Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 115. máls.

Þskj. 128  —  115. mál.



Frumvarp til laga

um eftirlit með þjónustu og hlutum
sem hafa hernaðarlega þýðingu .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.
Markmið.

    Með lögum þessum eru settar reglur um:
     a.      eftirlit með hlutum, þjónustu og fjárfestingum sem hafa hernaðarlega þýðingu, í þeim tilgangi að viðhalda friði og öryggi, til varnar gegn hryðjuverkum og til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi,
     b.      örugga vörslu og geymslu gagna um hluti, þjónustu og fjárfestingar sem hafa hernaðarlega þýðingu,
     c.      viðurlög og stjórnsýsluleg úrræði gegn brotum á lögum þessum.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til íslenskra ríkisborgara og útlendinga samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um refsilögsögu, en gera að auki íslenskum ríkisborgurum refsiábyrgð fyrir verknað sem þeir fremja erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt lögum þess ríkis þar sem brotið var framið.
    Lögin gilda gagnvart lögaðilum sem eru skráðir eða stofnaðir samkvæmt íslenskum lögum, hvar sem þeir starfa eða eru staðsettir. Nú er lögaðili skráður eða stofnaður erlendis og taka þá lögin til starfsemi hans að því leyti sem hún fer fram innan íslenskrar lögsögu.
    Nú leggja lög tiltekinn málaflokk til viðkomandi fagráðherra og skal það ekki vera því til fyrirstöðu að utanríkisráðuneytið veiti leyfi eða setji reglur samkvæmt lögum þessum, enda sé haft samráð um útgáfu leyfisins eða setningu reglnanna við viðkomandi ráðuneyti eða undirstofnun þess eftir atvikum. Lögreglustjóri veitir þó leyfi fyrir útflutningi á þeim vopnum sem falla undir gildissvið vopnalaga, að höfðu samráði við utanríkisráðuneyti.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Aðili er einstaklingur eða lögaðili, þ.m.t. ríkisstjórnir, fyrirtæki, samsteypur, stofnanir, sjóðir og samtök.
     2.      Almenn útflutnings-, innflutnings-, þjónustu- eða fjárfestingaleyfi eru leyfi sem eru veitt án þess að einstakir útflutnings-, innflutnings-, þjónustu- eða fjárfestingagerningar séu tilgreindir. Þau eru ýmist veitt einum aðila eða fleiri og eru bundin við viðskipti við aðila í tilgreindum ríkjum.
     3.      Hergögn eru vopn og skotfæri sem hafa hernaðarlega þýðingu, hernaðarökutæki, herbúnaður, aðföng til hernaðar, hernaðarleg tækni, herbúnaður sem er ekki ætlaður ríkisher og varahlutir í framangreinda hluti.
     4.      Hlutur tekur m.a. til vöru, búnaðar, hugbúnaðar og tækni. Hergögn eru meðtalin.
     5.      Hlutur með tvíþætt notagildi er hlutur sem má nota bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi, þ.m.t. allir hlutir sem má bæði nota án þess að þeir springi og við hvers konar framleiðslu kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar.
     6.      Miðlun er milliganga við samningsgerð um kaup, sölu eða útvegun hluta eða þjónustu þar sem milligöngumaðurinn gerir hvorki löggerninga varðandi viðskiptin í eigin nafni né í nafni samningsaðilanna. Miðlun á m.a. við um viðskipti sem eiga sér stað milli aðila í erlendum ríkjum.
     7.      Útflutningur tekur til útflutnings og umflutnings, þ.m.t. endurútflutnings, í skilningi tollalaga, nr. 88/2005, með eða án endurgjalds. Hugtakið tekur einnig til þess að láta af hendi hugbúnað og tækni með rafrænum miðlum, með faxi eða gegnum síma til áfangastaða erlendis.
     8.      Þjónusta tekur m.a. til sölu, miðlunar, útvegunar, flutnings, fjármögnunar, aðstoðar, ráðgjafar og þjálfunar, með eða án endurgjalds.

4. gr.
Leyfisskyldur inn- og útflutningur.

    Enginn má flytja út hergögn eða hluti með tvíþætt notagildi nema með leyfi ráðherra, sbr. þó 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. Listar yfir slík hergögn og hluti skulu birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Listarnir skulu uppfærðir til samræmis við skyldur og skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir sem aðili að alþjóðasamstarfi um bann við útbreiðslu hergagna og hluta með tvíþætt notagildi og um fyrirkomulag útflutningseftirlits eða sem aðili að alþjóðasamningum, eftir því sem við á.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um að útflutningsleyfi þurfi fyrir búnaði sem nota mætti til bælingar innan lands í öðrum ríkjum.
    Auk þess sem tilgreint er í 1. og 2. mgr. er óheimilt að flytja út, án leyfis ráðherra, hluti sem útflytjanda er kunnugt um, hann má ætla eða ráðuneytið tilkynnir honum að séu eða kunni að vera ætlaðir, í heild eða að hluta, til notkunar í hernaðarlegum tilgangi, til hryðjuverka eða til bælingar innan lands og að útflutningurinn brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eða ógni varnar- eða öryggishagsmunum þess eða bandalagsríkja. Hið sama á við um hluti sem ráðuneytið tilkynnir útflytjanda að séu eða kunni að vera ætlaðir til nota, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða við þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um að leyfi þurfi fyrir innflutningi eða viðkomu hluta hérlendis sem geta nýst, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn.

5. gr.
Leyfisskyld þjónusta og leyfisskyldar fjárfestingar.

    Enginn má stunda þjónustuviðskipti í tengslum við útflutning hluta skv. 4. gr. nema með leyfi ráðherra, enda hafi verið settar um þau nánari reglur.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um að leyfi þurfi til miðlunar með hluti skv. 4. gr. óháð því hvort um útflutning er að ræða eða ekki.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um að leyfi þurfi til fjárfestinga erlendis í starfsemi sem tengist þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstri, viðhaldi, geymslu, greiningu, auðkenningu, útbreiðslu, öflun, söfnun, notkun, útvegun, eignarhaldi, flutningi, miðlun eða viðskiptum með hluti skv. 4. gr. ef viðkomandi ríki er ekki aðili að alþjóðasamstarfi um útflutningseftirlit sem ráðherra metur fullnægjandi.

