Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1350  —  583. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um skuldbindingar vegna EES- samningsins.

     1.      Hvaða skuldbindingar leggur EES-samningurinn á herðar Íslendingum um skil á landbúnaðarhagtölum og hvenær tóku þær gildi?
    Sem aðila að EES-samningnum ber Íslandi að tryggja gerð og miðlun samfelldra og samanburðarhæfra tölfræðilegra upplýsinga sem tilgreindar eru í XXI. viðauka við samninginn. Þessi tölfræði lýsir og gerir kleift að fylgjast með þeim þáttum sem máli skipta, m.a. á sviði landbúnaðarmála á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Á sviði landbúnaðarhagtalna ber Íslandi samkvæmt EES-samningnum að skila tölfræði um alla þætti landbúnaðar, að undanskildum hagtölum um kjöt, gera kannanir um framleiðsluskipan í landbúnaði og taka saman niðurstöður um hagreikninga landbúnaðarins.
    Í eftirfarandi yfirliti er að finna megingerðir samningsins um landbúnaðarhagtölur ásamt upplýsingum um gildistöku ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem felldu þær inn í samninginn. Undir flestar þessara gerða fellur nokkur fjöldi gerða er varða framkvæmd skýrslugerðarinnar.
          Tilskipun ráðsins 96/16/EB frá 19. mars 1996 um tölfræðilegar kannanir vegna mjólkur og mjólkurafurða (Stjtíð. EB nr. L 78, 28.3.1996, bls. 27), með síðari breytingum. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/99. Gildistaka: 30.1.1999.
          Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 837/90 frá 26. mars 1990 um skýrslugerð aðildarríkjanna um kornrækt (Stjtíð. EB nr. L 88, 3.4.1990, bls. 1), með síðari breytingum. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 38/98. Gildistaka: 1.5.1998.
          Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 959/93 frá 5. apríl 1993 um tölfræðilegar upplýsingar sem aðildarríkjunum ber að skila um aðrar ræktunarafurðir en korn (Stjtíð. EB nr. L 98, 24. 4.1993, bls. 1), með síðari breytingum. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/98. Gildistaka: 7.3.1998.
          Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1166/2008 um gerð kannana um búskaparhætti og framleiðsluskipan í landbúnaði og afnám reglugerðar ráðsins nr. 571/ 1988 (Stjtíð. EB nr. L 167, 29.6.2009, bls. 1). Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 112/2009. Gildistaka 23. október 2009.
          Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 138/2004 frá 5. desember 2003 um hagreikninga landbúnaðarins í Bandalaginu (Stjtíð. ESB L 33, 5.2.2004, bls. 1), með síðari breytingu. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 136/2004. Gildistaka: 25.9. 2004.

     2.      Hvernig hafa Íslendingar staðið við skuldbindingar sínar?
    Í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá 24. febrúar 2010 kemur fram að hagskýrslugerð sé í grundvallaratriðum í góðu samræmi við regluverk ESB um tölfræði, þó að úrbóta sé þörf á sviði landbúnaðartölfræði.
    Stærstur hluti frumgagna um hagtölur í landbúnaði kemur frá afurðastöðvum. Bændasamtökin hafa það hlutverk að safna þessum gögnum saman. Úrvinnsla þeirra fer fram hjá Bændasamtökunum, Hagstofu, Hagþjónustu landbúnaðarins og raunar víðar eftir atvikum. Hluta þeirra tölfræðiupplýsinga um landbúnaðarmál sem EES-samningurinn gerir kröfu um skil á er því safnað hér á landi. Þetta á einkum við um þá þætti landbúnaðarframleiðslu sem nýtur styrkja þar sem útreikningar þeirra kalla á áreiðanlegar tölfræðiupplýsingar. Aftur á móti eru kröfur um úrvinnslu í samræmi við reglur ESB og skil upplýsinga til ESB ekki uppfylltar.
    Nánar tiltekið uppfyllir Ísland ekki skuldbindingar EES-samningsins um skil á landbúnaðartölfræði vegna mjólkur og mjólkurafurða í samræmi við tilskipun ráðsins 96/16. Skýrslugerð á grundvelli reglugerða ráðsins nr. 837/90 og nr. 959/93 um skýrslugerð aðildarríkjanna um kornrækt og aðrar ræktunarafurðir en korn er ekki framkvæmd hér á landi. Þá eru hagreikningar fyrir landbúnað ekki gerðir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 138/2004 um slíka reikninga.
    Gera þarf könnun á framleiðsluskipan í landbúnaði vegna ársins 2010 í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1166/2008.

     3.      Hafa stofnanir Evrópusambandsins gert athugasemdir við hvernig skuldbindingarnar hafa verið uppfylltar og ef svo er, hversu oft, hvenær og hvers eðlis hafa athugasemdirnar verið í megindráttum?
    Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, gerði formlega athugasemd við það hvernig staðið hefur verið við skuldbindingar um skil á landbúnaðarhagtölum. Athugasemdirnar koma fram í skýrslu stofnunarinnar um heimsókn hennar til Íslands 16.–17. nóvember 2009. Þar kemur m.a. fram að skortur sé á viðurkenndum hagtölum um landbúnað og að endurskoða þurfi núverandi fyrirkomulag við gerð landbúnaðarhagskýrslna. Þetta mat endurspeglast í áliti framkvæmdastjórnarinnar á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá 24. febrúar 2010.
    Um þessar mundir fer fram greining á núverandi fyrirkomulagi á söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um landbúnaðarmál og áætlunargerð um hvernig hentugast væri að standa að þessum málum í framtíðinni.