Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 630. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1238  —  630. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    Engir formlegir vinnuhópar hafa verið skipaðir innan ráðuneytisins eða stofnana þess til að sinna aðildarumsókn. Alls taka átta starfsmenn ráðuneytisins þátt í samningahópum og auk þeirra forstjórar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar og Matvælastofnunar.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?

    Tólf starfsmenn ráðuneytisins (rúmlega fjórðungur) koma að vinnu sem tengist umsókninni en í mismiklum mæli og auk þeirra fjórir til sex úr undirstofnunum. Áætla má gróflega að þetta starfsfólk, auk starfsfólks undirstofnana, verji 18–20 mannmánuðum á árinu 2010 í tengslum við aðildarumsóknina.

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    Ekki er í fjárlögum 2010 gert ráð fyrir sérstökum kostnaði sem falli á ráðuneytið vegna aðildarumsóknar en ljóst er að sá kostnaður verður umtalsverður.

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    Starfsfólki hefur ekki verið fjölgað vegna aðildarumsóknar en á því væri mikil þörf.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    Engin ráðgjöf hefur verið keypt en ráðuneytið greiðir að hluta vinnu sem Fiskistofa innir af hendi.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjáanlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.
    Líkt og komið hefur fram í svörum við fyrirspurnum á Alþingi liggur fyrir að verulegar breytingar verða á stjórnsýslu á sviði landbúnaðar ef til aðildar kemur. Einnig verða kerfisbreytingar á sjávarútvegssviðinu. Á sviði landbúnaðar þarf að tryggja að til staðar verði sérstök greiðslustofnun auk eftirlitskerfis. Ljóst er að hið nýja kerfi verður mun mannfrekara og kostnaðarsamara en það fyrirkomulag sem nú er til staðar. Loks er ljóst að efla verður ráðuneytið umtalsvert. Unnið er að nánari úttekt á þeim kröfum sem eru gerðar í þessu efni.