6. gr.
Leyfisskilyrði.

    Ráðherra getur sett skilyrði í tengslum við útgáfu innflutnings-, útflutnings- og þjónustuleyfa samkvæmt lögum þessum, þar á meðal varðandi upplýsingagjöf um sölukjör, greiðslukjör, lánskjör, flutningaleiðir, meðferð skjala og framlagningu vottorða um lokanotanda og/ eða lokanot hluta og þjónustu.
    Ráðherra getur breytt leyfisskilyrðum eftir að leyfi hefur verið gefið út eða afturkallað leyfi hvenær sem er, til bráðabirgða eða fyrir fullt og allt, ef:
     a.      forsendur fyrir útgáfu leyfis eru brostnar,
     b.      leyfishafi hefur ekki farið eftir settum leyfisskilyrðum eða
     c.      brýna nauðsyn ber til
og skal þá leyfishafi skila leyfinu tafarlaust til ráðuneytisins.
    Nú hefur almennt innflutnings-, útflutnings-, þjónustu- eða fjárfestingaleyfi verið gefið út en leyfishafa verður kunnugt um eða hann má ætla, vegna síðari atburða eða af öðrum ástæðum, að útflutningurinn, innflutningurinn, þjónustan eða fjárfestingin brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og er honum þá óheimilt að nota leyfið.
    Aðili máls getur ávallt óskað eftir því að ákvörðun ráðherra um leyfisskilyrði, breytingu leyfisskilyrða, afturköllun eða synjun leyfis verði endurupptekin í samræmi við ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

7. gr.
Varsla hluta og bókhaldsgagna.

    Útflytjendur, innflytjendur og vörsluaðilar hluta skv. 4. gr. skulu tryggja örugga vörslu þeirra. Ráðherra getur sett nánari reglur þar að lútandi.
    Útflytjendur, innflytjendur og vörsluaðilar hluta skv. 4. gr. og þjónustuaðilar og fjárfestar skv. 5. gr. skulu geyma ítarlegar upplýsingar og gögn um útflutning, innflutning, eignarhald, birgðahald, sölu, miðlun, útvegun og flutning þeirra, eftir því sem við á, í að minnsta kosti tíu ár. Gögnin skulu m.a. ná til:
     a.      lýsingar á hlutum, þjónustu og/eða fjárfestingum,
     b.      magns,
     c.      nafns og heimilisfangs viðtakanda, ef við á,
     d.      lokanotanda og/eða lokanota hluta og þjónustu, ef um þau er vitað.
Ráðherra getur sett nánari reglur þar að lútandi.

8. gr.
Upplýsingaskylda.

    Útflytjendur hluta skv. 4. gr. og þjónustuaðilar og fjárfestar skv. 5. gr. skulu veita ráðuneytinu allar þær upplýsingar og alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til þess að framfylgja lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Skal ráðuneytið miðla upplýsingum til ríkislögreglustjóra samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á.
    Ráðuneytið, og þeir opinberu aðilar sem það tilnefnir, getur m.a. krafist:
     a.      aðgangs að öllum gögnum og bókhaldi sem snertir framkvæmd laga þessara,
     b.      aðgangs að öllu viðkomandi skrifstofuhúsnæði og allri tilheyrandi rekstraraðstöðu,
     c.      afrita og þýðinga á efni skv. a-lið,
     d.      aðstoðar við vinnslu og túlkun á efni skv. a-lið.
    Ef ekki er orðið við kröfu ráðuneytisins samkvæmt þessari grein getur það ákveðið að sá eða þeir sem krafan beinist að greiði dagsektir þar til orðið er við henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega og á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið allt að 100.000 kr. á dag. Ákvarðanir ráðuneytisins um dagsektir eru aðfararhæfar skv. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.

9. gr.
Tilkynningarskylda.

    Útflytjendur, innflytjendur og vörsluaðilar hluta skv. 4. gr. skulu tilkynna ráðuneytinu um útflutning, innflutning og birgðahald samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
    Nú er útflytjanda, innflytjanda, þjónustuaðila eða fjárfesti kunnugt um eða hann má ætla að hlutur sem hann vill flytja út eða inn, stunda þjónustuviðskipti með eða fjárfesta í tengslum við, sbr. 5. gr., sé eða kunni að vera ætlaður til nota, í heild eða að hluta, í hernaðarlegum tilgangi, til hryðjuverka eða til bælingar innan lands og skal hann þá tilkynna ráðuneytinu þar um, sem tekur afstöðu til þess hvort leyfi skuli veitt, eftir því sem við á. Hið sama á við um hluti sem honum er kunnugt um eða hann má ætla að kunni að vera ætlaðir til nota, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða við þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn.
    Ráðherra getur sett reglur um að tilkynna skuli flugskeytaskot innan íslenskrar lofthelgi.

10. gr.
Þagnarskylda.

    Starfsmenn ráðuneytisins og þeir aðilar sem það tilnefnir skv. 8. gr. skulu gæta þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um samkvæmt þessum lögum og leynt á að fara. Þagnarskyldan helst eftir að látið er af starfi. Þagnarskyldan gildir ekki að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er:
     a.      til þess að ná markmiðum laganna, m.a. í tengslum við lögreglurannsókn og saksókn máls,
     b.      milli þeirra aðila sem annast framkvæmd laganna, þar á meðal skjalavörslu,
     c.      vegna samráðs eða samvinnu við aðra eftirlits- og samstarfsaðila hérlendis sem erlendis.

11. gr.
Réttindi og skyldur sem fara í bága við lög þessi.

