Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 623. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1349  —  623. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

     1.      Hvaða vinnuhópar, ef einhverjir eru, innan ráðuneytisins eða undirstofnana þess fjalla um málefni tengd umsókn um aðild að Evrópusambandinu?
    Innan ráðuneytisins er ekki að finna sérstaka vinnuhópa sem fjalla um málefni er tengjast umsókn um aðild að ESB. Með málefnið er eingöngu farið í þeim tíu samningahópum sem utanríkisráðherra hefur skipað og starfa undir samninganefnd Íslands. Innan samningahópanna hafa verið skipaðir vinnuhópar og eftir atvikum á milli þeirra hafa verið skipaðir óformlegir vinnuhópar til að vinna afmörkuð verkefni, um fjárfestingar í sjávarútvegi, fjárfestingar í bújörðum og um sjávarspendýr.

     2.      Hversu margir starfsmenn má ætla að vinni að aðildarumsókninni innan ráðuneytisins og undirstofnana þess og hversu hátt hlutfall er það af heildarstarfsmannafjölda?
    Að meðferð málsins koma starfsmenn af öllum sviðum ráðuneytisins með þátttöku í einstökum samningahópum. Af starfsmönnum ráðuneytisins hafa sjö verið skipaðir fulltrúar í samninganefnd og 12 sem fulltrúar í samningahópum en auk þess vinna níu starfsmenn fyrir samningahópana. Meginþungi starfa í ráðuneytinu vegna aðildarumsóknar liggur hjá viðskiptasviði en þar starfar nú alls 21 starfsmaður. Samhliða vinnu við aðildarumsókn annast þessir sömu starfsmenn málefni á sviði EES-samningsins, EFTA og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar svo að eitthvað sé nefnt. Áratuginn áður en sótt var um aðild að ESB störfuðu að meðaltali 16 manns í ráðuneytinu að þeim málaflokkum sem nú heyra undir viðskiptasvið, mest 19 og minnst 10. Fyrir umsókn Íslands að ESB, eða á vordögum 2009, störfuðu 17 manns á viðskiptasviði. Sú fjölgun sem orðið hefur á starfsmönnum sviðsins hefur orðið með flutningum starfsmanna frá öðrum sviðum ráðuneytisins. Starfsmönnum þýðingamiðstöðvar hefur verið fjölgað um níu og áætlanir eru um ráða allt að 14 nýja þýðendur til viðbótar en starf þeirra mun ekki síður beinast að því að þýða EES-gerðir en þá hluta regluverks ESB sem fellur utan EES-samningsins. Engin fjölgun hefur átt sér stað á sendiskrifstofum Íslands erlendis vegna aðildarumsóknarinnar.

     3.      Hvað er áætlað að ráðuneytið og undirstofnanir þess verji miklu fé, á þessu ári og því næsta, til vinnu vegna aðildarumsóknarinnar?
    Ítarleg grein hefur verið gerð fyrir kostnaðarhlið aðildarumsóknarferlisins í skriflegum svörum til Alþingis, sbr. þskj. 982 og 124, sem og í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis sem rædd var 15. maí sl. Sá fjárhagslegi rammi sem hefur verið settur vegna umsóknarferlisins að því er varðar utanríkisráðuneytið kemur fram í fjárlögum ársins 2010 þar sem 184 millj. kr. eru ætlaðar til þýðingamála og 250 millj. kr. til annarra þátta ferlisins, þar af 50 millj. kr. vegna kostnaðar annarra ráðuneyta. Af greinargerð með frumvarpi til fjárlaga yfirstandandi árs má ráða að fjárveitingar vegna ársins 2011 verði sambærilegar að því er varðar þýðingar en 150 millj. kr. vegna annarra þátta. Grein hefur verið gerð fyrir áætlunum um skiptingu þessara fjárheimilda yfirstandandi árs í svari utanríkisráðherra á þskj. 982.

     4.      Hefur starfsmönnum í ráðuneytinu eða undirstofnunum þess verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, hve mörg stöðugildi er um að ræða?
    Starfsmönnum í ráðuneytinu hefur ekki verið fjölgað vegna aðildarumsóknarinnar heldur hefur sú leið verið farin að færa til verkefni innan ráðuneytisins og forgangsraða í starfi þess í því skyni að mæta auknu vinnuálagi. Þannig hefur með innri hagræðingu verið unnt að flytja til átta stöðugildi innan utanríkisþjónustunnar til að styðja við aðildarumsóknarferlið. Eina dæmið um fjölgun starfsmanna er hjá þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins þar sem fjölgunin á árinu 2010 nemur níu starfsmönnum auk þess sem fyrirhugað er að ráða allt að 14 þýðendur síðar á þessu ári en líkt og greinir að framan munu kraftar þeirra ekki síður beinast að EES-gerðum.

     5.      Hefur ráðuneytið keypt einhverja utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar og ef svo er, af hverjum var sú ráðgjöf keypt og hversu mikill var kostnaðurinn við það?
    Ráðuneytið hefur ekki keypt utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar umfram það sem fram kemur í svari forsætisráðherra á þskj. 579. Ráðuneytið hefur haft það að stefnumiði að leita eftir því sem unnt er fanga hjá sérfræðingum aðildarríkja ESB en slík ráðgjöf er jafnan veitt án sérstaks endurgjalds af Íslands hálfu.

     6.      Liggur fyrir hvaða skipulagsbreytingar á stjórnsýslu þeirri sem undir ráðuneytið heyrir þurfa að vera komnar til framkvæmda áður en til aðildar kemur til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins? Óskað er eftir upplýsingum um breytingar sem eru fyrirsjáanlegar þrátt fyrir að heildarumfang þeirra liggi ekki fyrir.
    Engar slíkar breytingar eru fyrirsjáanlegar á verksviði ráðuneytisins.