Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.

Þskj. 965  —  574. mál.



Frumvarp til laga

um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
1.      gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri og samkeppnishæfni Íslands með því að tilgreina hvaða ívilnanir heimilt er að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt.

2.     gr.
Gildissvið og heimild.

    Lög þessi ná til skilgreindra ívilnana sem kveðið er á um í III. og IV. kafla laganna vegna nýfjárfestinga hér á landi, að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 5. gr.
    Á grundvelli laga þessara er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga, sbr. 21. gr., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um aðkomu ríkisins og, eftir atvikum, sveitarfélaga vegna nýfjárfestinga hér á landi.
    Lög þessi ná ekki til fjárfestinga í fjármálastarfsemi.


3.      gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum skal eftirfarandi merking lögð í þessi hugtök.
     1.      Byggðaaðstoð: Ríkisaðstoð sem veitt er með heimild í c-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að efla byggðaþróun og efnahagslíf á ákveðnu landsvæði í samræmi við samþykkt byggðakort.
     2.      Byggðakort: Kort af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur, með ákvörðun nr. 378/06/COL, samþykkt fyrir árin 2007–2013, þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi heimilt er að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki.
     3.      Fjárfestingarverkefni: Verkefni sem nýfjárfesting lýtur að.
     4.      Fjárfestingarkostnaður: Kostnaður vegna áþreifanlegra eigna (t.d. tæki og búnaður) jafnt sem óáþreifanlegra eigna (t.d. hugverkaréttindi og leyfi) sem fellur til í tengslum við fjárfestingarverkefni hér á landi.
     5.      Ívilnun: Skilgreind ríkisaðstoð skv. III. og IV. kafla sem er forsenda þess að tiltekið fjárfestingarverkefni verði að veruleika hér á landi.
     6.      Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir 2 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 2 milljónum evra, sbr. viðauka 1 við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 er birt sem fylgiskjal við lög þessi, sbr. 27. gr.
     7.      Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50–250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. viðauka 1 við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.
     8.      Nýfjárfesting: Fjárfesting sem lýtur að uppsetningu nýs verkefnis eða nýrrar starfsemi hér á landi eða felur í sér sjálfstæða viðbót við eldra verkefni. Fjárfesting sem kemur í stað eldri fjárfestingar telst ekki nýfjárfesting í skilningi laga þessara.
     9.      Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með fleiri en 250 starfsmenn, sbr. viðauka 1 við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

II. KAFLI
4. gr.
Umsókn um ívilnun.

    Umsókn um ívilnun vegna nýfjárfestingar á Íslandi skal send iðnaðarráðuneytinu. Sérstök þriggja manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til iðnaðarráðherra um afgreiðslu, sbr. 17. gr.
    Umsókn um ívilnun, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en hafist er handa við fyrirhugað fjárfestingarverkefni hér á landi. Umsókn skulu fylgja öll gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar eru samkvæmt lögum þessum.
    Um meðhöndlun umsókna um ívilnun fer samkvæmt ákvæðum V. kafla laganna.

5. gr.
Skilyrði fyrir veitingu ívilnana.

    Við mat á því hvort veita eigi ívilnun vegna nýfjárfestingar samkvæmt lögum þessum skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
     a.      að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi,
     b.      að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, þá aðila sem að því standa og hvernig fjármögnun er háttað,
     c.      að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki þegar hafið og að sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi,
     d.      að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði sé fjármagnaður án ríkisaðstoðar og þar af sé að lágmarki 20% fjármagnað af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun,
     e.      að árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfesting skapi a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess,
     f.      að fyrir liggi arðsemisútreikningar, sbr. 18. gr., sem sýni fram á að viðkomandi nýfjárfesting sé þjóðhagslega hagkvæm út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu,
     g.      að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna fjárfestingarinnar sé nýr,
     h.      að viðkomandi nýfjárfesting verði að lágmarki til fimm ára í starfrækslu á Íslandi,
     i.      að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og teljist ekki óæskileg í umhverfislegu tilliti,
     j.      að ekki séu fyrir hendi, hjá viðkomandi félagi eða eigendum þess, vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi eða endurgreiðslukrafa skv. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og að viðkomandi félag sé ekki í fjárhagslegum erfiðleikum eða fjárhagslegri endurskipulagningu í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til endurskipulagningar eða björgunar fyrirtækja.

III. KAFLI
6. gr.
Byggðaaðstoð.

    Í kafla þessum er kveðið á um hvaða ívilnanir stjórnvöldum er heimilt að veita í formi byggðaaðstoðar vegna fjárfestingarverkefna hér á landi.
    Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Þær skuldbindingar og heimildir eru nánar útfærðar í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA 378/06/COL, frá 6. desember 2006, um byggðakort og aðstoðarhlutföll (Ísland) sem birt var 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11, bls. 28, en þar kemur fram á hvaða svæðum á Íslandi heimilt er að veita byggðaaðstoð árin 2007–l 2013 og að hvaða marki.
    

7. gr.
Hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar.

    Með vísan til 2. mgr. 6. gr. getur ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar, sbr. 8.–10. gr., almennt numið að hámarki 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði þess fjárfestingarverkefnis sem sótt er um ívilnun fyrir. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði.
    Í þeim tilvikum þegar fjárfestingarkostnaður fjárfestingarverkefnis er meiri en 50 milljónir evra lækkar hlutfall leyfilegrar hámarksaðstoðar, sbr. 1. mgr., í samræmi við heildarfjárfestingarkostnað, sbr. 3. mgr.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um útreikning á leyfilegu hlutfalli ríkisaðstoðar, samkvæmt grein þessari, í samræmi við leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um landsbundna byggðaaðstoð fyrir árin 2007–2013, sbr. ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA 85/06/COL, frá 6. apríl 2006, sem birt var 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11, bls. 1.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag byggðaaðstoðar.

8. gr.
Ívilnun í formi beins fjárstuðnings.

    Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi beins opinbers fjárstuðnings vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis til þess félags sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið. Er þá um að ræða stofnfjárstyrk sem fellur til í upphafi verkefnis.
    Um hámark ívilnunar skv. 1. mgr. vísast til 7. gr., sbr. 21. gr.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag hins beina fjárstuðnings.

9. gr.
Ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.

    Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Með samningi skv. 21. gr. er heimilt að veita ívilnanir skv. 1. mgr. í formi eftirfarandi frávika fyrir viðkomandi félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið:
     1.      Heimild til að kveða á um að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skuli í tíu ár frá því að skattskyldar tekjur myndast aldrei vera hærra en það tekjuskattshlutfall sem í gildi er þegar samningur skv. 21. gr. er gerður við félagið. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið.
     2.      Heimild til að fyrna nýjar eignir félags á því ári þegar þær eru teknar í notkun í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     3.      Heimild til að fyrna eignir félags að fullu þrátt fyrir ákvæði 35. og 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     4.      Undanþága frá iðnaðarmálagjaldi, sbr. lög nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, og markaðsgjaldi, sbr. lög nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, í tíu ár frá því að gjaldskylda myndast.
     5.      Lækkun stimpilgjalds, samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, í 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félag gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis í tíu ár frá því að gjaldskylda myndast.
     6.      Undanþága frá gjöldum skv. 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, í tíu ár frá því að gjaldskylda myndast.
     7.      Lækkun fasteignaskatts að því leyti að skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags sé 30% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi, sbr. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, í tíu ár frá því að skattskylda myndast hjá félagi samkvæmt lögum nr. 4/1995.
     8.      Lækkun tryggingagjalds að því leyti að skatthlutfall almenns tryggingagjalds viðkomandi félags sé 20% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, í tíu ár frá því að skattskylda myndast hjá félagi samkvæmt lögum nr. 113/1990.
     9.      Undanþága frá tollum og vörugjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, vegna innflutnings og kaupa viðkomandi félags eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum, tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess.
     10.      Heimild til að fresta álagningu, fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna uppbyggingar viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Um hámark ívilnunar skv. 2. mgr. vísast til 7. gr., sbr. 20. gr.
    Með samningi skv. 21. gr. er heimilt að kveða á um að ekki skuli leggja á félag, sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, umhverfisskatta eða skatta á raforkukaup eða notkun, nema slíkir skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi og mismuni ekki viðkomandi félagi að öðru leyti.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnana sem tengdar eru sköttum og opinberum gjöldum.

10. gr.
Ívilnun í tengslum við land eða lóð undir nýfjárfestingu.

    Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi sölu eða leigu ríkis eða sveitarfélags á landi eða lóð í eigu ríkis eða sveitarfélags undir viðkomandi fjárfestingarverkefni til þess félags sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, á verði sem telst vera undir almennu markaðsverði.
    Um hámark ívilnunar skv. 1. mgr. vísast til 7. gr., sbr. 20. gr.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar sem tengd er sölu eða leigu á landi eða lóð.

IV. KAFLI
11. gr.
Almennar ívilnanir.

    Í kafla þessum er kveðið á um hvaða ívilnanir stjórnvöldum er heimilt að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi, óháð staðsetningu fjárfestingarverkefnis.
    Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun vegna fjárfestinga, sem ekki eru byggðatengdar, takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Þær heimildir eru nánar útfærðar í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (reglugerð um almenna hópundanþágu), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2008 sem birt var 18. desember 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 79. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 er birt sem fylgiskjal við lög þessi, sbr. 27. gr.
    Ívilnun skv. 12.–15. gr. laga þessara getur verið í formi beins fjárstuðnings, frávika frá tilteknum sköttum og gjöldum skv. 9. gr. eða annarrar tegundar leyfilegrar ríkisaðstoðar samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

12. gr.
Ívilnun vegna þjálfunarkostnaðar nýfjárfestingar.

    Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum þessum verið í formi þjálfunaraðstoðar vegna kostnaðar við þjálfun starfsfólks sem fellur til í tengslum við nýfjárfestingu.
    Hámark leyfilegrar þjálfunaraðstoðar eru 2 milljónir evra fyrir hvert fjárfestingarverkefni.
    Um skilyrði fyrir veitingu þjálfunaraðstoðar vísast nánar til 38. og 39. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, sbr. fylgiskjal við lög þessi.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna þjálfunarkostnaðar.

13. gr.
Ívilnun vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

    Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum þessum verið í formi ívilnunar vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hlutfall af fjárfestingar- eða launakostnaði viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Ívilnun skv. 1. mgr. getur að hámarki numið 10% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði fyrir meðalstór fyrirtæki en 20% fyrir lítil fyrirtæki, þó aldrei að hærri fjárhæð en 7,5 milljónir evra fyrir hvert fjárfestingarverkefni.
    Um skilyrði fyrir veitingu ívilnunar til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vísast nánar til 14. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, sbr. fylgiskjal við lög þessi.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

14. gr.
Ívilnun vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum.

    Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum þessum verið í formi ívilnunar vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefni, sem hlutfall af fjárfestingarkostnaði viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Um skilyrði fyrir veitingu ívilnunar vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum vísast nánar til 30.–37. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, sbr. fylgiskjal við lög þessi.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er slík ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefni.

15. gr.

Ívilnun vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna.

    Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum þessum verið í formi ívilnunar til fyrirtækja vegna umhverfistengdra nýfjárfestinga sem fela í sér m.a. orkusparnað eða minni losun gróðurhúsalofttegunda.
    Um skilyrði fyrir veitingu ívilnunar samkvæmt þessari grein vísast nánar til 17.–25. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, sbr. fylgiskjal við lög þessi.
    Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er slík ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna umhverfistengdra nýfjárfestinga.

16. gr.
Almenn frávik frá tilgreindum ákvæðum laga.

    Í samningi skv. 21. gr. er heimilt að kveða á um að viðkomandi félag, sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, skuli undanþegið:
     1.      ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar,
     2.      ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, svo og sambærilegum síðari ákvæðum,
     3.      ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum,
     4.      ákvæðum laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, enda viðhaldi félagið fullnægjandi viðlagatryggingu.

V. KAFLI
17. gr.
Nefnd um veitingu ívilnana vegna nýfjárfestinga.

    Sérstök þriggja manna nefnd iðnaðarráðherra fer yfir umsóknir um ívilnun, sbr. 4. gr., og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu. Iðnaðarráðherra skipar nefndina og skulu fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra tilnefna sinn mann hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru.
    Nefndin skal hafa samráð við sveitarfélög í tengslum við aðkomu þeirra að fyrirhuguðum fjárfestingarverkefnum sem staðsett eru innan umdæma þeirra.
    Við mat á umsókn um ívilnun skal nefndin hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um þætti sem að umsókn snúa, til að mynda varðandi mat á efnahags- og samfélagslegum ávinningi.
    Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda um störf nefndarinnar. Iðnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um störf nefndarinnar.

18. gr.
Arðsemisútreikningar.

    Áður en nefnd skv. 17. gr. gerir tillögu til iðnaðarráðherra vegna umsóknar um ívilnun skal Fjárfestingarstofa framkvæma útreikninga fyrir nefndina á arðsemi og ávinningi fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis og vinna aðrar upplýsingar sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en tekin er afstaða til umsóknar.
    Aðili sem sækir um ívilnun skal leggja fram rekstrar- og viðskiptaáætlun vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis sem kleift er að byggja arðsemisútreikninga á og meta þannig þann virðisauka sem eftir verður í landinu vegna viðkomandi verkefnis. Liggi fullnægjandi gögn ekki fyrir til að framkvæma arðsemisútreikninga skal Fjárfestingarstofa kalla eftir þeim.
    Ívilnanir skulu því aðeins boðnar umsækjanda ef arðsemisútreikningar gefa með skýrum hætti til kynna að veiting ívilnunar til viðkomandi fjárfestingarverkefnis hafi í för með sér efnahags- og samfélagslegan ávinning fyrir Ísland, jafnt til lengri sem skemmri tíma.
    Við mat á efnahags- og samfélagslegum ávinningi af fyrirhugaðri starfsemi skal horft til mismunandi samsetninga ívilnana sem leyfilegar eru skv. III. og IV. kafla laga þessara.
    Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið nánar á um arðsemisútreikninga, hvernig þeir skuli framkvæmdir og hvaða gögn þurfa að liggja fyrir áður en þeir eru framkvæmdir.
    

19. gr.
Boð um ívilnun.

    Nefnd skv. 17. gr. skal gera tillögu til iðnaðarráðherra um að hafna beiðni um ívilnun eða að leggja fyrir umsækjanda boð um ívilnun.
    Leggi iðnaðarráðherra fram boð um ívilnun skal það byggjast á þeim heimildum sem fram koma í III. og IV. kafla og getur það verið samsett úr fleirum en einni tegund ívilnana, sbr. þó 20. gr.

20. gr.
Takmörk leyfilegrar ívilnunar.

    Ívilnun til umsækjanda vegna fjárfestingarverkefnis getur að hámarki ekki farið yfir þau mörk sem leyfileg eru í samræmi við reglur þær um byggðaaðstoð sem fram koma í III. kafla eða samkvæmt reglum um almennar ívilnanir sem fram koma í IV. kafla. Ekki er heimilt að fullnýta ívilnanir bæði úr III. og IV. kafla vegna sama fjárfestingarverkefnis þannig að samtala ívilnunar fari yfir þau mörk sem kveðið er á um í lögunum.

21. gr.
Samningur um veitingu ívilnunar.

    Fallist umsækjandi á boð iðnaðarráðherra um ívilnun skal gerður samningur milli umsækjanda og iðnaðarráðherra, fyrir hönd stjórnvalda og, eftir atvikum, sveitarfélaga um veitingu ívilnunar vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
    Samningur skv. 1. mgr. skal kveða á um þær skuldbindingar sem kunna að þykja nauðsynlegar fyrir viðkomandi fjárfestingarverkefni og hversu lengi samningur skuli gilda. Í samningi skal enn fremur m.a. kveðið á um eftirfarandi atriði:
     a.      skilgreiningu og afmörkun á viðkomandi fjárfestingarverkefni,
     b.      skilgreiningu og afmörkun á þeim lögaðila sem ívilnunar nýtur samkvæmt samningnum,
     c.      hvaða ívilnunum veitt er til verkefnisins,
     d.      hvernig ívilnun er komið til verkefnis og á hvaða tíma,
     e.      eftirlit og endurgreiðslu ívilnunar ef skilyrði samnings eru ekki uppfyllt.
    Ívilnanir þær sem kveðið er á um í samningi geta að hámarki verið veittar til tíu ára.     
    Samningur um veitingu ívilnunar, sem iðnaðarráðherra undirritar samkvæmt lögum þessum, skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.

22. gr.
Fjárheimild.

    Að því leyti sem um beinar greiðslur úr ríkissjóði er að ræða er veiting ívilnunar samkvæmt lögum þessum háð fjárveitingu Alþingis hverju sinni samkvæmt fjárlögum og, eftir því sem við á, fjárveitingu sveitarfélaga.

23. gr.
Afmörkun ívilnunar.

    Ívilnun er eingöngu veitt vegna ákveðins fjárfestingarverkefnis umsækjanda en ekki til annarrar starfsemi hans. Aðila sem ívilnunar nýtur samkvæmt lögum þessum er einvörðungu heimilt að nýta þá ívilnun í það skilgreinda fjárfestingarverkefni sem kveðið er á um í samningi skv. 21. gr.

24. gr.
Eftirlit með notkun ívilnunar.

    Til tryggingar á réttri notkun ívilnunar, sbr. 23. gr., ber aðila sem ívilnunar nýtur að senda iðnaðarráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er.

25. gr.
Afturköllun og/eða endurgreiðsla ívilnunar.

    Fella ber niður ívilnun og endurkrefja um þegar veitta ívilnun komi í ljós að aðili sem nýtur ívilnunar hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar.
    Endurkrefja ber um ívilnun ef hún hefur verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar.
    Komi í ljós að ívilnun til aðila er komin umfram þær heimildir sem fram koma í lögum þessum eða samningi um veitingu ívilnunar skal endurkrefja aðila um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.
    Ef ákvörðun um ívilnun er afturkölluð, samkvæmt grein þessari eða í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð, skulu stjórnvöld, sbr. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, gera ráðstafanir til þess að endurheimta veitta ríkisaðstoð frá þiggjanda hennar.

26. gr.
Reglugerðarheimild.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.

VI. KAFLI
27. gr.
Innleiðing á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (reglugerð um almenna hópundanþágu), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2008 sem birt var 18. desember 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 79.
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 er birt sem fylgiskjal með lögum þessum og hefur lagagildi hér á landi.

28. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi falla úr gildi 31. desember 2013. Ívilnanir sem veittar hafa verið fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu út þann tíma sem kveðið er á um í viðkomandi samningi um veitingu ívilnunar, sbr. 21. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ári áður en lögin falla úr gildi skal iðnaðarráðherra skipa nefnd sem leggja skal mat á hvernig til hafi tekist með framkvæmd laganna og gera tillögu um hvort framlengja skuli gildistíma þeirra, að undangenginni endurskoðun á ákvæðum laganna. Endurskoðuninni skal lokið eigi síðar en 31. desember 2013.

Fylgiskjal.


REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 800/2008
frá 6. ágúst 2008
þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 87. og 88. gr. sáttmálans (reglugerð um almenna hópundanþágu)
(Texti sem varðar EES)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EB) nr. 994/98 frá 7. maí 1998 um beitingu 92. og 93. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins gagnvart tilteknum flokkum altækrar ríkisaðstoðar( 1 ), einkum a- og b-lið 1. mgr. 1. gr.,
að birtum drögum að þessari reglugerð ( 2 ),
að höfðu samráði við ráðgjafarnefndina um ríkisaðstoð,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í reglugerð (EB) nr. 994/98 er framkvæmdastjórninni heimilað að lýsa því yfir, í samræmi við 87. gr. sáttmálans, að við tiltekin skilyrði sé aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, aðstoð í þágu rannsókna og þróunar, aðstoð í þágu umhverfisverndar, atvinnumála og menntunar og aðstoð, sem er í samræmi við kortið yfir veitingu svæðisbundinnar aðstoðar, sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt fyrir hvert aðildarríki, samrýmanleg sameiginlega markaðnum og falli ekki undir ákvæði 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningarskyldu.
2)          Framkvæmdastjórnin hefur beitt 87. og 88. gr. sáttmálans í allmörgum ákvörðunum og öðlast nægilega reynslu til að skilgreina viðmiðanir um samrýmanleika að því er varðar aðstoð í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, í formi fjárfestingaraðstoðar á svæðum sem njóta aðstoðar og utan þeirra, í formi áhættufjármagnskerfa og á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar, einkum með tilliti til framkvæmdar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans með tilliti til ríkisaðstoðar við lítil og meðalstór fyrirtæki ( 3 ), og að því er varðar útvíkkun á gildissviði þeirrar reglugerðar þannig að það taki til aðstoðar vegna rannsókna og þróunar, framkvæmdar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 364/ 2004 frá 25. febrúar 2004 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 70/2001 ( 4 ), framkvæmdar á orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um ríkisaðstoð og áhættufjármagn ( 5 ) og viðmiðunarreglna Bandalagsins um ríkisaðstoð til að stuðla að auknum áhættufjárfestingum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 6 ), sem og til framkvæmdar á rammareglum Bandalagsins vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar ( 7 ).
3)          Framkvæmdastjórnin hefur einnig öðlast nægilega reynslu af beitingu 87. og 88. gr. sáttmálans á sviði aðstoðar til menntunar, aðstoðar til eflingar atvinnu, umhverfisverndar, aðstoðar til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og á sviði svæðisbundinnar aðstoðar bæði að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki svo og stór fyrirtæki, einkum með tilliti til framkvæmdar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/ 2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar ( 8 ), reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2204/2002 frá 12. desember 2002 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til eflingar atvinnu ( 9 ), reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1628/2006 frá 24. október 2006 um beitingu 87. og 88. gr. sáttmálans gagnvart innlendri, svæðisbundinni fjárfestingaraðstoð ( 10 ), rammareglna Bandalagsins um ríkisaðstoð vegna rannsókna og þróunar ( 11 ), rammareglna Bandalagsins um aðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar, viðmiðunarreglna Bandalagsins um ríkisaðstoð vegna umhverfisverndar ( 12 ), viðmiðunarreglna Bandalagsins frá 2008 um ríkisaðstoð til umhverfisverndar ( 13 ) og viðmiðunarreglna um innlenda, svæðisbundna aðstoð fyrir 2007–2013 ( 14 ).
4)          Í ljósi þessarar reynslu er nauðsynlegt að aðlaga sum þeirra skilyrða sem mælt er fyrir um í reglugerðum (EB) nr. 68/2001, 70/2001, 2204/2002 og 1628/2006. Til einföldunar og til að tryggja að framkvæmdastjórnin geti haft skilvirkara eftirlit með aðstoð skal láta eina reglugerð koma í stað þessara reglugerða. Einföldun ætti m.a. að nást með almennum, samræmdum skilgreiningum og þverlægum ákvæðum sem mælt er fyrir um í I. kafla þessarar reglugerðar. Til þess að tryggja samfellu í lögum um ríkisaðstoð skulu skilgreiningar á aðstoð og aðstoðarkerfi samsvara þeim skilgreiningum sem kveðið er á um fyrir þessi hugtök í reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999 um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans ( 15 ). Slík einföldun er nauðsynleg til að tryggja að Lissabon-áætlunin um hagvöxt og atvinnu skili árangri, einkum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
5)          Samkvæmt þessari reglugerð skal undanþiggja hvers konar aðstoð sem uppfyllir öll viðeigandi skilyrði þessarar reglugerðar og hvers konar aðstoðarkerfi, enda uppfylli aðstoðin, sem hægt er að veita samkvæmt slíku kerfi, öll þau skilyrði þessarar reglugerðar sem máli skipta. Til að tryggja gagnsæi og skilvirkara eftirlit með aðstoð skal hverri stakri aðstoð, sem veitt er samkvæmt þessari reglugerð, fylgja skýr tilvísun til gildandi ákvæða II. kafla og til landslaga sem staka aðstoðin grundvallast á.
6)          Til að hafa eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar skal framkvæmdastjórnin einnig vera í aðstöðu til þess að afla allra nauðsynlegra upplýsinga frá aðildarríkjunum um þær ráðstafanir sem hrundið er í framkvæmd samkvæmt þessari reglugerð. Láti aðildarríki hjá líða að útvega upplýsingar innan eðlilegra tímamarka um þessar aðstoðarráðstafanir getur það talist vera vísbending um að ekki sé farið að skilyrðum þessarar reglugerðar. Slík vanræksla getur því orðið til þess að framkvæmdastjórnin ákveði að þessi reglugerð eða sá hluti hennar sem við á verði dreginn til baka síðar, að því er varðar viðkomandi aðildarríki, og að tilkynna verði framkvæmdastjórninni um alla síðari aðstoð, þ.m.t. nýjar, stakar aðstoðarráðstafanir sem eru veittar á grundvelli aðstoðarkerfa, sem áður féllu undir þessa reglugerð, í samræmi við 88. gr. sáttmálans. Um leið og aðildarríki hefur látið í té réttar og fullnægjandi upplýsingar skal framkvæmdastjórnin heimila að þessi reglugerð öðlist aftur fullt gildi.
7)          Ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans, sem ekki fellur undir þessa reglugerð, skal áfram falla undir tilkynningarskylduna í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans. Þessi reglugerð er með fyrirvara um þann möguleika aðildarríkjanna að tilkynna aðstoð sem hefur samsvarandi markmið og þau sem þessi reglugerð tekur til. Framkvæmdastjórnin mun meta þess háttar aðstoð, m.a. á grundvelli þeirra skilyrða sem sett eru fram í þessari reglugerð og í samræmi við viðmiðanirnar, sem mælt er fyrir um í sérstökum viðmiðunarreglum eða rammagerðum, sem framkvæmdastjórnin samþykkir, í hvert sinn sem viðkomandi aðstoð er innan gildissviðs slíks sérgernings.
8)          Þessi reglugerð gildir ekki um aðstoð við útflutning eða aðstoð þar sem innlendum vörum aðildarríkja er ívilnað á kostnað innfluttra. Hún gildir alls ekki þegar um er að ræða aðstoð við að fjármagna uppsetningu og rekstur dreifikerfis í öðrum löndum. Aðstoð við að standa straum af kostnaði við þátttöku í kaupstefnum, eða vegna rannsókna eða ráðgjafarþjónustu, sem er nauðsynleg til að setja nýja framleiðsluvöru eða framleiðsluvöru, sem er fyrir hendi, á nýjan markað, telst að jafnaði ekki vera aðstoð við útflutning.
9)          Þessi reglugerð gildir um nánast allar atvinnugreinar. Í fiskveiði- og lagareldisgreinum skal með þessari reglugerð einungis undanþegin aðstoð á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar, aðstoð í formi áhættufjármagns, aðstoð til menntunar og aðstoð við illa setta eða fatlaða starfsmenn.
10)          Í landbúnaðargeiranum skal með þessari reglugerð, í ljósi þeirra sérreglna sem gilda um frumframleiðslu landbúnaðarafurða, einungis undanþegin aðstoð á sviði rannsókna og þróunar, aðstoð í formi áhættufjármagns, aðstoð til menntunar, aðstoð til umhverfisverndar og aðstoð til illa settra og fatlaðra starfsmanna, að svo miklu leyti sem þessir flokkar aðstoðar falla ekki undir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1857/2006 frá 15. desember 2006 um beitingu 87. og 88. gr. sáttmálans um ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem starfa að framleiðslu landbúnaðarafurða og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 70/2001 ( 16 ).
11)          Í ljósi þess hve margt er líkt með vinnslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða og afurða sem eru ekki úr landbúnaði skal þessi reglugerð gilda um vinnslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða að því tilskildu að tiltekin skilyrði séu uppfyllt.
12)          Hvorki starfsemi á bújörðum, sem er nauðsynleg fyrir tilreiðslu afurða fyrir fyrstu sölu, né fyrsta sala til endurseljenda eða vinnsluaðila, skal teljast til vinnslu eða markaðssetningar í skilningi þessarar reglugerðar. Þegar lögfest hefur verið í Bandalaginu að taka upp sameiginlega skipulagningu markaðarins í tiltekinni grein landbúnaðar eru aðildarríkin skuldbundin, samkvæmt ákvörðun Dómstóls Evrópubandalaganna, til að gera engar þær ráðstafanir sem gætu orðið til þess að grafa undan eða víkja frá henni. Þessi reglugerð skal því ekki gilda um aðstoð þar sem fjárhæðin er ákvörðuð á grundvelli verðs eða magns afurða, sem eru keyptar eða settar á markað, né skal hún gilda um aðstoð sem bundin er því skilyrði að henni sé skipt á milli frumframleiðenda.
13)          Í ljósi reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1407/2002 frá 23. júlí 2002 um ríkisaðstoð við kolaiðnaðinn ( 17 ) skal þessi reglugerð ekki gilda um aðstoð til að greiða fyrir starfsemi í kolavinnslu fyrir utan aðstoð til menntunar, aðstoð til rannsóknar, þróunar og nýsköpunar og aðstoð til umhverfisverndar.
14)          Ef svæðisbundið aðstoðarkerfi miðar að því að hrinda í framkvæmd svæðisbundnum markmiðum en beinist sérstaklega að ákveðnum atvinnugreinum kunna markmið og hugsanlega áhrif kerfisins að vera atvinnugreinabundin fremur en þverlæg. Því skulu svæðisbundin aðstoðarkerfi, sem beinast að tilteknum atvinnugreinum, svo og svæðisbundin aðstoð, sem veitt er starfsemi í stáliðnaði, í skipasmíðum, eins og gert er ráð fyrir í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um framlengingu ramma um ríkisaðstoð til skipasmíða ( 18 ) og í gervitrefjaiðnaðinum, ekki fá undanþágu frá tilkynningunni. Hins vegar gegnir ferðaþjónusta mikilvægu hlutverki í hagkerfum einstakra ríkja og hefur almennt séð sérstaklega góð áhrif á svæðaþróun. Svæðisbundin aðstoðarkerfi, sem miða að ferðaþjónustu, skulu því undanþegin tilkynningarskyldunni.
15)          Aðstoð, sem veitt er fyrirtækjum, sem eiga í erfiðleikum í skilningi viðmiðunarreglna Bandalagsins til björgunar og endurskipulagningar fyrirtækjum, sem eiga í erfiðleikum ( 19 ), skal metin með hliðsjón af þessum viðmiðunarreglum til þess að hindra að farið sé í kringum þær. Aðstoð við þessi fyrirtæki skal því falla utan gildissviðs þessarar reglugerðar. Til þess að létta stjórnsýslubyrði af aðildarríkjum skal við úthlutun aðstoðar, sem fellur undir þessa reglugerð, til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, einfalda skilgreininguna á því hvað telst vera fyrirtæki sem á í erfiðleikum miðað við þá skilgreiningu sem er notuð í viðmiðunarreglunum. Enn fremur skulu lítil og meðalstór fyrirtæki, sem hafa verið með réttarstöðu lögaðila í minna en þrjú ár, ekki teljast, með hliðsjón af þessari reglugerð, eiga í erfiðleikum að því er varðar þetta tímabil nema þau uppfylli viðmiðanir um sameiginlega málsmeðferð vegna ógjaldfærni samkvæmt landslögum. Þessi einföldun skal vera með fyrirvara um flokkun þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja samkvæmt þessum viðmiðunarreglum að því er varðar aðstoð, sem ekki fellur undir þessa reglugerð, og með fyrirvara um flokkun stórra fyrirtækja sem fyrirtækja, sem eiga í erfiðleikum samkvæmt þessari reglugerð, sem áfram falla undir skilgreininguna í heild, sem kveðið er á um í þessum viðmiðunarreglum.
16)          Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess að heimiluð aðstoð breyti ekki viðskiptakjörum þannig að þau brjóti í bága við almannahagsmuni. Því skal fjárfestingaraðstoð, sem veitt er aðstoðarþega, sem krafinn er um endurgreiðslu í kjölfar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar, þar sem því er lýst yfir að aðstoðin sé ólögleg og ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum, falla utan gildissviðs þessarar reglugerðar. Ákvæði 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningarskyldu gilda því áfram um alla sérstaka aðstoð, sem er greidd til slíks aðstoðarþega, og öll aðstoðarkerfi, sem fela ekki í sér skýrt ákvæði, sem útilokar slíka aðstoðarþega. Þetta ákvæði skal ekki hafa áhrif á lögmætar væntingar aðstoðarþega sem ekki hefur verið krafinn um endurgreiðslu.
17)          Til þess að tryggja samræmda beitingu á reglum framkvæmdastjórnarinnar um ríkisaðstoð sem og einfalda stjórnsýslu skal samræma skilgreiningar á hugtökum sem varða mismunandi flokka aðstoðar sem falla undir þessa reglugerð.
18)          Við útreikning á aðstoðarhlutfalli skulu allar tölur, sem eru notaðar, vera án frádráttar vegna skatta eða annarra gjalda. Að því er varðar útreikning á aðstoðarhlutföllum skal aðstoð, sem er greidd með nokkrum afborgunum, vera afvöxtuð þegar hún er veitt. Vextirnir, sem nota skal við afvöxtunarútreikning og til að reikna þá fjárhæð sem veitt er í aðstoð sem ekki er í formi láns, skulu vera gildandi viðmiðunarvextir á þeim tíma sem lánið er veitt, eins og mælt er fyrir um í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um endurskoðun aðferða við útreikning á viðmiðunarvöxtum og afvöxtunarstuðlum ( 20 ).
19)          Í þeim tilvikum, sem veitt aðstoð felst í undanþágu frá skatti eða lækkun á sköttum sem á að greiða síðar, með fyrirvara um að virt sé tiltekið aðstoðarhlutfall, sem er skilgreint með núverandi vergu styrkígildi, koma til afvaxtanir hlutagreiðslna aðstoðar á grundvelli viðmiðunarvaxta sem eru í gildi hverju sinni þegar þetta skattahagræði kemur til framkvæmda. Þegar um er að ræða undanþágu frá skatti eða lækkun á sköttum, sem á að greiða síðar, getur verið að ekki sé vitað fyrir fram um gildandi viðmiðunarvexti og nákvæma fjárhæð hlutagreiðslna aðstoðar. Þegar svo háttar til skal aðildarríkið setja hámark fyrir fram á afvaxtað virði aðstoðarinnar, að teknu tilliti til gildandi aðstoðarhlutfalls. Þegar fjárhæð hlutagreiðslu aðstoðar á tilteknu ári er þekkt er síðan hægt að afvaxta hana á grundvelli gildandi viðmiðunarvaxta á þeim tíma. Afvaxtað virði hverrar hlutagreiðslu aðstoðar skal dregið frá heildarfjárhæð hámarksaðstoðar.
20)          Til að tryggja gagnsæi, jafna meðferð og skilvirkt eftirlit skal þessi reglugerð aðeins gilda um gagnsæja aðstoð. Gagnsæ aðstoð er aðstoð þar sem hægt er að reikna nákvæmlega vergt styrkígildi fyrir fram án þess að nauðsynlegt sé að gera áhættumat. Fara skal með aðstoð í formi lána sem gagnsæja þegar vergt styrkígildi hefur verið reiknað á grundvelli viðmiðunarvaxtanna eins og mælt er fyrir um í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um endurskoðun aðferða við útreikning á viðmiðunarvöxtum og afvöxtunarstuðlum. Aðstoð í formi skattaráðstafana skal teljast gagnsæ þegar ráðstöfunin kveður á um hámark sem tryggir að ekki sé farið yfir gildandi viðmiðunarmörk. Ef um er að ræða lækkanir á umhverfissköttum, sem ekki falla undir viðmiðunarmörk fyrir staka tilkynningu samkvæmt þessari reglugerð, er ekki þörf á að tilgreina hámark til þess að aðgerðin teljist gagnsæ.
21)          Aðstoð í formi ábyrgðakerfa skal teljast gagnsæ ef framkvæmdastjórnin, að fenginni tilkynningu, hefur samþykkt aðferðina við að reikna vergt styrkígildi og einnig þegar um er að ræða svæðisbundna fjárfestingaraðstoð ef framkvæmdastjórnin hefur samþykkt slíka aðferð eftir innleiðingu reglugerðar (EB) nr. 1628/2006. Framkvæmdastjórnin mun skoða slíkar tilkynningar á grundvelli tilkynningar framkvæmdastjórnarinnar um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð í formi ábyrgðar ( 21 ). Aðstoð í formi ábyrgðakerfa skal teljast gagnsæ ef aðstoðarþegi er lítið eða meðalstórt fyrirtæki og vergt styrkígildi hefur verið reiknað á grundvelli öryggisgjalds sem mælt er fyrir um í liðum 3.3 og 3.5 í þeirri tilkynningu.
22)          Í ljósi þess hve erfitt er að reikna vergt styrkígildi aðstoðar í formi fyrirframgreiðslna, sem ber að endurgreiða, skal slík aðstoð ekki falla undir þessa reglugerð nema heildarfjárhæð fyrirframgreiðslnanna, sem ber að endurgreiða, sé undir gildandi viðmiðunarmörkum stakrar tilkynningar og hámarkshlutföllum aðstoðar sem kveðið er á um í þessari reglugerð.
23)          Þar eð háar fjárhæðir í aðstoð fela í sér hættu á meiri röskun á samkeppni skal framkvæmdastjórnin meta þær hverja fyrir sig. Því skal setja viðmiðunarmörk fyrir hvern flokk aðstoðar innan gildissviðs þessarar reglugerðar sem taka mið af flokki viðkomandi aðstoðar og hugsanlegum áhrifum hennar á samkeppni. Ákvæði 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningarskyldu gilda áfram um alla aðstoð umfram þessi viðmiðunarmörk.
24)          Í því skyni að tryggja að aðstoð sé í réttu hlutfalli og takmarkist við nauðsynlega fjárhæð skulu viðmiðunarmörkin, eftir því sem verður við komið, tilgreind sem aðstoðarhlutföll í samanburði við safn af aðstoðarhæfum kostnaði. Þar eð viðmiðunarmörkin grundvallast á formi aðstoðar þar sem erfitt er að greina aðstoðarhæfan kostnað skulu þau, að því er varðar aðstoð í formi áhættufjármagns, sett fram sem hámarksfjárhæð aðstoðar.
25)          Með hliðsjón af reynslu framkvæmdastjórnarinnar skal fastsetja viðmiðunarmörkin, sem tilgreind eru, sem aðstoðarhlutfall eða fjárhæð aðstoðar þannig að jafnvægi náist milli þeirra markmiða að halda samkeppnisröskun í lágmarki í þeim geira sem fær aðstoð og þeirra að ráða bót á markaðsbrestum eða styrkja samheldni markaðarins. Að því er varðar svæðisbundna fjárfestingaraðstoð skal setja þessi viðmiðunarmörk með tilliti til heimilaðra aðstoðarhlutfalla samkvæmt kortinu yfir svæðisbundna aðstoð.
26)          Til að meta hvort viðmiðunarmörkin fyrir stakar tilkynningar og hámarkshlutföll, sem sett eru í þessari reglugerð, séu virt skal taka mið af heildarfjárhæð opinbers stuðnings við verkefni, sem nýtur aðstoðar, óháð því hvort stuðningurinn er fjármagnaður af staðbundnu, svæðisbundnu eða landsbundnu framlagi eða af sjóðum Bandalagsins.
27)          Enn fremur skal í þessari reglugerð tilgreina við hvaða aðstæður er heimilt að sameina ólíka flokka aðstoðar sem falla undir þessa reglugerð. Þegar aðstoð, sem fellur undir þessa reglugerð, er sameinuð ríkisaðstoð, sem ekki fellur undir hana, skal taka tillit til ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar um samþykki aðstoðar, sem ekki fellur undir þessa reglugerð, og jafnframt til reglna um ríkisaðstoð sem liggur til grundvallar þeirri ákvörðun. Sérákvæði skulu gilda að því er varðar sameiningu aðstoðar til handa fötluðum starfsmönnum við aðra aðstoðarflokka, einkum fjárfestingaraðstoð, sem hægt er að reikna á grundvelli þess launakostnaðar sem um ræðir. Með þessari reglugerð eru einnig sett ákvæði um sameiningu aðstoðarráðstafana þar sem hægt er að skilgreina aðstoðarhæfan kostnað og þeirra þar sem það er ekki hægt.
28)          Til að tryggja að aðstoðarinnar sé þörf og hún feli í sér hvatningu til þróunar annarrar starfsemi eða verkefna skal þessi reglugerð ekki gilda um aðstoð til starfsemi sem aðstoðarþegi annast nú þegar við markaðsaðstæður eingöngu. Að því er varðar hvers konar aðstoð, sem fellur undir þessa reglugerð, í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja telst hvatning vera fyrir hendi ef viðkomandi fyrirtæki hefur lagt inn umsókn hjá aðildarríkinu áður en það hefur starfsemi, er tengist framkvæmd verkefnisins eða þeirrar starfsemi sem nýtur aðstoðar. Að því er varðar aðstoð í formi áhættufjármagns í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja skulu skilyrðin, sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, einkum að því er varðar stærð greiðsluhluta fjárfestingar á hvert fyrirtæki, þátttöku einkafjárfesta, stærð félagsins og stigið, sem fjármagnað fyrirtæki er á, tryggja að áhættufjármagnsráðstöfunin hafi hvatningaráhrif.
29)          Fyrir hverja aðstoð, sem fellur undir þessa reglugerð og veitt er aðstoðarþega, sem er stórfyrirtæki, skal aðildarríki, auk skilyrðanna sem gilda um lítil og meðalstór fyrirtæki, einnig tryggja að aðstoðarþegi hafi greint, í innanhússskjali, hvort styrkta verkefnið eða starfsemin beri sig með og án aðstoðar. Aðildarríkin skulu ganga úr skugga um að þetta innanhússskjal staðfesti verulega stækkun eða aukið umfang verkefnisins/starfseminnar, verulega aukningu heildarfjárhæðar, sem aðstoðarþegi eyðir í styrkta verkefnið eða starfsemina, eða flýti verulega verklokum verkefnisins/starfseminnar er um ræðir. Að því er varðar svæðisbundna aðstoð er einnig hægt að greina áhrif hvatningar á grundvelli þess að verkefnið, sem slíkt, hefði ekki verið framkvæmt á viðkomandi styrktu svæði án aðstoðarinnar.
30)          Að því er varðar aðstoð til handa illa settum eða fötluðum starfsmönnum telst hún hafa hvatningaráhrif ef viðkomandi aðstoðarráðstöfun leiðir til hreinnar fjölgunar illa settra eða fatlaðra starfsmanna sem ráðnir eru til starfa í viðkomandi fyrirtækjum eða hefur í för með sér viðbótarkostnað vegna starfsstöðva eða búnaðar sem er ætlaður fötluðum starfsmönnum. Ef fyrirtæki sem fær aðstoð í formi launastyrks til þess að ráða fatlaða starfsmenn hefur þegar fengið aðstoð vegna ráðningar fatlaðra einstaklinga, sem uppfyllir annaðhvort skilyrði reglugerðar (EB) nr. 2204/2202 eða framkvæmdastjórnin hefur samþykkt hana sérstaklega, er gert ráð fyrir að skilyrðið um hreina fjölgun fatlaðra starfsmanna, sem voru uppfyllt vegna fyrirliggjandi ráðstafana, teljist áfram uppfyllt í skilningi þessarar reglugerðar.
31)          Sérstök skilyrði um aðstoð í formi skattaráðstafana skulu einnig gilda um hvatningaráhrif með hliðsjón af því að hún er veitt á grundvelli annarrar málsmeðferðar en aðrir flokkar aðstoðar. Gert er ráð fyrir að lækkanir á umhverfissköttum fullnægi skilyrðum tilskipunar ráðsins 2003/96/EB frá 27. október 2003 um endurskipulagningu á lagaramma Bandalagsins um skattlagningu orkugjafa og rafmagns ( 22 ), sem fellur undir þessa reglugerð, og hafi hvatningaráhrif í ljósi þess að þessar lækkanir stuðli, a.m.k. óbeint, að umhverfisvernd með því að heimila að viðkomandi skattkerfi sé í heild samþykkt eða fram haldið, og hvetji þannig fyrirtæki, sem eru umhverfisskattsskyld, til að draga úr mengun.
32)          Enn fremur, þar sem erfitt er að meta hvatningaráhrif sérstakrar aðstoðar sem stórum fyrirtækjum er veitt, skal skilja þetta aðstoðarform undan gildissviði þessarar reglugerðar. Framkvæmdastjórnin mun kanna hvort slíkra hvatningaráhrifa gætir með tilliti til tilkynningar um viðkomandi aðstoð á grundvelli viðmiðana sem eru settar í gildandi viðmiðunarreglum, rammaákvæðum eða öðrum gerningum Bandalagsins.
33)          Til að tryggja gagnsæi og skilvirkt eftirlit í samræmi við 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 994/98 er rétt að tekið verði upp staðlað eyðublað þar sem aðildarríkin láta framkvæmdastjórninni í té upplýsingar í stuttu máli í hvert sinn sem aðstoðarkerfi er hrundið í framkvæmd eða sérstök aðstoð veitt í samræmi við þessa reglugerð. Eyðublaðið fyrir samanteknu upplýsingarnar skal nota til að birta ráðstöfunina í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og á Netinu. Senda skal samanteknu upplýsingarnar til framkvæmdastjórnarinnar á rafrænu formi með því að nota þar til gerðan upplýsingatæknibúnað. Aðildarríkið skal birta orðréttan texta slíkra aðstoðarráðstafana á Netinu. Ef um er að ræða aðstoð við sérstakar aðstæður er heimilt að fella niður viðskiptaleynd. Heiti aðstoðarþega og fjárhæð aðstoðar teljast ekki vera viðskiptaleyndarmál. Aðildarríkin skulu sjá til þess að slíkir textar séu aðgengilegir á Netinu á meðan aðstoðarráðstöfunin er í gildi. Að undanskilinni aðstoð í formi skattaráðstafana skal veiting aðstoðar einnig fela í sér tilvísun til sérákvæðis (sérákvæða) í II. kafla þessarar reglugerðar er varðar slíka gerð.
34)          Til að tryggja gagnsæi og skilvirkt eftirlit skal framkvæmdastjórnin setja fram sérstakar kröfur hvað varðar form og efni ársskýrslna sem aðildarríkin leggja fyrir framkvæmdastjórnina. Af sömu ástæðu er rétt að setja reglur um skrárnar sem aðildarríkin eiga að halda varðandi aðstoðarkerfi sem eru undanþegin samkvæmt þessari reglugerð í ljósi ákvæða 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 659/1999.
35)          Rétt er að setja frekari skilyrði sem þarf að uppfylla í tengslum við hvers kyns aðstoð sem er undanþegin samkvæmt þessari reglugerð. Samkvæmt a- og c-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans skal slík aðstoð vera í réttu hlutfalli við markaðsbresti eða þann vanda sem þarf að leysa til að hún teljist vera Bandalaginu í hag. Þess vegna er rétt að takmarka gildissvið þessarar reglugerðar við aðstoð sem er veitt í tengslum við tilteknar efnislegar og óefnislegar fjárfestingar, svo fremi sem um sé að ræða fjárfestingaraðstoð. Í ljósi umframgetu Bandalagsins og sérstakra vandamála vegna röskunar á samkeppni á sviði vöruflutninga á vegum og loftflutninga, svo fremi sem um er að ræða fyrirtæki sem eru með meginstarfsemi sína í þessum flutningageirum, eru flutningatæki og -búnaður ekki talin með aðstoðarhæfum fjárfestingarkostnaði. Sérákvæði skulu gilda um skilgreiningu á efnislegum eignum að því er varðar umhverfisaðstoð.
36)          Í samræmi við meginreglurnar um aðstoð, sem fellur undir 1. mgr. 87. gr. sáttmálans, skal líta svo á að aðstoð sé veitt á þeim tíma þegar aðstoðarþegi fær lagalegan rétt til aðstoðar samkvæmt gildandi lagareglum í viðkomandi ríki.
37)          Til að auka ekki hlut fjármagnsþáttarins í fjárfestingu á kostnað verkþáttarins skal mæla fyrir um ráðstafanir til að unnt sé að meta aðstoð við fjárfestingu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja annaðhvort á grundvelli fjárfestingarkostnaðar eða kostnaðar vegna ráðninga í tengslum við framkvæmd fjárfestingarverkefnisins.
38)          Aðstoðarkerfi á sviði umhverfismála í formi skattalækkana, aðstoð í þágu illa settra starfsmanna, svæðisbundin fjárfestingaraðstoð, aðstoð í þágu nýstofnaðra lítilla fyrirtækja, aðstoð í þágu nýrra fyrirtækja sem kvenkynsfrumkvöðlar koma á fót eða aðstoð í formi áhættufjármagns sem veitt er aðstoðarþega í formi sérstakrar aðstoðar getur haft stórfelld áhrif á samkeppni á viðkomandi markaði þar sem verið er að ívilna aðstoðarþega umfram önnur fyrirtæki sem hafa ekki fengið slíka aðstoð. Þar eð sérstök aðstoð er eingöngu veitt einu fyrirtæki er líklegt að sérstök aðstoð hafi aðeins takmörkuð jákvæð áhrif á umhverfið, ráðningu illa settra og fatlaðra starfsmanna, svæðisbundna samheldni eða bresti á áhættufjármagnsmörkuðum. Af þessum sökum skulu aðstoðarkerfi, sem varða þessa flokka aðstoðar, vera undanþegin ákvæðum þessarar reglugerðar, en sérstök aðstoð skal tilkynnt framkvæmdastjórninni. Sérstök aðstoð, sem er viðbót við aðstoð, sem veitt er á grundvelli svæðisbundinnar fjárfestingaraðstoðar, skal þó undanþegin ákvæðum þessarar reglugerðar, þar eð aðstoðarþátturinn takmarkast við 50% að hámarki af heildaraðstoð sem veitt er vegna fjárfestingarinnar.
39)          Með ákvæðum þessarar reglugerðar, sem varða aðstoð til að efla fjárfestingar og atvinnu hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, er ekki, eins og í reglugerð (EB) nr. 70/2001, gefinn kostur á að auka hámarkshlutföll aðstoðar með svæðisbundnum aukaaðstoðargreiðslum. Hins vegar skal vera hægt að veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum þau hámarkshlutföll aðstoðar, sem mælt er fyrir um í ákvæðum um svæðisbundna fjárfestingaraðstoð, svo fremi skilyrðin um veitingu svæðisbundinnar fjárfestingaraðstoðar og aðstoðar til eflingar atvinnu séu uppfyllt. Eins skal í ákvæðum er varða aðstoð á sviði fjárfestinga vegna umhverfisins ekki mælt fyrir um neinn möguleika á að hækka hámarkshlutföll aðstoðar með svæðisbundnum aukaaðstoðargreiðslum. Einnig skal gefast kostur á að láta hámarkshlutföll aðstoðar sem mælt er fyrir um í ákvæðunum um svæðisbundna fjárfestingaraðstoð gilda um verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið enda séu skilyrði fyrir úthlutun svæðisbundinnar fjárfestingaraðstoðar uppfyllt.
40)          Með því að ráða bót á annmörkum illa settra svæða stuðlar svæðisbundin aðstoð innan einstakra aðildarríkja að efnahagslegri, félagslegri og svæðisbundinni samheldni aðildarríkjanna og Bandalagsins í heild. Svæðisbundinni aðstoð innan einstakra aðildarríkja er ætlað að aðstoða við að byggja upp verst settu svæðin með því að styðja við fjárfestingar og efla atvinnusköpun á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Hún stuðlar að stofnun nýrra starfsstöðva, stækkun starfsstöðva, sem fyrir eru, aukinni fjölbreytni í framleiðslu starfsstöðvar með því að bæta við afurðum eða með grundvallarbreytingu í heildarframleiðsluferli starfandi starfsstöðvar.
41)          Til þess að koma í veg fyrir að stórum svæðisbundnum fjárfestingarverkefnum sé óeðlilega skipt í undirverkefni og þannig komist hjá tilkynningarmörkunum, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, skal stórt fjárfestingarverkefni teljast eitt fjárfestingarverkefni ef sama fyrirtækið eða fyrirtækin ráðast í upphaflegu fjárfestinguna innan þriggja ára og hún felst í fastafjármunum sem eru sameinaðir þannig að þeir séu fjárhagslega óskiptanlegir. Til að meta hvort fjárfesting er fjárhagslega óskiptanleg tekur framkvæmdastjórnin tillit til tæknilegra, starfrænna og skipulegra tengsla og nánasta umhverfis. Fjárhagslegur óskiptanleiki skal metinn óháð eignarhaldi. Í þessu felst að til þess að ákvarða hvort stórt fjárfestingarverkefni telst vera eitt fjárfestingarverkefni ætti matið að vera það sama án tillits til þess hvort eitt fyrirtæki vinnur verkefnið, fleiri en eitt fyrirtæki deili fjárfestingarkostnaðinum eða fleiri fyrirtæki beri kostnaðinn af aðskildum fjárfestingum innan sama fjárfestingarverkefnis (t.d. ef um er að ræða samrekstur).
42)          Andstætt svæðisbundinni aðstoð, sem er takmörkuð við svæði, sem njóta aðstoðar, skal vera unnt að veita aðstoð til að efla fjárfestingar og atvinnu hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum bæði á svæðum sem njóta aðstoðar og þeim sem ekki njóta aðstoðar. Aðildarríkin skulu því geta veitt fjárfestingaraðstoð á svæðum sem njóta aðstoðar svo fremi þau virði öll skilyrði sem gilda um svæðisbundnar fjárfestingar og aðstoð til eflingar atvinnu eða öll skilyrði sem gilda um aðstoð vegna fjárfestinga og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
43)          Efnahagsþróun svæða, sem njóta aðstoðar, er oft heft af tiltölulega lítilli frumkvöðlastarfsemi, einkum ef fjöldi nýrra fyrirtækja, sem eru stofnuð, er undir meðallagi. Því er nauðsynlegt að fella inn í þessa reglugerð þann flokk aðstoðar sem heimilt er að veita til viðbótar við fjárfestingaraðstoð sem er hvatning til stofnsetningar fyrirtækja og þróunar lítilla sprotafyrirtækja á svæðum sem njóta aðstoðar. Til þess að tryggja að þessi aðstoð í þágu nýstofnaðra fyrirtækja á svæðum, sem njóta aðstoðar, falli í réttan farveg skal veitt aðstoð í þessum flokki samsvara þeim erfiðleikum sem hver svæðisflokkur stendur frammi fyrir. Enn fremur, til að komast hjá óviðunandi röskun á samkeppni, þ.m.t. að flæma burt þau fyrirtæki sem fyrir eru, skal aðstoðin algerlega takmarkast við lítil fyrirtæki og lágar fjárhæðir og fara stiglækkandi. Ef aðstoð er einungis veitt nýstofnuðum, litlum fyrirtækjum eða nýjum fyrirtækjum, sem kvenkyns frumkvöðlar hafa komið á fót, getur það haft þau ótilætluðu áhrif að það hvetji lítil fyrirtæki til að hætta starfsemi og byrja aftur til þess að fá þess konar aðstoð. Aðildarríkin skulu vera á varðbergi gagnvart þessari hættu og skulu gera aðstoðarkerfi sín þannig úr garði að komið sé í veg fyrir þennan vanda með því t.d. að setja tímamörk á umsóknir eigenda fyrirtækja sem hafa nýlega hætt starfsemi.
44)          Lítil frumkvöðlastarfsemi meðal tiltekinna flokka íbúa sem líða fyrir erfiða stöðu sína, s.s. heft aðgengi að fjármagni, getur hindrað efnahagsþróun í Bandalaginu. Framkvæmdastjórnin hefur endurskoðað hugsanlegan markaðsbrest í þessu tilliti að því er varðar mismunandi hópa fólks og getur á þessu stigi dregið þá ályktun að miðað við karlmenn séu konur undir meðaltali í stofnun fyrirtækja, eins og m.a. hefur verið sýnt fram á með hagskýrslugögnum Hagstofu Evrópubandalaganna. Því er nauðsynlegt að fella inn í þessa reglugerð þann flokk aðstoðar sem kveður á um hvata fyrir kvenkyns frumkvöðla til að koma á fót fyrirtækjum til þess að takast á við þá sérstöku markaðsbresti sem konur eiga við að etja, einkum að því er varðar aðgang að fjármagni. Konur standa einnig frammi fyrir sérstökum erfiðleikum í tengslum við umönnunarkostnað sem þær standa straum af vegna ættingja. Slík aðstoð skal gera kleift að ná efnislegu, fremur en formlegu, jafnræði karla og kvenna með því að draga úr misrétti í reynd á sviði frumkvöðlastarfsemi í samræmi við dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalaganna. Þegar þessi reglugerð fellur úr gildi verður framkvæmdastjórnin að endurmeta réttmæti þess að halda gildissviði þessarar undanþágu og flokkum aðstoðarþega
45)          Sjálfbær þróun er ein aðalstoð Lissabon-áætlunarinnar um hagvöxt og atvinnu, ásamt samkeppnishæfni og orkuöryggi. Sjálfbær þróun grundvallast m.a. á afar samkeppnishæfu, félagslegu markaðshagkerfi með öflugri vernd og auknum umhverfisgæðum. Það að stuðla að auknu sjálfbæri í orkumálum og baráttu gegn loftslagsbreytingum leiðir bæði til aukins orkuöryggis og tryggir samkeppnishæfni evrópsks efnahagslífs og framboð á orku á viðráðanlegu verði. Á sviði umhverfisverndar þarf oft að takast á við markaðsbresti í formi neikvæðra ytri þátta. Við eðlilegar markaðsaðstæður hafa fyrirtæki alla jafna ekki hvata til að draga úr mengun þar eð slík lækkun getur leitt til aukins kostnaðar. Ef fyrirtæki eru ekki skyldug til að telja með kostnað vegna mengunar tekur þjóðfélagið í heild á sig þennan kostnað. Þessa innfellingu umhverfiskostnaðar er hægt að tryggja með því að setja umhverfisreglugerðir eða skatta. Skortur á heildarsamræmingu á umhverfisstöðlum innan Bandalagsins skapar ójöfn skilyrði. Enn fremur er hægt að ná frekari umhverfisvernd með framtaksverkefnum sem ganga lengra en lögboðnir staðlar Bandalagsins, sem getur skaðað samkeppnisstöðu viðkomandi fyrirtækja.
46)          Í ljósi þess að næg reynsla hefur fengist af beitingu viðmiðunarreglna Bandalagsins um ríkisaðstoð til umhverfisverndar skal fjárfestingaraðstoð, sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra en kveðið er á um í viðmiðunarreglum um ríkisaðstoð til umhverfisverndar eða auka umhverfisvernd, þegar engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi, aðstoð til kaupa á flutningatækjum sem ganga lengra en umhverfisstaðlar eða sem auka umhverfisvernd, þegar engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi, aðstoð til að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleift að taka fyrr en ella upp staðla Bandalagsins, sem verða settir í framtíðinni, umhverfisaðstoð vegna fjárfestinga í orkusparnaði, umhverfisaðstoð vegna fjárfestinga í hagkvæmari samvinnslu, umhverfisaðstoð vegna fjárfestinga til að efla endurnýjanlega orkugjafa, þ.m.t. aðstoð er varðar sjálfbært, lífrænt eldsneyti, aðstoð vegna umhverfisrannsókna og tiltekin aðstoð í formi lækkunar á umhverfissköttum, undanþegin tilkynningarskyldunni.
47)          Aðstoð í formi skattalækkana í þágu umhverfisverndar sem fellur undir þessar reglugerð skal, í samræmi við viðmiðunarreglur Bandalagsins um ríkisaðstoð til umhverfisverndar, takmarkast við 10 ára tímabil. Að þessu tímabili loknu skulu aðildarríkin endurmeta hvort viðkomandi skattalækkanir eiga rétt á sér. Þetta skal vera með fyrirvara um möguleika aðildarríkjanna um að samþykkja aftur þessar ráðstafanir eða sambærilegar ráðstafanir samkvæmt þessari reglugerð eftir að hafa framkvæmt slíkt endurmat.
48)          Réttur útreikningur á viðbótarfjárfestingu eða framleiðslukostnaði til að ná fram umhverfisvernd er nauðsynlegur til að ákvarða hvort aðstoð samrýmist 3. mgr. 87. gr. sáttmálans eða ekki. Eins og greint er frá í viðmiðunarreglum Bandalagsins um ríkisaðstoð til umhverfisverndar skal takmarka aðstoðarhæfan kostnað við viðbótarfjárfestingarkostnað sem nauðsynlegur er til að ná fram aukinni umhverfisvernd.
49)          Í ljósi þeirra erfiðleika sem geta komið upp, einkum við frádrátt á ávinningi sem leiðir af viðbótarfjárfestingu, skal kveða á um einfaldaða reikningsaðferð til að reikna viðbótarfjárfestingarkostnað. Því skal reikna þennan kostnað við beitingu þessarar reglugerðar án þess að taka með í reikninginn rekstrarkostnað, kostnaðarlækkanir eða viðbótarframleiðslu og án þess að taka tillit til rekstrarkostnaðar sem á fellur meðan fjárfestingin varir. Hámarkshlutföll aðstoðar sem kveðið er á um í þessari reglugerð fyrir ólíka flokka umhverfisverndaraðstoðar sem um ræðir hafa því verið lækkuð kerfisbundið samanborið við hámarkshlutföll aðstoðar sem kveðið er á um í viðmiðunarreglum Bandalagsins um ríkisaðstoð til umhverfisverndar.
50)          Að því er varðar umhverfisverndaraðstoð vegna fjárfestinga í orkusparnaðarráðstöfunum er við hæfi að heimila aðildarríkjunum að velja annaðhvort einfaldaða aðferð við útreikning eða útreikning á öllum kostnaði, sem er eins og sá sem kveðið er á um í viðmiðunarreglum Bandalagsins um ríkisaðstoð til umhverfisverndar. Í ljósi þeirra erfiðleika, sem geta komið upp við beitingu á aðferðinni, sem byggist á útreikningi á öllum kostnaðinum, skal utanaðkomandi endurskoðandi staðfesta þessa kostnaðarútreikninga.
51)          Að því er varðar umhverfisverndaraðstoð vegna fjárfestingar í samvinnslu og umhverfisverndaraðstoð vegna fjárfestinga til að efla endurnýjanlega orkugjafa, skal viðbótarkostnaður, að því er varðar beitingu þessarar reglugerðar, reiknaður án þess að tillit sé tekið til stuðningsráðstafana sem eru veittar vegna sama aðstoðarhæfa kostnaðar, að undanskilinni annarri fjárfestingaraðstoð.
52)          Að því er varðar fjárfestingar sem tengjast vatnsorkustöðvum skal bent á að umhverfisáhrif geta tvöfaldast. Með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda fela þær vissulega í sér möguleika. Hins vegar geta slíkar stöðvar einnig haft neikvæð áhrif, t.d. á vatnakerfi og líffræðilega fjölbreytni.
53)          Til að útiloka mun sem gæti valdið röskun á samkeppni og til að auðvelda samræmingu milli ýmissa framtaksverkefna sem tengjast litlum og meðalstórum fyrirtækjum Bandalagsins og einstakra landa og með hliðsjón af gagnsæi stjórnsýslunnar og réttaröryggi skal skilgreiningin á „litlum og meðalstórum fyrirtækjum“, sem er notuð í þessari reglugerð, vera sú sama og mælt er fyrir um í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreiningu á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 23 ).
54)          Lítil og meðalstór fyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki við að skapa ný störf og stuðla almennt að félagslegum stöðugleika og drifkrafti í efnahagslífinu. Hins vegar getur þróun þeirra takmarkast af markaðsbrestum sem verður til þess að þau lenda í dæmigerðum vanda. Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga oft í erfiðleikum með að fá fjármagn, áhættufjármagn eða lán vegna áhættutregðu tiltekinna fjármálamarkaða og þess hve takmarkaðar tryggingar þau geta lagt fram. Einnig getur takmarkað fjármagn skert aðgang þeirra að upplýsingum, einkum að því er varðar nýja tækni og möguleika á nýjum mörkuðum. Til að auðvelda þróun í atvinnustarfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru tilteknir flokkar undanþegnir aðstoð samkvæmt þessari reglugerð þegar þeir eru í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þar af leiðandi er réttmætt að slík aðstoð sé undanþegin fyrirframtilkynningu og meta það svo, aðeins með tilliti til beitingar þessarar reglugerðar, falli aðstoðarþegi undir skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, að hann megi gera ráð fyrir að dæmigerðir erfiðleikar lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem stafa af markaðsbrestum, þrengi að þeim, þegar aðstoð fer ekki yfir gildandi tilkynningarmörk.
55)          Ákvarða skal mismunandi grunnhlutföll aðstoðar og mismunandi aukaaðstoðargreiðslur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki með hliðsjón af þeim mun sem er milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Markaðsbrestir, sem hafa almennt áhrif á lítil og meðalstór fyrirtæki, þ.m.t. erfiðleikar í aðgengi að fjármagni, leiða jafnvel til meiri hindrana í þróun lítilla og meðalstórra fyrirtækja samanborið við meðalstór fyrirtæki.
56)          Á grundvelli fenginnar reynslu við beitingu viðmiðunarreglna Bandalagsins um ríkisaðstoð til að stuðla að fjárfestingum með áhættufjármagni í litlum og meðalstórum fyrirtækjum virðast vera ákveðnir brestir í áhættufjármagnsmarkaði í Bandalaginu að því er varðar tilteknar tegundir fjárfestinga á vissum stigum í þróun fyrirtækjanna. Þessir markaðsbrestir stafa af ófullkomnu jafnvægi á framboði og eftirspurn eftir áhættufjármagni. Þar af leiðandi getur verið of lítið af áhættufjármagni í boði á markaðnum og fyrirtæki fá ekki fjármögnun þrátt fyrir að eiga verðmæt viðskiptalíkön og vaxtarmöguleika. Meginuppspretta markaðsbrests, sem varðar áhættufjármagnsmarkaði, sem einkum hefur áhrif á aðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni og sem getur réttlætt opinbera íhlutun, tengist ófullkomnum eða misvísandi upplýsingum. Af þeim sökum skal útiloka áhættufjármagnskerfi í mynd fjárfestingarsjóða, sem stjórnað er í viðskiptalegum tilgangi, þar sem hátt hlutfall sjóðanna kemur frá einkafjárfestum í formi einkafjármagns, sem stuðlar að áhættufjármagnsráðstöfun, sem miðar að hagnaði í þágu valinna fyrirtækja, frá tilkynningarskyldunni með tilteknum skilyrðum. Þau skilyrði að stjórn fjárfestingarsjóða skuli miðast við viðskipti og að þær áhættufjármagnsaðgerðir, sem fylgja þeim, miði að hagnaði skulu ekki koma í veg fyrir að fjárfestingarsjóðir miði starfsemi sína að tilteknum markmiðum og tilteknum markaðshlutum, s.s. fyrirtækjum sem stofnuð eru af kvenkyns frumkvöðlum. Þessi reglugerð skal ekki hafa áhrif á stöðu Fjárfestingarsjóðs Evrópu og Fjárfestingarbanka Evrópu, eins og skilgreint er í viðmiðunarreglum Bandalagsins um áhættufjármagn.
57)          Aðstoð við rannsóknir, þróun og nýsköpun getur stuðlað að hagvexti, aukið samkeppnishæfni og hleypt auknum krafti í atvinnulífið. Á grundvelli reynslunnar af beitingu reglugerðar (EB) nr. 364/2004, rammaákvæða Bandalagsins um ríkisaðstoð til rannsókna og þróunar og rammaákvæða Bandalagsins um ríkisaðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar virðist, miðað við tiltæka rannsóknar- og þróunargetu bæði lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stórra fyrirtækja, sem markaðsbrestir geti komið í veg fyrir að markaðurinn nái hámarksframleiðslu og leiði til óhagkvæmrar niðurstöðu. Óhagkvæm niðurstaða af þessu tagi tengist jákvæðum, utanaðkomandi þáttum/útbreiðslu á þekkingu, opinberum eignum/útbreiðslu á þekkingu og ófullkomnum og misvísandi upplýsingum svo og vandamálum í tengslum við samræmingu og netbilanir.
58)          Aðstoð við rannsóknir, þróun og nýsköpun, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, er brýn vegna þess að einn helsti ókosturinn við skipulagsform lítilla og meðalstórra fyrirtækja er að þeim getur reynst erfitt að fá aðgang að tækninýjungum, tækniyfirfærslu eða mjög hæfu starfsfólki. Því skal aðstoð vegna aðstoðar til rannsóknar- og þróunarverkefna, aðstoð vegna hagkvæmniathugana og aðstoð til að standa straum af kostnaði í tengslum við hugverkarétt lítilla og meðalstórra fyrirtækja á sviði iðnaðar, svo og aðstoð til ungra lítilla nýsköpunarfyrirtækja, aðstoð vegna ráðgjafarþjónustu á sviði nýsköpunar og vegna stuðningsþjónustu í þágu nýsköpunar og aðstoð vegna láns á mjög hæfu starfsfólki vera undanþegin tilkynningarskyldu, með ákveðnum skilyrðum.
59)          Að því er varðar aðstoð við verkefni á sviði rannsókna og þróunar skal sá hluti rannsóknarverkefnisins, sem fær aðstoð að öllu leyti, falla undir flokka grunnrannsókna, iðnaðarrannsókna eða þróunarstarfs. Ef verkefni tekur til ólíkra verkefna skal hvert verkefni falla undir þá flokka grunnrannsókna, iðnaðarrannsókna eða þróunarstarfs eða ekki undir neinn þessara flokka. Þetta þarf ekki nauðsynlega að vera í tímaröð, þar sem byrjað er á grunnrannsóknum og haldið áfram til starfsemi sem er nær markaðnum. Því getur verkefni sem er framkvæmt á síðara stigi verkefnisins flokkast sem iðnaðarrannsóknir. Á sama hátt er ekki útilokað að starfsemi sem fram fer á fyrra stigi verkefnisins geti falið í sér þróunarstarf.
60)          Í landbúnaði skal undanþiggja tiltekna aðstoð vegna rannsókna og þróunar ef sambærileg skilyrði og þau sem kveðið er á um í sérákvæðum, sem mælt er fyrir um í landbúnaði í rammaákvæðum Bandalagsins um ríkisaðstoð til rannsókna og þróunar, eru uppfyllt. Ef þessi sérstöku skilyrði eru ekki uppfyllt er rétt að kveða á um að aðstoð sé undanþegin ef hún uppfyllir skilyrðin sem sett eru í almennu ákvæðunum sem tengjast rannsóknum og þróun í þessari reglugerð.
61)          Aukin þjálfun og ráðning illa settra eða fatlaðra starfsmanna og bætur vegna aukakostnaðar vegna ráðningar illa settra eða fatlaðra starfsmanna er aðalmarkmiðið með efnahags- og félagsmálastefnu Bandalagsins og aðildarríkja þess.
62)          Þjálfun skilar yfirleitt jákvæðum áhrifum út í samfélagið í heild þar eð hún eykur fjölda hæfra starfsmanna sem kemur öðrum fyrirtækjum til góða, eykur samkeppnishæfni atvinnugreina í Bandalaginu og gegnir mikilvægu hlutverki að því er varðar áætlanir í atvinnumálum Bandalagsins. Þjálfun, þ.m.t. rafrænt nám, er einnig nauðsynleg að því er varðar uppbyggingu, öflun og útbreiðslu þekkingar, almenn eign sem skiptir höfuðmáli. Í ljósi þess að fyrirtæki í Bandalaginu fjárfesta of lítið í þjálfun starfsmanna sinna, einkum ef þjálfunin er almenn og ávinningurinn, sem af henni leiðir, er ekki tafarlaus og áþreifanlegur fyrir viðkomandi fyrirtæki, getur ríkisaðstoð stuðlað að því að ráða bót á þessum markaðsbresti. Því ber að undanskilja slíka aðstoð frá tilkynningarskyldunni með sérstökum skilyrðum. Í ljósi þeirra óþæginda, sem lítil og meðalstór fyrirtæki standa frammi fyrir og hlutfallslega auknum kostnaði, sem þau þurfa að bera, þegar þau fjárfesta í þjálfun starfsmanna sinna, skal hlutfall þeirrar aðstoðar sem er undanþegin þessari reglugerð aukið að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki. Menntun í sjóflutningageiranum er sérstaks eðlis og því þarf að beita sérstökum aðferðum í þeirri starfsgrein.
63)          Hægt er að gera greinarmun á almennri og sértækri þjálfun. Leyfileg aðstoðarhlutföll skulu breytileg í samræmi við tegund þjálfunar sem er í boði og stærð fyrirtækisins. Almenn menntun veitir hæfi sem unnt er að yfirfæra og eykur verulega ráðningarhæfi þess starfsmanns sem nýtur hennar. Aðstoð í þessum tilgangi hefur minni áhrif til röskunar á samkeppni sem þýðir að unnt er að undanþiggja hærra hlutfall aðstoðar kröfunni um fyrirframtilkynningu. Hins vegar hefur sérstök menntun, sem aðallega kemur fyrirtækinu til góða, í för með sér meiri hættu á samkeppnisröskun svo að hlutfall aðstoðar, sem hægt er að undanþiggja kröfunni um fyrirframtilkynningu, ætti að vera miklu lægra. Menntun telst einnig vera almenn í eðli sínu þegar hún tengist umhverfisstjórnun, nýjungum í umhverfismálum eða félagslegri ábyrgð fyrirtækja og eykur þar með hæfi aðstoðarþega til þess að stuðla að almennum markmiðum á sviði umhverfismála.
64)          Tilteknum flokkum illa settra eða fatlaðra starfsmanna reynist enn erfitt að komast inn á vinnumarkaðinn. Af þeim sökum er réttlætanlegt að opinber yfirvöld beiti ráðstöfunum sem hvetja fyrirtæki til að fjölga störfum, einkum fyrir starfsmenn í þeim flokkum sem eru illa settir. Kostnaður vegna starfsmanna er hluti venjulegs rekstrarkostnaðar allra fyrirtækja. Því er sérlega mikilvægt að aðstoð til illa settra eða fatlaðra starfsmanna hafi jákvæð áhrif í atvinnumálum og hafi ekki eingöngu jákvæð áhrif á atvinnuþátttöku þessara flokka starfsmanna og geri ekki einungis fyrirtækjum kleift að draga úr kostnaði sem þau annars þyrftu að bera. Því skal slík aðstoð undanþegin fyrirframtilkynningu ef líklegt er að hún hjálpi þessum flokkum starfsmanna við að koma aftur inn á vinnumarkaðinn eða, að því er varðar fatlaða starfsmenn, að koma aftur inn á vinnumarkaðinn og halda þar stöðu sinni.
65)          Heimilt er að reikna aðstoð í tengslum við atvinnu fatlaðra starfsmanna í formi styrkja vegna launagreiðslna á grundvelli sérstakrar fötlunar viðkomandi starfsmanns eða veita hana sem eingreiðslu, svo fremi að aðferðin leiði ekki til þess að aðstoðin fari yfir hámarkshlutfall aðstoðar fyrir hvern starfsmann sem hlut á að máli.
66)          Rétt er að kveða á um bráðabirgðaákvæði fyrir staka aðstoð sem veitt er áður en þessi reglugerð öðlast gildi og sem ekki hefur verið tilkynnt í bága við skuldbindinguna sem kveðið er á um í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans. Með niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1628/2006, skal heimila, að núverandi, svæðisbundin fjárfestingarkerfi, með undanþágu, gildi áfram með þeim skilyrðum, sem gert er ráð fyrir í þeirri reglugerð, í samræmi við aðra undirgrein 2. mgr. 9. gr. þeirrar reglugerðar.
67)          Í ljósi reynslu framkvæmdastjórnarinnar á þessu sviði, einkum af því að yfirleitt reynist nauðsynlegt að endurskoða stefnu um ríkisaðstoð, er rétt að takmarka gildistíma þessarar reglugerðar Ef þessi reglugerð fellur úr gildi án framlengingar, skulu aðstoðarkerfi, sem þegar hafa fengið undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, áfram undanþegin í sex mánuði til viðbótar til að aðildarríkjunum gefist tími til aðlögunar.
68)          Reglugerð (EB) nr. 70/2001, reglugerð (EB) nr. 68/2001 og reglugerð (EB) nr. 2204/2002 féllu úr gildi 30. júní 2008 og því ber að fella reglugerð (EB) nr. 1628/2006 úr gildi,
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

