Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 669. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1337  —  669. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason,


Gunnar Bragi Sveinsson, Birgitta Jónsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Greinargerð.


Aðdragandi, staða málsins og ábyrgð.
    Alþingi ályktaði hinn 16. júlí 2009 að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Atkvæði féllu þannig að 33 þingmenn sögðu já og 28 nei.
    Af stefnuskrám ríkisstjórnarflokkanna, umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu á undanförnum árum og atkvæðaskýringum ráðherra og þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ljóst að ekki er einhugur í ríkisstjórninni um það hvort hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Þetta kom fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar áskildu þeir sér rétt til þess að berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.
    Umsókn um aðild að Evrópusambandinu gerbreytir áherslum Íslands í utanríkismálum. Stefnubreytingu í jafnmikilvægum málaflokki þarf að undirbúa vel og ná breiðri samstöðu, bæði á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Hyggilegast hefði verið að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram um hvort sækja skyldi um aðild.
    Ekki er ofmælt að segja að undirbúningi málsins hefur verið ábótavant. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt mikla andstöðu þjóðarinnar við aðild. Samtök atvinnulífsins o.fl. hafa ekki treyst sér til að taka afstöðu til aðildar. Breið pólitísk samstaða liggur því ekki að baki umsókninni.
    Ljóst er að lítill áhugi er á því hjá ráðamönnum þjóðarinnar að axla ábyrgð á aðildarumsókninni. Þannig hafa ráðherrar ítrekað vísað ábyrgð á málinu á Alþingi og sagt að þingið hafi valdið til að stöðva umsóknina.
    Fullyrt hefur verið að það sé eðlilegt að senda inn aðildarumsókn til þess að kanna hvað sé í boði fyrir Ísland. Staðreyndin er hins vegar sú að yfirleitt hafa þjóðir ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu nema vegna þess að ríkur vilji sé meðal þjóðar að ganga í sambandið. Þegar tilkynnt er af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að mælt sé með því að hafnar verði viðræður, þá brjótast yfirleitt út fagnaðarlæti á götum úti. Fjölmargir sérfræðingar, bæði erlendir og innlendir, hafa bent á þessa staðreynd auk þess sem þetta hefur ekki farið fram hjá ráðamönnum Evrópusambandsins.
    Það er grundvallaratriði að þjóðin hafi fyrsta og síðasta orðið hvað viðkemur hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Því skiptir afar miklu máli að hafa skýrt umboð ef farið verður að nýju af stað í hugsanlegar aðildarviðræður. Slíkt umboð verður aðeins fengið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Fari svo að samþykkt verði að sækja um aðild hafa stjórnvöld fengið skýrt umboð í hendur. Felli þjóðin það í atkvæðagreiðslu að sækja um aðild þyrfti ekki að fara með málið lengra með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðarbúið og vinnu fjölmargra aðila. Slík aðferðafræði er farsælust fyrir hagsmuni þjóðarinnar og tryggir að ekki verði farið af stað án breiðrar samstöðu.
    Utanríkisráðuneytið hefur verið tregt til að gefa upp raunverulegan kostnað við aðildarferlið en fyrir liggur að kostnaður ríkisins er a.m.k. 7 milljarðar kr. Þeim fjármunum er betur varið til brýnna verkefna í þágu íslensks samfélags og í ljósi stöðu ríkissjóðs er óverjandi að halda áfram á þessari braut.
    Allt frá því að málið kom fram á Alþingi var reynt að halda fram þeim rökum að aðild að Evrópusambandinu væri það eina sem gæti komið þjóðinni til bjargar í þeim efnahagsþrengingum sem að steðja. Slíkur málflutningur stenst ekki skoðun eins og reynslan hefur nú sýnt og má því segja að umsóknin sé villuljós sem tefur fyrir úrlausn þeirra raunverulegu verkefna sem brýnt er að stjórnvöld, Alþingi og stofnanir ríkisins beini öllum kröftum sínum að.
    Íslensk stjórnvöld verða sjálf að sýna frumkvæði að því að vinna þjóðina út úr þeim vanda sem hrun bankakerfisins olli. Það mun enginn annar gera það fyrir okkur, ferlið verður sársaukafullt, erfitt og tímafrekt. Á endanum munum við standa sterkari eftir ef við berum gæfu til að einbeita okkur að því verkefni án þess að eyða tíma og fjármunum í að eltast við villuljós. Aðild að Evrópusambandinu er ekki lausn á efnahagsvanda Íslands.