    Óheimilt er að efna samninga eða fullnægja öðrum réttindum og skyldum sem fara í bága við lög þessi og reglugerðir settar með stoð í þeim. Þetta á við hvort sem þessi réttindi og skyldur stofnuðust fyrir eða eftir gildistöku laganna eða viðkomandi reglugerðar nema annað sé tekið fram í henni.
    Vanefnd á réttindum og skyldum skv. 1. mgr. skal ekki leiða af sér skaðabótaskyldu.

12. gr.
Undanþáguheimild.

    Ráðherra getur veitt undanþágu frá banni sem sett er með heimild í þessum lögum þegar gildar ástæður eru fyrir hendi. Heimilt er að setja skilyrði fyrir undanþágu til þess að tryggja að með henni sé ekki grafið undan eða komist fram hjá markmiði bannsins.
    Þegar tekin er ákvörðun um undanþágu samkvæmt þessari grein skal m.a. taka tillit til skyldna og skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir sem aðili að alþjóðasamstarfi um bann við útbreiðslu hergagna og hluta með tvíþætt notagildi og um fyrirkomulag útflutningseftirlits eða sem aðili að alþjóðasamningum, eftir því sem við á.

13. gr.
Viðurlög.

    Sá sem brýtur gegn boði eða banni, sem mælt er fyrir um í eftirgreindum ákvæðum eða í reglugerð sem er sett til nánari útfærslu á þeim, skal sæta sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum:
     a.      7. gr. um vörslu hluta og gagna,
     b.      9. gr. um tilkynningarskyldu.
    Sá sem brýtur gegn boði eða banni, sem mælt er fyrir um í eftirgreindum ákvæðum eða í reglugerð sem er sett til nánari útfærslu á þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé brotið stórfellt varðar það sektum eða fangelsi allt að sex árum:
     a.      4. gr. um bann við inn- eða útflutningi án leyfis,
     b.      5. gr. um bann við þjónustuviðskiptum, miðlun eða fjárfestingum án leyfis,
     c.      1. mgr. 6. gr. um leyfisskilyrði.
    Hafi brot, sem vísað er til í 2. mgr., verið framið af stórfelldu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári.
    Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila og í þágu hans má gera honum sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot má samhliða ákvörðun um refsingu þeirra gera lögaðilanum sekt ef brotið var í þágu hans.
    Gera má upptæka hluti, samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, sem hafa verið notaðir við brot, hafa orðið til við brot eða með öðrum hætti tengjast framningu brots. Þá má gera upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum.

14. gr.
Nánari reglur o.fl.

    Utanríkisráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er heimilt:
     a.      að setja nánari reglur þar að lútandi,
     b.      að láta birta erlendan frumtexta lista yfir hluti skv. 4. gr. í B-deild Stjórnartíðinda,
     c.      að fella niður gjald fyrir útgáfu útflutningsleyfis, sbr. 50. tölul. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, þegar hlutir, sem undir lög þessi heyra, eru fluttir tímabundið til eða frá landinu til prófana, sýningar eða í öðrum tilgangi.

15. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um útflutningsleyfi o.fl., nr. 4/1988.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er nú lagt fram í þriðja sinn, lítið breytt, en það var ekki afgreitt þegar það var lagt fram á 135. og 136. löggjafarþingi.
    Núverandi eftirlit með útflutningi sem hefur hernaðarlega þýðingu er byggt á lögum um útflutningsleyfi o.fl., nr. 4/1988. Eftirlit þetta er viðhaft vegna alþjóðlegra skuldbindinga á þessu sviði sem miða að því að hefta sölu hefðbundinna vopna, gjöreyðingarvopna og hættulegra hluta. Nauðsynlegt er að takmarka dreifingu þeirra til ákveðinna staða, hópa eða einstaklinga til þess að forðast að þau nýtist til hryðjuverka eða annarrar ólögmætrar starfsemi. Auk öryggissjónarmiða þarf að huga að mannréttinda- og mannúðarsjónarmiðum þegar ákvörðun er tekin um að hefta útbreiðslu hættulegra hluta.
    Lög um útflutningsleyfi frá 1988 hafa ekki að geyma nægar heimildir til þess að Ísland geti tekið fullan þátt í alþjóðasamstarfi sem hefur það að markmiði að hefta útbreiðslu þjónustu og hluta sem hafa hernaðarlega þýðingu. Löggjöf sumra ríkja, t.d. Japans, banna að fjárfest sé í greinum, svo sem koltrefjaiðnaði, í löndum sem ekki eru þátttakendur í slíku samstarfi. Markmiðið með framlagningu frumvarpsins er m.a. að aðilar frá ríkjum með slíka löggjöf geti fjárfest á Íslandi.
    Alþjóðleg samvinna um útflutningseftirlit hefur aukist verulega á undanförnum árum. Með frumvarpi þessu eru gildandi reglur um eftirlit með hlutum og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu hertar og útvíkkaðar. Einnig eru settar reglur um eftirlit með hernaðarlega mikilvægri þjónustu og fjárfestingum. Í frumvarpinu eru heimildarákvæði um setningu reglna um örugga vörslu og gagnafærslu þjónustu og hluta sem undir frumvarpið heyra.
    Meðal alþjóðaskuldbindinga Íslands varðandi útflutningseftirlit má nefna fyrirmæli öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, efnavopnasamninginn frá 3. september 1992, skuldbindingar sem fylgja aðild Íslands að svonefndum Ástralíuhópi (efna- og lífefnavopn), Eftirlitskerfinu með flugskeytatækni (Missile Technology Control Regime – MTCR), Öryggisátakinu gegn útbreiðslu gereyðingarvopna (Proliferation Security Initiative – PSI) og Haag-atferlisreglunum gegn útbreiðslu skotflauga (Hague Code of Conduct Against Ballistic Missile Proliferation – HCOC).
    Ísland hefur nýlega gerst aðili að Kjarnbirgjahópnum (Nuclear Suppliers Group – NSG) og hefur sótt um aðild að Wassenaar-fyrirkomulaginu (Wassenaar Arrangement – WA) um takmarkanir á sölu hergagna. Þetta alþjóðasamstarf snýst um að stuðla að alþjóðafriði og öryggi með virku útflutningseftirliti. Aðild Íslands að þessu samstarfi er forsenda fyrir þátttöku erlendra fjárfesta, t.d. frá Japan, í koltrefjaiðnaði á Íslandi.
    Með alþjóðasamstarfi, eins og því sem felst í Ástralíuhópnum, MTCR, PSI og HCOC, sammælast þátttökuríkin um samræmdar aðgerðir sem þeim er ætlað að koma í framkvæmd innan lögsögu sinnar án þess að formlegir alþjóðasamningar séu gerðir þar um.
    Fyrirmæli öryggisráðsins binda öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Dæmi er ályktun nr. 1540 frá 28. apríl 2004 sem fjallar um gereyðingarvopn. Þar segir m.a. að ríki skuli hafa virkt eftirlit með útflutningi á kjarna-, efna- og lífefnavopnum og burðarkerfum þeirra, svo og flutningi, umskipun og fjármögnun. Einnig skal kveðið á um viðurlög gegn brotum á útflutningslöggjöfinni. Lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008, mynda ramma fyrir innleiðingu fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hér á landi.
    Við undirbúning þessa frumvarps hefur m.a. verið tekið tillit til reglna í nágrannalöndunum, þar á meðal á Norðurlöndunum og í Evrópusambandinu. Innan Evrópska efnahagssvæðisins gildir reglan um frjálst flæði vöru og þjónustu. Samræmdar reglur minnka hættuna á umflutningi ólöglegrar vöru frá EES-ríkjum um íslenskt yfirráðasvæði.
    Frumvarp þetta miðar að því að fyrirkomulag eftirlits sé eins hagkvæmt og kostur er og að þekking samstarfsríkja verði nýtt eftir atvikum. Virkt útflutningseftirlit er til þess fallið að styrkja stöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja, einkum þeirra sem stunda útflutning á hlutum sem hafa svokallað tvíþætt notagildi, þ.e. nýtast bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi. Þeim verður auðveldara um vik að flytja inn vissa hátæknivöru í eigin framleiðslu ef betur er tryggt að hún verði ekki endurútflutt til landa sem eru á bannlistum annarra ríkja. Mikilvægt er að fyrirtækin geti treyst því að útflutningur brjóti ekki í bága við alþjóðlegar skuldbindingar, enda getur slíkt haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þau og fyrir stjórnvöld.
    Í gildandi lögum er ekki almenn heimild til að leyfisskylda þjónustu í tengslum við hergagnaviðskipti. Samkvæmt vopnalögum þarf leyfi lögreglustjóra til verslunar með skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda, en þeir vöruflokkar ná aðeins yfir brot af þeim hlutum sem falla undir efni þessa frumvarps. Samkvæmt loftferðalögum þarf leyfi samgönguráðherra til að flytja hergögn í loftförum, en þar eru hergögn skilgreind sem skotvopn og skotfæri. Í þessu frumvarpi er lögð til almenn heimild til þess að leyfisskylda vissa þjónustu í tengslum við hergögn, einkum miðlunarstarfsemi, enda nauðsynlegt til þess að tryggja virkar takmarkanir á viðskiptum með vopn erlendis, m.a. vegna fyrrnefndra alþjóðaskuldbindinga og öryggishagsmuna.
    Ákvörðun um útflutningsleyfi fyrir hergögnum og skyldri vöru fer fram í þremur meginskrefum. Fyrst fer fram tæknilegt mat á vörunni, þ.e. hvort hún sé á gildandi lista yfir hluti sem ekki má flytja út eða aðeins má flytja út að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það mat getur kallað á ýmsa sérfræðiþekkingu, t.d. varðandi vöruna sjálfa, notkunarmöguleika hennar, mismunandi heiti sem kunna að vera notuð yfir hana, dreifingu o.s.frv. Næst fer fram áhættumat, þ.e. hvert er móttökuríkið, eru t.d. stríðsátök á svæðinu og hver er hinn endanlegi notandi? Skoða þarf hvort samstarfsríki hefur bannað hliðstæðan útflutning til viðkomandi aðila, en þá ber að öllu jöfnu að hafna útgáfu útflutningsleyfis. Varðandi þessi tvö fyrstu skref geta íslensk stjórnvöld reitt sig á alþjóðlega samvinnu ef á þarf að halda. Síðasta skrefið er hin pólitíska ákvörðun um hvort heimila eigi útflutninginn, þ.e. ef hann er ekki beinlínis bannaður samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Í þessu efni fylgja nágrannaríkin ekki alltaf samræmdri stefnu, jafnvel t.d. innan Evrópusambandsins.
    Núverandi eftirlit með hergagnaútflutningi og vöru með tvíþætt notagildi er í megindráttum þríþætt. Í fyrsta lagi er það í höndum utanríkisráðuneytisins að veita útflutningsleyfi samkvæmt samnefndum lögum þar um. Í öðru lagi er það hlutverk tollstjóra að hafa eftirlit með útflutningi og umflutningi samkvæmt tollalögum. Í þriðja lagi hafa lögregluyfirvöld eftirlit með brotum á útflutningslöggjöfinni. Einnig koma önnur ráðuneyti að eftirliti með útflutningi á hættulegum hlutum, t.d. umhverfisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, á grundvelli laga sem undir þau heyra. Ef frumvarp þetta verður samþykkt verður engin grundvallarbreyting á þessu fyrirkomulagi. Stjórnvöld þurfa áfram að vinna saman til þess að tryggja nauðsynlega samhæfingu.
    Rétt er að taka fram að þótt samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið fjalli m.a. um frjáls vöruviðskipti er sérstaklega tekið fram í honum að ekkert í samningnum hindri samningsaðila í að gera ráðstafanir sem snerta framleiðslu á eða viðskipti með vopn, skotfæri, hergögn o.fl. Sameiginlegar reglur Evrópusambandsins um eftirlit með útflutningi hergagna eru ekki hluti af EES-samningnum, en engu síður getur verið æskilegt að innleiða hliðstæðar reglur í því skyni að tryggja samræmi í löggjöf ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta frumvarp var tilkynnt aðildarríkjum EES-samningsins á grundvelli ákvæða tilskipunar 98/ 34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna, sbr. reglugerð um tilkynningar á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu nr. 733/2000.
    Gjöld fyrir útflutningsleyfi fara eftir lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Gerð er grein fyrir markmiðssetningu frumvarpsins í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 2. gr.

