð fyrir því að skuldari hafi að jafnaði sjálfur frumkvæði að öflun gagna. Lagt er til að það verði hlutverk embættis umboðsmanns skuldara að aðstoða skuldara við gagnaöflun.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. er fjallað um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Í ákvæðinu er kveðið á um það að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar. Er lagt til að umboðsmaður geti krafið skuldara um staðfestingu á upplýsingum í umsókn með skriflegum gögnum.
    Þá er í greininni heimild fyrir umboðsmann skuldara til að afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli áður en hann tekur ákvörðun um hvort að veita eigi heimild til greiðsluaðlögunar. Í þessu skyni er umboðsmanni skuldara heimilt að kalla skuldara eða aðra aðila á sinn fund.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.
    Í 1. mgr. eru taldar upp þær ástæður sem leiða til þess að umboðsmaður skuldara skuli hafna umsókn skuldara. Þar er í a-lið nefnt að umsókn skuli hafnað ef sýnt þykir af fyrirliggjandi gögnum að skuldari uppfylli ekki skilyrði laganna um að leita greiðsluaðlögunar, sbr. ákvæði I. kafla. Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fullnægjandi gagna hefur ekki verið aflað og ef skuldari hefur ekki reynt eftir megni að upplýsa með nægilega nákvæmum hætti um skuldastöðu sína. Hér er einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í c-lið segir að umsókn skuli hafnað ef umboðsmaður skuldara telur að ekki sé unnt að upplýsa um raunverulega skuldastöðu skuldara, t.d. vegna umfangs umdeildra krafna, flókinna eignatengsla eða erlendra skulda. Skv. d-lið getur umboðsmaður skuldara hafnað umsókn skuldara ef sýnt þykir að ráðstafanir skuldara fram að umsókn hans bendi ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta fallið undir skilyrði um greiðsluaðlögun. Skal umboðsmaður skuldara eins og kostur er, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um tekjur og skuldbindingar skuldara, leggja mat á hvort ákvæðið eigi við. Er með þessu komið í veg fyrir að einstaklingur geti fyrir umsókn um greiðsluaðlögun ráðstafað tekjum sínum umfram efni til ónauðsynlegra hluta og látið ógert að greiða af þeim skuldbindingum sem hann hafði áður gengist undir, í því skyni að fá þær skuldbindingar lækkaðar eða niðurfelldar með greiðsluaðlögun. Á þetta ákvæði fyrst og fremst við um þann skuldara sem hefur haft svo háar tekjur að ljóst megi vera að honum hafi verið unnt að ráðstafa þeim til greiðslu skuldbindinga sinna og eðlilegrar framfærslu sinnar og fjölskyldu. Skv. e-lið skal hafna umsókn skuldara ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Tengist þessi liður að mörgu leyti framangreindri umfjöllun um d-lið enda má ætla að skuldari leggi fram rangar upplýsingar í því skyni að geta talist falla undir skilyrði greiðsluaðlögunar. Að lokum er þess getið í f-lið að umsóknar skuli synjað hafi skuldari áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun í samræmi við lögin, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skal þar einkum miðað við þau tilvik þar sem skuldari hefur ratað í greiðsluerfiðleika á nýjan leik sökum veikinda eða aldurs.
    Í 2. mgr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að samþykkt umsóknar væri óhæfileg. Í framhaldinu eru í fimm liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Ekki þykir rétt í b-lið 2. mgr. að útiloka rétt til greiðsluaðlögunar þótt einhver hluti skulda stafi af refsiverðri háttsemi, en umboðsmanni er falið mat á þýðingu þess. Þá er í e-lið 2. mgr. almenn heimild til synjunar ef um er að ræða aðila sem mjög hafa farið offari í skuldsetningu, sem og í þeim tilvikum þegar rót skulda er af þeim toga að samfélagslega óásættanlegt er að greiðsluaðlögun nái til skuldara. Sem dæmi um slíkt má nefna skuldir vegna viðskipta í aðdraganda falls bankanna haustið 2008 og þá sérstaklega skattskuldir tengdar slíkum viðskiptum. Á vegum skattyfirvalda er nú unnið að rannsókn á viðskiptum í hinum föllnu bönkum og grunur leikur á stórfelldum skattundanskotum. Álagning skatta á slík viðskipti eða á niðurfellingar af stórtækri skuldsetningu á grundvelli kaupréttarsamninga er dæmi um skuldsetningu sem ekki er þess eðlis að sanngjarnt sé að ákvæði greiðsluaðlögunar nái til hennar, enda álagningunni sannanlega ætlað að afla samfélaginu sanngjarns endurgjalds fyrir þá aðstöðu sem skuldari naut.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. 8. gr. segir að umboðsmaður skuldara skuli taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara. Í ljósi aðstæðna skuldara er mikilvægt að umsókn hans fái greiða meðferð og er í ákvæðinu miðað við að umboðsmaður skuldara taki ákvörðun sína innan tveggja vikna frá því að fullbúin umsókn liggur fyrir. Í þeim tilvikum þegar umboðsmaður telur þörf frekari gagna eða upplýsinga frá skuldara skal honum umsvifalaust gert viðvart um slíkt og honum gefinn kostur á að bregðast við þeim tilmælum. Samþykki umboðsmaður skuldara umsókn skuldara skal hann upplýsa skuldara um réttinn til að krefjast þvingaðrar greiðsluaðlögunar skv. V. kafla og hvenær sá réttur rennur út skv. 9. gr., sbr. 2. mgr. 24. gr. Skuldari skal jafnframt upplýstur um skyldur sínar meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stendur, sbr. 13. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það að ekki sé hægt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn um greiðsluaðlögun. Ef hins vegar umboðsmaður synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til félags- og tryggingamálaráðherra. Gert er ráð fyrir að kæra þurfi innan viku frá því að skuldara barst tilkynning um synjun umboðsmanns skuldara.

Um 9. gr.


    Eins og áður hefur verið nefnt er mikilvægt í ljósi stöðu skuldara að málsmeðferð greiðsluaðlögunarumleitana sé eins stutt og mögulegt er. Miðað skal við að allar ákvarðanir í því ferli sem hér á eftir er lýst verði teknar með eins skömmum fyrirvara og kostur er á. Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að umleitunum um frjálsa greiðsluaðlögun skuli lokið innan þriggja mánaða frá samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Í samræmi við það ferli sem kveðið er á um í frumvarpinu getur innköllun krafna og umþóttunarfrestur kröfuhafa numið sex vikum og ætti því að gefast nægur tími fyrir umsjónarmann að taka afstöðu til allra atriða um stöðu skuldarans og leggja fram frumvarp til greiðsluaðlögunar. Komi til þess að skuldari leggi fram kröfu um þvingaða greiðsluaðlögun skal héraðsdómur kveða upp úrskurð sinn innan mánaðar frá því að krafan barst dóminum. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana getur því lengst orðið fjórir mánuðir, sbr. þó 22. gr.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 10. gr. skal umboðsmaður skuldara skipa óháðan umsjónarmann með greiðsluaðlögun um leið og umsókn skuldara um að leita greiðsluaðlögunar er samþykkt. Skal umsjónarmaður hafa lokið embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði. Ekki er gert að skilyrði að umsjónarmaður hafi málflutningsréttindi enda er í ljósi hlutverks hans ekki gert ráð fyrir að hann komi fram fyrir héraðsdómi, nema eftir atvikum til upplýsingagjafar. Umsjónarmaður getur annaðhvort verið starfsmaður embættis umboðsmanns skuldara eða annar aðili sem umboðsmaður skuldara hefur falið að gegna starfinu. Kostnaður vegna starfa umsjónarmanns greiðist úr ríkissjóði, sbr. 35. gr.