EFNISYFIRLIT

I. kafli    ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.    Gildissvið
2. gr.    Skilgreiningar
3. gr.    Skilyrði fyrir undanþágu
4. gr.    Aðstoðarhlutfall og aðstoðarhæfur kostnaður
5. gr.    Gagnsæi aðstoðar
6. gr.    Viðmiðunarmörk fyrir stakar tilkynningar
7. gr.    Uppsöfnun
8. gr.    Hvatningaráhrif
9. gr.    Gagnsæi
10. gr.    Eftirlit
11. gr.    Ársskýrsla
12. gr.    Sérstök skilyrði fyrir fjárfestingaraðstoð
II. kafli    SÉRÁKVÆÐI UM MISMUNANDI FLOKKA AÐSTOÐAR
1. þáttur    Svæðisbundin aðstoð
13. gr.    Svæðisbundin fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu
14. gr.    Aðstoð til nýstofnaðra lítilla fyrirtækja
2. þáttur    Fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja
15. gr.    Fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja
3. þáttur    Aðstoð vegna frumkvöðlastarfs sem er í höndum kvenna
16. gr.    Aðstoð til lítilla fyrirtækja sem konur í hópi frumkvöðla hafa nýlega stofnað
4. þáttur    Aðstoð til umhverfisverndar
17. gr.    Skilgreiningar
18. gr.    Fjárfestingaraðstoð sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra í umhverfisvernd en gert er ráð fyrir í Bandalagsstöðlum eða auka umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi
19. gr.    Aðstoð til kaupa á nýjum vöruflutningabifreiðum sem gengur lengra en kveðið er á um í Bandalagsstöðlum eða sem stuðlar að aukinni umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi
20. gr.    Aðstoð til aðlögunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja að Bandalagsstöðlum sem verða settir síðar
21. gr.    Umhverfisaðstoð vegna ráðstafana á sviði orkusparnaðar
22. gr.    Aðstoð á sviði umhverfisfjárfestinga vegna samvinnslu með góða orkunýtni
23. gr.    Aðstoð vegna fjárfestinga í umhverfismálum vegna aukinnar hlutdeildar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum
24. gr.    Aðstoð til umhverfisrannsókna
25. gr.    Aðstoð í formi lækkunar á umhverfissköttum
5. þáttur    Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og þátttöku þeirra í kaupstefnum
26. gr.    Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja
27. gr.    Aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna þátttöku þeirra í kaupstefnum
6. þáttur    Aðstoð í formi áhættufjármagns
28. gr.    Skilgreiningar
29. gr.    Aðstoð í formi áhættufjármagns
7. þáttur    Aðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar
30. gr.    Skilgreiningar
31. gr.    Aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna
32. gr.    Aðstoð til tæknilegra hagkvæmniathugana
33. gr.    Aðstoð í tengslum við kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna hugverkaréttar á sviði iðnaðar
34. gr.    Aðstoð til rannsókna og þróunar á sviði landbúnaðar og fiskveiða
35. gr.    Aðstoð til ungra nýsköpunarfyrirtækja
36. gr.    Aðstoð til ráðgjafarþjónustu við nýsköpun og til stoðþjónustu við nýsköpun
37. gr.    Aðstoð vegna láns á mjög hæfu starfsfólki
8. þáttur    Aðstoð til menntunar
38. gr.    Skilgreiningar
39. gr.    Aðstoð til menntunar
9. þáttur    Aðstoð vegna illa settra og fatlaðra starfsmanna
40. gr.    Aðstoð vegna ráðningar illa settra starfsmanna í formi launastyrkja
41. gr.    Aðstoð vegna ráðningar fatlaðra starfsmanna í formi launastyrkja
42. gr.    Aðstoð til að vega upp á móti aukakostnaði við að hafa fatlaða starfsmenn í vinnu
III. kafli    LOKAÁKVÆÐI
43. gr.    Niðurfelling
44. gr.    Bráðabirgðaákvæði
45. gr.    Gildistaka og gildissvið
I. viðauki    Skilgreining á litlu og meðalstóru fyrirtæki
II. viðauki    Eyðublað fyrir veitingu samantekinna upplýsinga vegna rannsóknar- og þróunaraðstoðar samkvæmt tilkynningarskyldunni sem kveðið er á um í 4. mgr. 9. gr.
    Eyðublað fyrir veitingu samantekinna upplýsinga vegna stórra fjárfestingarverkefna samkvæmt aukinni tilkynningarskyldu sem kveðið er á um í 4. mgr. 9. gr.
III. viðauki    Eyðublað fyrir samantekt upplýsinga samkvæmt tilkynningarskyldunni sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 9. gr.

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Gildissvið

1.     Þessi reglugerð gildir um eftirfarandi flokka aðstoðar:
a)    svæðisbundna aðstoð,
b)    fjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja og aðstoð til eflingar atvinnu,
c)    aðstoð til fyrirtækja sem kvenkyns frumkvöðlar koma á fót,
d)    aðstoð til umhverfisverndar,
e)    aðstoð vegna ráðgjafar til handa litlum og meðalstórum fyrirtækjum og vegna þátttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja í kaupstefnum,
f)    aðstoð í formi áhættufjármagns,
g)    aðstoð á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar,
h)    aðstoð til menntunar,
i)    aðstoð vegna illa settra og fatlaðra starfsmanna.
2.     Hún gildir ekki um:
a)    aðstoð við starfsemi sem tengist útflutningi, einkum aðstoð sem tengist beint útflutningsmagni, stofnun og rekstri dreifingarnets eða öðrum tilfallandi útgjöldum í tengslum við útflutning,
b)    aðstoð sem er skilyrt þannig að innlendar vörur séu teknar fram yfir innfluttar vörur.
3.     Þessi reglugerð gildir um aðstoð í öllum greinum atvinnulífsins nema:
a)    aðstoð í þágu starfsemi á sviði fiskveiða og lagareldis, sem fellur undir reglugerð ráðsins (EB) nr. 104/2000 ( 24 ), að frátalinni þjálfunaraðstoð, aðstoð í formi áhættufjármagns, aðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og aðstoð til illa settra og fatlaðra starfsmanna,
b)    aðstoð í þágu starfsemi í frumframleiðslu landbúnaðarafurða, að frátalinni aðstoð til menntunar, aðstoð í formi áhættufjármagns, aðstoð á sviði rannsókna og þróunar, aðstoð til umhverfisverndar og aðstoð til illa settra og fatlaðra starfsmanna, að því marki sem þessir flokkar falla ekki undir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1857/2006,
c)    aðstoð til starfsemi á sviði vinnslu og markaðssetningar landbúnaðarafurða í eftirfarandi tilvikum:
    i.    þegar fjárhæð aðstoðar er ákveðin á grundvelli verðs eða magns þeirra afurða sem keyptar eru af frumframleiðendum eða settar á markað af viðkomandi fyrirtækjum eða
    ii.    þegar aðstoðin er háð því skilyrði að hún sé að hluta til eða eingöngu veitt frumframleiðendum,
d)    aðstoð í þágu kolavinnslu, að frátalinni þjálfunaraðstoð, rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunaraðstoð og umhverfisaðstoð,
e)    svæðisbundin aðstoð í þágu starfsemi á sviði stáliðnaðar,
f)    svæðisbundin aðstoð í þágu starfsemi á sviði skipasmíða,
g)    svæðisbundin aðstoð í þágu starfsemi á sviði gervitrefjaiðnaðar.
4.     Reglugerð þessi gildir ekki um svæðisbundin aðstoðarkerfi sem snúa að sérstakri atvinnustarfsemi á framleiðslu- eða þjónustusviði. Kerfi sem miðast við ferðaþjónustu skulu þó ekki talin snúa að sérstökum atvinnugreinum.
5.     Þessi reglugerð gildir ekki um sérstaka aðstoð sem veitt er stórum fyrirtækjum, nema að því leyti sem kveðið er á um í 1. mgr. 13. gr.
6.     Þessi reglugerð gildir ekki um eftirfarandi aðstoð:
a)    aðstoðarkerfi sem útiloka ekki sérstaklega greiðslur stakrar aðstoðar í þágu fyrirtækis sem krafið er um endurgreiðslu, í kjölfar fyrri ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar þar sem því er lýst yfir að aðstoðin sé ólögleg og ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum,
b)    sérstaka aðstoð í þágu fyrirtækis sem krafið er um endurgreiðslu, í kjölfar fyrri ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar þar sem því er lýst yfir að aðstoðin sé ólögleg og ósamrýmanleg sameiginlega markaðnum,
c)    aðstoð til fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum.
7.     Að því er varðar c-lið 6. mgr. telst lítið og meðalstórt fyrirtæki vera fyrirtæki sem á í erfiðleikum ef það uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
a)    ef fyrirtækið er félag með takmarkaðri ábyrgð þar sem meira en helmingur af skráðu eigin fé hefur tapast og meira en fjórðungur af því fé hefur tapast á undanförnum 12 mánuðum eða
b)    ef fyrirtækið, þar sem a.m.k. einhverjir félagsaðilar bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldum fyrirtækisins, þar sem meira en helmingur af eigin fé, samkvæmt reikningum félagsins, hefur tapast og meira en fjórðungur af því fé hefur tapast á undanförnum 12 mánuðum eða
c)    ef fyrirtækið, óháð félagsformi, uppfyllir viðmiðanir um sameiginlega málsmeðferð vegna greiðsluerfiðleika samkvæmt landslögum.
Ekki er talið að lítið eða meðalstórt fyrirtæki, sem hefur starfað skemur en í þrjú ár, eigi samkvæmt þessari reglugerð í erfiðleikum að því er varðar það tímabil nema það uppfylli skilyrðin sem sett eru fram í fyrstu undirgrein c-liðar.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „aðstoð“: allar ráðstafanir sem samrýmast viðmiðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 87. gr. sáttmálans,
2.    „aðstoðarkerfi“: sérhver lagagerð, sem unnt er, án þess að grípa þurfi til frekari framkvæmdaráðstafana, að byggja á staka aðstoð til fyrirtækja sem eru skilgreind almennt og óhlutbundið með gerðinni og sérhver gerð sem unnt er að byggja á aðstoð, sem er ekki tengd sérstöku verkefni, til eins eða nokkurra fyrirtækja um ótiltekinn tíma og/eða sem nemur ótiltekinni fjárhæð,
3.    „stök aðstoð“:
    a)    sérstök aðstoð og
    b)    tilkynningarskyld aðstoð á grundvelli aðstoðarkerfis,
4.    „sérstök aðstoð“: stök aðstoð sem ekki er veitt á grundvelli aðstoðarkerfis,
5.    „aðstoðarhlutfall“: fjárhæðin, sem veitt er til aðstoðar, tilgreind sem hlutfall af aðstoðarhæfum kostnaði,
6.    ,,gagnsæ aðstoð“: aðstoð þar sem hægt er að reikna nákvæmlega vergt styrkígildi fyrir fram án þess að nauðsynlegt sé að gera áhættumat,
7.    „lítil og meðalstór fyrirtæki“: fyrirtæki sem uppfylla viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í I. viðauka,
8.    „stór fyrirtæki“: fyrirtæki sem uppfylla ekki viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í I. viðauka,
9.    ,,svæði sem njóta aðstoðar“: svæði sem eru aðstoðarhæf fyrir svæðisbundna aðstoð, eins og tilgreint er á kortinu sem var samþykkt um svæðisbundna aðstoð fyrir viðkomandi aðildarríki fyrir tímabilið 2007 til 2013,
10.    ,,efnislegar eignir“: eignir sem tengjast landi, byggingum og stöðvum, vélum og búnaði með fyrirvara um 12. mgr. 17. gr. Í flutningageiranum teljast flutningatæki og búnaður til flutninga vera aðstoðarhæfar eignir nema að því er varðar svæðisbundna aðstoð og að undanskildum vöruflutningum á vegum og flutningum í lofti,
11.    „óefnislegar eignir“: eignir sem felast í yfirfærslu á tækni með öflun einkaleyfa, leyfa, verkþekkingar eða tækniþekkingar án einkaleyfa,
12.    „stór fjárfestingarverkefni“: fjárfesting í fjármunaeign með aðstoðarhæfum kostnaði yfir 50 milljónir evra, reiknuð á verði og gengi þess dags þegar aðstoðin er veitt,
13.    „fjöldi starfsmanna“: fjöldi starfseininga á ári, þ.e. fjöldi einstaklinga í fullu starfi á einu ári þar sem hlutastörf og árstíðabundin störf reiknast sem brot af starfseiningu,
14.    „störf sem beinlínis skapast vegna fjárfestingarverkefnis“: störf er varða þá starfsemi sem fjárfestingin tengist, þ.m.t. störf sem verða til í kjölfar aukinnar nýtingar vegna afkastanna sem skapast með fjárfestingunni,
15.    „launakostnaður“: sú heildarfjárhæð, sem aðstoðarþega ber í reynd að greiða vegna viðkomandi starfs, sem felur í sér:
    a)    brúttólaun, fyrir skatt,
    b)    skyldubundið framlag, t.d. almannatryggingagjöld, og
    c)    kostnaður við umönnun barna og foreldra,
16.    ,,aðstoð vegna fjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja og aðstoð til eflingar atvinnu“: aðstoð sem uppfyllir skilyrðin sem mælt er fyrir um í 15. gr.,
17.    ,,fjárfestingaraðstoð“: svæðisbundin fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu skv. 13. gr., aðstoð vegna fjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja og aðstoð til að efla atvinnu og fjárfestingaraðstoð til umhverfisverndar skv. 18. til 23. gr.,
18.    „illa settur starfsmaður“: einstaklingur sem:
    a)    hefur ekki gegnt reglubundnu, launuðu starfi næstliðna sex mánuði eða
    b)    hefur ekki lokið námi á framhaldsskólastigi eða starfsmenntun (3. flokki í alþjóðlegu menntunarflokkuninni) eða
    c)    er yfir 50 ára aldri eða
    d)    býr einn sem fullorðinn einstaklingur með einn eða fleiri á framfæri eða
    e)    vinnur í geira eða atvinnugrein í aðildarríki þar sem kynjamisvægi er a.m.k. 25% meira en meðaltal kynjamisvægis allra atvinnugreina í því aðildarríki og tilheyrir þeim kynjahópi sem færri eru í eða
    f)    er í þjóðernisminnihluta í aðildarríki og þarfnast aukinnar tungumálakunnáttu, starfsþjálfunar eða starfsreynslu til að bæta möguleika sína á að fá stöðuga vinnu,
19.    „verulega illa settur starfsmaður“: einstaklingur sem hefur verið atvinnulaus lengur en 24 mánuði,
20.    „fatlaður starfsmaður“: einstaklingur sem:
    a)    er viðurkennt að sé fatlaður samkvæmt landslögum eða
    b)    er viðurkennt að sé skertur af völdum líkamlegra, geðrænna eða sálrænna erfiðleika,
21.    „vernduð vinna“: starf í fyrirtæki þar sem a.m.k. helmingur starfsmanna er fatlaður,
22.    „landbúnaðarafurðir“:
    a)    vörurnar sem eru tilgreindar í I. viðauka sáttmálans, þó ekki afurðir fiskveiða og lagareldis sem falla undir reglugerð (EB) nr. 104/ 2000,
    b)    vörur sem falla undir kóðana 4502, 4503 og 4504 (korkvörur) í sameinuðu tollnafnaskránni,
    c)    vörur sem ætlað er að líkja eftir eða koma í stað mjólkur og mjólkurafurða, eins og um getur í reglugerð ráðsins (EB) nr. 1234/2007 ( 25 ),
23.    „vinnsla landbúnaðarafurða“: öll starfsemi er varðar landbúnaðarafurðir ef afrakstur hennar er afurð sem einnig er landbúnaðarafurð, þó ekki starfsemi á bújörðum sem er nauðsynleg við undirbúning dýra- eða plöntuafurða til fyrstu sölu,
24.    „markaðssetning landbúnaðarafurða“: að geyma eða sýna með það í huga að selja, bjóða til sölu, afhenda eða einhver önnur aðferð til að markaðssetja, þó ekki fyrsta sala frumframleiðanda til endurseljenda eða vinnsluaðila og öll starfsemi sem felst í að undirbúa afurð fyrir slíka fyrstu sölu; sala frumframleiðanda til neytenda skal teljast markaðssetning ef hún fer fram á sérstökum stað sem notaður er í þeim tilgangi,
25.    „ferðaþjónusta“: eftirfarandi starfsemi, samanber atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna, endurskoðun 2:
    a)    Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna 55: gistiaðstaða,
    b)    Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna 56: starfsemi tengd veitingasölu,
    c)    Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna 79: ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og önnur bókunarþjónusta,
    d)    Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna 90: starfsemi á sviði skapandi lista og skemmtunar,
    e)    Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna 91: starfsemi safna og önnur menningarstarfsemi,
    f)    Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna 93: starfsemi á sviði íþrótta, skemmtunar og tómstunda,
26.    ,,fyrirframgreiðsla sem ber að endurgreiða“: lán vegna verkefnis sem er greitt í einni eða fleiri afborgunum og skilyrði fyrir endurgreiðslu miðast við niðurstöðu rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefnisins,
27.    ,,áhættufjármagn“: fjármögnun með hlutafé og ígildi hlutafjár til fyrirtækja á fyrstu vaxtarstigum (frumstigi, upphafsstigi og útþenslustigi)
28.    ,,fyrirtæki sem konur í hópi frumkvöðla hafa nýlega stofnað“: lítið fyrirtæki sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
    a)    ein kona eða fleiri eiga a.m.k. 51% af eigin fé viðkomandi lítils fyrirtækis eða eru skráðir eigendur viðkomandi lítils fyrirtækis og
    b)    kona fer með stjórn litla fyrirtækisins,
29.    „stáliðnaður“: starfssvið sem felur í sér framleiðslu á einni eða fleiri af eftirfarandi vörum:
    a)    steypujárn og járnblendi:
        steypujárn fyrir framleiðslu á stáli, steypa og annað steypujárn, spegiljárn og kolefnisríkt járnmangan, að frátöldu öðru járnblendi,
    b)    hrávörur og hálfunnar vörur úr járni eða venjulegu eða eðalstáli:
        fljótandi steypustál, ýmist í hleifum eða ekki, þ.m.t. hleifar til smíða á hálfunnum vörum: blokkir, hellur og plötur; þynnur og blikkrenningar, heitvalsað plötuefni í rúllum, að undanskilinni framleiðslu á fljótandi stáli til smíða í litlum og meðalstórum málmsteypum;
    c)    heitfágaðar vörur úr járni, venjulegu stáli eða eðalstáli:
        teinar, brautarbitar, tengispangir, undirstöðuplötur, efnismiklir prófílar 80 mm og þar yfir, þilstál, teinar og prófílar undir 80 mm og flatjárn sem er undir 150 mm, stálstangir, stálrör og stálprófílar, heitvölsuð bönd og ræmur (þ.m.t. húðað og óhúðað), heitvalsaðar þynnur (húðaðar eða ekki), 3 mm plötur og þynnur og þar yfir, breitt flatjárn 150 mm og þar yfir, að undanskildum vír og vörum unnum úr vír, glansstangir og steypujárn,
    d)    kaldvalsaðar vörur:
        blikkplötur, blýblandaðar plötur, svart stál, galvanhúðaðar þynnur, aðrar húðaðar þynnur, kaldvalsaðar þynnur, spenna- og rafalablikk, kaldvalsaðar plötur, í vafningum eða sléttar,
    e)    rör:
        saumlaus stálrör, soðin stálrör meira en 406,4 mm að þvermáli,
30.    ,,gervitrefjaiðnaður“:
    a)    þrýstimótun á almennri gerð þráðar og garns úr pólýester, akrýli eða pólýprópýleni, óháð notkun þess, eða
    b)    fjölliðun (þ.m.t. fjölliðuþéttun) þegar hún er samþætt þrýstimótun með tilliti til þess vélbúnaðar sem er notaður eða
    c)    hvers konar stoðvinnsla samhliða framleiðslubúnaði til þrýstimótunar á þræði á vegum væntanlegs aðstoðarþega eða annars fyrirtækis í sömu samstæðu, sem er yfirleitt, þegar um er að ræða þá tilteknu starfsemi, samþætt þess háttar framleiðsluaðstöðu með tilliti til vélbúnaðarins sem er notaður til framleiðslunnar.

