Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1399, 138. löggjafarþing 375. mál: Stjórnarráð Íslands (siðareglur).
Lög nr. 86 25. júní 2010.

Lög um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum (siðareglur).


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands.

1. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, með tveimur nýjum greinum, 16. og 17. gr., svohljóðandi:
     
     a. (16. gr.)
     Forsætisráðherra staðfestir siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands. Við undirbúning reglnanna skal hafa samráð við starfsmenn sem í hlut eiga. Einstökum ráðuneytum er heimilt að útfæra siðareglurnar nánar með hliðsjón af sérstökum verkefnum sem þau sinna. Heimilt er forsætisráðherra að setja sérstakar siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra.
     Forsætisráðherra staðfestir siðareglur fyrir ráðherra ríkisstjórnar sinnar í kjölfar samráðs á ráðherrafundi.
     Siðareglur skal birta almenningi á aðgengilegan hátt.
     
     b. (17. gr.)
     Forsætisráðherra skipar til þriggja ára í senn samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Í nefndinni eiga sæti formaður, skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Félags forstöðumanna ríkisstofnana, fulltrúi fjármálaráðherra, tveir fulltrúar samtaka ríkisstarfsmanna og tveir aðrir valdir á grundvelli sérþekkingar sinnar á stjórnsýslu og siðfræðilegum efnum.
     Forsætisráðuneytið sér nefndinni fyrir starfsaðstöðu.
     Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar eru:
  1. að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita fjármálaráðuneytinu, sem fer með starfsmannamál ríkisins, og öðrum stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu,
  2. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laga þessara og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,
  3. að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar,
  4. að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og öðrum tiltækum upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu,
  5. að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum,
  6. að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt þar sem komi fram ef ástæða þykir til tillögur til fjármálaráðuneytis og annarra stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi.

     Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal samhæfingarnefndin hafa reglulegt samráð við þau embætti.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

2. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

3. gr.

     Fyrri málsliður b-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Hann getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða siðareglum settum á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

4. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, svohljóðandi:
     Óheimilt er að láta starfsmann gjalda þess að hann greini viðeigandi aðilum frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem hann hefur orðið áskynja um í starfi.

5. gr.

     Við 15. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fjármálaráðherra staðfestir almennar siðareglur fyrir starfsmenn ríkisins. Kjósi forstöðumenn stofnana, annarra en ráðuneyta, að útfæra þær nánar með sértækari hætti skal haft um það samráð við viðkomandi starfsmenn og félög þeirra. Siðareglur skal birta almenningi á aðgengilegan hátt.
     Forseti Alþingis staðfestir siðareglur fyrir starfsmenn Alþingis og stofnana þess.
     Dómstólaráð staðfestir siðareglur fyrir starfsmenn dómstóla.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. júní 2010.