Um 11. gr.


    Með sama hætti og gert er í gildandi lögum um greiðsluaðlögun er í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að umsjónarmaður birti innköllun í Lögbirtingablaði þar sem skorað er á lánardrottna skuldarans að lýsa kröfum sínum fyrir umsjónarmanninum innan þriggja vikna frá fyrri birtingu innköllunar. Með hliðsjón af skömmum tíma greiðsluaðlögunarumleitana er afar mikilvægt að umsjónarmaður sendi auglýsingu þessa efnis tafarlaust eftir skipan sína. Innköllunin hefur ekki þau réttaráhrif að vanlýst krafa falli niður, en kröfuhafi sem lýsir ekki kröfu sinni fer hins vegar á mis við heimild til að hafa afskipti af meðferð málsins fyrir umsjónarmanni og dómstólum ef til þess kemur að krafist verði þvingaðrar greiðsluaðlögunar. Lýsi hann kröfunni eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn fellur krafan því eins og aðrar kröfur undir greiðsluaðlögunina. Sama á við um kröfur sem vitað er um en ekki er lýst. Viðkomandi kröfuhafa skal send tillaga að frumvarpi til greiðsluaðlögunar skv. 1. mgr. 18. gr. og skal litið svo á að frumvarpið sé samþykkt af hans hálfu.
    Á grundvelli 27. gr. skal krafa sem skuldara er gert kunnugt um eftir að greiðsluaðlögunartímabil hófst falla undir greiðsluaðlögunina ef skuldari krefst þess. Ef það er gert skal krafa metin í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunar og af henni greitt í samræmi við sambærilegar kröfur. Í 36. gr. er kveðið á um að samningskröfur sem stofnuðust fyrir upphaf greiðsluaðlögunarumleitana og skuldari hefur ekki verið krafinn um að greiða falli niður þegar greiðsluaðlögunartíma lýkur.
    Til að stuðla að skilvirkari málsmeðferð er svo um mælt í 2. mgr. að umsjónarmaður skuli senda þekktum kröfuhöfum afrit af auglýsingunni. Samábyrgðarmönnum skuldara skal jafnframt sent afrit auglýsingarinnar til upplýsingar enda getur samþykkt greiðsluaðlögun haft áhrif á hagsmuni þeirra.

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er kveðið á um að á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana skuli skuldara veitt greiðslustöðvun vegna skuldbindinga sinna. Í samræmi við markmið frumvarpsins þykir eðlilegt að skuldara sé veittur frestur á greiðslu viðkomandi skulda á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. er nánar kveðið á um það hvað kröfuhöfum sé óheimilt að gera á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir fara fram. Segir þar að kröfuhöfum sé óheimilt að krefjast eða taka við fullri greiðslu eða hluta af greiðslu eða annars konar greiðslum á kröfum sínum, skuldajafna kröfu umsækjanda við kröfu sína nema því aðeins að aðalkrafan og gagnkrafan séu af sömu rót runnar, gjaldfella skuldir samkvæmt gjaldfellingarákvæðum, gera fjárnám í eigum umsækjanda eða láta selja þær á nauðungaruppboði, neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilisfólks, með tilvísan til fyrri vanrækslu á greiðslum eða krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni.
    Í 2. mgr. er svo um mælt að vextir af viðkomandi kröfum skuli reiknaðir meðan á greiðslufresti stendur, en að þeir falli þó ekki í gjalddaga á meðan. Vextir af kröfum sem tryggðar eru með veði í eign sem skuldari fær að halda gjaldfalla þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svarar til verðmætis hinnar veðsettu eignar.
    Í 3. mgr. kemur fram að greiðslufresturinn nái ekki til krafna um meðlög eða opinber gjöld sem falla til eftir að umsókn skuldara hefur verið samþykkt og meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
    Loks er í 4. gr. kveðið á um það að nauðungarsala sem leitað kann að hafa verið á eignum skuldara frestist þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið ákvörðun um að taka umsókn um greiðsluaðlögun til meðferðar.

Um 13. gr.


    Ákvæði 13. gr. snúa að því hvernig skuldari skuli haga sínum fjármálum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 17. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi nefnt að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem fer umfram það sem skuldari þarf til framfærslu sinnar, fjölskyldu og heimilis síns. Sökum ákvæða 12. gr. um greiðslustöðvun á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana er viðbúið að slík staða geti komið upp. Í öðru lagi skal skuldari segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru, þjónustu eða eðlilegu heimilishaldi sem er nauðsynleg skuldaranum eða heimili hans til lífsviðurværis. Hér skal einkum litið til útgjalda sem nema umtalsverðum fjárhæðum og óumdeilt megi vera að sé sanngjarnt að skuldari geti verið án. Sem dæmi mundi áskrift að dagblaði ekki falla hér undir. Í c- og d-lið er kveðið um það að skuldari geti ekki án samþykkis umsjónarmanns gripið til stærri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda.
    Ef umsjónarmaður telur að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 13. gr. skal hann óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 17. gr.

Um 14. gr.


    Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils er rétt að skuldara skuli gert að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Í 14. gr. er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir og þá muni sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án. Við mat á slíku skal umsjónarmaður bera saman hagsmuni kröfuhafa og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir verðmæti hins selda og fjölda kröfuhafa. Skal þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla kröfuhafa. Einnig skal umsjónarmaður meta hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma, með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Hér er viðbúið að til skoðunar komi fyrst og fremst fasteignir, einkum íbúðarhúsnæði, og verðmætir lausafjármunir eins og bifreiðar.
    Við mat á því hvort íbúð skuldara skuli seld skal umsjónarmaður m.a. líta til þess að hve miklu leyti íbúðin sé veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði íbúðarinnar má ætla að til álita komi að íbúðin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Litið skal í þessu sambandi til fjölskylduhaga skuldara. Umsjónarmaður skal einnig líta til aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni og meta hvort af sölu íbúðar, og þar af leiðandi kaupa eða leigu á nýrri íbúð, geti orðið innan tímabils greiðsluaðlögunarumleitana. Megi ætla að sala eða kaup íbúðar muni dragast á langinn eða sé með öllu óvíst um hvaða söluverð fæst samþykkt skal umsjónarmaður síður kveða á um sölu íbúðar samkvæmt greininni. Umsjónarmaður er þó ekki bundinn af því að sala fari fram á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og getur mælt fyrir um að sala fari fram einhvern tíma á greiðsluaðlögunartímanum. Almennt skal umsjónarmaður einnig síður kveða á um sölu íbúðar ef hann telur hana að stærð og staðsetningu hæfa skuldara og fjölskyldu hans. Skal einnig líta til áhrifa þess á skuldara og fjölskyldumeðlimi hans að þurfa að flytja milli staða, m.t.t. starfsstöðva þeirra, skólagöngu og félagslegra aðstæðna.
    Skuldarinn getur hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafa lánardrottnar almennt engan hag af því að húsnæðið sé selt og skal því almennt ekki gera ráð fyrir sölu þeirrar íbúðar. Þó skal litið til þess hvort íbúðarhúsnæðið sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir.
    Í þeim tilvikum þar sem skuldari á aðrar fasteignir en það íbúðarhúsnæði sem hann býr í skal almennt miðað við að skuldara verði gert að selja slíkar eignir, að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða. Getur þar t.d. verið um að ræða annað íbúðarhúsnæði, sumarbústaði eða jarðeignir.
    Um lausafjármuni skal gengið út frá því að skuldari eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verða undanþegnar við fjárnám skv. 43. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Komi til kröfu um sölu lausafjármuna skal almennt miðað við að um verðmæta muni sé að ræða, að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta og að skuldari geti bersýnilega verið án þeirra, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Nærtækasta dæmið er varðandi bifreiðir en sé um það að ræða að skuldari hafi sjálfur, eða ásamt fjölskyldumeðlimum, tvær bifreiðir til ráðstöfunar, getur umsjónarmaður eftir atvikum kveðið á um sölu annarrar bifreiðarinnar.
    Umsjónarmaður getur einnig kveðið á um sölu óskráðra lausafjármuna telji hann slíkt til hagsbóta svo um muni fyrir kröfuhafa. Í slíkum tilvikum skal liggja fyrir með óyggjandi hætti að skuldari eigi viðkomandi lausafjármuni og getur umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum frá skuldara í því skyni. Almennt má segja að umsjónarmaður skuli einungis beita þessari heimild í þeim tilvikum þar sem um verulega verðmæta muni er að ræða.
    Í síðari málslið 1. mgr. segir að í vafatilvikum skuli umsjónarmaður leita nánari upplýsinga frá skuldara og eftir atvikum leita afstöðu kröfuhafa til sölu eignanna. Í þessu getur m.a. falist að umsjónarmaður fái fram sjónarmið skuldara um nauðsyn hans eða fjölskyldumeðlima hans á því að halda eftir viðkomandi eignum. Afstaða kröfuhafa getur einnig haft áhrif enda skal ekki krafist sölu þeirra eigna sem allir kröfuhafar samþykkja að skuldari fái að halda eftir.
    Að lokum skal þess getið að ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna getur leitt til þess að þau verðmæti sem þar með safnast saman nægi til að leysa greiðsluerfiðleika skuldara að fullu. Komi slík staða upp skal umsjónarmaður, að því gefnu að sölu eignanna eða samningum um sölu þeirra sé lokið, tilkynna umboðsmanni skuldara um að skilyrði fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana séu fyrir hendi í samræmi við 17. gr.
    Í 2. mgr. segir að eigi skuldari eignir sem umsjónarmaður ákveður að eigi að selja skuli ákvörðun umboðsmanns skuldara um að heimila greiðsluaðlögun hafa sömu réttaráhrif og greiðslustöðvun, eftir því sem við getur átt, sbr. 2. þátt laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram sú grundvallarregla að eignir skuli selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær.
    Skal umsjónarmaður ákveða hvernig sala eigna fari fram og annast söluna sjálfur, nema hann taki sérstaka ákvörðun um annað. Er umsjónarmanni því heimilt að láta sérfróða aðila, svo sem fasteignasala eða bílasala, annast söluna að fullu eða aðstoða umsjónarmann við söluna. Eftir atvikum kemur til greina að skuldari hlutist til um sölu eigna óski skuldari þess og telji umsjónarmaður líklegra að sala náist fram með þeim hætti. Er eðlilegt að skuldari sýni þá viðleitni að aðstoða við leit að kaupendum að viðkomandi eignum enda leiðir sala eigna frekar til þess að umsjónarmaður leggi fram frumvarp til greiðsluaðlögunar. Kostnaður vegna sölu eignar greiðist af söluandvirði þeirrar eignar sem seld er, sbr. 35. gr.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að þegar eign hefur verið seld falli niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu þegar um veðsettar eignir er að ræða. Ef þess gerist þörf er það umsjónarmaður sem ákveður hvaða veðréttindi falla niður að lokinni sölu.
    Loks segir í 5. mgr. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 17. gr. Samþykki umboðsmaður skuldara niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana er skuldara heimilt að kæra þá ákvörðun til félags- og tryggingamálaráðherra, sbr. 17. gr.

Um 15. gr.


    Í ljósi mismunandi meðferðar veðkrafna og samningskrafna við greiðsluaðlögun er mikilvægt að fyrir liggi hvaða kröfur eða hvaða hlutfall krafna falli í hvorn flokkinn. Í tilvikum þar sem óljóst er um hvort veðið sé hærra en verð eignarinnar er því nauðsynlegt að umsjónarmaður skeri úr um nákvæma skiptingu viðkomandi kröfu í veðkröfu og samningskröfu. Í 15. gr. er því mælt fyrir um að umsjónarmaður skuli verðmeta þær eignir sem skuldara er ekki gert að selja telji umsjónarmaður það nauðsynlegt. Er hér lagt til að hvað varðar fasteignir skuli almennt miðað við verðmat Fasteignaskrár Íslands. Verðmat annarra veðsettra eigna skal umsjónarmaður annast sjálfur en fallist kröfuhafi ekki á það mat umsjónarmanns er honum heimilt að leggja fram mat sérfróðra aðila. Kröfuhafi skal bera allan kostnað við slíkt mat.

Um 16. gr.


    Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að tímabil greiðsluaðlögunar, hvort sem um er að ræða frjálsa greiðsluaðlögun eða þvingaða greiðsluaðlögun, skuli að jafnaði vera tvö til fimm ár. Er þetta í samræmi við lengd greiðsluaðlögunar í nágrannalöndum okkar.
    Það er hlutverk umsjónarmanns að gera tillögu um það hversu langt greiðsluaðlögunartímabil á að vera hverju sinni. Við mat á lengd greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður m.a. taka tillit til þess hvort hagir skuldara og fjölskyldu hans séu með þeim hætti að fimm ára greiðsluaðlögunartímabil hefði í för með sér sérstakt álag eða óvenjulega miklar fórnir fyrir skuldara. Þá skal fremur miða við styttra greiðsluaðlögunartímabil ef verulegur hluti af skuldum skuldarans er á grundvelli tryggingarábyrgðar. Hafi skuldarinn um langa hríð staðið við skuldbindingar sínar í samræmi við breytta skilmála eða aðra skuldaaðlögun utan þessara laga skal fremur miðað við styttra greiðsluaðlögunartímabil en lengra. Þá þarf að taka tillit til þess hvert aflahæfi skuldara er.
    Umsjónarmaður skal miða við að greiðsluaðlögunartímabil skuli vera lengra ef skuldarinn fær að halda eftir eigin íbúð þar sem veðkröfur nema umtalsvert minni fjárhæð en virði íbúðarinnar. Þá skal einnig fremur miðað við lengra tímabil ef takmarkaður hluti af fyrirsjáanlegum arði fer til þess að greiða skuldbindingar. Það sama á við ef greiðsluaðlögun telst hafa umtalsverð áhrif gagnvart samábyrgum skuldurum.

Um 17. gr.


    Samkvæmt 17. gr. skal umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana koma upp tilvik eða aðstæður sem hann telur að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Er hér fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiða til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar skv. I. og II. kafla. Eins og vísað er til í frumvarpinu skal umsjónarmaður einnig tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef skuldari hefur með vísvitandi hætti brugðist skyldum sínum eða komið í veg fyrir að ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna verði framfylgt. Áður en umboðsmaður skuldara tekur endanlega ákvörðun um erindi umsjónarmanns skal skuldara þó gefinn skammur frestur til að láta álit sitt í ljós eða koma með viðeigandi skýringar. Skuldari getur kært ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana innan viku frá því að ákvörðunin barst honum.

Um 18. gr.