3. gr.
Skilyrði fyrir undanþágu

1.     Aðstoðarkerfi, sem uppfylla öll skilyrði I. kafla þessarar reglugerðar, sem og viðeigandi ákvæði í II. kafla hennar, teljast samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að sérhver stök aðstoð sem veitt er samkvæmt slíku kerfi uppfylli öll skilyrði þessarar reglugerðar og að kerfinu fylgi skýr tilvísun í þessa reglugerð þar sem fram kemur titill hennar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
2.     Stök aðstoð, sem er veitt samkvæmt kerfi, sem um getur í 1. mgr., telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að hún uppfylli skilyrði I. kafla þessarar reglugerðar, sem og viðeigandi ákvæði II. kafla þessarar reglugerðar og að ráðstöfun um staka aðstoð fylgi skýr tilvísun í viðeigandi ákvæði þessarar reglugerðar þar sem fram koma viðeigandi ákvæði, titill þessarar reglugerðar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
3.     Sérstök aðstoð, sem uppfyllir öll skilyrði I. kafla þessarar reglugerðar, sem og viðeigandi ákvæði í II. kafla hennar, telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að slíkri aðstoð fylgi skýr tilvísun í þessa reglugerð þar sem fram koma viðeigandi ákvæði, titill þessarar reglugerðar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.
Aðstoðarhlutfall og aðstoðarhæfur kostnaður

1.     Við útreikning á aðstoðarhlutfalli skulu allar tölur, sem eru notaðar, vera án nokkurs frádráttar vegna skatta eða annarra álagna. Þegar aðstoð er veitt í öðru formi en sem styrkur skal fjárhæðin, sem er veitt til aðstoðarinnar, jafngilda aðstoð í formi styrks. Aðstoð, sem er greidd með nokkrum afborgunum, skal afvöxtuð til sama virðis og hún var í þegar hún er veitt. Vextirnir, sem nota skal við afvöxtunarreikning, skulu vera gildandi viðmiðunarvextir á þeim tíma sem aðstoðin er veitt.
2.     Í þeim tilvikum sem veitt aðstoð felst í undanþágu frá skatti eða lækkun á sköttum, sem á að greiða síðar, með fyrirvara um að virt sé tiltekið aðstoðarhlutfall, sem er skilgreint með vergu styrkígildi, kemur til afvöxtun hlutagreiðslna aðstoðar á grundvelli viðmiðunarvaxta sem eru í gildi á þeim mismunandi tímum þegar skattahagræði kemur til framkvæmda.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera studdur skriflegum sönnunargögnum sem skulu gagnsæ og sundurliðuð.

5. gr.
Gagnsæi aðstoðar

1.     Reglugerð þessi gildir aðeins um gagnsæja aðstoð.
Einkum teljast eftirfarandi flokkar aðstoðar vera gagnsæir:
a)    aðstoð sem felst í styrkjum og vaxtastyrkjum,
b)    aðstoð í formi lána þegar vergt styrkígildi hefur verið reiknað á grundvelli gildandi viðmiðunarvaxta þegar aðstoð er veitt,
c)    aðstoð í formi ábyrgðarkerfa:
    i.    ef framkvæmdastjórnin hefur samþykkt aðferðina við að reikna vergt styrkígildi, í kjölfar tilkynningar um aðferðina innan ramma beitingar þessarar reglugerðar eða reglugerðar (EB) nr. 1628/2006, og samþykkta aðferðin varðar beint þá tegund ábyrgðar og viðskipta sem liggja til grundvallar eða
    ii.    ef aðstoðarþegi er lítið eða meðalstórt fyrirtæki og þegar vergt styrkígildi hefur verið reiknað á grundvelli lágmarks öryggisgjalds sem mælt er fyrir um í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð í formi ábyrgða,
d)    aðstoð sem felst í skattaráðstöfunum ef ráðstöfunin kveður á um þak sem tryggir að ekki sé farið yfir gildandi viðmiðunarmörk.
2.     Eftirfarandi flokkar aðstoðar teljast ekki vera gagnsæir:
a)    aðstoð sem felst í fjármagnsinnspýtingu með fyrirvara um sérstök ákvæði um áhættufjármagn,
b)    aðstoð sem felst í ráðstöfunum er varða áhættufjármagn að frátalinni aðstoð sem uppfyllir skilyrði 29. gr.
3.     Aðstoð í formi fyrirframgreiðslna, sem ber að endurgreiða, getur aðeins talist vera gagnsæ aðstoð ef heildarfjárhæð fyrirframgreiðslunnar, sem ber að endurgreiða, fer ekki yfir gildandi mörk samkvæmt þessari reglugerð. Ef mörkin eru tilgreind með tilliti til aðstoðarhlutfalls skal heildarfjárhæð fyrirframgreiðslunnar, sem ber að endurgreiða, tilgreind sem hlutfall af aðstoðarhæfum kostnaði, ekki fara yfir gildandi aðstoðarhlutfall.

6. gr.
Viðmiðunarmörk fyrir stakar tilkynningar

1.     Þessi reglugerð gildir ekki um staka aðstoð af neinu tagi, hvort sem um er að ræða sérstaka aðstoð á grundvelli aðstoðarkerfis, þar sem vergt styrkígildi fer yfir eftirfarandi viðmiðunarmörk:
a)    fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja: 7,5 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert fjárfestingarverkefni,
b)    fjárfestingaraðstoð til umhverfisverndar: 7,5 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert fjárfestingarverkefni,
c)    aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja: 2 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert verkefni,
d)    aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna þátttöku þeirra í kaupstefnum: 2 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert verkefni,
e)    aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna og hagkvæmniathuganir:
    i.    ef verkefnið byggist fyrst og fremst á grunnrannsóknum, 20 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert verkefni/hverja hagkvæmniathugun,
    ii.    ef verkefnið er fyrst og fremst iðnaðarrannsóknir, 10 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert verkefni/hverja hagkvæmniathugun,
    iii.    fyrir öll önnur verkefni, 7,5 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert verkefni/hverja hagkvæmniathugun,
    iv.    ef verkefnið er Evreka-verkefni, tvöföld fjárhæðin sem mælt er fyrir um í i., ii. og iii. lið.
f)    aðstoð vegna kostnaðar lítilla og meðalstórra fyrirtækja í tengslum við hugverkarétt á sviði iðnaðar: 5 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki og hvert verkefni,
g)    aðstoð til menntunar: 2 milljónir evra fyrir hvert menntunarverkefni,
h)    aðstoð vegna ráðningar illa settra starfsmanna: 5 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki á ári,
i)    aðstoð vegna atvinnu fatlaðra starfsmanna í formi launakostnaðar: 10 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki á ári,
j)    aðstoð til að vega á móti viðbótarkostnaði vegna ráðningar fatlaðra starfsmanna: 10 milljónir evra fyrir hvert fyrirtæki á ári.
Til að ákvarða viðeigandi viðmiðunarmörk sem gilda um aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna og hagkvæmniathuganir samkvæmt e-lið, telst verkefni vera „fyrst og fremst“ grunnrannsóknir eða „fyrst og fremst“ iðnaðarrannsóknir ef meira en 50% aðstoðarhæfs kostnaðar sem stofnað er til vegna starfsemi sem tilheyrir flokknum grunnrannsóknir eða iðnaðarrannsóknir. Í tilvikum þar sem ekki er hægt að ákvarða ráðandi eiginleika verkefnisins gilda lægri viðmiðunarmörkin.
2.     Svæðisbundin aðstoð, sem er veitt til stórra fjárfestingarverkefna, skal tilkynnt framkvæmdastjórninni ef heildarfjárhæð allrar aðstoðarinnar fer yfir 75% af hámarksfjárhæð aðstoðar sem fjárfesting, með aðstoðarhæfum kostnaði, sem nemur 100 milljónum evra, getur hlotið, ef miðað er við stöðluð viðmiðunarmörk aðstoðar sem eru í gildi fyrir stór fyrirtæki á samþykkta kortinu yfir svæðisbundna aðstoð á þeim degi er veita skal aðstoðina.

7. gr.
Uppsöfnun

1.     Við ákvörðun á því hvort viðmiðunarmörk aðstoðar, sem mælt er fyrir um í 6. gr., og hámarkshlutfall aðstoðar, sem mælt er fyrir um í II. kafla, séu virt skal tekið mið af heildarfjárhæð opinbers stuðnings við starfsemina eða verkefnið sem nýtur aðstoðar, óháð því hvort stuðningurinn er fjármagnaður af staðbundnu, svæðisbundnu, landsbundnu framlagi eða af sjóðum Bandalagsins.
2.     Aðstoð, sem er undanþegin samkvæmt þessari reglugerð, má bætast við alla aðra aðstoð, sem er undanþegin þessari reglugerð, svo fremi þessar aðstoðarráðstafanir varði annan aðstoðarhæfan kostnað sem tilgreindur er.
3.     Aðstoð, sem er undanþegin samkvæmt þessari reglugerð, má ekki bætast við neina aðra aðstoð sem er undanþegin þessari reglugerð eða minni háttar ( de minimis) aðstoð, sem uppfyllir skilyrðin sem mælt er fyrir um í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1998/2006 ( 26 ), eða við aðra fjármögnun Bandalagsins í tengslum við sama aðstoðarhæfa kostnað, sem að hluta til eða öllu leyti skarast, ef slík uppsöfnun leiðir til þess að aðstoðarhlutfall fer yfir hæsta aðstoðarhlutfall eða gildandi fjárhæð aðstoðar samkvæmt þessari reglugerð.
4.     Með fyrirvara um 3. mgr. er heimilt að bæta aðstoð í þágu fatlaðra starfsmanna, eins og kveðið er á um í 41. og 42. gr., við aðstoð, sem er undanþegin samkvæmt þessari reglugerð, í tengslum við sama aðstoðarhæfa kostnaðinn sem er yfir hæstu gildandi viðmiðunarmörkum samkvæmt þessari reglugerð, að því tilskildu að slík uppsöfnun leiði ekki til þess að aðstoðarhlutfallið fari yfir 100% af viðkomandi kostnaði á tímabilinu sem hlutaðeigandi starfsmenn eru ráðnir.
5.     Að því er varðar uppsöfnun aðstoðarráðstafana, sem eru undanþegnar samkvæmt þessari reglugerð, með skilgreinanlegan aðstoðarhæfan kostnað og aðstoðarráðstafana, sem eru undanþegnar samkvæmt þessari reglugerð og eru ekki með skilgreinanlegan kostnað, gilda eftirfarandi skilyrði:
a)    ef markfyrirtæki hefur fengið fjármagn samkvæmt ráðstöfun um áhættufé skv. 29. gr. og sækir síðan, á fyrstu þremur árunum eftir fyrstu fjárfestingu með áhættufjármagni, um aðstoð innan gildissviðs þessarar reglugerðar skulu viðeigandi viðmiðunarmörk aðstoðar, eða aðstoðarhæf hámarksfjárhæð samkvæmt þessari reglugerð, skerðast um 50% almennt og um 20% fyrir markfyrirtæki sem eru á svæðum sem njóta aðstoðar. Skerðingin skal ekki vera hærri en heildarfjárhæð áhættufjármagnsins sem fæst. Þessi lækkun gildir ekki um aðstoð á sviði rannsóknar, þróunar og nýsköpunar sem er undanþegið skv. 31. til 37. gr.
b)    á fyrstu þremur árunum eftir að aðstoð til ungra nýsköpunarfyrirtækja var veitt er óheimilt að bæta við annarri aðstoð sem undanþegin er samkvæmt þessari reglugerð, nema um sé að ræða aðstoð sem er undanþegin skv. 29. gr. og aðstoð sem er undanþegin skv. 31. til 37. gr.

8. gr.
Hvatningaráhrif

1.     Einungis aðstoð sem hefur hvatningaráhrif er undanþegin þessari reglugerð.
2.     Aðstoð, sem veitt er litlum og meðalstórum fyrirtækjum og fellur undir þessa reglugerð, telst hafa hvatningaráhrif ef aðstoðarþegi hefur lagt fram umsókn til viðkomandi aðildarríkis um aðstoð áður en vinna við verkefnið eða starfsemina hefst.
3.     Aðstoð, sem er veitt stórum fyrirtækjum og fellur undir þessar reglugerð, telst hafa hvetjandi áhrif ef, auk þess að fullnægja skilyrðinu, sem mælt er fyrir um í 2. mgr., aðildarríkið hefur gengið úr skugga um, áður en viðkomandi stök aðstoð er veitt, að skjölin, sem aðstoðarþegi gengur frá, sýni fram á að ein eða fleiri eftirfarandi viðmiðana séu uppfylltar:
a)    veruleg stækkun verkefnisins eða starfseminnar sem rekja má til aðstoðarinnar,
b)    veruleg aukning á umfangi verkefnisins eða starfseminnar sem rekja má til aðstoðarinnar,
c)    veruleg hækkun heildarfjárhæðar sem aðstoðarþegi ver til verkefnisins eða starfseminnar og rekja má til aðstoðarinnar,
d)    veruleg aukning á hraða við að ljúka verkefninu eða starfseminni sem um ræðir,
e)    að því er varðar svæðisbundna fjárfestingaraðstoð, sem um getur í 13. gr., að verkefni hefði ekki verið hrundið í framkvæmd sem slíku á hinu styrkta svæði sem um ræðir, án aðstoðar.
4.     Skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 2. og 3. gr. gilda ekki um skattaráðstafanir ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)    skattaráðstafanirnar kveða á um lagalegan rétt til aðstoðar samkvæmt hlutlægum viðmiðunum og án frekari íhlutana af hálfu aðildarríkisins og
b)    skattaráðstöfunin var samþykkt áður en hafist var handa við styrkta verkefnið eða starfsemina; þetta skilyrði á ekki við ef um er að ræða skattkerfi sem framhald er á.
5.     Að því er varðar aðstoð til að bæta viðbótarkostnað vegna ráðningar fatlaðra starfsmanna, eins og um getur í 42. gr., skulu skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar teljast uppfyllt ef skilyrðunum, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 42. gr., er fullnægt.
Að því er varðar aðstoð vegna ráðningar illa settra starfsmanna í formi styrkja vegna launagreiðslna og aðstoð vegna ráðningar á fötluðum starfsmönnum í formi styrkja vegna launagreiðslna, eins og um getur í 40. og 41. gr. skulu skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 2. og. 3. mgr. þessarar greinar, teljast uppfyllt ef aðstoðin leiðir til hreinnar fjölgunar í ráðningu illa settra eða fatlaðra starfsmanna.
Að því er varðar aðstoð í formi lækkunar á umhverfissköttum, eins og um getur í 25. gr., telst skilyrðunum, sem mælt er um í 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar fullnægt.
Að því er varðar aðstoð í formi áhættufjármagns, eins og um getur í 29. gr., telst skilyrðunum, sem mælt er um í 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar fullnægt.
6.     Sé skilyrðunum í 2. og 3. mgr. ekki fullnægt, fellur öll aðstoðarráðstöfunin utan undanþágu samkvæmt þessari reglugerð.

9. gr.
Gagnsæi

1.     Innan 20 virkra daga frá gildistöku aðstoðarkerfis eða úthlutunar sérstakrar aðstoðar, sem hefur verið undanþegin samkvæmt þessari reglugerð, skal viðkomandi aðildarríki senda framkvæmdastjórninni samantekt upplýsinga sem varða slíka aðstoðarráðstöfun. Þetta yfirlit ber að veita á rafrænu formi, um upplýsingatæknihugbúnað framkvæmdastjórnarinnar og vera á því formi sem mælt er fyrir um í III. viðauka.
Framkvæmdastjórnin skal án tafar staðfesta viðtöku á yfirlitinu.
Framkvæmdastjórnin skal birta samantekt upplýsinga í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar.
2.     Við gildistöku aðstoðarkerfis eða úthlutunar sérstakrar aðstoðar, sem hefur verið undanþegin samkvæmt þessari reglugerð, skal viðkomandi aðildarríki birta á Netinu heildartexta slíkrar aðstoðarráðstöfunar. Þegar um aðstoðarkerfi er að ræða skal sá texti kveða á um skilyrðin sem mælt er fyrir um í landslögum og sem tryggja að farið sé að viðeigandi ákvæðum þessarar reglugerðar. Viðkomandi aðildarríki skulu sjá til þess að óstyttur texti aðstoðarráðstöfunarinnar sé aðgengilegur á Netinu svo fremi viðkomandi aðstoðarráðstöfun sé í gildi. Í samanteknu upplýsingunum frá viðkomandi aðildarríki skv. 1. mgr. skal tilgreina veffang sem leiðir beint í óstyttan texta aðstoðarráðstöfunarinnar.
3.     Þegar stök aðstoð er veitt, sem er undanþegin samkvæmt þessari reglugerð, að undanskilinni aðstoð, sem er í formi skattaráðstafana, skal gerðin um veitingu aðstoðarinnar hafa að geyma skýra tilvísun í sérákvæðin í II. kafla, sem þessi gerð varðar, í landslög, sem tryggja að farið sé að viðeigandi ákvæðum þessarar reglugerðar, og í veffangið, sem leiðir beint í óstyttan texta aðstoðarráðstöfunarinnar.
4.     Með fyrirvara um 1., 2. og 3. mgr. skal í hvert sinn þegar stök aðstoð er veitt á grundvelli fyrirliggjandi aðstoðarkerfis vegna rannsóknar- og þróunarverkefna, sem fjallað er um í 31. gr., og stakrar aðstoðar, sem fer yfir 3 milljónir evra, og í hvert sinn, þegar stök svæðisbundin fjárfestingaraðstoð er veitt á grundvelli stórra fjárfestingarverkefna, sem ekki þarf að tilkynna sérstaklega skv. 6. gr., skulu aðildarríkin veita framkvæmdastjórninni umbeðnar, samanteknar upplýsingar rafrænt, á stöðluðu eyðublaði, eins og mælt er fyrir um í II. viðauka, um viðurkenndan upplýsingatæknihugbúnað framkvæmdastjórnarinnar, innan 20 virkra daga frá þeim degi sem lögbært yfirvald veitir aðstoðina.

10. gr.
Eftirlit

1.     Framkvæmdastjórnin skal hafa reglulegt eftirlit með aðstoðarráðstöfunum sem henni hefur verið tilkynnt um skv. 9. gr.
2.     Aðildarríkin skulu halda nákvæmar skrár yfir alla staka aðstoð eða aðstoðarkerfi sem er undanþegið samkvæmt þessari reglugerð. Í slíkum skrám skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar til staðfestingar því að skilyrði fyrir undanþágu séu uppfyllt, eins og mælt er fyrir um í þessari reglugerð, þ.m.t. upplýsingar um stöðu fyrirtækisins, ef réttur þess til aðstoðar eða hækkunar á framlögum er háður stöðu þess sem lítils eða meðalstórs fyrirtækis, upplýsingar um hvatningaráhrif aðstoðarinnar og upplýsingar, sem gera kleift að ákvarða nákvæmlega fjárhæð aðstoðarhæfs kostnaðar með beitingu þessarar reglugerðar í huga.
Halda skal skrár varðandi staka aðstoð í 10 ár frá þeim degi sem hún er veitt. Halda skal skrár varðandi aðstoðarkerfi í 10 ár frá þeim degi sem síðasta aðstoðin var veitt samkvæmt slíku kerfi.
3.     Viðkomandi aðildarríki skal láta framkvæmdastjórninni í té, samkvæmt skriflegri beiðni og innan 20 virkra daga eða lengri tíma sem er tilgreindur í beiðninni, allar upplýsingar sem framkvæmdastjórnin telur nauðsynlegar til að hafa eftirlit með beitingu þessarar reglugerðar.
Láti hlutaðeigandi aðildarríki umbeðnar upplýsingar ekki í té innan þeirra tímamarka sem framkvæmdastjórnin hefur mælt fyrir um eða tímamarka, sem almennt samkomulag er um, eða láti ófullnægjandi upplýsingar í té skal framkvæmdastjórnin senda áminningu þar sem nýr frestur er veittur til þess að leggja þær fram. Ef viðkomandi aðildarríki lætur ekki í té umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir slíka áminningu er framkvæmdastjórninni heimilt, eftir að hafa veitt viðkomandi aðildarríki tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, að taka ákvörðun þess efnis að tilkynna skuli framkvæmdastjórninni um allar aðstoðarráðstafanir, sem þessi reglugerð gildir um, eða hluta þeirra í framtíðinni til framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.

11. gr.
Ársskýrsla

Aðildarríkin skulu leggja skýrslu fyrir framkvæmdastjórnina um beitingu þessarar reglugerðar fyrir hvert heilt almanaksár, eða hluta af því, sem þessi reglugerð gildir fyrir, á rafrænu formi sem mælt er fyrir um í III. kafla reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 794/2004 ( 27 ). Veffangið, sem leiðir beint í óstyttan texta aðstoðarráðstöfunarinnar, skal einnig fellt inn í slíka ársskýrslu.

12. gr.
Sérstök skilyrði fyrir fjárfestingaraðstoð

1.     Til að fjárfesting geti talist vera aðstoðarhæfur kostnaður í skilningi þessarar reglugerðar skal fjárfesting felast í eftirfarandi:
a)    fjárfestingu í efnislegum og/eða óefnislegum eignum, sem tengjast stofnun nýrrar starfsstöðvar, stækkun starfsstöðvar, sem fyrir er, aukinni fjölbreytni í framleiðslu starfsstöðvar á nýjum vörum til viðbótar eða grundvallarbreyting í heildarframleiðsluferli starfsstöðvar, sem fyrir er, eða
b)    yfirtöku fjármunaeigna, sem tengjast starfsstöðinni beint ef starfsstöðinni hefur verið lokað, eða hefði verið lokað ef hún hefði ekki verið keypt og óháður fjárfestir kaupir eignirnar. Ef um er að ræða lítið fyrirtæki, sem fjölskylda upphaflegs eiganda eða eigenda rekur áfram eða fyrrverandi starfsmenn, skal víkja frá skilyrðinu um að óháður fjárfestir kaupi eignirnar.
Yfirtaka á hlutum í fyrirtækinu ein og sér telst ekki vera fjárfesting.
2.     Til þess að óefnislegar eignir teljist vera aðstoðarhæfur kostnaður í skilningi þessarar reglugerðar verða þær að fullnægja eftirfarandi skilyrðum.
a)    aðeins fyrirtækið, sem þiggur aðstoðina, má nota þær. Að því er varðar svæðisbundna aðstoð má aðeins nota þær í starfsstöðinni sem þiggur aðstoðina.
b)    þær verða að teljast til afskrifanlegra eigna,
c)    þriðju aðilar verða að kaupa þær við markaðsaðstæður, án þess að kaupandi sé í aðstöðu til að hafa áhrif, í skilningi 3. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 139/2004 ( 28 ), á seljanda eða öfugt, eða
d)    ef um er að ræða fjárfestingaraðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða þær að vera innifaldar í eignum fyrirtækisins, ef um er að ræða svæðisbundna fjárfestingaraðstoð, og vera áfram í starfsstöðinni, sem fær svæðisbundna styrkinn, í a.m.k. fimm ár eða þrjú ár ef um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki,
3.     Til þess að atvinna sem skapast beint með fjárfestingarverkefni geti talist aðstoðarhæfur kostnaður í skilningi þessarar reglugerðar verður hún að fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
a)    atvinna skal skapast innan þriggja ára frá því að fjárfestingu lýkur,
b)    fjárfestingarverkefnið skal leiða til hreinnar aukningar í fjölda starfa í viðkomandi starfsstöð borið saman við meðaltal síðustu 12 mánaða og
c)    að starfinu, sem verður til, sé haldið í a.m.k. fimm ár ef um er að ræða stórt fyrirtæki og a.m.k. þrjú ár ef um er að ræða lítið eða meðalstórt fyrirtæki.