    Lög þessi taka til allra aðila innan íslenskrar lögsögu og íslenskra aðila erlendis, hvar sem þeir eru staddir.
    Utanríkisráðherra fer með mál er varða útflutningsverslun skv. 11. tölul. 12. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 177/2007, sem er sett á grundvelli samnefndra laga nr. 73/ 1969. Hins vegar er kveðið á um leyfisskyldan útflutning í nokkrum lögum sem heyra undir aðra ráðherra, t.d. vopnalögum, nr. 16/1998, 1 lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, lögum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum í plöntum, nr. 51/1981, og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, svo að dæmi séu tekin.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að utanríkisráðuneytið geti veitt útflutningsleyfi fyrir öll hergögn og hluti með tvíþætt notagildi, en í þeim örfáu tilvikum þegar slíkur útflutningur kann að falla einnig undir önnur lög verði haft samráð við viðkomandi ráðuneyti eða undirstofnun áður en nánari reglur eru settar til þess að tryggja samræmi í framkvæmd. Dæmi um slíka nánari útfærslu er samræming við 78. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, sem kveður á um að hergögn, þ.m.t. skotvopn og skotfæri, megi ekki flytja í loftförum án leyfis samgönguráðherra.
    Í frumvarpi þessu er þó lagt til að lögreglustjóri veiti áfram leyfi fyrir útflutningi á þeim vopnum sem falla undir gildissvið vopnalaga, að höfðu samráði við utanríkisráðuneyti. Skv. 1. mgr. 6. gr. vopnalaga má enginn flytja úr landi skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema með leyfi lögreglustjóra og þykir eðlilegt að sá háttur verði áfram hafður á varðandi útflutning vopna sem falla undir gildissvið vopnalaga. Hins vegar er gert ráð fyrir að lögreglustjóri muni hafa samráð við utanríkisráðuneytið þegar um varanlegan útflutning vopna er að ræða. Tímabundinn útflutningur vopna, t.d. til iðkunar skotfimi og til notkunar við veiðar erlendis, er áfram háður leyfi lögreglustjóra án þess að samráð við utanríkisráðuneytið þurfi að koma til.

Um 3. gr.

    „Herbúnaður sem er ekki ætlaður ríkisher“ er þýðing á enska orðinu „paramilitary“.
    „Útflutningur“ á jafnframt við um munnlegan flutning tækni í gegnum síma ef tæknina er að finna í skjali þar sem viðeigandi hluti þess er lesinn í síma eða honum lýst í síma á þann hátt að útkoman sé sú sama. Ekki er stefnt að því að leyfisbinda tímabundinn útflutning heldur aðeins varanlegan. Um þetta yrði nánar kveðið á í reglugerð.

Um 4. gr.

    Samkvæmt þessu ákvæði verða birtir listar yfir leyfisskyldar vörur. Þeir geta þó aldrei orðið tæmandi. Samkvæmt alþjóðareglum verður að gera ráð fyrir heildarákvæði (svonefndu „catch-all“ ákvæði) til þess að tryggja að reglurnar nái til allra þeirra hluta sem til er ætlast. Ákvæði þetta útilokar ekki að ráðherra veiti þeim fyrirtækjum sem uppfylla sett skilyrði, t.d. um innra eftirlit, almennt útflutningsleyfi, þ.e. ekki þurfi að sækja um leyfi fyrir hverri sendingu.
    Við útfærslu þessa ákvæðis er gert ráð fyrir að mestallur útflutningur til helstu viðskiptalanda og samstarfsríkja, þ.m.t. aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins, verði undanþeginn útflutningsleyfum.
    Gert er ráð fyrir heimild til að kveða á um að leyfi þurfi til innflutnings eða viðkomu hérlendis á hlutum sem tengjast gereyðingarvopnum, sbr. til hliðsjónar 3. gr. reglugerðar um alþjóðlegar öryggisaðgerðir varðandi gereyðingarvopn nr. 123/2009.
    Til glöggvunar á því hvernig listarnir munu líta út eru í fylgiskjölum I–III kaflafyrirsagnir lista yfir hergögn og hluti með tvíþætt notagildi og listi yfir búnað sem nota mætti til bælingar innan lands í öðrum ríkjum. 2

Um 5. gr.

    Í gildandi lögum um útflutningsleyfi er ekki fjallað um þjónustu. Með þessu ákvæði er lagt til að heimilt verði að leyfisbinda þjónustu í tengslum við útflutning eða miðlun þeirra hluta sem heyra undir frumvarpið. Slíkt er nauðsynlegt af öryggisástæðum og er þáttur í baráttu ríkja gegn útbreiðslu vígbúnaðar, mannréttindabrotum og alþjóðlegum afbrota- og hryðjuverkasamtökum. Einnig þarf að vera hægt að takmarka yfirfærslu tækniþekkingar í hernaðarlegum tilgangi með ýmiss konar þjónustusamningum.
    Þess skal getið að ákvæði 1. mgr. 5. gr. verða ekki virk fyrr en ráðherra hefur sett reglur um framkvæmd þeirra.
    Í þessari grein er lögð til heimild til að kveða á um að leyfi þurfi fyrir íslenskum fjárfestingum erlendis sem tengjast hergögnum eða hlutum með tvíþætt notagildi í tilteknum ríkjum. Slíkt ákvæði er m.a. nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir að komist sé fram hjá öðrum ákvæðum frumvarpsins með því að flytja starfsemi úr landi. Ekki þarf þó að takmarka fjárfestingar í ríkjum sem Ísland á í samstarfi við um útflutningseftirlit, svo sem aðildarríkjum Ástralíuhópsins og Eftirlitskerfisins með flugskeytatækni.