    Umsjónarmaður skal svo skjótt sem auðið er, að lokinni innköllun krafna, leggja fyrir kröfuhafa, að höfðu samráði við skuldara, tillögu að frumvarpi fyrir kröfuhafa um frjálsa greiðsluaðlögun.
    Við vinnslu tillögunnar skal fyrst líta til þess hvað skuldari þarf til að sjá sér og sínum farborða og tryggja þannig framfærslu hans og hans nánustu. Við mat á framfærslukostnaði skal einnig taka mið af tekjum annarra fjölskyldumeðlima, ef fjölskylduhagir skuldara gefa tilefni til þess. Þá skal umsjónarmaður horfa til þess að skuldari geti staðið undir þeim skuldbindingum sem frumvarpið leggur á hann á greiðsluaðlögunartímabilinu. Umsjónarmaður skal horfa sérstaklega til þess hvort skuldari sé framfærsluskyldur með börnum og taka sérstakt tillit til þess. Getur umsjónarmaður í þessu sambandi tekið mið af neysluviðmiði því sem Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur beitt, en í frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á stofn sérstök stofnun, umboðsmaður skuldara, sem byggð verði á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Tillaga umsjónarmanns getur falið í sér algera eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn.
    Að greiðsluaðlögunartímabilinu loknu er gert ráð fyrir því að tekist hafi að endurskipuleggja fjárhag skuldara. Það er eitt þeirra atriða sem umsjónarmaður horfir til við tillögugerðina. Umsjónarmaður skal vinna tillöguna í samráði við skuldara, enda verður að líta svo á að tillagan sé tilboð frá skuldara til kröfuhafa um uppgjör.
    Afborgunarfjárhæð er sú fjárhæð sem skuldari greiðir af veð- og samningskröfum meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur. Annars vegar er um að ræða afborgunarfjárhæð sem eingreiðslu sem skuldari innir af hendi. Hún skiptist milli samningskröfuhafa samkvæmt samkomulagi. Þeir teljast til samningskröfuhafa sem ekki njóta tryggingaréttinda í eignum skuldara eftir að eign hefur verið seld eða metin af umsjónarmanni eða sérfræðingum til verðs.
    Hinn möguleikinn er sá að skuldari greiði reglulegar afborganir á tilteknu tímabili meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur. Afborgunarfjárhæðin skal bundin við launavísitölu eða aðra vísitölu sem aðilar koma sér saman um að afborganir skuli miðaðar við. Ákvæði laga um vexti og verðtryggingu standa því ekki í vegi, enda hér um sérlög að ræða sem ganga framar almennu lagaákvæði. Við val á verðtryggingarkosti er einnig eðlilegt að líta til möguleika skuldara sjálfs til tekjuöflunar á greiðsluaðlögunartíma. Þetta á sérstaklega við þegar um skuldara er að ræða sem er við aldur og hefur takmarkaða möguleika til tekjuöflunar.

Um 19. gr.


    Í 19. gr. frumvarpsins er fjallað um samþykki frjálsrar greiðsluaðlögunar.
    Í 1. mgr. kemur fram að umsjónarmaður sendir öllum kröfuhöfum sem þekktir eru tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður sendir kröfuhöfum tillögu í sínu nafni eftir samráð við skuldara og eftir að hafa metið sjálfstætt greiðslugetu hans, framfærslukostnað og hvaða skuldbindingar líklegt megi telja að skuldari geti staðið við. Kröfuhöfum er gefinn þriggja vikna frestur til að bregðast við frumvarpinu.
    Ef umsjónarmaður telur nauðsynlegt eða fram hafa komið tilmæli frá kröfuhafa skal umsjónarmaður halda fund með kröfuhöfum og skuldara áður en frumvarp um frjálsa greiðsluaðlögun er sent kröfuhöfum. Sé talin ástæða til skulu veðþolar, ábyrgðarmenn, samskuldarar skuldara og eigendur þeirra skulda sem skuldari er ábyrgðarmaður fyrir einnig boðaðir á fundinn.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það að umsjónarmaður skuli leitast við að ná samningi milli skuldara, kröfuhafa og ábyrgðarmanna skuldara um greiðsluaðlögun.
    Kveðið er á um það í 4. mgr. að kröfuhafi skuli ekki leggjast gegn frumvarpinu nema hann hafi ástæðu til að ætla að skuldari geti greitt meira og skal senda skriflegan rökstuðning þar um til umsjónarmanns.
    Frumvarp umsjónarmanns til greiðsluaðlögunar telst samþykkt þegar allir kröfuhafar hafa samþykkt það. Þeir kröfuhafar sem fá tilkynningu frá umsjónarmanni og hafa ekki gert athugasemdir þegar þrjár vikur eru liðnar frá því að tillagan var send teljast hafa samþykkt frumvarpið. Stjórnvöld, innheimtumaður eða fyrirsvarsmaður stofnunar eða félags í eigu opinberra aðila, geta samþykkt frumvarp til greiðsluaðlögunar án tillits til ákvæða í öðrum lögum, reglugerðum eða samþykktum, hvað varðar aðrar kröfur en sektir. Lögin veita forsvarsmönnum heimild til að samþykkja tillögu umsjónarmanns ef kröfuhafi er opinber aðili. Ef samningur um greiðsluaðlögun tekst skulu skuldari, kröfuhafar og ábyrgðarmenn skuldara undirrita hann og tekur hann þá þegar gildi.

Um 20. gr.


    Ef ekki tekst samkomulag milli skuldara og kröfuhafa um frjálsa greiðsluaðlögun getur skuldari krafist þvingaðrar greiðsluaðlögunar. Krafa skuldara um þvingaða greiðsluaðlögun skal berast umsjónarmanni eigi síðar en tveimur vikum eftir að ljóst er að samkomulag um frjálsa greiðsluaðlögun hafi ekki tekist. Skal umsjónarmaður þegar í stað senda kröfu skuldara, ásamt tillögu umsjónarmanns að frumvarpi til greiðsluaðlögunar, til Héraðsdóms Reykjavíkur, en gert er ráð fyrir að öll mál er varða þvingaða greiðsluaðlögun fari til meðferðar þar. Hér ber að hafa í huga að tillaga umsjónarmanns að frumvarpi til greiðsluaðlögunar kann að hafa tekið breytingum frá því að upphaflega frumvarpið var sent aðilum, í kjölfar þess að veitt var heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Frá þeim tíma kunna kröfuhafar og skuldari að hafa gert athugasemdir við frumvarpið og umsjónarmaður jafnvel gert tillögu um breytingar á sinni upphaflegu tillögu. Umsjónarmaður skal senda héraðsdómi upphaflega frumvarpið, ásamt athugasemdum aðila og tillögum að breytingum sem hann kann að hafa lagt til að gerðar yrðu á frumvarpinu. Með kröfu skuldara sendir umsjónarmaður skýrslu um störf sín og þær tilraunir sem gerðar hafa verið til að ná samkomulagi um frjálsa greiðsluaðlögun. Nauðsynlegt er að héraðsdómur hafi góða yfirsýn yfir það sem gerðist í ferlinu meðan leitað var frjálsrar greiðsluaðlögunar, svo hann sé betur í stakk búinn til að taka ákvörðun um hvort staðfesta eigi þvingaða greiðsluaðlögun og á hvaða forsendum það skuli gert.
    Ef krafist er þvingaðrar greiðsluaðlögunar framlengist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana sjálfkrafa um einn mánuð. Héraðsdómur hefur einn mánuð frá því að honum berst krafa skuldara, til að taka ákvörðun um hvort hann fallist á kröfu skuldara með staðfestingu frumvarps umsjónarmanns, breyttu eða óbreyttu, eða hafni kröfu skuldara. Það er mikilvægt fyrir alla aðila að þetta ferli gangi hratt og vel og að skuldarar og kröfuhafar fái niðurstöðu um það hvernig skuldbindingum þeirra sé háttað og hvernig framhaldið eigi að vera. Það er mikilvægt að eyða allri réttaróvissu sem fyrst. Því er gefinn skammur tími til að ljúka málinu. Málin geta dregist ef aðilar nýta þau réttarfarsúrræði sem möguleg eru. Meðan mál eru í þeim farvegi er litið svo á að greiðsluaðlögunarumleitanir séu áfram í gangi. Í ljósi aðstæðna skuldara og þeirrar greiðslustöðvunar sem honum er veitt skv. 12. gr. er afar mikilvægt að komi til þess að mál dragist vegna þessa skuli séð til þess að málsmeðferð verði flýtt eins og kostur er og að einungis skammir frestir skuli veittir.

