Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
Þskj. 992  —  591. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða.

1. gr.

    Á eftir 57. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

    a. (58. gr.)
    Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu kostnaðar við ráðgjöf, þjónustu og bein úrræði vegna starfsendurhæfingar.
    Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er skylt frá og með 16 til 70 ára aldurs að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar með greiðslu iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs.

    b. (59. gr.)
    Iðgjald launagreiðenda til Starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af stofni iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda skv. 2. gr. og skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu, sbr. 3. gr. laga þessara. Jafnframt skulu lífeyrissjóðir greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum til Starfsendurhæfingarsjóðs, skv. 60. gr.     Iðgjald til Starfsendurhæfingarsjóðs skal greitt reglulega í hverjum mánuði. Launagreiðanda er skylt að standa skil á iðgjaldi sínu til Starfsendurhæfingarsjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr., til viðkomandi lífeyrissjóðs. Lífeyrissjóður skal skila iðgjaldi launagreiðanda ásamt iðgjaldshluta sínum skv. 60. gr., til Starfsendurhæfingarsjóðs.

    c. (60. gr.)     
    Vegna starfsendurhæfingar sjóðfélaga skulu lífeyrissjóðir greiða 0,13% af iðgjaldastofni skv. 1. mgr. 3. gr. til Starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. 59. gr. Lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum og staðfestri reglugerð, sbr. 54. gr., skulu einnig greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum til Starfsendurhæfingarsjóðs. Fyrsta greiðsla er reiknuð af iðgjaldastofni júlímánaðar 2010. Gjalddagi gjaldsins skal vera tíundi næsta mánaðar eftir að launagreiðandi hefur staðið skil á lífeyrisiðgjaldi skv. 2. mgr. 7. gr. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og gjaldið fellur í gjalddaga.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.
2. gr.

    Á eftir 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 0,13% af gjaldstofni skv. III. kafla renni til Starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. 58. og 59. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra skulu koma á samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að meta jafnóðum árangur og framhald á starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs og tryggja samhæfingu starfseminnar við annað endurhæfingarstarf. Nefndin skal jafnframt leggja fram tillögur að skýrum lagaramma varðandi ábyrgð og eftirlit með Starfsendurhæfingarsjóðnum og skal því verkefni vera lokið 1. október 2010.

4. gr.

    Ákvæði a- og b-liðar 1. gr. og 3. gr. öðlast þegar gildi, en ákvæði c-liðar 1. gr. öðlast gildi 1. júlí 2010. Ákvæði 2. gr. öðlast gildi 1. júlí 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, auk breytinga á lögum um tryggingagjald. Þessar breytingar eru í samræmi við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf við gerð stöðugleikasáttmálans 25. júní 2009 varðandi Starfsendurhæfingarsjóð. Þau fyrirheit voru þríþætt. Í fyrsta lagi að lögfesta skyldu launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs, samhliða skyldu launþega til að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar frá 16 til 70 ára aldurs. Í öðru lagi að lögfest verði framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er nemi 0,13% af iðgjaldastofni frá og með 1. júlí 2010. Í þriðja lagi er lögfesting á 0,13% framlagi ríkissjóðs til Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. júlí 2013, sem hér er lagt til að verði reiknað sem hlutdeild í tekjum af tryggingagjaldi.
    Stór hluti launagreiðenda, ríkið þar með talið, er þegar farinn að greiða 0,13% iðgjald til Starfsendurhæfingarsjóðs, en verði frumvarpið að lögum mun sú skylda ná til alls vinnumarkaðarins. Við bætist síðan jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum frá og með 1. júlí 2010. Samkvæmt sáttmálanum er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til Starfsendurhæfingarsjóðs verði 0,13% af tryggingagjaldsstofni frá og með 1. júlí 2013, en fram til þess tíma greiðir ríkið 150 millj. kr. framlag til sjóðsins á árinu 2010, 250 millj. kr. árið 2011 og 350 millj. kr. árið 2012, eða samtals 750 millj. kr. Miðað við áætlaðan tryggingagjaldsstofn fyrir árið 2010 má gera ráð fyrir að árlegar tekjur Starfsendurhæfingarsjóðs verði nálægt 3 milljörðum kr. þegar greiðslur frá öllum aðilum verða að fullu komnar til framkvæmda 1. júlí 2013.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a- og b-lið greinarinnar er lagt til að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi verði skylt að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar með greiðslu 0,13% iðgjalds í Starfsendurhæfingarsjóð, sem greitt verði af launagreiðendum. Lagt er til að launagreiðendur skili fyrrgreindu iðgjaldi samhliða lífeyrisiðgjöldum til viðkomandi lífeyrissjóða.
    Í c-lið er kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum til Starfsendurhæfingarsjóðs, í fyrsta sinn af iðgjaldastofni júlímánaðar 2010. Áætlað er að þetta framlag nemi um 800–900 millj. kr. á heilu ári, en að nálægt 400 millj. kr. greiðist vegna ársins 2010. Jafnframt er lagt til að lífeyrissjóðirnir annist einnig skil á iðgjaldi launagreiðenda til Starfsendurhæfingarsjóðs.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er að finna tillögu í samræmi við fyrirheit stöðugleikasáttmálans um að 0,13% framlag ríkisins til Starfsendurhæfingarsjóðs reiknað sem hlutdeild í tekjum af tryggingagjaldi verði lögfest og komi til framkvæmda frá og með 1. júlí 2013.