Um 6. gr.

    Hér er ráðherra veitt heimild til að binda útflutningsleyfi nauðsynlegum skilyrðum og er þetta ákvæði fyrst og fremst sett í öryggisskyni til að tryggja að útflutningur fari fram í samræmi við lög og alþjóðlegar skuldbindingar.

Um 7. gr.

    Þetta ákvæði heimilar að settar séu reglur um varðveislu gagna og örugga vörslu á hlutum sem undir frumvarpið heyra. Hið fyrra er til þess að tryggja raunhæft eftirlit og tryggja stjórnvöldum nauðsynlega yfirsýn yfir viðkomandi starfsemi. Hið síðara er af öryggisástæðum, til þess að hindra aðgang óviðkomandi aðila. Þegar eru í lögum vissar skyldur á þessu sviði, en engin heildarákvæði ná yfir allar þær vörur og þjónustu sem frumvarpið tekur til. Heimildin er því til frekari uppfyllingar á gildandi reglum og yrði henni aðeins beitt að svo miklu leyti sem nauðsyn krefur og þá í samráði við önnur viðkomandi stjórnvöld til þess að forðast tvítekningu.

Um 8. gr.

    Margir aðilar koma að útflutningi, t.d. framleiðendur, umboðsmenn og farmflytjendur. Til þess að hægt sé að gera hættumat áður en útflutningsleyfi er veitt er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um samninga sem útflutningi tengjast, þ.m.t. um aðila að þeim og efnisákvæði þeirra. Því eru lagðar til heimildir fyrir ráðherra til að krefja útflytjendur og þjónustuaðila um nauðsynlegar upplýsingar sem tengjast leyfisskyldum útflutningi, svo og annað sem skiptir máli við framkvæmd laganna. Einnig er talið nauðsynlegt að mæla fyrir um að upplýsingum samkvæmt þessu ákvæði verði miðlað til ríkislögreglustjóra, eftir því sem við á. Mikilvægt er að tryggja aðgang ríkislögreglustjóra að upplýsingum og aðkomu hans að eftirliti er varðar innri öryggismál ríkisins og alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði.
    Til þess að unnt sé að framfylgja virku útflutningseftirliti verður að vera hægt að fylgja því eftir með tryggilegum hætti. Því er lögð til heimild til þess að leggja dagsektir á þá aðila sem standa að útflutningi á leyfisskyldum hlutum eða þjónustu samkvæmt lögunum og ekki sinna upplýsingaskyldu sinni. Brot á þessu ákvæði varða stjórnsýsluviðurlögum, en ekki refsingum, þ.e. sektum eða fangelsi.

Um 9. gr.

    Til þess að tryggja betur framkvæmd laganna er lagt til að heimilt verði að kveða á um tilkynningarskyldu um innflutning á hlutum sem undir þau heyra. Að svo miklu leyti sem önnur lög kveða á um slíkt yrði upplýsingunum safnað frá stjórnvöldum, til þess að forðast tvítekningu.
    Með þessari grein er m.a. kveðið á um tilkynningarskyldu til stjórnvalda ef grunur leikur á að þjónusta, fjárfesting eða hlutur, sem er á vegum viðkomandi, sé eða kunni að vera ætlaður í hernaðarlegum tilgangi, til hryðjuverka eða til bælingar innan lands.
    Heimild til að kveða á um tilkynningarskyldu vegna flugskeytaskota er sett vegna alþjóðlegra skuldbindinga, en hefur einnig þýðingu fyrir flugöryggi.

Um 10. gr.

    Með þessu ákvæði er áréttað að eftirlitsaðilar verði að gæta fyllstu þagmælsku um atriði sem þeir komast að í starfi og leynt eiga að fara, sérstaklega ef um viðskiptaleyndarmál er að ræða. Með viðskiptaleynd er átt við leynd yfir upplýsingum sem, væru þær látnar af hendi, mundu grafa undan viðskiptahagsmunum einstaklings eða lögaðila, þ.m.t. hugverkaréttur. Um viðurlög við brotum á þagnarskyldu gilda ákvæði 136. gr. almennra hegningarlaga.

Um 11. gr.

    Útflytjandi getur aldrei borið fyrir sig t.d. samning sem hann hefur þegar gert þegar sótt er um útflutningsleyfi. Vanefndir leiða ekki til bótaskyldu.

Um 12. gr.

    Þótt tiltekinn útflutningur hafi verið bannaður getur verið rétt og skylt að veita undanþágur frá slíku banni, vegna alþjóðlegra skuldbindinga eða af öðrum ástæðum. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda um framkvæmdina en þau tryggja jafna málsmeðferð gagnvart öllum leyfisumsækjendum.

Um 13. gr.

    Lagt er til að refsiramminn verði rýmkaður og verði í stað fjögurra ára sex ár fyrir stórfelld brot, enda geta brot á lögunum haft ríkar afleiðingar fyrir öryggishagsmuni landsins og annarra þjóða.

Um 14. gr.