Um 21. gr.


    Í 21. gr. er kveðið á um málsmeðferð fyrir héraðsdómi. Þar segir að héraðsdómur skuli þegar í stað tilkynna kröfuhöfum um framkomna kröfu skuldara og gefa þeim möguleika á því að koma að athugasemdum innan tveggja vikna frá því að þeir fengu tilkynningu frá héraðsdómi. Skuldara er einnig heimilt að senda inn umsögn sína innan sama frests.
    Að loknum umsagnarfresti skal dómari boða til þinghalds þar sem aðilum gefst færi á því að gera stuttlega grein fyrir sínum sjónarmiðum. Að þinghaldi loknu úrskurðar héraðsdómari í málinu. Skal kveða upp úrskurð um kröfu skuldara áður en tímabili greiðsluaðlögunarumleitana lýkur, en þó er héraðsdómi heimilt að framlengja tímabil greiðsluaðlögunarumleitana ef þess gerist brýn þörf. Héraðsdómara er því ekki ætlaður langur tími til að kveða upp úrskurð sinn um hvort frumvarp til greiðsluaðlögunar skuli staðfest, því breytt eða hafnað.

Um 22. gr.


    Að jafnaði skal héraðsdómur staðfesta tillögu umsjónarmanns um frumvarp til greiðsluaðlögunar ef frumvarpið uppfyllir öll skilyrði laganna og engin þeirra sjónarmiða sem lögin kveða á um að skuli leiða til annarrar niðurstöðu eru til staðar. Ef frumvarpið uppfyllir öll skilyrði laganna, en sjónarmið sem fram hafa komið við meðferð málsins draga fram að það sé sanngjarnt að gera breytingar á frumvarpinu, getur héraðsdómari staðfest frumvarpið með breytingum.
    Héraðsdómari skal hafna staðfestingu frumvarpsins ef það er óhæfilegt að staðfesta það. Það er fyrst og fremst dómarans að meta hvort það teljist óhæfilegt, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem rakin eru í frumvarpinu, m.a. hvort það teljist hæfilegt með tilliti til annarra þegna samfélagsins að staðfesta frumvarpið með úrskurði. Hið sama á við ef málsmeðferð og gagnaöflun er ábótavant og ekki verður bætt úr því fyrir héraðsdómi. Ef fjárhagsstaða skuldara er svo óljós vegna margra óljósra krafna að ekki er hægt að leggja mat á það hvort skuldari uppfylli skilyrði laganna um greiðsluaðlögun skal dómari synja staðfestingar á frumvarpinu.
    Úrskurð héraðsdóms skal kynna skuldara og kröfuhöfum á þann hátt sem héraðsdómur ákveður. Úrskurðurinn er kæranlegur til Hæstaréttar innan tveggja vikna.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. frumvarpsins er kveðið á um það hvernig fara á með bú einstaklings sem er undir gjaldþrotaskiptum og vill leita greiðsluaðlögunar. Ekki er unnt að fella þau tilvik að fullu undir ákvæði frumvarpsins, en lagt er til að þeir sem svo er ástatt um geti lokið skiptunum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í stað þess að þrotamaður leggi frumvarp að nauðasamningi fyrir skiptastjóra og hann láti greiða atkvæði um það skal þrotamaðurinn þá leggja fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun og hann síðan leita greiðsluaðlögunar á sama hátt og umsjónarmaður hefði ella gert á grundvelli V. kafla þessa frumvarps, en um þetta skal beitt fyrirmælum XXI. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins. Er þetta í samræmi við gildandi ákvæði í X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Um 24. gr.


    Í 24. gr. frumvarpsins er kveðið á um skiptingu greiðslna milli kröfuhafa. Meginreglan er að þær eignir eða afborganir sem skipta skal milli kröfuhafa skiptast hlutfallslega eftir fjárhæð krafna. Í ákvæðinu eru þó gerðar nokkrar undantekningar frá þessari meginreglu sem taldar eru upp í a–g-lið.
    Fyrsta undantekningin snýr að kröfum sem tryggðar eru með veði. Segir í a-lið að ef skuldari heldur eftir eignum sem tryggðar eru með veði skuli skuldari, meðan á greiðsluaðlögun stendur, greiða umsamda vexti eða tiltekið hlutfall vaxta af veðkröfum sem eru innan matsverðs hinnar veðsettu eignar. Gert er ráð fyrir því að mögulegt sé að kveða á um það að skuldari skuli ekki greiða afborganir af höfuðstól veðkröfu meðan á greiðsluaðlögun stendur. Með þann hluta kröfunnar sem fellur utan matsverðs samkvæmt ákvörðun umsjónarmanns, sbr. 15. gr., skal fara eins og aðrar samningskröfur. Meginsjónarmiðið varðandi stöðu veðkrafna og afborgana ræðst af þeirri staðreynd að veðkröfuhafar fá kröfu sína upp að matsverði eignar greidda, þar sem þær falla ekki niður við lok greiðsluaðlögunartímans, öfugt við samningskröfur, sem falla niður að loknu greiðsluaðlögunartímabili. Því heimila lögin að á greiðsluaðlögunartímabilinu sé greitt hlutfallslega minna af veðkröfum en öðrum kröfum. Veðkröfur er oftar en ekki stærstu kröfur á hendur skuldara og því má ætla að aðrir kröfuhafar fengju lítið ef greitt yrði hlutfallslega af veðkröfum eins og af öðrum kröfum. Því þurfa veðkröfuhafar að sæta þessari meðferð meðan á þriggja til fimm ára greiðsluaðlögunartímabili stendur.
    Önnur undantekning 24. gr. frumvarpsins snýr að kröfum vegna opinberra gjalda. Þannig nær greiðsluaðlögunin ekki til opinberra gjalda eða krafna sem falla til eftir að sýslumaður hefur samþykkt heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
    Þriðja undantekning greinarinnar snýr að meðlags- og framfærslukröfum, en þær falla ekki undir greiðsluaðlögun heldur eru eins konar forgangskröfur við greiðsluaðlögun þar sem skuldari verður að standa skil á þeim að fullu.
    Í fjórða lagi er í greininni gerð undantekning að því er varðar kröfur sem eiga rætur að rekja til refsiverðs athæfis. Þar segir að fésektir, sem ákveðnar hafa verið með dómi eða sátt á síðustu þremur árum áður en umsókn um greiðsluaðlögun var lögð fram, skuli greiða að fullu. Aðrar sektir falla undir greiðsluaðlögunina. Kröfur um skaða- eða miskabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi skulu einnig greiddar að fullu.
    Í fimmta lagi er kveðið á um að heimilt sé að greiða minni háttar kröfur, þ.e. kröfur sem nema lágum fjárhæðum, að fullu ef umsjónarmaður telur slíkt sanngjarnt og viðeigandi með tilliti til framkvæmdar greiðsluaðlögunar.
    Í sjötta lagi er kveðið á um það að heimilt sé að taka minna tillit til vaxta og kostnaðar og færa niður fjárhæð kröfu samkvæmt kröfulýsingu sem þeim nemur.
    Í sjöunda lagi er mælt fyrir um að greiðsluaðlögun taki ekki til námslána. Ástæða þess er sú að námslán eru nátengd aflahæfi skuldara og ekki veitt á viðskiptalegum forsendum. Um helmingur útgjalda Lánasjóðs íslenskra námsmanna kemur nú úr ríkissjóði og því um ríkisstyrkt framfærslukerfi að ræða. Þá er endurgreiðsla tengd launum skuldara. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir þeirri almennu reglu að afborganir námslána verði felldar niður á greiðsluaðlögunartíma og öðrum kröfuhöfum þannig skapað sanngjarnt svigrúm.
    Loks er kveðið á um það að með hliðsjón af eðli kröfunnar geti umsjónarmaður kveðið á um að greiða skuli hærra hlutfall kröfu ef ríkar ástæður eru til þess. Þetta kemur einkum til ef sanngirnisástæður mæla með því að greitt sé meira af einni tegund krafna en af öðrum.
Það segir sig sjálft að ef skuldara er ekki unnt að uppfylla kröfur skv. b–d-lið og viðkomandi kröfuhafar fallast ekki sjálfviljugir á lækkun krafnanna er ekki unnt að koma greiðsluaðlögun í kring. Kröfueigendur þessara krafna hafa því í raun neitunarvald um það hvort greiðsluaðlögun komist á. Umsjónarmaður getur krafist skýringa frá viðkomandi kröfuhöfum fallist þeir ekki á lækkun krafna sinna.
    Þá er í 24. gr. kveðið á um það að sá hluti skulda sem felldur er niður samkvæmt greiðsluaðlögun myndi ekki skattstofn og skerði ekki rétt skuldara til hvers konar greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er kveðið á um skyldu skuldara til að koma því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt greiðsluaðlögun í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun.

