Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 642. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1282  —  642. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um gengistryggð lán hjá Byggðastofnun.

     1.      Hversu margir aðilar eru með gengistryggð lán hjá Byggðastofnun?
    Nú eru 53% lántakenda Byggðastofnunar með erlend lán eða 268 af 509 lántakendum.

     2.      Hvað hafa þau lán hækkað mikið frá hruni bankakerfisins?
    Gengistryggð útlán Byggðastofnunar stóðu í 9,9 milljörðum kr. 30. júní 2008 en voru komin í 16,1 milljarð kr. í árslok 2008. Að mati Byggðastofnunar var staðan svipuð í árslok 2009.

     3.      Stendur til að gera Byggðastofnun kleift að bregðast við hækkun gengistryggðra lána með svipuðum hætti og aðrar fjármálastofnanir hafa boðað?

    Eftir útlánatöp og afskriftir útlána í kjölfar efnahagshrunsins var eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar komið niður fyrir lögbundið lágmark. Eiginfjárhlutfall skal að lágmarki vera jákvætt um 8% en samkvæmt árshlutauppgjöri í lok júní 2009 var það neikvætt um 4,74%. Að beiðni Byggðastofnunar vann Ríkisendurskoðun úttekt og greiningu á efnahagsreikningi og eignasafni stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun taldi að lokinni þeirri greiningu ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það mat sem fram kom í árshlutauppgjörinu. Í framhaldinu ákvað Alþingi að auka eigið fé Byggðastofnunar um 2,6 millj. kr. með fjáraukalögum 2009. Jafnframt samþykkti Alþingi allt að 1,0 millj. kr. framlag til að bæta eigið fé stofnunarinnar á fjárlögum 2010. Hluti þessarar heimildar verður nýttur með þeim hætti að ríkissjóður kaupir af Byggðastofnun stofnfé sem stofnunin kann að eignast í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar sparisjóða, en upphæðin verður að öðru leyti nýtt sem eiginfjárframlag í formi skuldabréfa. Miðað er við að þessi aðgerð skili eiginfjárhlutfalli á bilinu 9–10% í árslok 2010. Ráðstöfun þessi mun gera Byggðastofnun kleift að starfa með eðlilegum hætti, en ekki hefur verið gert ráð fyrir niðurfærslu á höfuðstóli gengistryggra lána samhliða þessu.

     4.      Hefur þörfin fyrir slíka leiðréttingu á lánum stofnunarinnar verið metin?

    Þörfin hefur ekki verið metin með heildstæðum hætti en Byggðstofnun hefur leitast við að meta einstök tilvik. Staða viðskiptavina er mjög misjöfn, m.a. eftir gjaldmiðlasamsetningu viðkomandi. Byggðastofnun er að mörgu leyti betur í stakk búin en almenna bankakerfið til að takast á við þann vanda sem nú blasir við í kjölfar bankahrunsins og falls íslensku krónunnar í árslok 2008. Um stofnunina gilda sérlög og reglugerð sem kveða á um heimildir hennar í þessu efni, m.a. varðandi niðurfellingu lána en heimildir til þess ráðast einkum af gæðum veðtrygginga útlána hverju sinni. Einnig má geta þess að fastmótað verklag hefur skapast í þessum málum í gegnum tíðina. Í kjölfar bankahrunsins hafa margir viðskiptavina Byggðastofnunar glímt við háa greiðslubyrði. Til að mæta þessu hafa tvö úrræði helst verið notuð. Annars vegar frysting lána þannig að viðskiptavinur greiðir ekkert af láninu tímabundið og hins vegar frestun á afborgunum af höfuðstól þannig að viðskiptavinurinn greiðir einungis vexti á tímabilinu. Þessi hefðbundnu vanefndaúrræði hafa almennt ekki dugað ein og sér. Á fyrri hluta árs 2009 tók Byggðastofnun í notkun nýtt úrræði sem kallað hefur verið „teygjulán“. Úrræðið felur í sér breytingu á lánum í erlendri mynt á þann hátt að í stað þess að hafa sveiflur í greiðslubyrði um hver mánaðamót vegna þróunar á gengi, færist sú sveifla yfir á allan lánstímann sem getur þá lengst eða orðið styttri eftir því hvernig gengi íslensku krónunnar þróast. Styrking krónunnar felur í sér styttri lánstíma en veiking krónunnar felur í sér lengri lánstíma. Kosturinn fyrir viðskiptavin er sá að hann greiðir sömu greiðslu í íslenskum krónum og gert var á gjalddaga viðmiðunardags sem Byggðastofnun ákveður. Þessi útfærsla er sambærileg þeim úrræðum sem margar aðrar lánastofnanir hafa beitt á gengislán fyrirtækja. Greiðslujöfnun af þessu tagi nýtist einkum einstaklingum í atvinnurekstri og fyrirtækjum sem eru með erlend lán en megintekjur í íslenskum krónum. Hér má t.d. nefna fyrirtæki í landbúnaði og fasteignarekstri. Þá hafa mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu nýtt sér þetta úrræði. Í þeim tilvikum þar sem framangreind úrræði duga ekki til, en eigi að síður er talið að viðkomandi fyrirtæki hafi verið vel rekin, geti átt sér eðlilegar rekstrarlegar forsendur og að verðmæti séu falin í áframhaldandi rekstri þeirra, kemur til skoðunar hvort rétt sé að ganga lengra. Er hér átt við niðurfellingu lána að hluta og/eða breytingu hluta þeirra í hlutafé í viðkomandi fyrirtæki. Um þetta gilda eins og að framan greinir ákvæði laga og reglna um Byggðastofnun, og leita skal álits Ríkisendurskoðunar áður en niðurfelling kemur til framkvæmda. Sérstaklega eru metin áhrif á samkeppni og hvort stjórnendur viðkomandi fyrirtækis njóta trausts stofnunarinnar. Mjög fátítt er að þessu síðastnefnda úrræði sé beitt. Hér þarf einnig að hafa í huga þau sjónarmið sem Samkeppniseftirlitið hefur sett fram um banka og þátttöku þeirra í fjárhagslegri endurreisn fyrirtækja. Í langflestum tilvikum duga hin almennu úrræði eða greiðslujöfnun eins og áður er lýst. Engu að síður er alltaf eitthvað um að staða viðkomandi skuldara sé metin vonlaus þannig að þau úrræði eigi ekki við. Á þetta einkum við um aðila sem stóðu höllum fæti fyrir fall bankanna. Í þeim tilvikum halda mál áfram í innheimtuferli og enda eftir atvikum með nauðungarsölu eða gjaldþroti. Hinn 23. október sl. samþykkti Alþingi lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Samkvæmt 4. gr. laganna hefur efnahags- og viðskiptaráðherra skipað nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Byggðastofnun hefur borist erindi frá nefndinni og mun funda með henni á næstu vikum.