II. KAFLI
SÉRÁKVÆÐI UM MISMUNANDI FLOKKA AÐSTOÐAR
1. ÞÁTTUR
Svæðisbundin aðstoð
13. gr.
Svæðisbundin fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu

1.     Svæðisbundin fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að hún uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í þessari grein.
Sérstök aðstoð, sem einungis er notuð til viðbótar veittri aðstoð á grundvelli svæðisbundinna fjárfestingar- og atvinnuaðstoðarkerfa og er ekki meira en 50% heildaraðstoðar sem veita skal til fjárfestingarinnar, samrýmist hinum sameiginlega markaði í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni, sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að sérstaka aðstoðin sem veitt er uppfylli öll skilyrði þessarar reglugerðar.
2.     Aðstoðin skal veitt á svæðum sem eru aðstoðarhæf fyrir svæðisbundna aðstoð, eins og tilgreint er á kortinu sem var samþykkt um svæðisbundna aðstoð fyrir viðkomandi aðildarríki fyrir tímabilið 2007 til 2013. Fjárfestingin skal standa yfir í a.m.k. fimm ár á svæðinu þar sem styrkurinn er veittur, eða þrjú ár ef um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki, eftir að allri fjárfestingunni er lokið. Þetta kemur ekki í veg fyrir að skipt sé um úrelta stöð eða búnað á því tímabili sem um getur í þeim lið vegna hraðra tæknibreytinga, að því tilskildu að atvinnustarfsemi haldist á viðkomandi svæði í lágmarkstíma.
3.     Aðstoðarhlutfallið miðað við núverandi vergt styrkígildi má ekki fara yfir efri mörk svæðisbundinnar aðstoðar sem er í gildi á viðkomandi svæði á þeim tíma sem aðstoðin er veitt.
4.     Að undanskilinni aðstoð, sem er veitt til stórra fjárfestingarverkefna, og svæðisbundinni aðstoð til flutningageirans er heimilt að hækka viðmiðunarmörkin í 3. mgr. um 20 prósentustig fyrir aðstoð, sem er veitt litlum fyrirtækjum, og um 10 prósentustig fyrir aðstoð sem er veitt til meðalstórra fyrirtækja.
5.     Viðmiðunarmörkin, sem eru fastsett í 3. mgr., skulu gilda um aðstoðarhlutfall, sem er reiknað annaðhvort sem hlutfall af aðstoðarhæfum efnislegum og óefnislegum kostnaði við fjárfestinguna eða sem hlutfall af áætluðum launakostnaði einstaklingsins sem var ráðinn, reiknað fyrir tveggja ára tímabil, fyrir störf sem beinlínis skapast vegna fjárfestingarverkefnis, eða hvort tveggja, að því tilskildu að aðstoðin fari ekki yfir þá fjárhæð sem hærri er af útreikningi á hvoru um sig.
6.     Þegar aðstoðin er reiknuð á grundvelli efnislegs eða óefnislegs fjárfestingarkostnaðar, eða yfirtökukostnaðar ef um slíkt er að ræða, skal aðstoðarþeginn fjármagna a.m.k. 25% aðstoðarhæfs kostnaðar, annaðhvort af eigin fé eða með utanaðkomandi fjármögnun, með einhverjum hætti sem ekki felur í sér opinberan stuðning. Þegar hámarksaðstoð, sem er samþykkt á grundvelli landsbundinnar áætlunar um svæðisbundna aðstoð fyrir viðkomandi aðildarríki og aukin í samræmi við 4. mgr., fer yfir 75%, lækkar þó fjárframlag aðstoðarþega í samræmi við það. Ef aðstoðin er reiknuð á grundvelli efnislegs eða óefnislegs fjárfestingarkostnaðar gilda einnig skilyrðin sem eru sett fram í 7. mgr.
7.     Ef um yfirtöku á starfsstöð er að ræða skal einungis tekið tillit til kostnaðar við kaup á eignum af þriðja aðila, að því tilskildu að viðskiptin fari fram við markaðsaðstæður. Ef yfirtökunni fylgir önnur fjárfesting skal kostnaðurinn, sem tengist hinu síðarnefnda, bætast við kostnaðinn vegna kaupanna.
Einungis skal tekið tillit til kostnaðar, sem tengist yfirtöku á eignum, sem leigusamningur fylgir, öðrum en landi og byggingum, ef leigusamningurinn er í formi fjármögnunarleigu og felur í sér skuldbindingu um að kaupa eignina þegar tími leigusamningsins rennur út. Fyrir leigu á landi og byggingum skal leigusamningurinn gilda í a.m.k. fimm ár eftir að áætlað er að fjárfestingarverkefninu ljúki eða þrjú ár ef um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki.
Eignirnar, sem aflað er, skulu vera nýjar nema ef um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki og yfirtökur. Ef um er að ræða yfirtökur skulu eignir, sem eru keyptar með aðstoð, sem var veitt fyrir kaupin, dregnar frá. Ef um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki má einnig taka tillit til heildarkostnaðar við fjárfestingar í óefnislegum eignum. Fyrir stór fyrirtæki er slíkur kostnaður aðeins aðstoðarhæfur upp að 50% af heildarkostnaði aðstoðarhæfs fjárfestingarverkefnis.
8.     Ef aðstoðin er reiknuð á grundvelli launakostnaðar skulu störf beinlínis sköpuð fyrir tilstilli fjárfestingarverkefnisins.
9.     Þrátt fyrir 3. og 4. mgr. er heimilt að hækka hámarksaðstoðarhlutfall fjárfestinga í vinnslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða í:
a)    50% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á svæðum, sem eiga rétt á aðstoð skv. a-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans, og 40% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á öðrum svæðum, sem eiga rétt á svæðisbundinni aðstoð, eins og tilgreint er á korti yfir svæðisbundna aðstoð og samþykkt var fyrir viðkomandi aðildarríki fyrir tímabilið 2007 til 2013, ef aðstoðarþegi er lítið eða meðalstórt fyrirtæki,
b)    25% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á svæðum, sem rétt eiga á aðstoð, skv. a-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans, og 20% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á öðrum svæðum, sem eiga rétt á svæðisbundinni aðstoð, eins og tilgreint er á korti yfir svæðisbundna aðstoð og samþykkt var fyrir viðkomandi aðildarríki fyrir tímabilið 2007 til 2013, ef aðstoðarþegi hefur færri en 750 starfsmenn og/eða minna en 200 milljónir evra í veltu, sem er reiknað í samræmi við I. viðauka þessarar reglugerðar.
10.     Til þess að koma í veg fyrir að stórum fjárfestingarverkefnum sé óeðlilega skipt í undirverkefni skal stórt fjárfestingarverkefni teljast eitt fjárfestingarverkefni ef sama fyrirtækið eða fyrirtækin ráðast í fjárfestinguna innan þriggja ára og hún felst í fastafjármunum sem eru sameinaðir þannig að þeir séu fjárhagslega óskiptanlegir.

14. gr.
Aðstoð til nýstofnaðra, lítilla fyrirtækja

1.     Aðstoðarkerfi í þágu lítilla nýstofnaðra fyrirtækja teljast samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 2., 3. og 4. gr., séu uppfyllt.
2.     Aðstoðarþegi skal vera lítið fyrirtæki.
3.     Fjárhæð aðstoðarinnar má ekki fara yfir:
a)    2 milljónir evra fyrir lítil fyrirtæki með atvinnustarfsemi á svæðum sem falla undir undanþáguna sem kveðið er á um í a-lið 3. mgr. 87. gr. EB- sáttmálans,
b)    1 milljón evra fyrir lítil fyrirtæki með atvinnustarfsemi á svæðum sem falla undir undanþáguna sem kveðið er á um í a-lið 3. mgr. 87. gr. EB- sáttmálans.
Árlegar fjárhæðir í aðstoð á hvert fyrirtæki mega ekki fara yfir 33% af fjárhæðunum sem mælt er fyrir um í a- og b-lið.
4.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir:
a)    á svæðum, sem falla undir a-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans, 35% af aðstoðarhæfum kostnaði sem stofnað er til á fyrstu þremur árunum frá stofnun fyrirtækisins og 25% á næstu tveimur árunum eftir það,
b)    á svæðum, sem falla undir c-lið 3. gr. 87. gr. sáttmálans, 25% af aðstoðarhæfum kostnaði sem stofnað er til á fyrstu þremur árunum frá stofnun fyrirtækisins og 15% á næstu tveimur árunum eftir það.
Þessi hlutföll má hækka um 5% á svæðum sem falla undir a-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans þar sem verg landsframleiðsla á mann er lægri en 60% af meðaltali ESB-25 á svæðum þar sem færri en 12,5 íbúar eru á hvern ferkílómetra og litlum eyjum þar sem færri en 5000 íbúar eru og öðrum samfélögum af sömu stærð sem búa við sambærilega einangrun.
5.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal ná yfir lögfræði-, ráðgjafar- og stjórnsýslukostnað sem tengist beint stofnun lítils fyrirtækis sem og eftirfarandi kostnaður, að svo miklu leyti sem stofnað er til hans á fyrstu fimm árunum frá stofnun fyrirtækisins:
a)    vextir á utanaðkomandi fjármagn og arður af eigin fé, sem er notað, og fer ekki yfir viðmiðunarvextina,
b)    gjald fyrir leigu á framleiðsluaðstöðu/-búnaði,
c)    orka, vatn, kynding, skattar (aðrir en virðisaukaskattur og fyrirtækjaskattar á rekstrartekjur) og stjórnsýslugjöld,
d)    afskriftir, gjöld vegna leigu á framleiðsluaðstöðu/-búnaði, svo og launakostnaður, að því tilskildu að fjárfestingar eða atvinnusköpun og ráðningarráðstafanir, sem liggja til grundvallar, hafi ekki fengið aðra aðstoð.
6.     Lítil fyrirtæki undir yfirráðum hluthafa fyrirtækja sem hefur verið lokað á undanförnum 12 mánuðum geta ekki fengið aðstoð samkvæmt þessari grein ef viðkomandi fyrirtæki hafa verið virk á þeim markaði, sem um ræðir, eða á aðliggjandi mörkuðum.

2. ÞÁTTUR
Fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja
15. gr.
Fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja

1.     Fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðin í 2., 3. og 4. mgr. séu uppfyllt.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir:
a)    20% af aðstoðarhæfum kostnaði þegar um lítil fyrirtæki er að ræða,
b)    10% af aðstoðarhæfum kostnaði þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða.
3.     Eftirfarandi skal teljast aðstoðarhæfur kostnaður:
a)    kostnaður vegna fjárfestinga í efnislegum og óefnislegum eignum eða
b)    áætlaður launakostnaður vegna atvinnu sem skapast beinlínis með fjárfestingunni (aðstoð vegna atvinnusköpunar) reiknaður yfir tveggja ára tímabil.
4.     Þegar fjárfestingin varðar vinnslu og markaðssetningu á landbúnaðarvörum má aðstoðarhlutfallið ekki fara yfir:
a)    75% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á ystu svæðunum,
b)    65% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á minni eyjunum í Eyjahafinu í skilningi reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1405/2006 ( 29 ),
c)    50% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á svæðum, sem eiga rétt á aðstoð, skv. a-lið 3. mgr. 87. gr.,
d)    40% af aðstoðarhæfum fjárfestingum á öllum öðrum svæðum.

3. ÞÁTTUR
Aðstoð vegna frumkvöðlastarfs sem er í höndum kvenna
16. gr.
Aðstoð til lítilla fyrirtækja sem kvenkyns frumkvöðlar hafa nýlega stofnað

1.     Aðstoðarkerfi í þágu lítilla fyrirtækja sem kvenkyns frumkvöðlar hafa nýlega stofnað teljast samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að ákvæði 2.–5. mgr. séu uppfyllt.
2.     Aðstoðarþegar skulu vera lítil fyrirtæki sem kvenkyns frumkvöðlar hafa nýlega stofnað.
3.     Fjárhæð aðstoðarinnar má ekki fara yfir 1 milljón evra á hvert fyrirtæki.
Árlegar fjárhæðir aðstoðar á hvert fyrirtæki mega ekki fara yfir 33% af fjárhæðunum sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein.
4.     Aðstoðarhlutfall má ekki fara yfir 15% af aðstoðarhæfum kostnaði sem stofnað er til á fyrstu fimm árunum eftir stofnun fyrirtækisins.
5.     Aðstoðarhæfur kostnaður telst vera lögfræði-, ráðgjafar og stjórnsýslukostnaður sem tengist beint stofnun litla fyrirtækisins, sem og eftirfarandi kostnaður, að svo miklu leyti sem stofnað er til hans á fyrstu fimm árunum frá stofnun fyrirtækisins.
a)    vextir á utanaðkomandi fjármagn og arður af eigin fé sem er notað og fer ekki yfir viðmiðunarvextina,
b)    útgjöld vegna leigu á framleiðslustöðvum/- búnaði,
c)    orka, vatn, upphitun, skattar (aðrir en virðisaukaskattur og fyrirtækjaskattar á rekstrartekjur) og stjórnsýslugjöld,
d)    afskriftir, útgjöld vegna leigu á framleiðslustöðvum/-búnaði, svo og launakostnaður, að því tilskildu að fjárfestingar eða atvinnusköpun og ráðningarráðstafanir, sem liggja til grundvallar, hafi ekki fengið neina aðra aðstoð,
e)    kostnaður vegna umönnunar barna og foreldra, eftir atvikum, kostnaður sem tengist foreldraorlofi.
6.     Lítil fyrirtæki undir yfirráðum hluthafa fyrirtækja sem hefur verið lokað á undanförnum 12 mánuðum geta ekki fengið aðstoð samkvæmt þessari grein ef viðkomandi fyrirtæki eru virk á þeim markaði sem um ræðir eða aðliggjandi mörkuðum.

4. ÞÁTTUR
Aðstoð til umhverfisverndar
17. gr.
Skilgreiningar

Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    ,,umhverfisvernd“: hvers konar aðgerð sem miðar að því að ráða bót á eða koma í veg fyrir spjöll á náttúrulegu umhverfi eða náttúruauðlindum vegna starfsemi aðstoðarþega, að draga úr hættu á slíkum spjöllum eða stuðla að skilvirkari nýtingu á náttúruauðlindum, þ.m.t. ráðstafanir til að spara orku og nota endurnýjanlega orkugjafa,
2.    ,,orkusparandi ráðstafanir“: aðgerð sem gerir fyrirtækjum kleift að draga úr þeirri orku sem þau nota, m.a. í framleiðsluferlinu,
3.    ,,Bandalagsstaðall“:
    a)    lögboðinn Bandalagsstaðall, sem setur þau mörk, sem einstök fyrirtæki verða að ná með tilliti til umhverfisverndar, eða
    b)    sú skuldbinding samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/1/EB ( 30 ) um að nota fullkomnustu tækni sem völ er á eins og sett er fram í nýjustu upplýsingum þar að lútandi sem framkvæmdastjórnin hefur birt skv. 2. mgr. 17. gr. þeirrar tilskipunar,
4.    ,,endurnýjanlegir orkugjafar“: eftirfarandi endurnýjanlegir orkugjafar sem eru ekki jarðefnaeldsneyti: vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi,
5.    ,,lífrænt eldsneyti“: fljótandi eða loftkennt eldsneyti til flutninga, framleitt úr lífmassa,
6.    ,,sjálfbært lífrænt eldsneyti“: lífrænt eldsneyti sem uppfyllir viðmiðanirnar um sjálfbærni sem settar eru fram í tillögu að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um að stuðla að notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum ( 31 ); þegar Evrópuþingið og ráðið hefur samþykkt þessa tilskipun og hún birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, gilda viðmiðanirnar sem þar er mælt fyrir um,
7.    „orka sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum“: orka frá orkuverum sem eingöngu nota endurnýjanlega orkugjafa, að meðtöldum þeim hluta brennslugildisins sem er framleiddur með endurnýjanlegum orkugjöfum í verum með blandaðri tækni, þar sem einnig eru notaðir hefðbundnir orkugjafar, og að meðtöldu endurnýjanlegu rafmagni, sem er notað til að fylla á geymslukerfi, en að undanskildu rafmagni sem er fengið frá þess háttar kerfum,
8.    „samvinnsla raf- og varmaorku“: samhliða framleiðsla varmaorku, raforku og/eða vélrænnar orku í einu og sama vinnsluferlinu,
9.    „samvinnsla með góða orkunýtni“: samvinnsla raf- og varmaorku sem uppfyllir viðmiðanirnar í III. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB ( 32 ) og fullnægir samræmdu nýtniviðmiðunum sem kveðið er á um í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2007/74/EB ( 33 ),
10.    ,,umhverfisskattur“: skattur þar sem sérstakur skattstofn hefur skýr, neikvæð áhrif á umhverfið eða þar sem leitast er við að skattleggja tiltekna starfsemi, vörur eða þjónustu þannig að hægt sé að fella umhverfiskostnað inn í verð hennar og/eða þannig að framleiðendum eða neytendum sé beint að starfsemi þar sem meira tillit er tekið til umhverfisins.
11.    ,,lágmarksskattstig Bandalagsins“: lágmarksskattstig, sem kveðið er á um í löggjöf Bandalagsins fyrir orkuvörur og rafmagn, lágmarksskattstig, merkir lámarksskattstig sem mælt er fyrir um í I. viðauka við tilskipun 2003/96/EB,
12.    ,,efnislegar eignir“: fjárfestingar í landi sem eru óhjákvæmilegar til að uppfylla umhverfismarkmið, fjárfestingar í byggingum, verum og búnaði, sem ætlað er að draga úr eða eyða óþægindum, og fjárfestingar í því skyni að laga framleiðsluaðferðir að verndun umhverfisins.

18. gr.
Fjárfestingaraðstoð sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra í umhverfisvernd en gert er ráð fyrir í Bandalagsstöðlum eða auka umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi

1.     Fjárfestingaraðstoð sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra í umhverfismálum en gert er ráð fyrir í Bandalagsstöðlum eða auka umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi, telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði 2. til 8. mgr. þessarar greinar.
2.     Fjárfestingaraðstoðin skal uppfylla eitt eftirfarandi skilyrða:
a)    fjárfestingin skal gera aðstoðarþega kleift að auka umhverfisvernd í tengslum við starfsemi sína með því að ganga lengra en kveðið er á um í Bandalagsstöðlum, óháð því hvort gildandi, lögboðnir staðlar eru strangari en Bandalagsstaðlar,
b)    fjárfestingin á að gera aðstoðarþega kleift að auka umhverfisvernd í tengslum við starfsemi sína ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi.
3.     Ekki er heimilt að veita aðstoð þar sem umbætur eru gerðar til að tryggja að fyrirtæki fari að Bandalagsstöðlum sem þegar hafa verið samþykktir en hafa ekki ennþá öðlast gildi.
4.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 35% af aðstoðarhæfum kostnaði.
Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og aðstoð, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig.
5.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera sá viðbótarfjárfestingarkostnaður sem er nauðsynlegur til að ná meiri umhverfisvernd en gerð er krafa um í viðkomandi Bandalagsstöðlum, án þess að tekið sé mið af ávinningi og kostnaði í rekstri.
6.     Með tilliti til 5. mgr. skal kostnaður vegna fjárfestinga, sem tengjast beint umhverfisvernd, ákvarðaður með tilliti til staðleysuaðstæðna (e. counterfactual situation):
a)    ef auðvelt er að greina kostnað vegna fjárfestinga í umhverfisvernd í heildarfjárfestingarkostnaðinum skal nákvæmlega sá kostnaður vera aðstoðarhæfur kostnaður,
b)    í öllum öðrum tilvikum skal viðbótarfjárfestingarkostnaðurinn ákvarðaður með því að bera fjárfestinguna saman við staðleysuaðstæður þar sem engin ríkisaðstoð er veitt; rétta staðleysan skal vera kostnaður á tæknilega sambærilegri fjárfestingu sem kveður á um minni umhverfisvernd (sem samsvarar lögbundnum Bandalagsstöðlum, ef þeir eru fyrir hendi) og sem trúlega yrði án þess að aðstoð kæmi til (,,viðmiðunarfjárfesting“). „Tæknilega sambærileg fjárfesting“ merkir fjárfestingu með sömu framleiðslugetu og alla aðra tæknilega eiginleika (nema þá sem tengjast beint viðbótarfjárfestingu vegna sömu umhverfisverndar). Auk þess verður slík viðbótarfjárfesting, í viðskiptalegu tilliti að vera trúverðugur kostur miðað við þá fjárfestingu sem verið er að meta.
7.     Aðstoðarhæf fjárfesting skal vera í formi fjárfestinga í efnislegum og/eða óefnislegum eignum.
8.     Ef um er að ræða fjárfestingar sem miða að því að ná meiri umhverfisvernd en kveðið er á um í Bandalagsstöðlum skal velja staðleysu á eftirfarandi hátt:
a)    ef fyrirtæki er að laga sig að innlendum stöðlum, sem hafa verið samþykktir þar sem Bandalagsstaðlar eru ekki fyrir hendi, skal aðstoðarhæfur kostnaður vera sá viðbótarfjárfestingarkostnaður sem er nauðsynlegur til þess að ná þeirri umhverfisvernd sem gerð er krafa um í innlendum stöðlum,
b)    þegar fyrirtæki laga sig að eða ganga lengra en kveðið er á um í innlendum stöðlum, sem eru strangari en viðkomandi Bandalagsstaðlar, skal aðstoðarhæfur kostnaður vera sá viðbótarfjárfestingarkostnaður sem er nauðsynlegur til þess að ná fram meiri umhverfisvernd en gerð er krafa um í Bandalagsstöðlunum, Kostnaður vegna þeirra fjárfestinga sem þörf er á til þess að ná þeirri umhverfisvernd sem gerð er krafa um í Bandalagsstöðlum er ekki aðstoðarhæfur,
c)    ef engir staðlar eru fyrir hendi skal aðstoðarhæfur kostnaður vera nauðsynlegur fjárfestingarkostnaður til þess að ná meiri umhverfisvernd en þeirri sem viðkomandi fyrirtæki hefðu náð hefði engin umhverfisaðstoð verið veitt.
9.     Aðstoð vegna fjárfestinga í tengslum við meðhöndlun á úrgangi annarra fyrirtækja er ekki undanþegin samkvæmt þessari grein.

19. gr.
Aðstoð til kaupa á nýjum vöruflutningabifreiðum sem gengur lengra en kveðið er á um í Bandalagsstöðlum eða sem stuðla að aukinni umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi

1.     Fjárfestingaraðstoð til kaupa á nýjum vöruflutningabifreiðum, sem gera fyrirtækjum, sem eru virk í flutningageiranum, kleift að ganga lengra en gert er ráð fyrir í Bandalagsstöðlum að því er varðar umhverfisvernd eða auka umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi, samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 2., 3. og 4. gr., séu uppfyllt.
2.     Fjárfestingin, sem veitt er aðstoð til, skal uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 18. gr.
3.     Aðstoð vegna kaupa á nýjum ökutækjum til vöruflutninga á vegum, járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum og flutninga á sjó, sem uppfylla Bandalagsstaðla, sem hafa verið samþykktir, skal undanþegin, þegar slík kaup eiga sér stað áður en þessir Bandalagsstaðlar öðlast gildi og ef þeir, þegar þeir verða lögbundnir, gilda ekki afturvirkt um þau ökutæki sem þegar hafa verið fest kaup á.
4.     Aðstoð vegna endurbóta á starfsemi fyrirliggjandi flutningabifreiða, sem hefur umhverfisvernd að markmiði, skal undanþegin ef þau flutningatæki, sem eru fyrirliggjandi, eru endurbætt miðað við umhverfisstaðla sem ekki voru í gildi á þeim degi þegar þessi flutningatæki voru tekin í notkun eða ef þessi flutningatæki heyra ekki undir neina umhverfisstaðla.
5.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 35% af aðstoðarhæfum kostnaði.
Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og aðstoð, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig.
6.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera sá viðbótarkostnaður sem er nauðsynlegur til þess að ná fram meiri umhverfisvernd en gerð er krafa um í Bandalagsstöðlunum.
Aðstoðarhæfur kostnaður skal reiknaður eins og sett er fram í 6. og 7. gr. án þess að tekið sé tillit til ávinnings og kostnaðar í rekstri.

20. gr.
Aðstoð til aðlögunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja að Bandalagsstöðlum sem verða settir síðar

1.     Aðstoð, sem gerir litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleift að fara að nýjum Bandalagsstöðlum, sem auka umhverfisvernd og hafa ekki enn öðlast gildi, samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að hún uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2., 3. mgr. og 4. mgr. þessarar greinar.
2.     Bandalagsstaðlar skulu hafa verið samþykktir og fjárfestingunni hrundið í framkvæmd og henni lokið a.m.k. einu ári áður en viðkomandi staðall öðlast gildi.
3.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 15% af aðstoðarhæfum kostnaði að því er varðar lítil fyrirtæki og 10% af aðstoðarhæfum kostnaði að því er varðar meðalstór fyrirtæki ef framkvæmd og lok eiga sér stað meira en þremur árum áður en staðallinn öðlast gildi og 10% að því er varðar lítil fyrirtæki ef lok eiga sér stað frá einu ári allt að þremur árum áður en staðallinn öðlast gildi.
4.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera sá viðbótarkostnaður sem er nauðsynlegur til þess að ná þeirri umhverfisvernd sem gerð er krafa um í Bandalagsstaðlinum miðað við þá umhverfisvernd sem gerð var krafa um áður en staðallinn öðlaðist gildi.
Aðstoðarhæfur kostnaður skal reiknaður eins og sett er fram í 6. og 7. mgr. 18. gr. án þess að tekið sé tillit til rekstrarávinnings og rekstrarkostnaðar.

21. gr.
Umhverfisaðstoð vegna ráðstafana á sviði orkusparnaðar

1.     Aðstoð vegna fjárfestinga í umhverfismálum samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að hún uppfylli:
a)    skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar eða
b)    skilyrðin sem mælt er fyrir um í 4. og 5. mgr. hennar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 60% af aðstoðarhæfum kostnaði.
Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og aðstoð, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera sá viðbótarkostnaður sem er nauðsynlegur til þess að ná fram meiri orkusparnaði en gerð er krafa um í Bandalagsstöðlunum.
Aðstoðarhæfur kostnaður skal reiknaður eins og sett er fram í 6. og 7. mgr. 18. gr.
Reikna skal aðstoðarhæfan kostnað að frádregnum hvers konar rekstrarhagnaði eða kostnaði sem tengist viðbótarfjárfestingu vegna orkusparnaðar og sem stofnað er til á fyrstu þremur árunum sem fjárfestingin stendur yfir ef um er að ræða lítil eða meðalstór fyrirtæki, á fyrstu fjórum árunum ef um er að ræða fyrirtæki sem ekki taka þátt í áætlun Evrópusambandsins um viðskipti með losunarheimildir á koltvísýringi (CO ) og á fyrstu fimm árunum ef um er að ræða stór fyrirtæki sem taka þátt í áætlun Evrópusambandsins um viðskipti með losunarheimildir á koltvísýringi. Að því er varðar stór fyrirtæki er heimilt að stytta þetta tímabil niður í fyrstu þrjú árin sem fjárfestingin stendur yfir ef hægt er að sýna fram á að afskriftartími fjárfestingarinnar fari ekki yfir þrjú ár.
Utanaðkomandi endurskoðandi skal annast útreikning á aðstoðarhæfum kostnaði.
4.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 20% af aðstoðarhæfum kostnaði.
Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og aðstoð, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig.
5.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal reiknaður eins og sett er fram í 6. og 7. mgr. 18. gr. án þess að tekið sé tillit til rekstrarávinnings og rekstrarkostnaðar.

22. gr.
Aðstoð á sviði umhverfisfjárfestinga vegna samvinnslu með góða orkunýtni

1.     Aðstoð vegna fjárfestinga á sviði umhverfisfjárfestinga vegna samvinnslu með góða orkunýtni telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðin í 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar séu uppfyllt.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 45% af aðstoðarhæfum kostnaði. Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og aðstoð, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera sá viðbótarkostnaður sem er nauðsynlegur til þess að ná fram meiri samvinnslu með góða orkunýtni miðað við viðmiðunarfjárfestingu. Aðstoðarhæfur kostnaður skal reiknaður eins og sett er fram í 6. og 7. mgr. 18. gr. án þess að tekið sé tillit til rekstrarávinnings og rekstrarkostnaðar.
4.     Nýja samvinnslueiningin skal í heildina fela í sér sparnað í samanburði við viðmiðanirnar fyrir aðskilda framleiðslu raforku og varma sem kveðið er á um í tilskipun 2004/8/EB og ákvörðun 2007/74/EB. Umbæturnar á fyrirliggjandi samvinnslueiningu eða breytingu á fyrirliggjandi orkuframleiðslustöð yfir í samvinnslueiningu skal leiða til sparnaðar á frumorku í samanburði við upphaflega stöðu.

23. gr.
Aðstoð vegna fjárfestinga í umhverfismálum vegna aukinnar hlutdeildar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum

1.     Aðstoð vegna fjárfestinga í umhverfismálum vegna aukinnar hlutdeildar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum skal samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldu 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðunum, sem mælt er fyrir um í 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar, sé fullnægt:
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 45% af aðstoðarhæfum kostnaði.
Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og aðstoð, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður er sá viðbótarkostnaður sem aðstoðarþegi stendur straum af í samanburði við hefðbundna orkuframleiðslu eða hefðbundið upphitunarkerfi með sömu afkastagetu með tilliti til skilvirkrar orkuframleiðslu.
Aðstoðarhæfur kostnaður skal reiknaður eins og sett er fram í 6. og 7. mgr. 18. gr. án þess að tekið sé tillit til rekstrarávinnings og rekstrarkostnaðar.
4.     Fjárfestingaraðstoð á sviði umhverfismála vegna framleiðslu á lífeldsneyti skal eingöngu undanþegin ef styrktar fjárfestingar eru að öllu leyti notaðar til að framleiða sjálfbært lífeldsneyti.

24. gr.
Aðstoð til umhverfisrannsókna

1.     Aðstoð til rannsókna, sem tengjast beint fjárfestingunum, sem um getur í 18. gr., til fjárfestinga í orkusparandi aðgerðum samkvæmt skilyrðunum, sem sett eru fram í 21. gr., og fjárfestingar vegna aukinnar hlutdeildar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum samkvæmt skilyrðunum, sem eru sett fram í 23. gr., samrýmast hinum sameiginlega markaði í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni, sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðunum, sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar, sé fullnægt.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 50% af aðstoðarhæfum kostnaði.
Þó er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar vegna rannsókna sem gerðar eru fyrir hönd litilla fyrirtækja um 20 prósentustig og rannsókna sem gerðar eru fyrir hönd meðalstórra fyrirtækja um 10 prósentustig.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera kostnaður vegna rannsóknarinnar.

25. gr.
Aðstoð í formi lækkunar á umhverfissköttum

1.     Kerfi fyrir umhverfisaðstoð í formi lækkunar á umhverfissköttum, sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2003/96/EB, samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli öll skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Þeir sem þiggja aðstoð í formi skattalækkunar skulu a.m.k. greiða lágmarksskatt Bandalagsins sem kveðið er á um í tilskipun 2003/96/EB.
3.     Skattalækkanir skulu veittar í minnst tíu ár. Að þessum tíma liðnum skulu aðildarríkin endurmeta hvort viðkomandi aðstoðarráðstöfun eigi rétt á sér.

5. ÞÁTTUR
Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og þátttöku þeirra í kaupstefnum
26. gr.
Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja

1.     Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi c-liðar 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 50% af aðstoðarhæfum kostnaði.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera kostnaður vegna ráðgjafar sem utanaðkomandi ráðgjafar veita.
Viðkomandi þjónusta skal ekki vera samfelld eða reglubundin starfsemi og ekki tengjast venjulegum rekstrarútgjöldum fyrirtækisins, s.s. ráðgjöf í skattamálum, reglubundinni lögfræðiþjónustu eða auglýsingum.

27. gr.
Aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna þátttöku þeirra í kaupstefnum

1.     Aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna þátttöku þeirra í kaupstefnum telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 50% af aðstoðarhæfum kostnaði.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera kostnaður vegna leigu, uppsetningar og rekstrar sýningaraðstöðu fyrirtækis þegar það tekur í fyrsta sinn þátt í tiltekinni kaupstefnu eða sýningu.

6. ÞÁTTUR
Aðstoð í formi áhættufjármagns
28. gr.
Skilgreiningar

Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    ,,eigið fé“: eignarhald í fyrirtæki sem felst í hlutabréfunum sem gefin eru út til fjárfesta,
2.    ,,ígildi eigin fjár“: fjármálagerningar þar sem arður handhafa grundvallast fyrst og fremst á hagnaði eða tapi viðkomandi markfyrirtækis og sem eru ekki tryggðir ef um er að ræða vanefndir,
3.    ,,einkahlutafé“: einkahlutafé — sem andstæða við opinbert hlutafé — eða ígildi fjárfestinga með eigið fé í fyrirtækjum sem ekki eru skráð á hlutabréfamarkað, þ.m.t. áhættufjármagn,
4.    ,,sprotafjármagn“: fjármögnun til rannsókna, mats og þróunar á upphaflegri hugmynd sem er undanfari uppbyggingarstigs,
5.    ,,uppbyggingarfjármagn“: fjármögnun fyrirtækja sem ekki hafa selt vöru sína eða þjónustu og mynda enn sem komið er ekki hagnað til vöruþróunar eða til að hefja markaðssetningu,
6.    ,,útfærslufjármagn“: fjármögnun til stækkunar og útfærslu á fyrirtæki, sem ekki er víst hvort standi á sléttu eða skilar arði, í því skyni að efla framleiðslugetu markaðsþróun eða vöruþróun eða til að leggja fram hreint viðbótarveltufé,
7.    ,,útgönguáætlun“: áætlun um innlausn á eignarhlutum í eigu áhættufjármagnssjóðs eða hlutabréfasjóðs í samræmi við áætlun um hámarksarð, þ.m.t. sala, afskriftir, innlausn á forgangshlutum/endurgreiðsla á lánum, sala til annarra áhættufjármagnseigenda, sala til fjármálastofnana og sala með opinberu útboði, þ.m.t. fyrsta útboð verðbréfa (IPO).
8.    ,,markfyrirtæki“: fyrirtæki sem fjárfestir eða fjárfestingarsjóður íhugar að fjárfesta í.