Um 25. gr.


    Í 25. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með umdeildar kröfur við greiðsluaðlögun, en þegar skuldari leitar eftir greiðsluaðlögun kunna að vera til staðar kröfur á hendur honum sem eru umdeildar. Þá kunna slíkar kröfur að falla á hann á greiðsluaðlögunartímabilinu. Í slíkum tilvikum ber að taka frá fjárhæð sem hefði farið til að greiða kröfurnar ef þær hefðu verið viðurkenndar. Ef ekki hefur verið gerður reki að því að fá skorið úr gildi kröfunnar með málshöfðun eða öðrum aðgerðum innan sex mánaða frá því greiðsluaðlögun var samþykkt skal skipta fjármununum milli annarra kröfuhafa.

Um 26. gr.


    Í 26. gr. frumvarpsins er kveðið á um tryggingarkröfur, þ.e. þau tilvik þar sem skuldari er skuldbundinn til að greiða fé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sem hann hefur gefið áður en meðferð beiðni um greiðsluaðlögun hófst en skylda samkvæmt yfirlýsingunni er ekki orðin virk þegar greiðsluaðlögun tekur gildi. Í slíkum tilvikum er lagt til að ekki skuli gert ráð fyrir skuldbindingunni við greiðsluaðlögunina. Ef ábyrgðarskuldbindingin verður virk síðar er möguleiki að breyta greiðsluaðlöguninni í samræmi við ákvæði frumvarpsins þar um. Þá er gert ráð fyrir að skuldari greiði sama hlutfall á skuld samkvæmt ábyrgðinni og hann greiðir af óveðtryggðum kröfum samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

Um 27. gr.


    Í 27. og 28. gr. er kveðið á um heimild til breytinga á greiðsluaðlögun, en á greiðsluaðlögunartímanum getur ýmislegt komið upp sem breytir aðstæðum og leiðir til þess að endurskoða þarf forsendur greiðsluaðlögunar.
    Í 27. gr. er kveðið á um heimild skuldara til að krefjast þess að gerðar verði breytingar á skilmálum greiðsluaðlögunar.
    Skilyrði þess að skuldari geti óskað eftir því að gerðar verði breytingar á skilmálum greiðsluaðlögunar eru að á greiðsluaðlögunartímabilinu komi upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt greiðsluaðlöguninni. Kröfu skuldara skal ekki taka til greina ef tilefni breyttra forsendna verður rakið til óábyrgrar hegðunar hans. Hér koma því einkum til skoðunar tilvik eins og þau þar sem skuldari verður fyrir slysi, viðvarandi atvinnuleysi, o.s.frv. Þetta þarf þó að meta hverju sinni.
    Ef fram kemur krafa, sem stofnaðist áður en umsókn skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar var samþykkt og skuldara var ekki kunnugt um þegar skilmálar greiðsluaðlögunar voru ákveðnir og greiðsluaðlögunin tekur ekki til, getur skuldari gert kröfu um að krafan verði felld undir greiðsluaðlögun. Uppfylli krafan skilyrðin um að heimilt sé að fella hana undir greiðsluaðlögun og það er samþykkt eða umboðsmaður skuldara eða héraðsdómur kveða á um það skal greitt af henni í samræmi við það sem verið hefði ef hún hefði verið hluti af skilmálunum í upphafi. Aðeins er greitt af henni frá þeim tíma sem breyting á skilmálum greiðsluaðlögunar tekur gildi. Skuldara er hins vegar óheimilt að greiða kröfuna utan greiðsluaðlögunar, nema fyrir liggi samþykki allra kröfuhafa.
    Áður en skuldari krefst breytinga á greiðsluaðlögun samkvæmt þessari grein skal hann hafa leitað eftir samkomulagi þar um við aðra kröfuhafa. Náist slíkt samkomulag skal það borið undir umboðsmann skuldara, sem skal samþykkja það nema í sérstökum undantekningartilfellum. Ef ekki næst samkomulag getur skuldari lagt til við umboðsmann skuldara eða héraðsdóm að skilmálum greiðsluaðlögunar verði breytt samkvæmt kröfu skuldara, eftir því hvort um frjálsa eða þvingaða greiðsluaðlögun hefur verið að ræða.

Um 28. gr.


    Í 28. gr. er fjallað um tilvik þegar kröfuhafi getur lagt fram kröfu um breytingu á skilmálum greiðsluaðlögunar á greiðsluaðlögunartímabilinu. Þetta getur einkum orðið þegar fjárhagsstaða skuldara hefur batnað mikið frá því sem var þegar skilmálar greiðsluaðlögunar voru samþykktir. Ekki geta kröfuhafar sett fram slíka kröfu nema fjárhagsstaða skuldara hafi batnað verulega. Hvort fjárhagsstaða skuldara hafi breyst svo, að það veiti kröfuhöfum möguleika á því að gera slíka kröfu, þarf að meta hverju sinni. Við skýringu á þessari grein verður þó að horfa til þess að greiðsluaðlögun var komið á miðað við fjárhagsstöðu skuldara á þeim tíma. Hugsunin er sú að skuldari geti endurskipulagt fjármál sín og byrjað upp á nýtt. Greinina má ekki skýra á þann hátt að það letji skuldara til að afla eins mikilla tekna og honum er kostur. Því skal ekki taka tillit til þess ef fjárhagsstaða skuldara batnar vegna eigin vinnu skuldara eða bættra launakjara hans, nema um verulega aukningu tekna sé að ræða.
    Þegar skuldarinn fær háa eingreiðslu á greiðsluaðlögunartímabilinu, t.d. arf eða annað þess háttar, getur kröfuhafi krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli kröfuhafa án þess að greiðsluaðlöguninni sé breytt að öðru leyti. Þá er sama afborgunarfjárhæð greidd áfram en kröfuhafar fá hlutdeild í ávinningnum samkvæmt samkomulagi við skuldara eða ákvörðun umboðsmanns skuldara eða héraðsdóms.
    Ef skuldari stendur ekki við þær skuldbindingar sem á honum hvíla, og skýringar verða raktar til aðstæðna sem skuldari hefur stjórn á, geta kröfuhafar krafist riftunar eða ógildingar á greiðsluaðlögun skv. 3. mgr. ákvæðisins. Ef greiðsluaðlögun er rift eða hún ógilt verður réttarstaðan eins og greiðsluaðlögun hafi aldrei komist á.

