Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 585. máls.

Þskj. 976  —  585. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002,
með síðari breytingum (Schengen, framfærsla o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari reglur um þátttöku Íslands í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á ytri landamærum á grundvelli skuldbindinga samkvæmt samningi sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999 um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

2. gr.

    Í stað 4. og 5. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.

3. gr.

    C-liður 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Útlendingur sýnir fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti. Útlendingastofnun er m.a. heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef framfærsla hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

4. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo: Sama gildir um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi, EES- útlendings sem hefur skráð sig hér á landi skv. VI. kafla eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalið hér á landi lengur en þrjá mánuði.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Í því eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um útlendinga, nr. 96/2002.
    Markmiðið með breytingunum er tvíþætt. Í fyrsta lagi að heimila ráðherra að setja nánari reglur um þátttöku Íslands í samstarfi á ytri landamærum Schengen-ríkjanna. Í öðru lagi að endurskoða breytingar sem gerðar voru á lögum um útlendinga á árinu 2008, annars vegar að því er varðar skilyrði til framfærslu og hins vegar að því er varðar frestun réttaráhrifa ákvörðunar um brottvísun EES-útlendings sem hefur skráð sig hér á landi skv. VI. kafla laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæðinu er dómsmálaráðherra heimilað að setja reglur um þátttöku í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á landamærum á grundvelli Schengen- samstarfsins. Með Schengen-samningnum var eftirlit með ferðum manna yfir innri landamæri samningsríkjanna fellt niður en eftirlitið á ytri landamærum ríkjanna styrkt. Þátttaka í sameiginlegum verkefnum á þessu sviði er Íslandi mikilvæg og þykir þess vegna rétt að heimila ráðherra að setja nánari reglur um það hvernig samstarfinu skuli háttað í framkvæmd, þ.e. þegar það kallar ekki á að gerðar séu breytingar á lögum.

Um 2. og 3. gr.


    Um er að ræða lagfæringu til samræmis við skilyrði sem sett eru til veitingar á íslenskum ríkisborgararétti. Breytingin sem gerð var á lögum um útlendinga með lögum nr. 86/2008, sem tóku gildi 1. ágúst 2008, hefur í för með sér víðtæk áhrif til takmörkunar á réttindum útlendinga sem löglega dvelja hér á landi og hafa áunnið sér rétt til bóta almannatrygginga eða atvinnuleysisbóta. Lagt er til að lögunum verði breytt aftur til fyrra horfs, þannig að einungis félagsleg fjárhagsaðstoð ríkis eða sveitarfélaga séu framfærslugreiðslur sem ekki teljist til tryggrar framfærslu við mat á því hvort skilyrði eru til að veita dvalarleyfi eða búsetuleyfi hér á landi.

Um 4. gr.


    Með ákvæðinu er bætt inn í 3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna að ákvörðun um brottvísun EES-útlendings sem hefur skráð sig hér á landi skv. VI. kafla laganna megi ekki framkvæma fyrr en ákvörðunin er endanleg. Þar sem EES-útlendingar fá ekki lengur útgefið dvalarleyfi sér til handa við löglega dvöl í landinu þykir rétt að taka af allan vafa í þessum efnum.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um útlendinga,
nr. 96/2002, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að ráðherra verði heimilað að setja með reglugerð nánari reglur um þátttöku Íslands í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á ytri landamærum Schengen-ríkjanna. Í öðru lagi er lagt til að einungis fjárhagsaðstoð ríkis eða sveitarfélaga sé framfærslugreiðslur sem ekki teljist til tryggrar framfærslu við mat á því hvort skilyrði eru til að veita dvalarleyfi eða búsetuleyfi hér á landi. Loks er lagt til að ákvörðun um brottvísun EES-borgara sem skráð hefur búsetu sína hér á landi í þjóðskrá og dvalist hefur í landinu í þrjá mánuði eða lengur verði ekki framkvæmanleg fyrr en ákvörðun er endanleg.
    Með þátttöku í samstarfi á ytri landamærum Schengen-ríkja er Ísland nú þegar aðili að sjóðum og stofnunum samkvæmt samningi en væntanlegri reglugerð er ætlað að festa betur í sessi það fyrirkomulag. Ekki er því gert ráð fyrir auknum kostnaði ríkisins vegna þess. Áætlað er að verklegt samstarf í tengslum við samvinnu á ytri markaði verði aukið en það gengur út á að efld verði svokölluð neyðarteymi sem geta verið til staðar ef upp kemur vandræðaástand í öðrum Schengen-ríkjum auk námskeiða um málefni samstarfsins. Með frumvarpi þessu er verið að veita ráðherra heimild til setningar reglugerðar um slíkt samstarf og hefur það því ekki verið útfært nákvæmlega né kostnaðarmetið á þessu stigi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður þannig ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.