29. gr.
Aðstoð í formi áhættufjármagns

1.     Aðstoðarkerfi fyrir áhættufjármagn í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Áhættufjármagnsráðstöfunin skal vera í formi þátttöku í sjóði sem annast fjárfestingar fyrir einkaaðila sem stjórnað er á viðskiptalegum grundvelli.
3.     Hlutar fjárfestinga, sem greiddir verða úr fjárfestingarsjóðnum, skulu ekki fara yfir 1,5 milljónir evra fyrir hvert markfyrirtæki á hverju tólf mánaða tímabili.
4.     Að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki á svæðum, sem njóta aðstoðar, sem og lítil fyrirtæki á svæðum, sem njóta ekki aðstoðar, skal áhættufjármagnsráðstöfunin takmarkast við útvegun á sprotafjármagni, fjármagni á uppbyggingarstigi og/eða útfærslufjármagni. Að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki á svæðum, sem ekki njóta aðstoðar, skal áhættufjármagnsráðstöfunin takmarkast við útvegun á sprotafjármagni, fjármagni á uppbyggingarstigi og/eða útþenslufjármagni.
5.     Fjárfestingarsjóðurinn skal útvega a.m.k. 70% af heildarfjármagni sem fjárfest er í litlum og meðalstórum markfyrirtækjum í formi eigin fjár eða ígildi eigin fjár.
6.     Að minnsta kosti 50% af fjármagni fjárfestingarsjóðsins skulu koma frá einkafjárfestum. Ef um er að ræða fjárfestingarsjóði, sem sérhæfa sig í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, á svæðum sem njóta aðstoðar, skulu a.m.k. 30% af fjármagninu koma frá einkafjárfestum.
7.     Til að tryggja að áhættufjármagnsráðstöfunin miði að hagnaði skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
a)    viðskiptaáætlun skal liggja fyrir um hverja fjárfestingu þar sem fram koma nákvæmar upplýsingar um vöru, sölu og hagnaðarþróun og gerð er grein fyrir hagkvæmni verkefnisins fyrir fram og
b)    fyrir hverja áætlun skal liggja fyrir skýr og raunhæf útgönguáætlun.
8.     Til að tryggja að fjárfestingarsjóðnum sé stjórnað á viðskiptalegum grundvelli skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
a)    samningur skal liggja fyrir milli faglegs sjóðsstjóra og aðila að sjóðnum, að því tilskildu að þóknun stjórnandans tengist frammistöðu og þar sem markmið sjóðsins eru skilgreind og fram kemur fyrirhuguð tímaáætlun fjárfestinganna og
b)    einkafjárfestar skulu eiga fulltrúa í ákvörðunartöku, svo sem fyrir milligöngu fjárfestanefndar eða ráðgjafarnefndar, og
c)    bestu starfsvenjur og lögboðið eftirlit gilda um stjórnun sjóða.

7. ÞÁTTUR
Aðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar
30. gr.
Skilgreiningar

Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    ,,rannsóknarstofnun“: stofnun, t.d. háskóli eða rannsóknarstofa, óháð réttarstöðu (skipulögð í samræmi við opinberan rétt eða einkarétt) eða fjármögnunaraðferð, sem hefur að meginmarkmiði að leiða grunnrannsóknir, iðnaðarrannsóknir eða þróunarstarf og miðla niðurstöðum sínum með kennslu, útgáfu eða tækniyfirfærslu. Allur hagnaður verður að vera endurfjárfestur í þessari starfsemi, miðlun niðurstaðna eða kennslu. Fyrirtæki, sem geta haft áhrif á slíka stofnun, t.d. í krafti stöðu sinnar sem hluthafar, eða aðilar að stofnuninni, skulu ekki hafa neinn forgang að rannsóknargetu slíkrar stofnunar eða að rannsóknarniðurstöðum hennar.
2.    ,,grunnrannsóknir“: tilraunastarf eða fræðileg vinna sem fer fram fyrst og fremst til að afla nýrrar þekkingar á grundvallarþáttum fyrirbæra eða á áþreifanlegum staðreyndum, án þess að um sé að ræða sérstakan tilgang eða áform um notkun,
3.    „iðnaðarrannsóknir“: skipulegar rannsóknir eða veigamiklar athuganir sem beinast að því að afla nýrrar þekkingar og færni til að þróa nýjar vörur, ferla eða þjónustu eða til að koma í kring mikilvægum umbótum á vörum, ferlum eða þjónustu sem fyrir er. Þær taka til gerðar íhluta í flókin kerfi sem eru nauðsynlegir vegna iðnaðarrannsókna, nánar tiltekið vegna almennrar fullgildingar á tækni að frumgerðum undanskildum,
4.    ,,þróunarstarf“: öflun, sameining, mótun og notkun á fyrirliggjandi vísindalegri, tæknilegri, viðskiptalegri og annarri viðeigandi þekkingu og kunnáttu til að gera áætlanir og ráðstafanir eða hönnun fyrir nýjar, breyttar eða endurbættar vörur, ferla eða þjónustu. Þetta getur t.d. einnig tekið til annarrar starfsemi sem miðar að hugmyndalegri skilgreiningu, áætlanagerð og skrásetningu nýrra vara, verkferla eða þjónustu. Þessi starfsemi getur einnig tekið til vinnslu á drögum, teikningum, áætlunum og öðrum skjallegum gögnum að því tilskildu að þau séu ekki ætluð til notkunar í viðskiptum.
    Þróun á frumgerðum og tilraunaverkefnum, sem hægt er að nota í viðskiptaskyni, telst einnig með þegar frumgerðin þarf að vera fullunnin verslunarvara og þegar of kostnaðarsamt er að framleiða hana til þess eins að nota til kynningar og fullgildingar. Ef um er að ræða kynningar- eða tilraunaverkefni, sem síðar verður notað í viðskiptum, verður að draga allar tekjur af þeirri notkun frá aðstoðarhæfum kostnaði.
    Tilraunaframleiðsla og prófun vara, verkferlar og þjónusta geta einnig átt kost á aðstoð, að því tilskildu að það sé ekki hægt að nota þetta eða umbreyta til notkunar í iðnaði eða í viðskiptaskyni.
    Þróunarstarf felur ekki í sér venju- eða reglubundnar breytingar á vörum, framleiðslulínum, framleiðsluferlum, þjónustu, sem fyrir er, og annarri yfirstandandi starfsemi, jafnvel þótt þessar breytingar geti talist til endurbóta,
5.    ,,mjög menntað starfsfólk“: rannsakendur, verkfræðingar, hönnuðir og markaðsstjórar með menntun á háskólastigi og a.m.k. fimm ára viðeigandi faglega reynslu; doktorsnám getur talist sem viðeigandi fagleg reynsla,
6.     ,,útsent starfsfólk“: tímabundin ráðning starfsfólks hjá aðstoðarþega í tiltekinn tíma, en að honum loknum hefur starfsfólk rétt til að snúa aftur til fyrri vinnuveitanda.

31. gr.
Aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna

1.     Aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni ef hún uppfyllir skilyrði í 2. til 5. mgr. þessarar greinar.
2.     Sá hluti rannsóknar- og þróunarverkefnisins sem nýtur aðstoðar verður að öllu leyti að falla undir einn eða fleiri flokka eftirfarandi rannsóknarflokka:
a)    grunnrannsóknir,
b)    iðnaðarrannsóknir,
c)    þróunarstarf.
Ef verkefnið tekur til mismunandi verkefna skal hvert verkefni skilgreint eins og það falli undir einn þeirra flokka sem taldir eru upp í fyrstu undirgrein eða eins og það falli ekki undir neinn þessara flokka.
3.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir:
a)    100% af aðstoðarhæfum kostnaði fyrir grunnrannsóknir,
b)    50% af aðstoðarhæfum kostnaði fyrir iðnaðarrannsóknir,
c)    25% af aðstoðarhæfum kostnaði fyrir þróunarstarf.
Aðstoðarhlutfall skal ákvarðað fyrir hvern aðstoðarþega, þ.m.t. í samstarfsverkefni, eins og kveðið er á um í i. lið b-liðar 4. mgr.
Ef um er að ræða aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefnis, sem unnið er í samstarfi milli rannsóknarstofnana og fyrirtækja, má sameinuð aðstoð vegna beins ríkisstuðnings við tiltekið verkefni og, þar sem þau fela í sér aðstoð, framlög frá rannsóknarstofnunum til þess verkefnis ekki fara yfir gildandi aðstoðarhlutfall fyrir hvert fyrirtæki sem fær aðstoð.
4.     Aðstoðarhlutfall fyrir iðnaðarrannsóknir og þróunarstarf í 3. mgr. má auka á eftirfarandi hátt:
a)    ef aðstoð er veitt litlum og meðalstórum fyrirtækjum er heimilt að hækka hlutfall aðstoðar, sem er veitt meðalstórum fyrirtækjum, um 10 prósentustig og aðstoð, sem er veitt litlum fyrirtækjum, um 20 prósentustig og
b)    heimilt er að bæta við 15 prósentustiga hækkun þar til hámarksaðstoðarhlutfallið nemur 80% af aðstoðarhæfum kostnaði ef
    i.    verkefnið felur í sér samstarf a.m.k. tveggja fyrirtækja sem eru óháð hvort öðru og ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
        —    ekkert eitt fyrirtæki stendur straum af meira en 70% af aðstoðarhæfum kostnaði við samstarfsverkefnið,
        —    verkefnið felur í sér samstarf við a.m.k. eitt lítið eða meðalstórt fyrirtæki eða er unnið í a.m.k. tveimur aðildarríkjum eða
    ii.    verkefnið felur í sér skilvirkt samstarf milli fyrirtækis og rannsóknarstofnunar og ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
        —    rannsóknarstofnunin stendur straum af a.m.k. 10% af aðstoðarhæfum kostnaði við verkefnið og
        —    rannsóknarstofnunin hefur rétt til að birta niðurstöður verkefnisins svo fremi þær megi rekja til rannsókna sem stofnunin framkvæmdi eða
    iii.    ef um er að ræða iðnaðarrannsóknir, sé niðurstöðum verkefnisins dreift víða á tækni- og vísindaráðstefnum eða þær birtar í vísinda- og tæknitímaritum eða í opnum gagnasöfnum (gagnagrunnum þar sem allir geta nálgast óunnin rannsóknargögn) eða um gjaldfrjálsan eða opinn hugbúnað.
Að því er varðar i. og ii. lið í b-lið fyrstu undirgreinar telst undirverktakastarfsemi ekki vera skilvirkt samstarf.
5.     Eftirfarandi telst vera aðstoðarhæfur kostnaður:
a)    starfsmannakostnaður (vísindamenn, tæknimenn og annað aðstoðarfólk sem vinnur að rannsóknarverkefninu),
b)    kostnaður við tæki og búnað að því marki og í þann tíma sem þau eru notuð við rannsóknarverkefnið. Ef fyrrgreind tæki og búnaður eru ekki notuð allan endingartíma sinn við rannsóknarverkefnið telst aðeins afskrifaður kostnaður, sem samsvarar þeim tíma sem rannsóknarverkefnið varir og er reiknaður á grundvelli góðra reikningsskilavenja, aðstoðarhæfur,
c)    kostnaður tengdur byggingum og landi, að því marki og í þann tíma sem þau eru notuð við rannsóknarverkefnið, telst, að því er varðar byggingar, aðeins afskrifaður kostnaður sem samsvarar þeim tíma sem rannsóknarverkefnið varir og er reiknaður á grundvelli góðra reikningsskilavenja, aðstoðarhæfur. Að því er varðar land er útlagður kostnaður við afsal eða fjármagnskostnaður, sem stofnað er til í reynd, aðstoðarhæfur,
d)    kostnaður í tengslum við samningsbundnar rannsóknir, tækniþekkingu og einkaleyfi, sem keypt eru, eða leyfi sem eru fengin frá utanaðkomandi aðilum á markaðsverði í viðskiptum ótengdra aðila og ekkert samráð á sér stað, sem og kostnaður vegna ráðgjafar og sambærilegrar þjónustu sem er eingöngu nýtt í tengslum við rannsóknarstarfsemina,
e)    annar kostnaður sem stofnað er til beint vegna rannsóknarverkefnisins,
f)    annar rekstrarkostnaður, þ.m.t. efniskostnaður, kostnaður við birgðir og þess háttar sem stofnað er til beint í kjölfar rannsóknarstarfseminnar.
6.     Öllum aðstoðarhæfum kostnaði skal úthlutað til sérstaks flokks rannsóknar- og þróunarverkefna.

32. gr.
Aðstoð vegna tæknilegra hagkvæmniathugana

1.     Aðstoð vegna tæknilegra hagkvæmniathugana, sem framkvæmdar eru í undirbúningsstarfi fyrir iðnaðarrannsóknir eða þróunarstarf, samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi c-liðar 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir:
a)    að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki 75% af aðstoðarhæfum kostnaði vegna undirbúningsrannsókna fyrir iðnaðarstarfsemi og 50% af aðstoðarhæfum kostnaði vegna undirbúningsrannsókna fyrir starfsemi á sviði þróunarstarfs,
b)    að því er varðar stór fyrirtæki 65% af aðstoðarhæfum kostnaði vegna undirbúningsrannsókna fyrir iðnaðarstarfsemi og 40% af aðstoðarhæfum kostnaði vegna undirbúningsrannsókna fyrir starfsemi á sviði þróunarstarfs.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera kostnaður vegna rannsóknarinnar.

33. gr.
Aðstoð í tengslum við kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna hugverkaréttar á sviði iðnaðar

1.     Aðstoð vegna kostnaðar lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem tengist öflun og staðfestingu einkaleyfa og annars hugverkaréttar á sviði iðnaðar samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfall skal ekki fara yfir það aðstoðarhlutfall vegna rannsóknar- og þróunarverkefnis sem mælt er fyrir um í 3. og 4. mgr. 31. gr., að því er varðar þá rannsóknarstarfsemi sem leiddi fyrst til þess hugverkaréttar á sviði iðnaðar sem um ræðir.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera eftirfarandi:
a)    allur kostnaður sem stofnað er til áður en réttindin eru veitt í fyrsta lögsagnarumdæminu, þ.m.t. kostnaður sem tengist undirbúningi, skjalavistun og meðferð umsóknarinnar, auk kostnaðar við endurnýjun umsóknarinnar áður en réttindin hafa verið veitt,
b)    þýðing og annar kostnaður tengdur öflun eða staðfestingu réttindanna í öðrum lögsagnarumdæmum,
c)    kostnaður við að verja lögmæti réttindanna meðan á opinberri meðferð umsóknarinnar stendur og hugsanlegri andmælameðferð, jafnvel þó að sá kostnaður verði til eftir að réttindin eru veitt.

34. gr.
Aðstoð til rannsókna og þróunar á sviði landbúnaðar og fiskveiða

1.     Aðstoð til rannsókna og þróunar að því er varðar þær vörur sem taldar eru upp í I. viðauka við samninginn samrýmist sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal njóta undanþágu frá ákvæðum 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningarskyldu, að því tilskildu að skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 2. til 7. mgr. þessarar greinar, séu uppfyllt.
2.     Aðstoðin verður að vera í þágu hagsmuna allra rekstraraðila í þeim tiltekna geira eða undirgeira sem um ræðir.
3.     Upplýsingar um þá rannsókn, sem verður framkvæmd og markmið hennar, skulu birtar á Netinu áður en rannsóknin hefst. Áætluð dagsetning væntanlegra niðurstaðna og birtingarstaður þeirra á Netinu, sem og ábending þess efnis að niðurstöðurnar fáist endurgjaldslaust, skal fylgja með.
Niðurstöður rannsóknarinnar skulu vera aðgengilegar á Netinu í a.m.k. 5 ár. Þær skulu birtar eigi síðar en þær upplýsingar sem heimilt er að veita aðilum að hvers konar samtökum.
4.     Aðstoð skal veitt rannsóknarstofnun milliliðalaust og má ekki fela í sér neina aðstoð aðra en til rannsókna í þágu fyrirtækis sem framleiðir, vinnur eða markaðssetur landbúnaðarvörur, né veita framleiðendum slíkra vara verðstuðning.
5.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 100% af aðstoðarhæfum kostnaði.
6.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera sá kostnaður sem kveðið er á um í 5. mgr. 31. gr.
7.     Aðstoð vegna rannsókna og þróunar í tengslum við vörur, sem eru taldar upp í I. viðauka við samninginn og uppfylla ekki skilyrðin, sem mælt er fyrir um í þessari grein, skal samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi c-liðar 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 30., 31. og 32. gr. þessarar reglugerðar, séu uppfyllt.

35. gr.
Aðstoð við ung nýsköpunarfyrirtæki

1.     Aðstoð til ungra nýsköpunarfyrirtækja telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. til 5. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarþegi skal vera lítið fyrirtæki sem hefur starfað a.m.k. í 6 ár þegar aðstoðin er veitt.
3.     Rannsóknar- og þróunarkostnaður aðstoðarþega skal nema a.m.k. 15% af heildarrekstrarkostnaði á minnst einu ári af þremur áður en aðstoðin er veitt eða, þegar um er að ræða sprotafyrirtæki og ekki er um nein fullfrágengin reikningsskil að ræða, í endurskoðun á yfirstandandi reikningstímabili eins og vottað er af ytri endurskoðanda.
4.     Aðstoðarfjárhæðin má ekki fara yfir 1 milljón evra.
Aðstoðarfjárhæðin skal þó ekki fara yfir 1,5 milljónir evra á svæðum, sem falla undir undanþáguna, sem kveðið er á um í a-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og 1,25 milljón evra, sem falla undir undanþáguna, sem kveðið er á um í c-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans.
5.     Aðstoðarþegi getur eingöngu fengið aðstoð einu sinni á því tímabili sem það telst vera ungt nýsköpunarfyrirtæki.

36. gr.
Aðstoð vegna ráðgjafar- og stuðningsþjónustu á sviði nýsköpunar

1.     Aðstoð vegna ráðgjafar- og stuðningsþjónustu á sviði nýsköpunar telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði í 2. til 6. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarþegi skal vera lítið eða meðalstórt fyrirtæki.
3.     Aðstoðarfjárhæð skal ekki fara yfir 200 000 evrur að hámarki fyrir hvern aðstoðarþega á hverju þriggja ára tímabili.
4.     Þjónustuveitandinn skal njóta góðs af innlendri eða evrópskri vottun. Njóti þjónustuveitandi ekki góðs af innlendri eða evrópskri vottun má aðstoðarhlutfall ekki fara yfir 75% af aðstoðarhæfum kostnaði.
5.     Aðstoðarþegi verður að nota aðstoðina til þess að kaupa þjónustu á markaðsverði eða, ef þjónustuveitandinn er stofnun, sem ekki er rekin í hagnaðarskyni, á verði sem endurspeglar heildarkostnað hennar að viðbættri hæfilegri þóknun.
6.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera eftirfarandi:
a)    að því er varðar ráðgjafarþjónustu á sviði nýsköpunar, kostnaður sem tengist: rekstrarráðgjöf, tækniaðstoð, þjónustu við tækniyfirfærslu, þjálfun, ráðgjöf vegna kaupa, verndar og viðskipta með hugverkarétt og vegna leyfissamninga og ráðgjafar um notkun á stöðlum,
b)    að því er varðar stuðningsþjónustu á sviði iðnaðar, kostnaður í tengslum við: skrifstofurými, gagnabanka, tæknibókasöfn, markaðsrannsóknir, gæðamerkingu, prófun og vottun.

37. gr.
Aðstoð vegna láns á mjög hæfu starfsfólki

1.     Aðstoð vegna láns á mjög hæfu starfsfólki frá rannsóknarstofnun eða stóru fyrirtæki til lítils eða meðalstórs fyrirtækis telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði 2. til 5. mgr. þessarar greinar.
2.     Starfsfólkið sem er fengið að láni má ekki koma í stað annars starfsfólks heldur skal það notað í nýstofnuð störf hjá fyrirtækinu, sem nýtur aðstoðar, og verður að hafa starfað í a.m.k. tvö ár í rannsóknarstofnuninni eða stórfyrirtækinu sem sendir fólk til starfa.
Starfsfólkið, sem er fengið að láni, verður að vinna að rannsóknum, þróun og nýsköpun innan þess litla eða meðalstóra fyrirtækis sem fær aðstoðina.
3.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 50% af aðstoðarhæfum kostnaði í mest 3 ár á hvert fyrirtæki og hvern einstakling sem er fenginn að láni.
4.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera allur starfsmannakostnaður í tengslum við lán á og ráðningu á mjög hæfu starfsfólki, þ.m.t. kostnaður við að leita aðstoðar hjá ráðningarskrifstofu og að greiða ferðakostnað þess starfsfólks sem er fengið að láni.
5.     Þessi grein gildir ekki um ráðgjafarkostnað sem um getur í 26. gr.

8. ÞÁTTUR
Aðstoð til menntunar
38. gr.
Skilgreiningar

Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „sérmenntun“: menntun sem felur í sér fræðslu sem nýtist beinlínis og fyrst og fremst í núverandi starfi eða framtíðarstarfi starfsmanns í fyrirtæki og veitir hæfni sem er ekki eða aðeins að litlu leyti yfirfæranleg á önnur fyrirtæki eða starfssvið,
2.    „almenn menntun“: menntun sem felur í sér fræðslu sem nýtist ekki eingöngu eða fyrst og fremst í núverandi starfi eða framtíðarstarfi starfsmanns í fyrirtæki en veitir hæfni sem er að miklu leyti yfirfæranleg á önnur fyrirtæki eða starfssvið. Menntun telst vera „almenn“ ef hún er t.d.:
    a)    skipulögð sameiginlega af nokkrum sjálfstæðum fyrirtækjum eða ef starfsmenn mismunandi fyrirtækja geta aflað sér þessarar menntunar,
    b)    viðurkennd, vottuð eða metin af opinberum yfirvöldum eða aðilum eða af öðrum aðilum eða stofnunum sem aðildarríki eða framkvæmdastjórnin hefur veitt nauðsynlegt umboð á þessu sviði.

39. gr.
Aðstoð til menntunar

1.     Aðstoð til menntunar telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar séu uppfyllt.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir:
a)    25% af aðstoðarhæfum kostnaði við sérmenntun og
b)    60% af aðstoðarhæfum kostnaði við almenna menntun.
Þó er heimilt að hækka aðstoðarhlutfallið um mest 80% af aðstoðarhæfum kostnaði sem hér segir:
a)    um 10 prósentustig ef menntunin er veitt illa stöddum starfsmönnum,
b)    um 10 prósentustig ef aðstoðin er veitt meðalstórum fyrirtækjum og um 20 prósentustig ef aðstoðin er veitt litlum fyrirtækjum.
Þegar aðstoð er veitt í sjóflutningageiranum getur hlutfallið orðið 100% hvort sem menntunarverkefnið snertir sérmenntun eða almenna menntun, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
a)    sá sem fær menntunina skal ekki vera virkur áhafnarmeðlimur heldur skal hann vera aukamaður um borð og
b)    menntunin skal fara fram um borð í skipum sem eru skráð í Bandalaginu.
3.     Í tilvikum þar sem bæði sérmenntun og almenn menntun eru þættir í aðstoðarverkefninu, sem ekki er hægt að aðskilja við útreikning á hlutfalli aðstoðarinnar, og í tilvikum þar sem ekki er unnt að skera úr um hvort um er að ræða sérmenntun eða almenna menntun, skal hlutfallið, sem gildir fyrir sérmenntun, gilda.
4.     Aðstoðarhæfur kostnaður við menntunarverkefni skal vera:
a)    starfsmannakostnaður vegna kennara,
b)    ferðakostnaður kennara og nemenda, þ.m.t. vegna gistingar,
c)    annar tilfallandi kostnaður, s.s. efni og búnaður sem tengist beint verkefninu,
d)    afskriftir af tækjum og búnaði sem er einungis notaður í menntunarverkefninu,
e)    kostnaður við leiðbeiningar- og ráðgjafarþjónustu viðvíkjandi menntunarverkefninu,
f)    starfsmannakostnaður vegna lærlings (stjórnsýslukostnaður, leiga, óbeinn kostnaður) allt að heildarfjárhæð annars styrkhæfs kostnaðar samkvæmt liðum a til e. Einungis má reikna þann tíma sem lærlingur stundar í raun nám, að frádregnum virkum vinnustundum við framleiðslu eða samsvarandi.

9. ÞÁTTUR
Aðstoð vegna illa settra og fatlaðra starfsmanna
40. gr.
Aðstoð vegna ráðningar illa settra eða fatlaðra starfsmanna í formi launastyrks

1.     Aðstoðarkerfi vegna ráðningar illa settra starfsmanna í formi launastyrks teljast samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef þau uppfylla skilyrði 2. til 5. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 50% af aðstoðarhæfum kostnaði.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera launakostnaður á 12 mánaða tímabili í kjölfar ráðningar.
Ef starfsmaður er verulega illa settur skal aðstoðarhæfur kostnaður vera launakostnaður á mest 24 mánaða tímabili í kjölfar ráðningar.
4.     Ef ráðningin felur ekki í sér nettófjölgun starfsmanna í viðkomandi starfsstöð, miðað við meðaltal undanfarinna tólf mánaða, skal staðan eða stöðurnar hafa losnað vegna brottfarar af frjálsum vilja, starfsloka á grundvelli aldurs, styttingar á vinnutíma af frjálsum vilja eða lögmætrar uppsagnar vegna misferlis en ekki vegna almennra uppsagna.
5.     Illa settur starfsmaður skal eiga rétt á samfelldri atvinnu í samfelldan lágmarkstíma í samræmi við viðkomandi landslög eða kjarasamninga sem gilda um ráðningarsamninga nema þegar um er að ræða lögmæta uppsögn vegna misferlis.
Ef ráðningartíminn er styttri en 12 mánuðir eða 24 mánuðir, eftir atvikum, skal lækka aðstoðina hlutfallslega í samræmi við það.

41. gr.
Aðstoð vegna ráðningar fatlaðra starfsmanna í formi launastyrks

1.     Aðstoð vegna ráðningar fatlaðra starfsmanna í formi launastyrks telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði 2. til 5. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 75% af aðstoðarhæfum kostnaði.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera launakostnaður á tilteknu tímabili meðan hinn fatlaði einstaklingur starfar.
4.     Ef ráðningin felur ekki í sér hreina fjölgun starfsmanna í viðkomandi starfsstöð, miðað við meðaltal undanfarinna tólf mánaða, skal staðan eða stöðurnar hafa losnað vegna brottfarar af frjálsum vilja, starfsloka á grundvelli aldurs, styttingar á vinnutíma af frjálsum vilja eða lögmætrar uppsagnar vegna misferlis en ekki vegna almennra uppsagna.
5.     Starfsmenn skulu eiga rétt á samfelldri atvinnu í samfelldan lágmarkstíma í samræmi við viðkomandi landslög eða kjarasamninga sem gilda um ráðningarsamninga nema þegar um er að ræða lögmæta uppsögn vegna misferlis.
Ef ráðningartíminn er styttri en 12 mánuðir skal lækka aðstoðina hlutfallslega í samræmi við það.

42. gr.
Aðstoð til að vega upp á móti aukakostnaði við að hafa fatlaða starfsmenn í vinnu

1.     Aðstoð sem er veitt til að bæta upp aukakostnað við að hafa fatlaða starfsmenn í vinnu telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
2.     Aðstoðarhlutfallið má ekki fara yfir 100% af aðstoðarhæfum kostnaði.
3.     Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera annar kostnaður en launakostnaður sem fellur undir 41. gr. sem er umfram þann kostnað sem styrkþegi hefði þurft að greiða vegna ófatlaðra starfsmanna þann tíma sem fatlaðir starfsmenn eru við störf.
Aðstoðarhæfur kostnaður skal vera eftirfarandi:
a)    kostnaður við aðlögun húsnæðis,
b)    kostnaður við að hafa í vinnu fólk sem starfar eingöngu við að aðstoða fatlaða starfsmenn,
c)    kostnaður við að aðlaga eða kaupa búnað, eða kaupa viðurkenndan hugbúnað sem fatlaðir starfsmenn geta notað, þ.m.t. aðlagaður tæknibúnaður eða tæknileg hjálpartæki, sem er umfram þann kostnað sem aðstoðarþegi hefði þurft að greiða vegna ófatlaðra starfsmanna þann tíma sem fatlaðir starfsmenn eru við störf.
d)    ef aðstoðarþegi fær starfsmann í starf með verndaðri vinnuaðstöðu, kostnaður við að byggja, setja upp eða stækka viðkomandi starfsstöð svo og allur stjórnsýslu- og flutningskostnaður vegna fatlaðra starfsmanna.

III. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
43. gr.
Niðurfelling

Reglugerð (EB) nr. 1628/2006 er felld úr gildi.
Líta ber á allar tilvísanir í niðurfelldu reglugerðina og reglugerð (EB) nr. 68/2001, reglugerð (EB) nr. 70/2001 og reglugerð (EB) nr. 2204/2002 sem tilvísanir í þessa reglugerð.

44. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Þessi reglugerð gildir um staka aðstoð sem var veitt áður en hún öðlaðist gildi, uppfylli aðstoðin öll skilyrðin sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, að undanskilinni 9. gr.
2.     Öll aðstoð, sem er veitt fyrir 31. desember 2008, sem uppfyllir ekki skilyrðin, sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, en uppfyllir skilyrðin, sem mælt er fyrir um í reglugerð (EB) nr. 68/2001, reglugerð (EB) nr. 70/2001, reglugerð (EB) nr. 2204/2002 eða reglugerð (EB) nr. 1628/2006, telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal undanþegin tilkynningarskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.
Alla aðra aðstoð, sem er veitt fyrir gildistöku þessarar reglugerðar, sem uppfyllir hvorki skilyrðin, sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð né skilyrðin, sem mælt er fyrir um í einni reglugerðanna, sem um getur í fyrstu málsgrein, skal framkvæmdastjórnin meta í samræmi við gildandi ramma, viðmiðunarreglur, orðsendingar og auglýsingar.
3.     Við lok gildistíma þessarar reglugerðar skulu öll aðstoðarkerfi, sem njóta undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, vera áfram á undanþágu í sex mánaða aðlögunartíma, að undanskildum svæðisbundnum aðstoðarkerfum. Undanþága vegna aðstoðarkerfa rennur út á þeim degi sem gildistímabil samþykkts korts yfir svæðisbundna aðstoð rennur út.

45. gr.
Gildistaka og gildissvið

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hún gildir til 31. desember 2013.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 6. ágúst 2008.
     Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
    Neelie KROES
     framkvæmdastjóri.