Breyttar forsendur.
    Evrópusambandið stendur frammi fyrir stærri úrlausnarefnum en það hefur gert um langa hríð. Erfitt er að lesa í spilin um það hvernig sambandið þróast á næstunni en ljóst er að miklar breytingar eru á döfinni. Efnahagserfiðleikar almennt í álfunni og spenna á myntsvæðinu, sem sextán ESB-ríki deila með sér, veldur því að kröfur hafa komið fram um frekari samruna, t.d. við gerð fjárlaga ríkja. Á næstu missirum og árum mun Evrópusambandið endurskoða starfshætti sína og e.t.v. gera breytingar á grunnsáttmála sínum, Lissabonsáttmálanum. Á meðan ekki er ljóst hvernig haldið verður á málum hjá Evrópusambandinu er óráðlegt að vera í aðildarferli að sambandi sem gæti tekið grundvallarbreytingum á næstu missirum.
    Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa haldið því fram að eina leiðin til að tryggja efnahagslegan stöðugleika á Íslandi væri sú að ganga í sambandið og taka upp evru. Nú er ljóst að hvorki aðild að Evrópusambandinu né evran hefur tryggt efnahagslegan stöðugleika í Grikklandi, á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Írlandi. Staða þessara ríkja er í sumum tilvikum verri en hér þrátt fyrir að þau hafi ekki þurft að glíma við bankakerfishrun líkt og Ísland.
    Stuðningsmenn aðildar hafa jafnframt haldið því fram að evrunni fylgi lítil verðbólga og lágir vextir og að upptaka evru mundi þýða aukinn aga í hagstjórn. Raunin er sú að verðbólga er mjög mismunandi á evrusvæðinu og segja má að þau skiptist í tvo hópa. Grikkland er dæmi um land þar sem staðan er alvarleg. Agaleysi ríkir í hagstjórn víða á ESB-svæðinu og þá ekki síst á evrusvæðinu. Sem dæmi má nefna að reglur um halla á fjárlögum hafa verið þverbrotnar af ýmsum þjóðum, m.a. af Þjóðverjum.
    Mikil umræða hefur farið af stað innan Evrópusambandsins í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar og þá sérstaklega í ljósi efnahagsvandræða Grikkja. Viðbrögð ESB-ríkjanna við þeirri upplausn sem blasir við í efnahags- og fjármálum aðildarríkjanna er að leggja til aukna miðstýringu frá Brussel. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur komið þeirri skoðun á framfæri að eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á smáríkjum sem stýra efnahagsmálum sínum á annan hátt en Þjóðverjar vilja sé að herða reglurnar og breyta sáttmálum Evrópusambandsins þannig að stóru þjóðirnar fái sterkari heimildir til þess að grípa inn í efnahagslíf einstakra aðildarríkja.
    Því er ljóst að vilji er til frekari samruna innan Evrópusambandsins og að sjálfstæði þjóðanna innan sambandsins mun minnka á komandi árum. Enn frekara fullveldisafsal blasir því við aðildarþjóðum Evrópusambandsins og er ljóst að Ísland sem aðildarríki að sambandinu mundi litlu sem engu ráða um eigin málefni, hvorki hvað varðar fjárlagagerð né efnahagsmál almennt, hvað þá önnur málefni. Slík framtíðarsýn er ekki það sem íslenska þjóðin þarf á að halda í dag.
    Evrópusambandið breytti undir lok síðustu aldar aðferðum sínum við að taka inn ný ríki. Sambandið gerir kröfu um að stofnanakerfi umsóknarríkja lagi sig að kröfu sambandsins í sjálfu aðildarferlinu en ekki að loknum samningum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Evrópusambandið talar um aðlögunarferli í þessu sambandi en ekki samningaviðræður. Af þessu leiðir að þjóðin verður smátt og smátt innlimuð í Evrópusambandið án þess að hafa neitt um það að segja. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu andstætt slíkt verklag er lýðræðislegum stjórnarháttum.

Niðurlag.
    Mikilvægt er að nýta krafta stjórnsýslunnar og fjármagn ríkisins til þeirra brýnu verkefna sem fyrir liggja í kjölfar bankahrunsins. Að halda áfram aðildarferlinu þegar bersýnilegt er að hugur fylgir ekki máli er slæmt fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.
    Íslandi og Evrópusambandinu er lítill greiði gerður með því að íslensk stjórnvöld efni til aðildarviðræðna á þeim hæpnum forsendum sem hér hafa verið raktar. Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og mun sú niðurstaða ekki auka velvilja í garð Íslendinga hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins.
    Af öllu framangreindu er ljóst að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er ótímabær og því hníga öll rök að því að draga hana til baka.