Um 29. gr.


    Greinin fjallar um málsmeðferð þegar skuldari eða kröfuhafar krefjast breytinga, riftunar eða ógildingar á greiðsluaðlögun, sbr. 27. og 28. gr. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 30. gr.


    Í greininni er fjallað um upplýsingaskyldu skuldara gagnvart kröfuhöfum. Lagt er til að skuldara verði skylt að upplýsa kröfuhafa innan sanngjarns tíma og á tryggan hátt um aðstæður sem upp koma og skuldari veit eða má vita að veita kröfuhöfum rétt til að ógilda eða rifta greiðsluaðlögun.

Um 31. gr.


    Í 31. gr. frumvarpsins er kveðið á um skráningu greiðsluaðlögunar og fleiri atriði sem huga þarf að þegar greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það að umsjónarmaður skuli óska eftir því að athugasemd um samþykki umboðsmanns skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði skráð í þinglýsingabækur og aðrar opinberar bækur vegna fasteigna, skipa, lausafjár og bifreiðar, sem eru í eigu skuldara. Þetta á við um þær eignir skuldara sem skráðar eru á hans nafn. Veðbönd á eignum sem umsjónarmaður ákveður að selja og eru seldar meðan leitað er greiðsluaðlögunar falla niður. Meðan leitað er greiðsluaðlögunar, og á greiðsluaðlögunartímabilinu sjálfu, getur kröfuhafi ekki fengið þinglýst betri rétti en hann hafði þegar umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt hefst ákveðið ferli sem miðar að því að gera upp fjárhag skuldara með það að leiðarljósi að jafnvægi náist milli greiðslugetu og skulda skuldara, miðað við fjárhagsstöðuna eins og hún var þegar heimild var veitt. Samningskröfuhafar geta því ekki fengið stöðu veðkröfuhafa eftir að samþykki sýslumanns liggur fyrir. Kröfuhafar geta ekki fengið tryggingarétt í eignum skuldara eftir að umsókn skuldara hefur verið samþykkt. Skráning að frumkvæði umsjónarmanns í þinglýsingabækur um að heimild skuldara til að leita greiðsluaðlögunar liggi fyrir er gjaldfrjáls.
    Enn fremur skal umsjónarmaður þinglýsa athugasemd um það að greiðsluaðlögunarumleitanir hafi verið felldar niður eða að greiðsluaðlögun hafi verið komið á, hvort sem um er að ræða frjálsa eða þvingaða greiðsluaðlögun, og hversu langt greiðsluaðlögunartímabilið er. Skráningar af þessu tagi eru einnig gjaldfrjálsar.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um það að umboðsmaður skuldara skuli halda skrá yfir alla sem fengið hafa heimild til greiðsluaðlögunar. Í 3. mgr. er kveðið á um það að þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið skuli yfirvöld og eftirlitsaðilar einungis nota upplýsingar um greiðsluaðlögun skuldara til að kanna hvort skuldari hafi áður fengið greiðsluaðlögun, enda eru það einu upplýsingarnar sem ástæða er fyrir stjórnvöld og eftirlitsaðila að halda utan um varðandi greiðsluaðlögun. Aðrar upplýsingar á ekki að skrá í opinberar bækur. Oft getur verið um að ræða persónulegar upplýsingar sem engin ástæða er til að yfirvöld haldi utan um með því að skrá þær sérstaklega. Annars er félags- og tryggingamálaráðherra ætlað að setja nánari ákvæði um meðferð þessara upplýsinga í reglugerð.

Um 32. gr.


    Eftir að greiðsluaðlögunartímabili er lokið getur skuldari krafist aflýsinga á veðkröfum, sem falla niður eftir að tímabilinu er lokið samkvæmt skilmálum greiðsluaðlögunar. Forsendan er sú að skuldari hafi staðið við sínar skuldbindingar. Við aflýsingu skal skuldari leggja fram samning samkvæmt frjálsri greiðsluaðlögun eða staðfestan úrskurð dómara um þvingaða greiðsluaðlögun. Skuldari á rétt á því að fá kvittun frá kröfuhafa um að hann hafi staðið við sínar skuldbindingar ef nauðsyn krefur, en annars eiga kvittanir um greiðslur samkvæmt skilmálum greiðsluaðlögunar að duga til að fá veðkröfum aflýst.

Um 33. gr.


    Í 33. gr. er fjallað um skiptingu söluandvirðis eigna þegar greiðsluaðlögun hefur ekki komist á. Á ákvæðið við þegar sú staða er uppi að eignir skuldara séu seldar á því tímabili sem leitað er greiðsluaðlögunar, án þess að greiðsluaðlögun komist á síðar. Umsjónarmaður hefur tvo möguleika meðan leitað er greiðsluaðlögunar, í þeim tilvikum þegar hann þarf að fá mat á virði eigna skuldara. Hann getur selt eignir skv. 14. gr. og fengið söluandvirðið greitt, eða metið þær sérstaklega til virðis, en þá falla kröfur sem eru utan virðingar í hóp samningskrafna. Ef umsjónarmaður velur að selja eign, áður en fullljóst er að greiðsluaðlögun komist á, færist áhættan af sölunni yfir á skuldara. Eign kann með öðrum orðum að verða seld án þess að greiðsluaðlögun komist á.
    Í slíkum tilvikum skal umboðsmaður skuldara skipta þeim fjármunum sem lagðir hafa verið til hliðar á milli kröfuhafa í samræmi við reglur ákvæðisins.

Um 34. gr.


    Í greininni er kveðið á um ábyrgð skuldarans á útgjöldum ef hann af ásetningi eða gáleysi, og án tilefnis, stofnar til greiðsluaðlögunarmáls með því að leggja fram umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Enda er eðli málsins samkvæmt eðlilegt að skuldari beri fjárhagslega ábyrgð á slíkum útgjöldum. Kostnaður sem sýnt er fram á að féll til vegna hegðunar skuldara fellur að öllu leyti á hann.

Um 35. gr.


    Í 35. gr. frumvarpsins er kveðið á um það að umboðsmaður skuldara beri kostnað af meðferð umsókna um greiðsluaðlögun og starfa umsjónarmanns með greiðsluaðlögun. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að kröfuhafar greiði þann kostnað sem á þá fellur af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Þá er kveðið á um það að kostnaður vegna sölu eigna skuli greiðast af söluandvirði þeirrar eignar sem seld er. Loks er í ákvæðinu að finna heimild fyrir félags- og tryggingamálaráðherra til að setja í reglugerð nánari ákvæði um greiðslu málskostnaðar.

Um 36. gr.


    Hér er kveðið á um það hvað verður um kröfur sem ekki hefur verið tilkynnt um. Lagt er til að samningskröfur, sem stofnuðust áður en heimild var veitt til að leita greiðsluaðlögunar og skuldari var ekki krafinn um að greiða meðan á greiðsluaðlögunartímabili stóð með því að kröfu væri lýst í kjölfar auglýsingar um innköllun eða að niðurstöðu frjálsrar eða þvingaðrar greiðsluaðlögunar var ekki breytt á greiðsluaðlögunartímabilinu að beiðni kröfuhafa, falli niður að greiðsluaðlögunartímabili loknu. Örlög slíkra krafna eru hin sömu og samningskrafna sem falla niður að loknu greiðsluaðlögunartímabili í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunar.