    Ráðherra er hér heimilað að setja nánari reglur um framkvæmd laganna, fyrst og fremst til að innleiða alþjóðlegar skuldbindingar á sviði þeirra.
    Gert er ráð fyrir að gerðir séu listar yfir leyfisskyldan útflutning skv. 1. mgr. 4. gr. til þess að auðvelda bæði útflytjendum og stjórnvöldum framkvæmd laganna. Í framkvæmd er líklegast að listarnir verði samhljóða þeim sem Evrópusambandsríkin nota, enda heppilegast bæði fyrir útflytjendur og stjórnvöld að sömu reglur gildi vegna reglna um frjálsan flutning vöru innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í fylgiskjölum I–III eru tilgreindar kaflafyrirsagnir þeirra eða efni.
    Samkvæmt lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, fer birting laga og stjórnvaldsfyrirmæla fram í Stjórnartíðindum eða í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Heimilt er að innleiða reglur á erlendri tungu að vissum skilyrðum uppfylltum. Nýlegt dæmi um löggjöf á þessu sviði eru lög nr. 170/2006, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem heimila birtingu EES-gerða í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Hér er lagt til að sami háttur verði hafður á og ákveðinn var með lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008, að listarnir verði eingöngu birtir sem erlendur frumtexti í B-deild Stjórnartíðinda, enda mjög sérhæfðir og varða fáa aðila.
    Lagt er til að utanríkisráðherra verði heimilt að fella niður gjald fyrir útflutningsleyfi samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs þegar það á við. Erlendur liðsafli sem dvelst hér á landi nýtur skattfrelsis með ákveðnum skilyrðum, sbr. t.d. lög um réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl., nr. 72/2007. Hins vegar geta komið upp önnur tilvik þar sem sambærileg undanþága er nauðsynleg og eðlileg, svo sem þegar hergögn eða aðrir hlutir, sem undir lög þessi heyra, eru fluttir til landsins tímabundið til prófana, sýningar eða í öðrum tilgangi.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Hergögn.

    Kaflafyrirsagnir lista:
     1.      Vopn með óriffluðu hlaupi og hlaupvídd sem er minni en 20 mm, önnur vopn og sjálfvirk vopn með 12,7 mm hlaupvídd (0,5 tommu hlaupvídd) eða minni og fylgihlutir og sérhannaðir íhlutir til þeirra.
     2.      Vopn með óriffluðu hlaupi og hlaupvídd sem er meiri en 20 mm, önnur vopn og vopnabúnaður með meiri en 12,7 mm (0,5 tommu hlaupvídd), vörpur og fylgihlutir og sérhannaðir íhlutir til þeirra.
     3.      Skotfæri og kveikistillingarbúnaður og sérhannaðir íhlutir til þeirra.
     4.      Sprengjur, tundurskeyti, eldflaugar, flugskeyti, annar sprengibúnaður og sprengihleðslur og tengdur búnaður og fylgihlutir, sérstaklega hannað til hernaðarnota og sérhannaðir íhlutir til þeirra.
     5.      Skotstýribúnaður og tengdur vöktunar- og viðvörunarbúnaður og tengd kerfi, prófunar-, stilli- og gagnárásarbúnaður, sérstaklega hannaður til hernaðarnota og sérhannaðir íhlutir og fylgihlutir.
     6.      Landfarartæki og íhlutir.
     7.      Efnafræðileg eða líffræðileg eiturefni, „efni til að bæla niður óeirðir“, geislavirk efni, tengdur búnaður, íhlutir og smíðaefni.
     8.      „Orkurík efni (energetic materials)“ og skyld efni.
     9.      Herskip, sérstakur búnaður fyrir sjóher og fylgihlutir og íhlutir, sérhannaðir til nota í hernaði.
     10.      „Loftfar“, „loftför sem eru léttari en andrúmsloft (lighter than air vehicles)“, ómönnuð loftför, flughreyflar og búnaður í loftför, tengdur búnaður og íhlutir sérhannaðir eða sem breytt hefur verið til nota í hernaði.
     11.      Rafeindabúnaður sem ekki er tilgreindur annars staðar í sameiginlegum hergagnalista Evrópusambandsins (EU Common Military List), sérhannaður til hernaðarnota og sérhannaðir íhlutir í hann.
     12.      Vopnakerfi sem nota háhraðahreyfiorku og tengdur búnaður og sérhannaðir íhlutir í þau.
     13.      Brynvarinn búnaður og hlífðarbúnaður og hlífðarhlutir og íhlutir.
     14.      Sérhæfður búnaður til herþjálfunar eða til að herma eftir aðstæðum í hernaði, hermar sem eru sérhannaðir til þjálfunar í notkun allra skotvopna eða vopna skv. 1. eða 2. tölul. þessa lista og sérhannaðir íhlutir og fylgihlutir fyrir hann.
     15.      Myndatöku- og myndvinnslubúnaður og búnaður til gagnaðgerða, sérhannaður til nota í hernaði og sérhannaðir íhlutir og fylgihlutir.
     16.      Smíðaðar, steyptar og aðrar ófullunnar vörur sem hægt er að þekkja af samsetningu smíðaefnis, lögun eða virkni þegar þær eru notaðar í hlutum sem lúta útflutningseftirliti og sem eru sérhannaðar fyrir allar vörur sem eru tilgreindar í liðum 1, 4, 6, 9, 10, 12 eða 19.
     17.      Ýmiss konar búnaður, smíðaefni og gagnasöfn og sérhannaðir íhlutir þeirra.
     18.      Búnaður til framleiðslu á hlutum sem tilgreindir eru í sameiginlegum hergagnalista Evrópusambandsins.
     19.      Vopn sem nota stefnuvirka orku (directed energy weapons (DEW)) og tengdur búnaður eða búnaður til gagnaðgerða og prófunarlíkön og sérhannaðir íhlutir í þau.
     20.      Lághitabúnaður og ofurleiðarabúnaður og sérhannaðir íhlutir og fylgihlutir þeirra.
     21.      „Hugbúnaður“.
     22.      „Tækni“.



Fylgiskjal II.


Hlutir sem hafa tvíþætt notagildi.

    Kaflafyrirsagnir lista:
    0.    Kjarnaefni, aðstaða, tæki.
    1.     Efni, kemísk efni, sýklar og eiturefni.
    2.     Vinnsla efna.
    3.     Rafeindabúnaður.
    4.     Tölvubúnaður.
    5.     Fjarskipti og upplýsingaöryggi.
    6.     Nemar og leysibúnaður.
    7.     Leiðsögu- og flugbúnaður.
    8.     Siglingabúnaður.
    9.     Knúningskerfi, geimbúnaður o.fl.



