Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 681. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1419  —  681. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Flm.: Pétur H. Blöndal.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðin „og áskoranir um kröfulýsingar“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Kröfuskrá er rafræn skrá sem geymir kennitölur allra kröfuhafa og skuldara þeirra. Þeir sem telja sig eiga kröfu skulu skrá kennitölu sína og netfang eða heimilisfang sitt, svo og kennitölu þess sem þeir telja sig eiga kröfu eða kröfur á. Kröfuhafi, eða fulltrúi hans ef um lögpersónu er að ræða, skal sanna persónu sína fyrir sýslumanni og fær hann þá aðgangsnúmer og getur skráð framangreindar upplýsingar í kröfuskrá og afmáð þá sem ekki skulda lengur. Heimilt er kröfuhafa að flytja upplýsingar rafrænt. Þegar óskað er upplýsinga um kröfur á hendur ákveðnum aðila, einstaklingi eða fyrirtæki er leitað í skránni að kennitölum þeirra sem telja sig eiga kröfu á hann og þeim send ósk um kröfulýsingu rafrænt á netfang eða með pósti á heimilisfang. Kröfuhafi skal greiða sekt ef í ljós kemur að skuldari er ranglega skráður nema krafa á hann hafi verið greidd upp síðustu 40 daga. Heimilt verður að leyfa einstaklingi eða fyrirtæki að fá uppgefna í gegnum öruggan aðila þá sem telja sig eiga kröfu á viðkomandi.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Stjórnartíðindi, Lögbirtingablað og kröfuskrá.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Dómsmálaráðuneytið gefur Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað út og starfrækir kröfuskrá. Dómsmálaráðherra er heimilt að fela sýslumanni að annast útgáfu Lögbirtingablaðs og rekstur kröfuskrár.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Dómsmálaráðherra kveður á um gjöld fyrir auglýsingar er aðilar eiga að greiða sem og gjöld fyrir innköllun úr kröfuskrá og sektir fyrir marklausar kröfur. Einnig getur ráðherra sett fyrirmæli um annað er að útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs lýtur sem og rekstur kröfuskrár.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Útgáfa Stjórnartíðinda, Lögbirtingablaðs og rekstur kröfuskrár.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Lögbirtingablaði“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: og kröfuskrá.
     b.      Á eftir orðinu „Lögbirtingablaðs“ í 3. mgr. kemur: og rekstur kröfuskrár.

4. gr.


    Heiti laganna verður: Lög um Stjórnartíðindi, Lögbirtingablað og kröfuskrá.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði upp rafrænni kröfuskrá hjá sýslumanni þeim sem annast útgáfu Lögbirtingablaðs. Í skránni verði lágmarksupplýsingar sem tengja saman kröfuhafa og skuldara þannig að auðvelt verði að kalla inn kröfur. Skráin yrði uppbyggð sem par kennitalna, önnur kröfuhafans og hin skuldarans. Að auki yrði geymt netfang eða heimilisfang kröfuhafans. Einungis yrði um eina færslu að ræða þó að sami kröfuhafinn ætti margar kröfur á viðkomandi skuldara. Sambærileg skrá er til sem heldur utan um þá lífeyrissjóði sem fólk kann að eiga réttindi hjá og var hún sett á laggirnar upp úr 1980 og því nægir að sækja um lífeyri hjá einum lífeyrissjóði sem kannar svo í skránni hvort viðkomandi á rétt hjá öðrum lífeyrissjóðum og virkjar þau réttindi.
    Hugmyndin er að þegar innkalla á kröfur hjá sýslumanni á ákveðinn aðila, einstakling eða fyrirtæki, verði leitað í skránni að þeim kröfuhöfum sem telja sig eiga kröfu á hann og þeim sendur tölvupóstur eða bréf og þeir beðnir um að lýsa kröfunni eða kröfunum á hendur viðkomandi hjá þeim sem biður um innköllun. Sá fær jafnframt lista yfir alla þá sem telja sig eiga kröfur. Gefa má stuttan frest, t.d. viku, til að lýsa kröfum. Ef kröfuhafi getur ekki lýst kröfu vegna þess að hún var ekki til eða hún hefur verið greidd greiðir hann sekt, nema krafan hafi verið greidd á síðustu 40 dögum. Þetta er hugsað til að koma í veg fyrir að hægt sé að lýsa „tómum“ kröfum til að hnýsast í stöðu fólks. Það gefur einnig tóninn um að hver kröfuhafi þurfi að fylgjast með og endurnýja upplýsingar sínar einu sinni í mánuði. Þetta er væntanlega miklu ódýrara en að hafa fólk í vinnu við að lesa yfir Lögbirtingablaðið sem yrði væntanlega mjög umfangsmikið ef svo fer sem horfir.
