Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 383. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1329  —  383. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing, Smára McCarthy frá Félagi um stafrænt frelsi og Björn Geirsson og Hrafnkel V. Gíslason frá Póst- og fjarskiptastofnun. Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi um stafrænt frelsi, Guido Strack (Whistleblower-Netzwerk), Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi, Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, dr. Thomas Hoeren og ríkislögreglustjóra.
    Í tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórn Íslands að að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Í þessu skyni er gert ráð fyrir að gerð verði sérstök úttekt sem miði að því að afmarka viðfangsefni og undirbúa lagabreytingar. Einnig að litið verði til löggjafar annarra ríkja og reynt að sameina það besta úr þeim til að skapa sérstöðu hér á landi á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Jafnframt er lagt til að komið verði á fót alþjóðlegum tjáningarfrelsisverðlaunum á Íslandi.
    Með tillögunni er þess freistað að bregðast við alþjóðlegri þróun í upplýsingamálum. Hagsmunum almennings af tjáningarfrelsi og málfrelsi, óháðri upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi stendur ógn af vaxandi tilburðum alþjóðlegra stórfyrirtækja, hagsmunasamtaka og stjórnvalda víða um heim til þess að stýra upplýsingamiðlun með lögsóknum, lögbanni og meiðyrðamálsóknum sem virða engin landamæri. Tryggja þarf að allar upplýsingar sem varða almannahag komist til skila í hefðbundnum farvegi vestrænnar blaðamennsku.
    Í greinargerð með tillögunni segir: „Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka afgerandi forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja“. Nefndin telur að skoða þurfi í hvaða mæli Ísland er í aðstöðu til að taka sér leiðandi stöðu í að efla tjáningarfrelsi með þeim hætti að lög nágrannaríkjanna gildi ekki fyrir tölvuvinnslu um upplýsingar ef hún væri vistuð í gagnaveri á Íslandi. Fremur mætti halda því fram að Ísland væri í þeirri stöðu að þurfa að vinna sér traust nágrannaríkjanna eftir hrunið sem hafði áhrif utan landsteinanna. Ísland þarf að taka tillit til annarra ríkja og þeirra alþjóðasáttmála sem landið er aðili að. Nefndin tekur undir þau varnaðarorð sem var beint til hennar í þá veru að ef draga mætti einhvern lærdóm af þeim hraða uppgangi sem var hér og hruninu sem fylgdi í kjölfarið væri hann sá að það borgar sig ekki að ætla að verða mest og best á einu augabragði heldur þarf að fara hægar í sakirnar, taka minni skref, vanda til verka og sjá til þess að allir lausir hnútar séu hnýttir í hverju skrefi fyrir sig. Þar á meðal að ríkið hafi komið sér upp viðbúnaði á viðkomandi sviði áður en skrefið er stigið. Á þann hátt getum við sett markið hátt, markað okkur þá stefnu sem er nauðsynleg til að ná settu marki og komist á leiðarenda með þolinmæði og vinnu.
    Nefndin bendir á að það þarfnast undirbúnings að gera lagabreytingar sem eiga að hafa áhrif á tjáningarfrelsi í heiminum. Fagmennska og öryggi þarf að ríkja í rekstri og framkvæmd og eftirliti opinbers valds á málefnasviðinu. Alþjóðlegar aðgerðir beinast að því að reyna að samhæfa reglur varðandi tölvuógnir og upplýsingar. Margt má betur fara á Íslandi í þessu efni. Ísland hefur til að mynda ekki komið sér upp CERT-teymi (e. Computer Emergency Response Team) en mörg ríki sem Ísland vill bera sig saman við hafa gert slíkt. Þá er landið enn viðkvæmt hvað varðar samband við útlönd. Þrátt fyrir miklar framfarir síðustu ár er þess skemmst að minnast að í febrúar 2010 kom upp bilun í London sem olli sambandsleysi í gegnum FarIce. Þetta bendir til að nauðsynlegt sé að skoða samband Íslands við umheiminn gaumgæfilega hvað varðar innviði upplýsingatækniþjónustu og opinbers eftirlits með henni.