Um 37. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 38. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á öðrum lögum. Lagt er til að gerð verði breyting á 3. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, frá þeim tíma sem frumvarp þetta öðlast gildi. Þá er lagt til að 1. júní 2011 verði breytingar á þremur öðrum lagabálkum. Lagt er til að X. kafli a laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., falli brott. Einnig er lagt til að lög nr. 65/1996, um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga, falli brott. Loks er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sem nauðsynlegt er að gera vegna brottfalls X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þrátt fyrir að frumvarp þetta verði samþykkt verði áfram unnt að sækja um greiðsluaðlögun á grundvelli X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og óska eftir réttaraðstoð á grundvelli laga nr. 65/1996 til ársloka 2010, en gert er ráð fyrir að meðferð umsókna á grundvelli framangreindra laga verði lokið fyrir 1. júní 2011. Ástæða þessa er að mikilvægt er að lagaskil verði ekki til þess að tafir verði á skilvirkri meðferð greiðsluaðlögunarumsókna.
    Einnig er gert ráð fyrir að lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði gildi áfram og að skuldarar geti valið hvaða leið hentar hverjum og einum best.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

    Frumvarpi þessu er ætlað að bæta stöðu þeirra einstaklinga sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og auðvelda sem flestum að komast í gegnum þá erfiðleika sem gjaldmiðla- og bankahrunið hafa valdið heimilum landsins. Samhliða eru lögð fram tvö önnur frumvörp sem í grunninn hafa sama markmið en hvort um sig tekur á sérstökum viðfangsefnum. Það eru frumvarp til laga um umboðsmann skuldara og frumvarp til laga um breytingar á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
    Með þessu frumvarpi verður einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum gert kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð.
    Lagt er til að einstaklingur sem orðinn er ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar geti lagt inn umsókn hjá umboðsmanni skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og að sú þjónusta verði veitt án endurgjalds. Samkvæmt frumvarpinu nær greiðsluaðlögun til allra fjárskuldbindinga skuldara og miðast við að greitt sé hlutfallslega jafnt af öllum kröfum en á því eru gerðar fáeinar undantekningar. Þær kröfur sem ekki falla undir greiðsluaðlögun eru skuldir sem tryggðar eru með veði í eignum sem skuldarinn heldur eftir, opinber gjöld sem falla til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar var veitt, meðlags- og lífeyrisgreiðslur að undanskilinni meðlagsskuld við hið opinbera, fésektir vegna dóma sem eru yngri en þriggja ára og skaða- og miskabætur samkvæmt dómum. Námslán eru undanþegin greiðsluaðlögun en þó er gert ráð fyrir að afborganir falli niður á greiðsluaðlögunartímanum. Þá getur umsjónarmaður ákveðið að greitt skuli hærra hlutfall af tilteknum skuldum ef rík ástæða þykir til. Undir greiðsluaðlögun getur fallið alger eftirgjöf krafna, hlutfallsleg lækkun þeirra, gjaldfrestur á þeim, greiðsla þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist reglulega á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn og nær hún bæði til samningskrafna og allra veðkrafna. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að umsjónarmaður geti farið fram á sölu fasta- og lausafjármuna telji hann það sanngjarnt og/eða nauðsynlegt. Þá er lagt til í frumvarpinu að greiðsluaðlögunartímabilið skuli að jafnaði vara í þrjú til fimm ár og í tilvikum þvingaðrar greiðsluaðlögunar verði öll meðferð mála hjá einum héraðsdómstóli í stað allra eins og er í gildandi lögum. Með þessu er staða skuldarans styrkt til muna, allt greiðsluaðlögunarferlið einfaldað, hraði málsmeðferða aukinn og komið á samræmi í meðferð greiðsluaðlögunarmála.
    Samkvæmt gildandi lögum geta einstaklingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Það gera þeir með því að sækja um greiðsluaðlögun samningskrafna á grundvelli X. kafla laga um gjaldþrotaskipti og um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á grundvelli laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Í núgildandi lögum er eingöngu gefinn kostur á greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í íbúðarhúsnæði en ekki annarra veðkrafna. Frumvarpið miðar að því að einstaklingar leiti til umboðsmanns skuldara frekar en að leita eftir nauðasamningum til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla laga um gjaldþrotaskipti þótt áfram verði hægt að sækja um greiðsluaðlögun á grundvelli þeirra laga og óska eftir réttaraðstoð á grundvelli laga um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðarsamninga til ársloka 2010. Meðferð umsókna á þeim grundvelli skal vera lokið fyrir 1. júní 2011 en þá er gert ráð fyrir að þessi lagaákvæði falli brott.
    Án þess að nákvæmar áætlanir liggi fyrir má gera ráð fyrir að frumvarpið hafi meiri áhrif til hækkunar en lækkunar útgjalda ríkissjóðs. Á þetta helst við um nýtt embætti umboðsmanns skuldara sem áformað er að stofna á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem í kjölfarið verður lögð niður. Veldur þar helst að samkvæmt frumvarpinu mun greiðsluaðlögunin ná til allra fjárskuldbindinga skuldarans með fáeinum undantekningum. Með því fjölgar þeim sem eiga kost á úrræðinu en engar tölur liggja fyrir um það hve stór þessi hópur gæti verið. Á móti kemur að lögfesting frumvarpsins ætti að létta álagi af dómstólum landsins þar sem heimild til að leita greiðsluaðlögunar og afgreiðsla umsókna verður samkvæmt frumvarpinu að hluta færð frá þeim til umboðsmanns skuldara. Þá færist kostnaður vegna umsjónarmanna að stærstum hluta til umboðsmanns skuldara og að ári liðnu verður þessi kostnaður alfarið hjá því embætti. Einnig gæti ríkissjóður þurft að afskrifa einhver eldri gjöld eða innheimtu þeirra seinkar enn frekar vegna greiðsluaðlögunarinnar. Áhrif frumvarpsins á útgjöld lánastofnana í eigu ríkissjóðs eru líklegast óveruleg en hins vegar gæti frumvarpið haft áhrif á fjárstreymi og afskriftir þeirra og þá einna helst hjá Íbúðalánasjóði þar sem langstærsti hluti skulda einstaklinga eru fasteignalán og sjóðurinn er stærsti lánveitandi slíkra lána. Þá gæti frumvarpið haft neikvæð áhrif á fjárstreymi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem gert er ráð fyrir að umsjónarmenn mælist til þess að afborganir verði frystar meðan á greiðsluaðlögun stendur en ekki er gert ráð fyrir að komi til afskrifta hjá lánasjóðnum þar sem námslán eru ekki meðal fjárskuldbindinga sem greiðsluaðlögunin nær til.
    Niðurstaða þessa kostnaðarmats er því sú að óvíst er um hver fjárhagsleg áhrif af lögfestingu þessa frumvarps verða á ríkissjóð. Ræður þar mestu að ekki liggja fyrir áætlanir um það hversu mikið eftirspurn eftir greiðsluaðlögunarúrræðum gæti aukist umfram það sem annars yrði. Unnið er að samantekt gagna og frekari greiningu fjárhagslegra áhrifa frumvarpsins á ríkissjóð og fjármálastofnanir í hans eigu en niðurstöður liggja enn ekki fyrir.