    Kröfuskráin getur verið algerlega sjálfbær fjárhagslega því borgað yrði fyrir innköllun krafna eins og núna. Ekki er eðlilegt að greiða fyrir geymslu eða skráningu krafna vegna þess að það mundi lenda á þeim sem alltaf eru skilvísir eða eiga skilvísa skuldara. Kröfuskráin mun spara mikla vinnu og fjármuni hjá kröfuhöfum með fjölda krafna. Minni kröfuhafa með fáar kröfur tryggir hún miklu betur en núverandi kerfi því þeir lesa alla jafna ekki Lögbirtingablaðið. Kröfuskráin kemur auk þess í veg fyrir þá niðurlægingu sem margir upplifa í núverandi kerfi þegar innköllun krafna á þá er birt almenningi. Þá er það kostur við kröfuskrána að mögulegt er að fólk geti séð alla kröfuhafa sem telja sig eiga kröfu á það sem auðveldar yfirlit yfir fjármál hvers og eins. Það yrði að sjálfsögðu að gerast í gegnum tryggan aðila, t.d. banka eða skattstjóra, þannig að óprúttnir geti ekki misnotað kerfið. Ókosturinn við þetta nýja kerfi er að allir kröfuhafar landsins verða að senda töluvert magn af gögnum einu sinni í mánuði til kröfuskrár og allir kröfuhafar verða að láta vita þegar skuldari gerir upp allar skuldir sínar hjá þeim.
    Þær upplýsingar sem geymdar yrðu í opinberri vörslu í kröfuskránni eru í raun mjög fátæklegar og geta vart talist skaða persónuvernd. Engar upplýsingar eru um fjölda krafna eða upphæð í þessari skrá og auk þess á eftir að lýsa kröfunum og sannreyna þær.
    Innköllun krafna með auglýsingu í Lögbirtingablaði á sér langa sögu og hefur reynst vel og örugglega. Sú aðferð krefst þess hins vegar að allir kröfuhafar þurfa að lesa blaðið og eiga á hættu að tapa kröfu sinni ella. Á meðan kröfuhafar voru tiltölulega fáir og lítið var um gjaldþrot og nauðasamninga var þetta ekki vandamál. Með stórauknum lánsviðskiptum í verslunum og bönkum og milli einstaklinga sem og mikilli skuldsetningu heimila og hættu á mjög mikilli aukningu gjaldþrota og nauðasamninga mun þessi aðferð verða mikill flöskuháls vegna þess hve þung hún er í vöfum og tímafrek. Það verður líka til þess að mikil vinna leggst á kröfuhafa við að fylgjast með innkölluðum kröfum.
    Ráðleggingar hafa komið frá sérfræðingum, sem benda á reynslu annarra þjóða sem lent hafa í áföllum, um að mjög mikilvægt sé að skuldavandi fyrirtækja og heimila verði leystur eins hratt og mögulegt er vegna þess að óvissa, doði og málaferli sem fylgja áratugalöngum uppgjörum séu mjög skaðleg fyrir þjóðfélagið í heild. Þess vegna sé brýnt að hraða nauðsynlegu uppgjöri eins og hægt er.
    Óljósar vísbendingar benda til þess að um tíu þúsund heimili hafi verið í svo miklum vanda að lausn hans krefjist innköllunar krafna. Sumir tala reyndar um mikið hærri tölur. Þessi fjöldi hefur eflaust minnkað nokkuð við dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 347/ 2010 en þó munu mjög mörg heimili þurfa slíka lausn á fjárhagsvanda sínum. Ef gert er ráð fyrir að um átta þúsund heimili sé að ræða og ef markmiðið er að ráða við og leysa þann vanda á tveimur árum verður kerfið að ráða við 20 heimili á dag auk þess fjölda fyrirtækja sem verða gjaldþrota eða fara í nauðasamninga í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Ólíklegt er að sú aðferð að auglýsa innköllun krafna í Lögbirtingablaðinu ráði við þetta magn auk þess sem ferlið verður bæði dýrt og seinvirkt.
    Þá verður að benda á þann álitshnekki og hneisu sem margar fjölskyldur upplifa við það að kröfur eru innkallaðar í Lögbirtingablaðinu fyrir alþjóð á einhvern meðlim fjölskyldunnar jafnvel þó að sú innköllun sé afleiðing af hruninu og engan veginn sök viðkomandi. Það atriði eitt sér kann að réttlæta upptöku kröfuskrár þar sem innköllunin snýr bara að þeim sem eiga kröfu á viðkomandi og er fullljós staða hans.