    Það er ekki á valdi Íslands að hlutast til um meiðyrða- og réttarfarslöggjöf í öðrum ríkjum og því er til að mynda ekki unnt að koma í veg fyrir að breskur réttur heimili að mál séu höfðuð þar í landi vegna vefsíðna sem tengjast Íslandi og valda tjóni þar í landi. Samkvæmt Lúganó-samningnum ber Íslandi þá skylda til að viðurkenna dóminn hér á landi, nema að uppfylltum þröngum undantekningum, svo sem ef slík viðurkenning telst andstæð allsherjarreglu hérlendis. Líklegt er að erfitt verði að beita slíkum undantekningum gagnvart Evrópuríkjum á þeim grunni að meiðyrðadómur brjóti gegn allsherjarreglu hérlendis þar sem þau eru flest einnig aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu, þar á meðal Bretland. Nefndin telur að huga þurfi sérstaklega að þessu í þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um.
    Nefndin leggur áherslu á að það er ekki ætlunin að skapa á Íslandi aflandseystöðu þar sem alþjóðalög eru sniðgengin en sá möguleiki gæti komið upp með tilkomu gagnavera að undirboð yrðu á netinu, nokkurs konar aflandseystaða þannig að unnt yrði að víkja frá lögum og reglum. Einstök ríki þar sem gagnaver eru rekin gætu séð sér hag í því að vera aflandseyjar fyrir gögn eða upplýsingar og myndað lagaumhverfi sem ver búnað, gögn eða upplýsingar fyrir lögum og reglu í ríki upphafsaðilans og í ríki móttakandans. Þá mundu aðeins gilda lög þess ríkis sem vistar búnaðinn, gögnin eða upplýsingarnar. Slík aflandsríki sniðganga hugsanlega alþjóðalög og -samninga til að geta sjálf stjórnað lagaumhverfinu. Þannig gæti myndast samkeppni um viðskipti milli smáríkja sem hýsa gagnaver og eitt boðið aflandseyjaþjónustu hvað varðar upplýsingalög, annað hvað varðar bókhaldslög, þriðja um annað ólöglegt efni o.s.frv. Slík samkeppni er tæpast í almannaþágu.
    Nefndin leggur til þrenns konar breytingar á tillögugreininni:
    Í fyrsta lagi að kannaðir verði möguleikar á að koma á fót alþjóðaverðlaunum sem yrðu kennd við Ísland í stað þess að kveða með fortakslausum hætti á um að svo verði gert. Í öðru lagi leggur nefndin til að gerð verði sérstök úttekt á viðbúnaði ríkisins á sviði öryggismála vegna starfrækslu gagnavera. Í þriðja lagi er lagt til að haldin verði ráðstefna um breytingar á lagasetningu og umhverfi notenda netsins með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið. Slík ráðstefna gæti til dæmis verið haldin í samstarfi við Evrópuráðið.
    Nefndin telur að þær tillögur sem eru nefndar í greinargerð með ályktuninni séu til þess fallnar að skapa hér framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Slíkar breytingar mundu treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta hérlendis og auka gagnsæi og aðhald. Stefnumörkunin gæti gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum. Fyrir liggur að menntamálaráðuneytið hyggst strax í sumar ráða starfsmann sem gæti sinnt því verkefni sem hér er lagt til. Enn fremur hefur tillagan vakið mikla athygli á heimsvísu en hingað hafa tugir blaðamanna leitað upplýsinga vegna málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan sem borin er fram af fulltrúum allra flokka á Alþingi verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Í stað orðsins „komið“ í c-lið 1. mgr., komi: kannaðir möguleikar þess að koma.
     2.      Við 1. mgr. bætist tveir nýir stafliðir, er orðist svo:
                  d.      gerð úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi,
                  e.      haldin alþjóðleg ráðstefna á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið.

    Ögmundur Jónasson og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 10. júní 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.



Valgerður Bjarnadóttir.


Vigdís Hauksdóttir.


Ólöf Nordal,


með fyrirvara.



Þráinn Bertelsson.