I. VIÐAUKI
Skilgreining á litlu og meðalstóru fyrirtæki
1. gr.
Fyrirtæki

Fyrirtæki er aðili sem stundar atvinnustarfsemi, óháð því hvert rekstrarform þess er að lögum. Þetta tekur einkum til sjálfstætt starfandi einstaklinga og fjölskyldufyrirtækja sem fást við handverk eða aðra starfsemi og sameignarfélaga eða samtaka sem stunda atvinnustarfsemi að staðaldri.

2. gr.
Fjöldi starfsfólks og viðmiðunarmörk sem ákvarða flokkun fyrirtækja

1.     Flokkur örfyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja nær til fyrirtækja sem hafa færri en 250 starfsmenn og ársvelta fer ekki yfir 50 milljónir evra og/eða niðurstöðutala efnahagsreiknings fer ekki yfir 43 milljónir evra.
2.     Innan flokks lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru lítil fyrirtæki skilgreind sem fyrirtæki sem hafa færri en 50 starfsmenn og ársvelta og/eða niðurstöðutala efnahagsreiknings fer ekki yfir 10 milljónir evra.
3.     Innan flokks lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru örfyrirtæki skilgreind sem fyrirtæki sem hafa færri en 10 starfsmenn og ársvelta og/eða niðurstöðutala efnahagsreiknings fer ekki yfir 2 milljónir evra.

3. gr.
Tegundir fyrirtækja sem mið er tekið af við útreikning starfsmannafjölda og fjárhæða

1.     „Óháð fyrirtæki“ er fyrirtæki sem ekki er flokkað sem hlutdeildarfyrirtæki í skilningi 2. mgr. eða sem tengt fyrirtæki í skilningi 3. mgr.
2.     „Hlutdeildarfyrirtæki“ eru öll fyrirtæki sem ekki eru flokkuð sem tengd fyrirtæki í skilningi 3. mgr. og þar sem eftirfarandi vensl eru til staðar: fyrirtæki (aðliggjandi fyrirtæki) sem eiga, annaðhvort ein eða ásamt einu eða fleiri tengdum fyrirtækjum í skilningi 3. mgr., 25% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti í öðru fyrirtæki (fráliggjandi fyrirtæki).
Þó má flokka fyrirtæki sem óháð, og líta svo á að það eigi ekki hlutdeildarfyrirtæki, jafnvel þótt þessum 25% mörkum sé náð eða farið yfir þau, ef um er að ræða eftirfarandi fjárfesta, svo fremi þeir séu ekki tengdir fyrirtækinu, sem um ræðir, í skilningi 3. mgr., annaðhvort einir eða sameiginlega:
a)    opinber fjárfestingarfélög, áhættufjármagnsfélög, einstaklinga eða hópa einstaklinga sem stunda reglulega áhættufjárfestingarstarfsemi og fjárfesta fyrir eigið fé í óskráðum fyrirtækjum (viðskiptaenglar) svo fremi heildarfjárfesting þessara fjárfesta í sama fyrirtækinu sé innan við 1 250 000 evrur,
b)    háskóla eða rannsóknarmiðstöðvar sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni,
c)    stofnanafjárfesta, þ.m.t. byggðaþróunarsjóðir,
d)    óháð staðaryfirvöld með árlega fjárveitingu sem er lægri en 10 milljónir evra og þar sem íbúar eru færri en 5 000.
3.     „Tengd fyrirtæki“ eru fyrirtæki sem tengjast hvert öðru á einhvern eftirfarandi hátt:
a)    fyrirtæki ræður meirihluta atkvæða hluthafa eða félaga í öðru fyrirtæki,
b)    fyrirtæki hefur rétt til að skipa eða leysa frá störfum meirihluta manna í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn annars fyrirtækis,
c)    fyrirtæki hefur yfirráð yfir öðru fyrirtæki samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við það fyrirtæki eða ákvæðum í stofnsamþykktum þess,
d)    fyrirtæki, sem er hluthafi eða félagi í öðru fyrirtæki, ræður eitt meirihluta atkvæða hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga fyrirtækisins.
Gert er ráð fyrir að ekki sé um að ræða yfirráð ef fjárfestarnir, sem taldir eru upp í annarri undirgrein 2. mgr., taka ekki beinan eða óbeinan þátt í stjórnun fyrirtækisins sem um er að ræða, með fyrirvara um réttindi þeirra sem hagsmunaaðila.
Fyrirtæki, sem tengjast á einhvern þann hátt sem lýst er í fyrstu undirgrein í gegnum eitt eða fleiri önnur fyrirtæki eða einhvern af fjárfestunum, sem lýst er í 2. mgr., teljast einnig tengd.
Fyrirtæki, sem tengjast á þennan hátt í gegnum einstakling, eða hóp einstaklinga, sem starfa saman, teljast líka tengd fyrirtæki ef þau stunda starfsemi sína eða hluta starfsemi sinnar á sama viðkomandi markaði eða á aðliggjandi mörkuðum.
„Aðliggjandi markaður“ er markaður fyrir vöru eða þjónustu sem liggur að eða frá viðkomandi markaði.
4.     Ekki er hægt að líta svo á að fyrirtæki sé lítið eða meðalstórt ef 25% eða meira af atkvæðisrétti eða eigin fé þess er stjórnað beint eða óbeint af einum eða fleiri opinberum aðilum, ýmist einum aðila eða nokkrum í sameiningu, nema í þeim tilvikum sem sett eru fram í annarri undirgrein 2. mgr.
5.     Fyrirtæki geta gefið út stöðuyfirlýsingu með gögnum um mörkin, sem sett eru fram í 2. gr., þar sem fram kemur hvort þau eru óháð fyrirtæki, hlutdeildarfyrirtæki eða tengd fyrirtæki. Yfirlýsinguna má gefa út jafnvel þótt fjármagnið dreifist á þann hátt að ekki sé unnt að ákvarða eignarhald á því, og getur þá fyrirtækið lýst því yfir í góðri trú að hægt sé með réttu að álykta að ekki séu meira en 25% þess í eigu eins fyrirtækis eða í sameign margra fyrirtækja sem tengjast. Slíkar yfirlýsingar eru gefnar út með fyrirvara um eftirlit og rannsóknir sem kveðið er á um í innlendum reglum eða reglum Bandalagsins.

4. gr.
Gögn sem notuð eru við útreikning á fjölda starfsfólks, fjárhæðum og viðmiðunartímabili

1.     Gögnin um útreikning á fjölda starfsfólks og fjárhæða eru þau sem varða síðasta samþykkta reikningsskilatímabil og eru reiknuð á ársgrundvelli. Tekið er mið af þeim frá þeirri dagsetningu þegar uppgjörinu er lokað. Fjárhæðin, sem valin er fyrir veltuna, er reiknuð án virðisaukaskatts og annarra óbeinna skatta.
2.     Ef fyrirtæki uppgötvar, þann dag sem uppgjöri er lokað, að það hefur á ársgrundvelli farið yfir eða fallið niður fyrir mörkin um fjölda starfsfólks eða fjárhagsmörkin, sem sett eru fram í 2. gr., leiðir það ekki til þess að það öðlist eða tapi stöðu örfyrirtækis, lítils eða meðalstórs fyrirtækis nema farið sé yfir þau mörk tvö samfelld reikningsskilatímabil.
3.     Þegar um er að ræða nýlega stofnuð fyrirtæki, þar sem uppgjör hefur enn ekki verið samþykkt, skulu gögnin fengin úr áreiðanlegu mati sem hefur farið fram á fjárhagsárinu.

5. gr.
Fjöldi starfsfólks

Fjöldi starfsfólks samsvarar fjölda ársverka, þ.e. fjölda einstaklinga sem unnu fullt starf í viðkomandi fyrirtæki eða á vegum þess allt viðmiðunarárið sem um ræðir. Störf einstaklinga, sem hafa ekki unnið allt árið, eða unnið í hlutastarfi, hvort sem það er lengur eða skemur, og árstíðabundins starfsfólks, reiknast sem brot af ársverkum. Til starfsfólks teljast:
a)    launþegar,
b)    einstaklingar sem starfa fyrir fyrirtækið, aðrir en yfirmenn þess, og sem teljast starfsfólk samkvæmt landslögum,
c)    eigendur sem stjórna,
d)    aðilar sem stunda reglulega starfsemi í fyrirtækinu og njóta fjárhagslegs ávinnings af fyrirtækinu.
Lærlingar eða nemendur í starfsþjálfun á námssamningi eða á starfsþjálfunarsamningi teljast ekki til starfsfólks. Sá tími sem varið er til fæðingar- og foreldraorlofs reiknast ekki með.

6. gr.
Ákvörðun gagna fyrirtækis

1.     Þegar um er að ræða óháð fyrirtæki eru gögnin, þ.m.t. fjöldi starfsfólks, eingöngu ákvörðuð á grundvelli uppgjörs fyrirtækisins.
2.     Gögn fyrirtækis, þ.m.t. fjöldi starfsfólks, sem á hlutdeildarfyrirtæki eða tengd fyrirtæki, eru ákvörðuð á grundvelli uppgjörs og annarra gagna fyrirtækisins eða samstæðureikninga þess, séu þeir fyrir hendi, eða samstæðureikninga þar sem gögn fyrirtækisins koma fram sem hluti af samstæðureikningum.
Við gögnin, sem um getur í fyrstu undirgrein, bætast gögn hlutdeildarfyrirtækja viðkomandi fyrirtækis sem liggja að því eða frá því. Samsöfnun er í réttu hlutfalli við hlutdeild í eigin fé eða atkvæðisrétti (eftir því hvort er hærra). Þegar um er að ræða gagnkvæma eignarhlutdeild gildir hærri hlutfallstalan.
Við gögnin, sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein, bætast 100% gagna allra fyrirtækja sem tengjast beint eða óbeint viðkomandi fyrirtæki ef þau gögn eru ekki þegar hluti af uppgjörinu sem hluti af samstæðureikningum.
3.     Að því er varðar beitingu 2. mgr. eru gögn hlutdeildarfyrirtækja viðkomandi fyrirtækis fengin úr uppgjöri þeirra og öðrum gögnum, eða úr samstæðureikningum, séu þeir fyrir hendi. Við þau bætast 100% gagna fyrirtækja sem eru tengd þessum hlutdeildarfyrirtækjum nema gögnin úr uppgjöri þeirra séu þegar hluti af samstæðureikningum.
Að því er varðar beitingu 2. mgr. skal taka gögn fyrirtækja sem eru tengd viðkomandi fyrirtæki úr uppgjöri þeirra og öðrum gögnum, eða úr samstæðureikningum séu þeir fyrir hendi. Við þetta bætast í réttu hlutfalli gögn hugsanlegra aðliggjandi eða fráliggjandi hlutdeildarfyrirtækja tengda fyrirtækisins nema þau hafi þegar verið tekin inn í samstæðureikningana í hlutfalli sem er a.m.k. jafnt hlutfallinu sem getið er í annarri undirgrein 2. mgr.
4.     Þegar engin gögn um starfsfólk tiltekins fyrirtækis birtast í samstæðureikningum er fjöldi starfsfólks reiknaður með því að safna saman, í réttum hlutföllum, gögnunum frá hlutdeildarfyrirtækjum þess og með því að bæta við gögnunum frá fyrirtækjunum sem viðkomandi fyrirtæki tengist.

II. VIÐAUKI
Eyðublað fyrir samantekt upplýsinga sem veittar eru fyrir aðstoð vegna rannsókna og þróunar samkvæmt frekari upplýsingaskyldu sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 9. gr.

1.     Aðstoð í þágu (heiti fyrirtækis (fyrirtækja) sem fær aðstoðina, lítið og meðalstórt fyrirtæki eða ekki):
2.     Tilvísun aðstoðarkerfis (vísun framkvæmdastjórnarinnar í það eða þau fyrirliggjandi kerfi sem veitt aðstoð fellur undir):
3.     Opinber stofnun/stofnanir sem veita aðstoðina (nafn og tengiliðir þess yfirvalds eða yfirvalda sem veita aðstoðina):
4.     Aðildarríki þar sem verkefni eða ráðstöfun, sem nýtur aðstoðar, er hrundið í framkvæmd:
5.     Tegund aðstoðarkerfis eða ráðstöfunar:
6.     Stutt lýsing á verkefni eða ráðstöfun:
7.     Ef við á, aðstoðarhæfur kostnaður (í evrum):
8.     Núvirði aðstoðarfjárhæðar (vergt) í evrum:
9.     Aðstoðarhlutfall (prósentur af vergu styrkígildi)
10.     Skilyrði háð greiðslum áformaðrar aðstoðar (ef um þau er að ræða).
11.     Áætluð upphafs- og lokadagsetning verkefnis eða ráðstöfunar.
12.     Dagsetning þegar aðstoð var veitt.

Eyðublað fyrir samantekt upplýsinga sem veittar eru fyrir aðstoð vegna stórra fjárfestingarverkefna samkvæmt frekari upplýsingaskyldu sem um getur í 4. mgr. 9. gr.

1.     Aðstoð í þágu (heiti fyrirtækis (fyrirtækja) sem fær aðstoðina).
2.     Tilvísun aðstoðarkerfis (tilvísun framkvæmdastjórnarinnar í það eða þau fyrirliggjandi kerfi sem veitt aðstoð fellur undir).
3.     Opinber stofnun/stofnanir sem veita aðstoðina (heiti og tengiliðir þess yfirvalds eða yfirvalda sem veita aðstoðina).
4.     Aðildarríki þar sem fjárfestingin á sér stað.
5.     Svæði (3. stig í flokkun hagskýrslusvæða NUTS 3) þar sem fjárfestingin á sér stað.
6.     Sveitarfélag (áður 5. stig í flokkun hagskýrslusvæða, nú LAU 2) þar sem fjárfestingin á sér stað.
7.     Tegund verkefnis (stofnun nýrrar starfsstöðvar, stækkun starfsstöðvar sem fyrir er, aukin fjölbreytni í framleiðslu starfsstöðvar með nýjum vörum til viðbótar eða grundvallarbreytingu í heildarframleiðsluferli starfandi starfsstöðvar).
8.     Framleiddar vörur eða þjónusta veitt á grundvelli fjárfestingarverkefnisins (með vöruskrá Evrópubandalaganna/atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna eða vöruflokkun Evrópubandalagsins fyrir verkefni í þjónustugeiranum).
9.     Stutt lýsing á fjárfestingarverkefni.
10.     Núvirði aðstoðarhæfs kostnaðar við fjárfestingarverkefni (í evrum).
11.     Núvirði aðstoðarfjárhæðar (vergt) í evrum.
12.     Aðstoðarhlutfall (% í núverandi jafngildi vergs styrks).
13.     Skilyrði háð greiðslum áformaðrar aðstoðar (ef um þau er að ræða).
14.     Áætluð upphafs- og lokadagsetning verkefnis.
15.     Dagsetning þegar aðstoð var veitt.

III. VIÐAUKI
Eyðublað fyrir samantekt upplýsinga samkvæmt frekari upplýsingaskyldu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 9. gr.

Látið í té umbeðnar upplýsingar hér að neðan:

I. HLUTI

Tilvísun í aðstoð (framkvæmdastjórnin fyllir út)
Aðildarríki
Tilvísunarnúmer aðildarríkis
Svæði Heiti svæðisins (flokkun hagskýrslusvæða (NUTS) (1) Staða svæðisbundinnar aðstoðar (2)
Úthlutunaryfirvald Heiti
Heimilisfang
Vefsíða
Heiti aðstoðarráðstöfunarinnar
Landsbundinn lagagrundvöllur Upplýsingar um viðkomandi landsbundna útgáfu
Vefslóð að óstyttum texta aðstoðarráðstöfunarinnar
Tegund aðstoðar Kerfi
Sérstök aðstoð Heiti aðstoðarþega
Breyting á gildandi aðstoðarráðstöfun Aðstoðarnúmer framkvæmdastjórnarinnar
Framlenging
Breytingar
Gildistími (3) Kerfi dd/mm/áá til dd/mm/áá
Dagsetning úthlutunar (4) Sérstök aðstoð dd/mm/áá
Viðkomandi starfsgrein eða starfsgreinar Allar atvinnugreinar sem eiga rétt á að fá aðstoð
Takmarkað við tilteknar atvinnugreinar — Tilgreinið í samræmi við atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna, 2. endursk. (5)
Tegund þiggjanda aðstoðar Lítil og meðalstór fyrirtæki
Stór fyrirtæki
Fjárhagsáætlun Árleg fjárhæð áætlaðrar heildarfjárhæðar fjárveitingarinnar samkvæmt kerfinu (6) Í innlendum gjaldmiðli … (í milljónum)
Heildarfjárhæð sérstakrar aðstoðar sem fyrirtækinu er veitt (7) Í innlendum gjaldmiðli … (í milljónum)
Ábyrgðir (8) Í innlendum gjaldmiðli … (í milljónum)
Tegund aðstoðar (5. gr.) Styrkur
Vaxtastyrkir
Lán
Ábyrgðir/Tilvísun í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (9)
Skattaráðstafanir
Áhættufjármagn
Fyrirframgreiðslur sem ber að endurgreiða
Annað (tilgreinið)
Ef fjármagnað er að hluta úr sjóðum Bandalagsins Tilvísun Fjárhæð framlags Bandalagsins Í innlendum gjaldmiðli … (í milljónum)
(1)    NUTS — Flokkun hagskýrslusvæða.
(2)    Ákvæði a-liðar 3. mgr. 87. gr. sáttmálans, c-liðar 3. mgr. 87. gr. sáttmálans, blönduð svæði og svæði sem ekki eiga rétt á svæðisbundinni aðstoð.
(3)    Tímabilið þegar yfirvald aðstoðarinnar getur veitt aðstoðina.
(4)    Líta skal svo á að lágmarksaðstoð sé veitt á þeim tíma sem aðstoðarþegi öðlast lagalegan rétt til slíkrar aðstoðar samkvæmt gildandi lagareglum viðkomandi ríkis.
(5)    NACE, 2. endursk. — Atvinnugreinaflokkun Evrópubandalaganna.
(6)    Þegar um aðstoðarkerfi er að ræða: Tilgreina skal árlega áætlaða heildarfjárhæð fjárveitingar samkvæmt kerfinu eða áætlað skattatap á ári vegna allra tegunda aðstoðar sem til eru í kerfinu.
(7)    Þegar um er að ræða staka aðstoð skal tilgreina heildarfjárhæð/skattatap.
(8)    Að því er varðar ábyrgðir skal tilgreina (hæstu) fjárhæð tryggðra lána.
(9)    Eftir því sem við á skal vísa til ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar þar sem hún samþykkir aðferðina við að reikna vergt styrkígildi, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

II. HLUTI

Tilgreina skal ákvæði í reglugerð um almenna hópundanþágu sem veitt aðstoð fellur undir.
Almenn markmið (skrá) Markmið (skrá) Mesta aðstoðarhlutfall í prósentum eða hámarksfjárhæð aðstoðar í innlendum gjaldmiðli Lítil og meðalstór fyrirtæki – aukaaðstoðargreiðslur í prósentum
Svæðisbundin fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu (1) (13. gr.) Kerfi … %
Sérstök aðstoð (1. mgr. 13. gr.) … %
Aðstoð til nýstofnaðra lítilla fyrirtækja (14. gr.) … %
Fjárfestingaraðstoð og aðstoð til eflingar atvinnu í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja (15. gr.) … %
Aðstoð til lítilla fyrirtækja sem konur í hópi frumkvöðla hafa nýlega stofnað (16. gr.) … %
Aðstoð til umhverfisverndar (17.–25. gr.) Fjárfestingaraðstoð sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra í umhverfisvernd en gert er ráð fyrir í Bandalagsstöðlum eða auka umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi (18. gr.)
Vísa skal sérstaklega í viðeigandi staðal
… %
Aðstoð til kaupa á nýjum vöruflutningabifreiðum sem gengur lengra en kveðið er á um í Bandalagsstöðlum eða sem stuðla að aukinni umhverfisvernd ef engir Bandalagsstaðlar eru fyrir hendi (19. gr.) … %
Aðstoð til aðlögunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja að Bandalagsstöðlum sem verða settir síðar (20. gr.) … %
Umhverfisaðstoð vegna ráðstafana á sviði orkusparnaðar (21. gr.) … %
Aðstoð á sviði umhverfisfjárfestinga vegna samvinnslu með góða orkunýtni (22. gr.) … %
Aðstoð vegna fjárfestinga í umhverfismálum vegna aukinnar hlutdeildar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum (23. gr.) … %
Aðstoð til umhverfisrannsókna (24. gr.) … %
Aðstoð í formi lækkunar á umhverfissköttum (25. gr.) … í innlendum gjaldmiðli
Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og þátttöku þeirra í kaupstefnum (26.–27. gr.) Aðstoð vegna ráðgjafar í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja (26. gr.) … %
Aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna þátttöku þeirra í kaupstefnum (27. gr.) … %
Aðstoð í formi áhættufjármagns (28.–29. gr.) … í innlendum gjaldmiðli
Aðstoð til umhverfisverndar (30.–37. gr.) Aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna (31. gr.) Grunnrannsóknir (a-liður 2. mgr. 31. gr.) … %
Iðnaðarrannsóknir (b-liður 2. mgr. 31. gr.) … %
Þróunarstarf (c- liður 2. mgr. 31. gr.) … %
Aðstoð vegna tæknilegra hagkvæmniathugana (32. gr.) … %
Aðstoð í tengslum við kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna hugverkaréttar á sviði iðnaðar (33. gr.) … %
Aðstoð til rannsókna og þróunar á sviði landbúnaðar og fiskveiða (34. gr.) … %
Aðstoð til ungra nýsköpunarfyrirtækja (35. gr.) … í innlendum gjaldmiðli
Aðstoð til ráðgjafarþjónustu við nýsköpun og til stoðþjónustu við nýsköpun (36. gr.) … í innlendum gjaldmiðli
Aðstoð vegna láns á mjög hæfu starfsfólki (37. gr.) … í innlendum gjaldmiðli
Aðstoð til menntunar (38.–39. gr.) (Sérmenntun (1. mgr. 38. gr.) … %
(Almenn menntun (2. mgr. 38. gr.) … %
Aðstoð vegna illa settra og fatlaðra starfsmanna (40.–42. gr.) Aðstoð vegna ráðningar illa settra starfsmanna í formi launastyrkja (40. gr.) … %
Aðstoð vegna ráðningar fatlaðra starfsmanna í formi launastyrkja (41. gr.) … %
Aðstoð til að vega upp á móti aukakostnaði við að hafa fatlaða starfsmenn í vinnu (42. gr.) … %
(1)    Þegar um er að ræða sérstaka svæðisaðstoð umfram aðstoð sem er veitt samkvæmt aðstoðarkerfi/-kerfum skal tilgreina bæði aðstoðarhlutfall samkvæmt kerfinu og hlutfall sérstöku aðstoðarinnar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta kveður á um heildastæða lagasetningu sem ætlað er að mynda ramma utan um hvaða ívilnanir stjórnvöldum, og eftir atvikum sveitarfélögum, er heimilt að veita vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Er frumvarpið afrakstur vinnu tveggja starfshópa á vegum iðnaðarráðherra og tekur mið af fyrirkomulagi ívilnana til nýfjárfestinga í öðrum ríkjum Evrópu.
    Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, frá maí 2009, segir að lögð verði „áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum“ og til að ná góðum og jöfnum hagvexti, sem sé forsenda fyrir nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi, þurfi að „stuðla að beinum erlendum fjárfestingum“. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er að finna nánari útfærsla á þessum áhersluatriðum ríkisstjórnarinnar að því er varðar eflingu nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi.
    Markmið frumvarpsins er að örva og efla fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi með því að tilgreina með gegnsæjum hætti í lögum hvaða heimildir stjórnvöld og sveitarfélög hafa til að veita skilgreindar ívilnanir til fjárfestingarverkefna. Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Hefur það fyrirkomulag reynst þungt í vöfum, ómarkvisst og ekki boðið upp á nægjanlegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum. Í stað þessa fyrirkomulags er, með þeirri rammalöggjöf sem hér er mælt fyrir um, lagt til að fyrir fram liggi fyrir hvaða ívilnandi kjör bjóðast vegna nýfjárfestinga hér á landi og þannig með gegnsæjum og markvissum hætti reynt að auka möguleika á því að fá til landsins fjölbreytta og jákvæða nýfjárfestingu. Víða í nágrannaríkjum Íslands eru sambærilegar ívilnanir og þær sem kveðið er á um í frumvarpinu í boði og væri því með slíkri lagasetningu verið að efla samkeppnishæfni Íslands hvað erlenda fjárfestingu varðar og gera Íslandi betur kleift að nýta þá sérstöðu sem landið hefur í alþjóðlegu tilliti. Verði frumvarpið að lögum er að sama skapi ferlið við gerð fjárfestingarsamninga stytt og einfaldað þar sem ekki yrði lengur þörf á sértækum heimildarlögum frá Alþingi og sérstöku samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir hvert einstakt fjárfestingarverkefni.
    Með frumvarpinu er lagt til ákveðið ríkisaðstoðarkerfi sem er háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er lagt til að lögin verði tímabundin til 31. desember 2013. Er sú dagsetning lögð til þar sem á sama tíma fellur úr gildi núgildandi byggðakort fyrir Ísland sem afmarkar heimildir íslenskra stjórnvalda til að veita byggðaaðstoð. Að auki eru aðrar þær heimildir til veitingar ríkisaðstoðar sem frumvarpið vísar til í stöðugri endurskoðun af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA. Þykir því eðlilegt að lögin séu tímabundin og að við lok gildistíma þeirra fari fram endurskoðun á lögunum, m.a. með hliðsjón af því hvernig til hafi tekist og þeim reglum sem gilda um ríkisaðstoð frá og með árinu 2014.
    Í almennum athugasemdum við lagafrumvarp þetta er gerð nánari grein fyrir forsögu frumvarpsins, fyrri framkvæmd í tengslum við ívilnanir vegna fjárfestinga, samanburði við önnur ríki Evrópu, efnislegu innihaldi frumvarpsins og framkvæmdar- og stjórnsýslulegum atriðum þess.

1. Aðdragandi frumvarpsins.
    Á fundi ríkisstjórnar 18. janúar 2008 var ákveðið að skipa starfshóp til að meta heildarávinning þess fyrir ríki og sveitarfélög ef fjárfestum í atvinnurekstri yrðu boðnar ívilnanir í þeim tilgangi að efla íslenskt atvinnulíf. Starfshópinn skipuðu Sveinn Þorgrímsson iðnaðarráðuneyti sem jafnframt var formaður, Andrés Svanbjörnsson iðnaðarráðuneyti, Elísabet Sigurðardóttir forsætisráðuneyti, Guðjón Bragason, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Halldórsson, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hanna Dóra Hólm Másdóttir iðnaðarráðuneyti, Ingvi Már Pálsson fjármálaráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir viðskiptaráðuneyti, Snorri Björn Sigurðsson Byggðastofnun, Stefanía Traustadóttir samgönguráðuneyti og Þórður H. Hilmarsson Fjárfestingarstofu. Var skýrsla þess starfshóps lögð fram til kynningar á fundi ríkisstjórnar þann 29. maí 2009 en hún byggist m.a. á mati á ívilnunum annarra þjóða, svo sem Írlands, Wales, Ungverjalands og Kanada, og heimildum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í skýrslunni kemur fram að helstu ívilnanir sem metnar voru og talið var að gætu hentað Íslandi væru:
          ívilnanir á grundvelli hefðbundinna fjárfestingarsamninga,
          framkvæmdastyrkir í upphafi (stofnívilnanir),
          tímabundinn skattaafsláttur,
          hliðrun á afskriftarreglum,
          styrkir til þjálfunar starfsfólks,
          ívilnanir vegna rannsókna og þróunar,
          hlutafjárframlag.
    Með vísan til framangreinds voru tillögur starfshópsins eftirfarandi:
     1.      Ráðist verði í nákvæma og ítarlega lagasetningu sem er forsenda þess að koma á kerfi fyrir markvissa beitingu ívilnana til að örva fjárfestingu á Íslandi.
     2.      Arðsemisútreikningar verði notaðir við mat á áhrifum mismunandi ívilnana og verði Fjárfestingarstofunni falið að annast matið í samráði við fjármálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
     3.      Ívilnanir verði því aðeins boðnar ef arðsemisútreikningar sýna ávinning fyrir Ísland, þ.m.t. samfélagslegan ávinning.
     4.      Ávinningur verði reiknaður út fyrir mismunandi ívilnanir allt að því hámarki sem EES-samningurinn segir til um.
    Á grundvelli framangreindrar skýrslu og með vísan til samstarfsyfirlýsingar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar 29. maí 2009 að skipa annan starfshóp til að útfæra tillögur um beitingu ívilnana til að örva fjárfestingar hér á landi og skyldi sá starfshópur skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps fyrir lok árs 2009. Þann starfshóp skipuðu Ingvi Már Pálsson iðnaðarráðuneyti sem jafnframt var formaður, Þóra M. Hjaltested efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Indriði H. Þorláksson fjármálaráðuneyti og Þórður H. Hilmarsson Fjárfestingarstofu.
    Frumvarp það sem hér er lagt fram er afrakstur vinnu framangreinds starfshóps. Til viðbótar við framangreinda skýrslu kannaði starfshópurinn nánar hvernig fyrirkomulag ívilnana til nýfjárfestinga í öðrum ríkjum Evrópu er háttað og átti starfshópurinn m.a. fund með Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem farið var yfir hvaða takmarkanir samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið setur íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að slíkum ívilnunum. Að auki hafði starfshópurinn samráð við ýmsa aðila sem að þessum málum koma.

2. Yfirlit yfir veitingu ívilnana vegna fjárfestinga á Íslandi.
    Almennt má segja að veiting ívilnana vegna fjárfestinga hér á landi hafi í gegnum tíðina verið ómarkviss og takmörkuð, a.m.k. í samanburði við það sem þekkist í nágrannaríkjum Íslands. Eftirfarandi dæmi má nefna um sértækar ívilnanir sem veittar hafa verið vegna einstakra framkvæmda.

2.1 Álver í Straumsvík.
    Sértækar lögbundnar ívilnanir fyrir erlenda fjárfestingu má rekja allt aftur til ársins 1966 þegar íslenska ríkið gerði samning við Swiss Aluminium Ltd, sbr. lög nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík. Í þeim lögum var kveðið á um frávik frá almennum skattareglum. Þau frávik eru ekki lengur í gildi þar sem fyrirtækið fór árið 2006, að eigin ósk, yfir í hið almenna íslenska skattakerfi. Ástæðan var m.a. sú að viðskiptaumhverfið var þá orðið mun samkeppnishæfara en áður og hafði tekið slíkum breytingum til bóta að stjórnendur álversins töldu hagstæðara að laga sig að íslenskum skattalögum.