Fylgiskjal III.


Búnaður sem nota mætti til bælingar innan lands í öðrum ríkjum.

    Listinn nær ekki yfir hluti sem hafa verið sérhannaðir eða eru sérstaklega breyttir til hernaðarnota:
     1.      Skotheldir hjálmar, óeirðahjálmar, óeirðaskildir og skotheldir skildir, ásamt sérhönnuðum íhlutum þeirra.
     2.      Sérhannaður tækjabúnaður til fingrafararannsókna.
     3.      Aflstýrð leitarljós.
     4.      Skotheldar vinnuvélar.
     5.      Veiðihnífar.
     6.      Sérhannaður búnaður til framleiðslu haglabyssna.
     7.      Búnaður til þess að handhlaða vopn.
     8.      Búnaður til að hlera samskipti.
     9.      Hálfleiðaraljósskynjarar.
     10.      Myndskerpupípur.
     11.      Sjónaukasigti fyrir vopn.
     12.      Vopn með óriffluðu hlaupi og tilheyrandi skotföng, önnur en þau sem eru sérhönnuð til hernaðarnota, ásamt sérhönnuðum íhlutum þeirra, að undanskildum:
                   merkjabyssum,
                   loftbyssum og byssum með skothylkjum sem eru gerðar til iðnaðarnota eða til þess að deyfa dýr á mannúðlegan hátt.
     13.      Hermar fyrir þjálfun í meðferð skotvopna ásamt sérhönnuðum eða sérstaklega breyttum íhlutum þeirra og aukahlutum.
     14.      Sprengjur og handsprengjur, aðrar en þær sem eru sérhannaðar til hernaðarnota, ásamt sérhönnuðum íhlutum þeirra.
     15.      Líkamshlífar, aðrar en þær sem eru framleiddar eftir hernaðarstöðlum eða tæknilýsingum, ásamt sérhönnuðum íhlutum þeirra.
     16.      Ökutæki til sérstakra nota með drifi á öllum hjólum, sem unnt er að nota utan vega og hafa verið framleidd með eða búin skotheldri vörn, ásamt straumlínulagaðri hlíf fyrir slík ökutæki.
     17.      Vatnsbyssur, ásamt sérhönnuðum eða sérstaklega breyttum íhlutum þeirra.
     18.      Ökutæki búin vatnsbyssum.
     19.      Ökutæki, sem eru sérhönnuð eða er sérstaklega breytt til þess að unnt sé að rafmagna þau í því skyni að hrekja árásarmenn brott, ásamt íhlutum þeirra sem eru sérhannaðir eða sérstaklega breytt í þeim tilgangi.
     20.      Hljóðtæknilegur búnaður, sem viðkomandi framleiðandi eða birgir lýsir sem nothæfum til þess að stöðva óeirðir, ásamt sérhönnuðum íhlutum hans.
     21.      Fótleggjafjötrar, keðjur til að hlekkja saman menn, fótjárn og rafstuðsbelti, sérhönnuð til þess að halda aftur af mönnum, að undanskildum:
                   handjárnum að hámarksheildarmáli, að keðju meðtalinni, sem er 240 mm eða minna þegar þau eru læst.
     22.      Færanlegur búnaður, sem er hannaður eða breytt til þess að stöðva óeirðir eða vera til sjálfsvarnar með því að beita efni sem gerir menn óvirka (t.d. táragasi eða piparúða), ásamt sérhönnuðum íhlutum hans.
     23.      Færanlegur búnaður, sem er hannaður eða breytt til þess að stöðva óeirðir eða vera til sjálfsvarnar með því að gefa rafstuð (t.d. rafstuðskylfur, rafstuðsskildir, deyfingarbyssur og rafstuðspílubyssur), ásamt íhlutum hans sem eru sérhannaðir eða er sérstaklega breytt í fyrrnefndum tilgangi.
     24.      Rafeindabúnaður, sem getur fundið leynd sprengiefni, ásamt sérhönnuðum íhlutum hans, að undanskildum:
                   sjónvarps- eða röntgeneftirlitsbúnaði.



Fylgiskjal IV.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um eftirlit með þjónustu
og hlutum sem hafa hernaðarlega þýðingu.

    Meginmarkmið með frumvarpinu er að setja reglur um utanríkisviðskipti með vörur og þjónustu sem hefur hernaðarlega þýðingu fyrir öryggi landsins og til þess að viðhalda alþjóðafriði og alþjóðaöryggi. Jafnframt hefur frumvarpið í för með sér að settar verða reglur um eftirlit og gagnafærslu um slík viðskipti og viðurlög gegn ólögmætum viðskiptum með slíkar vörur og þjónustu. Í frumvarpinu verður einnig lögð til sú almenna heimild til að leyfisskylda viss utanríkisviðskipti með vörur og þjónustu sem getur nýst í hernaðarlegum tilgangi eða til hryðjuverka.
    Eftirlit með útflutningi hergagna og skyldra hluta er í megindráttum þríþætt. Í fyrsta lagi er slíkt eftirlit á vegum utanríkisráðuneytisins sem veitir útflutningsleyfi samkvæmt lögum um útflutningsleyfi. Í öðru lagi annast tollayfirvöld landamæravörslu. Í þriðja lagi er það lögreglan og lögregluyfirvöld sem sjá um eftirlit.
     Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast óverulega og gert er ráð fyrir að það muni rúmast innan fjárlagaramma viðkomandi ráðuneytis. Matið er byggt á þeim fyrirvara að lagafrumvarp þetta muni ekki leiða til frekari aukningar á núverandi eftirlitsskyldu.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Eitt til tvö varanleg útflutningsleyfi munu hafa verið gefin út árlega samkvæmt vopnalögum undanfarin ár.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Þýðing úr ensku á „equipment which might be used for internal repression“.