Um 3. gr.


    Í stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009 er kveðið á um að komið verði á samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að meta árangur og framhald verkefnisins. Í greininni er gert ráð fyrir að þeirri nefnd verði komið á fót af fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra og að hún skuli tryggja samhæfingu starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs við annað endurhæfingarstarf.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ákvæði a- og b-liðar 1. gr. og 3. gr. taki þegar gildi við birtingu laganna, en ákvæði c-liðar 1. gr. taki gildi 1. júlí 2010 og gildi þar með um þann iðgjaldsstofn sem myndast vegna júlílauna. Samkvæmt tillögum í frumvarpinu munu fyrstu greiðslur verða inntar af hendi til Starfsendurhæfingarsjóðs í september 2010. Ákvæði 2. gr. taka hins vegar ekki gildi fyrr en 1. júlí 2013.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og
lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, auk breytinga á lögum um tryggingagjald. Þessar breytingar eru í samræmi við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf við gerð stöðugleikasáttmálans 25. júní 2009 varðandi Starfsendurhæfingarsjóð. Við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í ársbyrjun 2008 varð að samkomulagi milli aðila að hefja uppbyggingu áfallatrygginga. Í yfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar frá 17. febrúar 2008 í tengslum við gerð kjarasamninga komu fram áform um að ríkið og lífeyrissjóðir kæmu að fjármögnun sjóðsins ásamt vinnuveitendum. Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga við aðila vinnumarkaðarins frá 25. júní sl. er nánar lýst framkvæmd þessarar yfirlýsingar.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að lögfesta skyldu launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs, samhliða skyldu launþega til að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar frá 16 ára til 70 ára aldurs. Sú gjaldtaka er þegar komin til framkvæmda varðandi laun þeirra sem eru í stéttarfélögum, þ.m.t. af launum ríkisstarfsmanna, og mun lögfesting þessa frumvarps því ekki auka útgjöld ríkissjóðs sem launagreiðanda. Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er nemi 0,13% af iðgjaldastofni frá og með 1. júlí 2010. Í þriðja lagi er lögfesting á 0,13% framlagi ríkissjóðs til Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. júlí 2013 sem hér er lagt til að verði reiknað sem hlutdeild í tekjum af tryggingagjaldi. Fram til þess tíma verður framlag ríkisins 150 m.kr. árið 2010, 250 m.kr. árið 2011 og 350 m.kr. árið 2012, samtals 750 m.kr. samkvæmt samkomulagi aðila. Miðað við áætlaðan tryggingagjaldsstofn nú verður árlegt framlag ríkissjóðs liðlega 1 milljarður kr. árlega frá og með 1. júlí 2013. Áætlað er miðað við núverandi tryggingagjaldsstofn að greiðslur til Starfs-endurhæfingarsjóðs nemi allt að 3 milljörðum kr. á ári þegar framlagið verður komið að fullu til greiðslu frá öllum aðilum.
    Rétt er að hafa í huga að verði frumvarp þetta að lögum munu iðgjaldagreiðslur lífeyrissjóða rýrna um 0,13% af iðgjaldsstofni. Að óbreyttu iðgjaldi kynni sú rýrnun að leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga til lengri tíma litið en á móti ætti að vega minni örorkubyrði vegna aukinnar starfsendurhæfingar. Hjá lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga þar sem réttindi eru tryggð samkvæmt sérlögum þyrfti að breyta lögum til að ná því fram, ella hlýst af þessu gjaldi útgjaldaauki fyrir þá aðila.