2.2 Járnblendiverksmiðja á Grundartanga.
    Með lögum nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, var staðfestur samningur milli ríkisins og Elkem-Spigerverket A/S um verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði til framleiðslu á kísiljárni. Í þeim lögum, og aðalsamningi, er að finna ýmis frávik frá almennum skattareglum og því um sértæka ívilnun fyrir erlenda fjárfestingu að ræða.

2.3 Áliðnaður eftir 1997 (álver á Grundartanga, í Reyðarfirði og í Helguvík).
    Með lögum nr. 62/1997m um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, og lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík, er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera fjárfestingarsamninga við þar tilgreind félög sem stofnuð eru í þeim tilgangi að reisa og reka álver á viðkomandi stöðum. Samkvæmt þessum fjárfestingarsamningum og heimildarlögum skulu viðkomandi álver greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi nema að því leyti sem á annan veg er mælt í fjárfestingarsamningunum og heimildarlögunum. Í viðkomandi lögum er síðan með tæmandi hætti talið upp hvaða frávik, skattaleg sem önnur, gilda fyrir viðkomandi félög. Þessir þrír fjárfestingarsamningar eru í stórum dráttum sambærilegir, jafnt efnislega sem formlega. Í stuttu máli snúa þau frávik sem í þeim eru, þ.e. ívilnanir, að eftirfarandi þáttum: Trygging að tekjuskattshlutfall verði ekki hærra en ákveðin prósenta á gildistíma samningsins (15% í tilfelli Helguvíkur en 18% í tilfelli hinna eldri). Heimild til að fyrna eignir að fullu. Undanþága frá iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi og rafmagnsöryggisgjaldi. Sérreglur varðandi stimpilgjöld, skipulagsgjald og fasteignaskatta. Ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta.
    Fjárfestingarsamningarnir vegna álvers á Grundartanga og álvers í Helguvík eru til 20 ára en fjárfestingarsamningurinn vegna álvers í Reyðarfirði er til 40 ára.
    Í samræmi við 61. gr. EES-samningsins var Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnt um þá ríkisaðstoð sem í þessum fjárfestingarsamningum felst og féllst ESA í öllum þremur tilvikunum á þær röksemdir íslenskra stjórnvalda að um lögmæta byggaaðstoð væri að ræða í samræmi við það byggðakort sem gildir fyrir Ísland. Nánar er fjallað um reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð síðar í þessari greinargerð.

2.4 Kvikmyndagerð.
    Samkvæmt lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, er heimilt að endurgreiða úr ríkissjóði 20% af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Upphaflega var þetta endurgreiðsluhlutfall 12%. Um er að ræða sértækt ívilnunarkerfi og er tilgangur þess að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi og draga þannig að erlenda kvikmyndagerð til landsins. Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt það ríkisaðstoðarkerfi sem í lögunum felst.

2.5 Alþjóðleg viðskiptafélög.
    Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, fólu í sér sértæka ívilnun að því leyti að alþjóðleg viðskiptafélög sem skráð voru hér á landi áttu að greiða 5% tekjuskatt á meðan að almenna skatthlutfallið var 33%. Eins og fram kemur í frumvarpi að lögunum byggðust lögin á starfi og tillögum verkefnisstjórnar sem forsætisráðherra skipaði 1997 til að vinna að athugun á möguleikum þess að efna til sérhæfðrar alþjóðlegrar viðskiptastarfsemi utan lögsögu á Íslandi. Í kjölfar setningar laga nr. 31/1999 komst ESA að þeirri niðurstöðu að sú sértæka skattalega ívilnun sem fólst í lögunum væri í andstöðu við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð. Var íslenskum stjórnvöldum því gert skylt að afnema lögin og endurkrefja viðkomandi styrkþega um veitta ríkisaðstoð. Mál þetta fór fyrir EFTA-dómstólinn sem staðfesti niðurstöðu ESA.
    Af framangreindu má ráða að ívilnunum til að efla fjárfestingu á Íslandi hefur fram til þessa ekki verið beitt með markvissum hætti heldur fremur til að bregðast við einstaka verkefnum eða hugmyndum sem upp hafa komið á hverjum tíma.

3. Takmarkanir á heimild stjórnvalda til að veita ívilnanir vegna fjárfestinga út frá ákvæðum EES-samningsins.
    Í 61. gr. EES-samningsins kemur fram sú meginregla að óheimilt er að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Í sömu grein er einnig fjallað um undanþágur frá meginreglunni. Til fyllingar þessu ákvæði gefur ESA út leiðbeinandi reglur um form og efnisreglur í tengslum við ríkisaðstoð. Er þessum leiðbeinandi reglum skipt upp í kafla og tekur hver kafli breytingum eftir því sem þörf er metin á. Þannig er í hinum leiðbeinandi reglum t.d. að finna sér kafla um ríkisábyrgðir, byggðaaðstoð, aðstoð til skipasmíða, þjálfunaraðstoð, aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, rannsóknar- og þróunaraðstoð o.s.frv.

3.1 Reglur um byggðaaðstoð.
    Evrópusambandið hefur gefið út leiðbeinandi reglur um byggðaaðstoð. Núgildandi reglur gilda fyrir árin 2007–2013 og á grundvelli þessara reglna hefur hvert og eitt aðildarríkja hins Evrópska efnahagssvæðis sitt samþykkta byggðakort sem afmarkar hvaða byggðaaðstoð er heimil hjá viðkomandi ríki. Samkvæmt því byggðakorti sem gildir á Íslandi frá 2007–2013, sbr. ákvörðun ESA frá 6. desember 2006, mega íslensk stjórnvöld veita byggðastyrki til verkefna í landsbyggðarkjördæmunum þremur, þ.e. Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Hámark styrks má nema allt að 15% af stofnkostnaði einstakra fjárfestinga. Þó er mögulegt að hækka hann um 10% þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða og um 20% þegar um lítil fyrirtæki er að ræða. Með meðalstóru fyrirtæki er hér átt við fyrirtæki sem er með færri en 250 starfsmenn og með litlu fyrirtæki er átt við fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn. Þá er og svigrúm fyrir stjórnvöld til að veita ákveðna tegund af rekstrarstyrkjum svo sem flutningsstyrki til framleiðslufyrirtækja en almennt eru rekstrarstyrkir ekki leyfilegir nema í undantekningartilvikum.
    Öll áform um veitingu ríkisaðstoð á grundvelli byggðakortsins ber að tilkynna til ESA. Gæta verður sérstaklega að því þegar aðstoð er í formi skattaívilnana þar sem almennt er litið á frávik frá almennum sköttum sem rekstraraðstoð, þ.e. niðurgreiðsla á daglegum rekstrarkostnaði hjá viðkomandi fyrirtæki.
    Á myndinni má sjá nánar hvernig núgildandi byggðakort fyrir Ísland lítur út.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Samkvæmt leiðbeinandi reglum ESB um byggðaaðstoð gilda sérreglur um stærri fjárfestingarverkefni, þ.e. þegar kostnaður verkefnis er hærri en 50 milljónir evra. Lækkar þá hlutfall leyfilegrar ríkisaðstoðar í samræmi við aukna stærð verkefnis en það er í samræmi við þá stefnu ESB að beina byggðastyrkjum frekar að minni fjárfestingarverkefnum heldur en stærri verkefnum.

3.2 Reglur um aðra ríkisaðstoð en byggðaaðstoð.
    Ýmsar aðrar ívilnanir en byggðaaðstoð koma til skoðunar í tengslum við hvata til nýfjárfestinga. Þar má nefna ríkisaðstoð vegna kostnaðar við þjálfun og menntun starfsfólks, ríkisaðstoð vegna fjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja óháð staðsetningu verkefnis, ríkisaðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna og umhverfisverkefna. Um hverja tegund af slíkri ríkisaðstoð gilda sérstakar reglur innan Evrópusambandsins sem ná einnig til Íslands í gegnum almenn ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Eru þessar reglur tilgreindar í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. EES-samningsins (reglugerð um almenna hópundanþágu). Reglugerð sú er birt sem fylgiskjal við frumvarp þetta til áréttingar á þeim heimildum og leikreglum sem gilda um veitingu ríkisaðstoðar í formi almennra ívilnana vegna fjárfestinga á Íslandi, enda er með frumvarpinu með formlegum hætti verið að innleiða umrædda reglugerð í landsrétt.

4. Mikilvægi erlendrar fjárfestingar.
    Á síðustu áratugum hefur orðið gífurlegur vöxtur um heim allan á beinum erlendum fjárfestingum. Margar ástæður eru fyrir aukinni fjárfestingu milli landa en helst má þó nefna afnám hindrana á fjármálamarkaði sem átti sér stað fyrir síðustu aldamót, lægri flutnings- og samskiptakostnaður og meiri efnahagsleg velsæld. Með auknum erlendum fjárfestingum hefur á sama hátt skapast meira svigrúm fyrir harðari samkeppni milli landa en líka til meiri samþjöppunar fyrirtækja. Þá skilar fjárfesting oft miklum hagnaði og hefur í mörgum tilvikum jákvæð áhrif á landsframleiðslu þess lands sem tekur á móti henni. Verðmætaáhrif af erlendri fjárfestingu eru nýsköpun og þekking, viðskiptatengsl, atvinnuþróun, skatttekjur og aukið fjármagnsflæði.
    Kostir Íslands frá sjónarhóli fjárfesta eru margvíslegir. Dæmi um það eru umhverfisvænar orkuauðlindir landsins, hagstætt raforkuverð, hátt menntunarstig, sveigjanlegt vinnuafl, sértæk tækniþekking, landrými og hafnarskilyrði, fríverslunarsamningar, lágir fyrirtækjaskattar og stöðugleiki í stjórnkerfinu. Á móti kemur að á Íslandi er ekki til staðar almenn löggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga eins og þekkist víða í þeim löndum sem eru í samkeppni við að draga til sín jákvæða erlenda fjárfestingu. Markmið með frumvarpi þessu er því að auka samkeppnishæfni Íslands með því að koma á fót gegnsærri rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Reynsla undanfarinna ára af samskiptum Íslands við erlenda fjárfesta sýnir að mikilvægt er að hafa tiltækar upplýsingar fyrir fram um þau ívilnandi kjör sem þeim kunna að bjóðast hér á landi.

5. Löggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga í ríkjum Evrópu.
Tékkland.
    Í Tékklandi er sérstök löggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga í framleiðsluiðnaði. Þær ívilnanir sem þar eru í boði eru mismunandi eftir svæðum en um fjórar tegundir ívilnunar getur verið að ræða. Í fyrsta lagi undanþágu frá tekjuskatti fyrirtækja, að hluta eða öllu leyti, í fimm ár. Í öðru lagi fjárstuðning fyrir hvert starf sem viðkomandi fjárfestingarverkefni skapar. Í þriðja lagi aðstoð til að greiða hluta af þjálfunarkostnaði vegna verkefnis og í fjórða lagi aðstoð við lóðarkaup vegna verkefnis. Hámark fjárfestingaraðstoðar samkvæmt framangreindu er 40% af fjárfestingarkostnaði. Skilyrði þess að hljóta ívilnun er að um nýja fjárfestingu sé að ræða, fjárfestingin verður að vera a.m.k. að fjárhæð um 2 milljónir evra og þar af verður helmingurinn að vera fjármagnaður af fjárfesti, fjárfestingin verður að vera a.m.k. 5 ár í landinu, óheimilt er að hefja fjárfestingarverkefnið fyrr en búið er að veita ívilnun og framkvæmdin verður að vera umhverfislega jákvæð.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt framangreint ívilnunarkerfi í Tékklandi og í byrjun árs 2009 höfðu um 600 fyrirtæki hlotið ívilnun samkvæmt þessu ívilnunarkerfi.

Svíþjóð.
    Í Svíþjóð eru í boði fyrir fjárfesta svæðisbundnir fjárfestingarstyrkir og svæðisbundnir styrkir (byggðaaðstoð) til atvinnusköpunar. Ívilnunin nær því til ákveðinna svæða í Svíþjóð og er ákveðið hlutfall af fjárfestingarkostnaði eða launakostnaði. Hámark ívilnunar er háð stærð viðkomandi fyrirtækis, staðsetningu verkefnis og hvers eðlis fjárfesting er. Getur ívilnunin orðið allt að 50% af fjárfestingarskostnaði. Að auki er á ákveðnum jaðarsvæðum í Svíþjóð veittur afsláttur af tryggingargjaldi til að efla fjárfestingu á svæðinu.

Finnland.
    Í Finnlandi er fjárfestingaraðstoð í boði vegna fjárfestinga á tilteknum svæðum (byggðaaðstoð). Fjárfestingaraðstoðin er háð stærð viðkomandi fyrirtækis og staðsetningu verkefnis. Að hámarki getur aðstoðin numið 35% af fjárfestingarkostnaði. Til viðbótar við fjárfestingaraðstoð eru einnig í boði flutningsstyrkir, þjálfunaraðstoð, umhverfisstyrkir, aðstoð vegna rannsóknar- og þróunarverkefna og skattaívilnun í formi hærri fyrningarhlutfalls vegna fastafjármuna.

Írland.
    Á Írlandi eru margvíslegar ívilnanir í boði fyrir fjárfesta og hafa Írar á undanförnum árum gengið hvað lengst í að veita slíkar ívilnanir með góðum árangri. Fyrir utan lága fyrirtækjaskattlagningu bjóða Írar upp á skattaleg frávik vegna fjárfestinga, styrki til rannsóknar- og þróunarverkefna, þjálfunarstyrki og stofnfjárstyrki. Hefur Írland ríkar heimildir til að veita byggðaaðstoð samkvæmt því byggðakorti sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt fyrir Írland.

Skotland.
    Í Skotlandi er annars vegar sérstök löggjöf um ríkisaðstoð vegna fjárfestinga á ákveðnum svæðum í landinu (byggaaðstoð) og hins vegar löggjöf um þjálfunaraðstoð vegna fjárfestingarverkefna. Bæði ríkisaðstoðarkerfin eru í samræmi við þær reglur sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett um slíka ríkisaðstoð.

Grikkland.
    Sérstök löggjöf er í Grikklandi um ívilnanir vegna fjárfestinga. Slíkar ívilnanir eru ýmist í formi stofnfjárstyrks, niðurgreiðslu launakostnaðar eða skattfrádráttar. Ívilun er mismikil eftir tegund fjárfestingar og staðsetningu fjárfestingarverkefnis og getur að hámarki verið 40% af fjárfestingarkostnaði.

Slóvakía og Króatía.
    Í Slóvakíu og Króatíu er efnislega sams konar löggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga og er til staðar í Tékklandi og lýst er að framan.

Kanada.
    Í Kanada er 15% tekjuskattsfrádráttur í boði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Einnig eru aðrar skattalegar ívilnanir í boði vegna nýfjárfestinga.

6. Efnisatriði frumvarpsins.
    Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um markmið og gildissvið laganna. Eins og fram hefur komið í lýsingu á aðdraganda frumvarpsins er fyrirhugað markmið laganna að örva og efla nýfjárfestingu á Íslandi og stuðla þannig að styrkingu á íslensku atvinnulífi. Frumvarpið kveður þannig á um skilgreindar ívilnanir sem heimilt er að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi. Ekki skiptir þar máli hvort um erlenda fjárfestingu sé að ræða eða innlenda þar sem horft er til eðlis og áhrifa viðkomandi fjárfestingarverkefnis en ekki uppruna við mat á því hvort veita eigi ívilnun til fjárfestingarverkefnis. Komi til veitingar ívilnunar er lagt til að iðnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og eftir atvikum sveitarfélaga, undirriti samning vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis þar sem skyldur og réttindi aðila að samningnum eru útfærð, sbr. nánar V. kafla frumvarpsins.
    Með ívilnunum er átt við leyfilega ríkisaðstoð sem tilgreind er í III. og IV. kafla frumvarpsins. Hugtakið ríkisaðstoð nær bæði til aðstoðar frá ríki og sveitarfélögum og er því í frumvarpinu gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga við veitingu ívilnana. Er það í samræmi við fyrri aðkomu sveitarfélaga að þeim fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið vegna erlendra fjárfestinga hér á landi.
    Í II. kafla frumvarpsins er kveðið á um umsóknarferli vegna ívilnana sem og skilyrði fyrir veitingu ívilnana. Lagt er til að fjárfesti sem óskar eftir ívilnun í tengslum við ákveðið fjárfestingarverkefni verði gert að leggja fram umsókn til sérstakrar nefndar á vegum iðnaðarráðherra um veitingu ívilnana. Nánar er fjallað um þessa nefnd og málsmeðferð í tengslum við umsókn í V. kafla frumvarpsins. Í 5. gr. frumvarpsins er tilgreint hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt þegar lagt er mat á það hvort veita eigi ívilnun vegna fjárfestingar samkvæmt lögunum. Eru þau skilyrði eftirfarandi:
     a.      að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi,
     b.      að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, þá aðila sem að því standa og hvernig fjármögnun er háttað,
     c.      að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki þegar hafið og að sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi,
     d.      að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði sé fjármagnaður án ríkisaðstoðar og þar af sé að lágmarki 20% fjármagnað af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun,
     e.      að árleg velta vegna fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfestingin skapi a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess,
     f.      að fyrir liggi arðsemisútreikningar, sbr. 18. gr., sem sýni fram á að viðkomandi nýfjárfesting sé þjóðhagslega hagkvæm út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu,
     g.      að um nýfjárfestingu sé að ræða, sbr. 3. gr., og að tæki og búnaður sem kemur til vegna fjárfestingarinnar sé nýr,
     h.      að viðkomandi nýfjárfesting verði notuð að lágmarki til fimm ára starfrækslu á Íslandi,
     i.      að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og teljist ekki óæskileg í umhverfislegu tilliti,
     j.      að ekki séu fyrir hendi, hjá viðkomandi félagi eða eigendum þess, vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi eða endurgreiðslukrafa samkvæmt 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og að viðkomandi félag sé ekki í fjárhagslegum erfiðleikum eða fjárhagslegri endurskipulagningu í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til endurskipulagningar eða björgunar fyrirtækja.
    Með framangreindum skilyrðum er reynt að tryggja að eingöngu sé veitt ívilnun til fjárfestingarverkefna sem leiði til raunverulegrar eflingar íslensku atvinnulífi og hafi jákvæð efnahagsleg jafnt sem samfélagsleg áhrif í för með sér. Að auki eru skilyrðin í samræmi við þær reglur sem gilda á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um veitingu ríkisaðstoðar í formi fjárfestingaraðstoðar, sbr. leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um byggðaaðstoð fyrir árin 2007–2013, sbr. ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA 85/06/COL, frá 6. apríl 2006 sem birt var 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11, bls. 1. Í þeim reglum kemur fram að skilyrði þess að heimila fjárfestingartengda byggðaaðstoð séu m.a. að aðstoðin sé forsenda þess að viðkomandi fjárfestingarverkefni verði að veruleika, að um nýfjárfestingu sé að ræða, að meiri hluti verkefnisins sé fjármagnaður án ríkisaðstoðar, að viðkomandi fjárfestir fjármagni verkefnið sjálfur að einhverju leyti og að viðkomandi fjárfesting verði í landinu um ákveðið skeið. Eru þessi skilyrði í 5. gr. frumvarpsins því sambland krafna sem leiða af regluverki Evrópusambandsins um ríkisaðstoð og markmiða stjórnvalda um að leggja fram hvata að varanlegri, jákvæðri og umhverfisvænni nýfjárfestingu til eflingar atvinnulífinu. Jafnframt var við gerð frumvarpsins höfð hliðsjón af 4. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, þar sem með tæmandi hætti er talið upp hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.
    Í III. kafla frumvarpsins er fjallað sérstaklega um hvaða ívilnanir séu heimilaðar á þeim grundvelli að um byggðaaðstoð ( regional aid), í skilningi EES- samningsins, sé að ræða. Eins og fram hefur komið er sú aðstoð veitt á grunni þess byggðakorts sem gildir fyrir Ísland til ársloka 2013 og kveður almennt á um að hámarki 15% fjárfestingaraðstoð sem hlutfall af fjárfestingarkostnaði viðkomandi verkefnis, en lægri styrkhlutfall gildir þó fyrir stærri verkefni. Samkvæmt byggðakorti Íslands er það skilyrði fyrir styrkveitingu að fjárfestingarverkefnið sé í einhverju af landsbyggðarkjördæmunum þremur, auk annarra skilyrða sem koma fram í áðurgreindum leiðbeinandi reglum um byggðaaðstoð fyrir árin 2007–2013. Samkvæmt frumvarpinu getur byggðaaðstoð að formi til verið beinn stofnfjárstyrkur, sem frávik frá tilteknum sköttum og opinberum gjöldum eða sem niðurgreiðsla á landi eða lóð undir nýfjárfestingu. Þær ívilnanir sem snúa að sköttum eða opinberum gjöldum sem lagðar eru til í III. kafla eru í formi bindingar hámarkstekjuskattshlutfalls þess félags sem reisir og rekur fjárfestingarverkefnið í tíu ár, auknar heimildir til fyrningar eigna, undanþágu frá iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi og eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um öryggi raforkuvirkja o.fl., lækkun á stimpilgjaldi, 30% lækkun á fasteignaskatti, 20% lækkun á almennu tryggingagjaldi, undanþága frá tollum og vörugjöldum vegna innflutnings og kaupum viðkomandi félags á byggingarefnum, vélum, tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess, og heimild til að fresta álagningu, fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna uppbyggingar viðkomandi fjárfestingarverkefnis. Framangreindar ívilnanir endurspegla ívilnanir í fyrri fjárfestingarsamningum og ívilnanir í ríkisaðstoðarkerfum annarra ríkja sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um aðrar almennar ívilnanir sem koma til greina vegna nýfjárfestinga hér á landi, þ.e. óháð staðsetningu fjárfestingarverkefnis. Í þeim tilvikum er lagt til að ramminn fyrir veitingu slíkra ívilnana verði ákvarðaður í samræmi við ákvæði reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 þar sem tilgreindir eru flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sú reglugerð liggur til grundvallar þeim efnisreglum sem gilda í Evrópuréttinum um hvers konar ríkisaðstoð sé heimilt að veita, og upp að hvaða marki, án þess að tilkynna beri viðkomandi eftirlitsstofnun fyrir fram um veitingu hennar og fá samþykkta. Þær ívilnanir vegna nýfjárfestinga sem tilgreindar eru í IV. kafla eru þjálfunaraðstoð, aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, aðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna og aðstoð til umhverfistengdra fjárfestingarverkefna. Til samræmis við fyrri fjárfestingarsamninga er síðan kveðið á um það að í samningi skv. 21. gr. verði heimilt að kveða á um að viðkomandi félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið skuli undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar, undanþegið ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum, og undanþegið ákvæðum laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, enda viðhaldi félagið fullnægjandi viðlagatryggingu.
    Í V. kafla frumvarpsins er kveðið á um þá nefnd sem leggja ber mat á hvort og með hvaða hætti veita eigi ívilnanir til nýfjárfestinga á grundvelli laganna. Jafnframt er kveðið á um þá arðsemisútreikninga sem ber að viðhafa áður en ákvörðun er tekin um að bjóða ívilnun, með það fyrir augum að reyna að tryggja að veiting ívilnunar hafi í för með sér efnahagslegan og samfélagslegan ávinning fyrir Ísland, jafnt til lengri sem skemmri tíma. Í kaflanum er fjallað um framkvæmdarleg atriði í sambandi við veitingu ívilnunar, þ.e. boð um ívilnun, samning um ívilnun, hámark leyfilegrar ívilnunar, eftirlit með notkun ívilnunar og afturköllun eða endurgreiðslu ívilnunar. Gert er ráð fyrir því að nefndin hafi ákveðið svigrúm til veitingu ívilnana innan þess ramma sem lagður er til með frumvarpinu. Þannig gefst kostur á að hafa mismunandi samsetningu ívilnana eftir ólíkum fjárfestingarverkefnum og ólíkri staðsetningu þeirra. Í störfum sínum getur nefndin því, að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, t.d. veitt ríkari ívilnanir til fjárfestingarverkefna á ystu jaðarsvæðum (t.d. Vestfjörðum eða Norðurlandi eystra) en til fjárfestingarverkefna í námunda við höfuðborgarsvæðið séu fyrir því málefnaleg rök og að því gefnu að veitingin sé innan ramma þeirra hámarka sem sett eru með lögunum.
    Útilokað er að meta af einhverri nákvæmni beinan kostnað ríkissjóðs af því ríkisaðstoðarkerfi sem í frumvarpinu felst, en það er margþætt eins og fram kemur í tillögum frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að í fjárlögum fyrir árið 2011 verði kveðið á um hvað ívilnanir í formi beinna útgreiðslna úr ríkissjóði megi samtals nema á því ári, og svo sambærilegt fyrir árin 2012 og 2013, en sams konar fyrirkomulag er í tengslum við lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Í tilviki ívilnana tengdum sköttum eða opinberum gjöldum er hins vegar samkvæmt frumvarpinu ekki gert ráð fyrir beinum fjárútlátum ríkissjóðs heldur tilgreinda lækkun á skatttekjum sem koma til vegna viðkomandi fjárfestingarverkefna sem farið er í á grundvelli laganna og hefðu þannig ella ekki fallið til hér á landi. Í lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, er þannig t.d. ekki kveðið á um að sá skattfrádráttur og skattafsláttur sem þar er tilgreindur fyrir nýsköpunarfyrirtæki sé háður fjárveitingu Alþingis hverju sinni.
    Markmið stjórnvalda er sem áður segir að stuðla að aukinni nýfjárfestingu og þar með verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Lagt er til grundvallar að sú verðmætasköpun muni leiða til aukinna skatttekna, bæði beinna og óbeinna, til allrar framtíðar, sem búast má við að geri betur en að vega upp beinan kostnað af þeirri ríkisaðstoð sem efnt er til í þessu sambandi. Hver nettóáhrifin verða til lengri tíma litið á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga og þjóðarbúsins alls er útilokað að meta í fjárhæðum á þessu stigi, en við fyrirhugaða endurskoðun laganna, í lok árs 2013, ætti að vera komin skýrari mynd á það.
    Í tengslum við fjármögnun á slíku ríkisaðstoðarkerfi sem hér er mælt fyrir um má nefna að víða í nágrannaríkjum Íslands í Evrópu eru slík kerfi fjármögnuð sameiginlega af viðkomandi ríki og með framlögum úr sjóðum Evrópusambandsins. Ísland hefur í dag ekki aðgang að slíkum sjóðum Evrópusambandsins þar sem Ísland er ekki aðildarríki að Evrópusambandinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er kveðið á um markmið frumvarpsins en það er að efla nýfjárfestingar í atvinnulífinu á Íslandi með því að kveða á um hvaða ívilnanir heimilt er að veita til fjárfestingarverkefna. Með slíku ríkisaðstoðarkerfi, sem með frumvarpinu er lagt til, er á sama tíma samkeppnishæfni Íslands aukin í hinni alþjóðlegu samkeppni sem ríkir um jákvæðar erlendar fjárfestingar. Um skýringar við greinina vísast að öðru leyti til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 2. gr.

    Með greininni er kveðið á um gildissvið laganna en það er afmarkað við þær ívilnanir sem tilgreindar eru í frumvarpinu og heimilt er að veita aðilum vegna nýfjárfestingar hér á landi.
    Með greininni er enn fremur lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að gera á grundvelli laganna, fjárfestingarsamninga við einstaka fjárfesta, fyrir hönd stjórnvalda og, eftir atvikum sveitarfélaga. Í 21. gr. frumvarpsins er nánari umfjöllun um samninga þá sem iðnaðarráðherra er heimilt að gera á grundvelli laganna.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er aðkoma sveitarfélaga að veitingu ívilnana vegna fjárfestingarverkefna innan umdæma þeirra bæði nauðsynleg og eðlileg. Í þeim fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið er víða að finna sérákvæði um fasteignaskatta, lóðarleigu og annað sem er á forræði sveitarfélaga. Þrátt fyrir að fulltrúar sveitarfélaga hafi ekki hingað til undirritað viðkomandi fjárfestingarsamninga hafa verið gerðir samhliða samningar milli sveitarfélaga og viðkomandi fjárfesta þar sem kveðið er á um þessi atriði (sbr. samningar um opinber gjöld, lóðarsamningar og hafnarsamningar). Með frumvarpinu er lagt til að þessi aðkoma sveitarfélaga að fjárfestingarverkefnum verði áfram tryggð samanber nánar ákvæði 17. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að lögin nái ekki til fjárfestinga í fjármálastarfsemi. Er slíka afmörkun að finna í sambærilegum ríkisaðstoðarkerfum í nágrannaríkjum Íslands. Fjárfestingar í fjármálastarfsemi eru annars eðlis en beinar fjárfestingar í atvinnurekstri og erfiðleikum bundið að afmarka hvað felst í nýfjárfestingu í fjármálastarfsemi og meta áhrif slíkra fjárfestinga með áþreifanlegum hætti.

Um 3. gr.

    Með greininni eru lagðar til skilgreiningar á nokkrum hugtökum sem er að finna í frumvarpinu. Í flestum tilvikum eru skilgreiningarnar á þessum hugtökum teknar með beinum hætti úr þeim reglum Evrópusambandsins sem gilda um veitingu ríkisaðstoðar á Evrópska efnahagssvæðinu, samanber umfjöllun í almennum athugasemdum.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að umsóknir um ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis sendist til iðnaðarráðuneytisins. Jafnframt að iðnaðarráðherra skipi þriggja manna nefnd sem meti umsóknir og geri tillögur til ráðherra um afgreiðslu þeirra, sbr. umfjöllun um 17. gr. frumvarpsins. Skilyrði er að beiðni um umsókn berist ráðuneytinu áður en framkvæmdir við fjárfestingarverkefnið hefjast, svo að meta megi umsóknina og hvort skilyrði 5. gr. frumvarpsins séu uppfyllt.

Um 5. gr.

    Með greininni eru sett fram þau skilyrði sem umsækjandi verður að uppfylla til að eiga hugsanlegan rétt til ívilnunar vegna nýfjárfestingar hér á landi.
    Fyrsta skilyrði er að sett verði á fót sérstakt félag sem skráð yrði hér á landi um fjárfestingarverkefnið. Skýrist það skilyrði af því að nauðsynlegt er að ákveðinn lögaðili sé skilgreindur sem sá aðili sem reisir og rekur fjárfestingarverkefnið og nýtur því þeirrar ívilnunar sem veitt er til verkefnisins. Einnig er skilyrðið sett í því augnamiði að tryggja að gjaldfærsla kostnaðar og uppgjör fari að íslenskum lögum, tekjur og launakostnaður verði skattlagður hér á landi og til að rekstri vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis sé ekki blandað saman við annan rekstur hjá viðkomandi félagi.
    Í öðru lagi þurfa að liggja fyrir greinargóðar upplýsingar um fjárfestingarverkefnið svo að unnt sé að leggja mat á hvort það uppfylli skilyrði laganna o.s.frv. Þannig ber að upplýsa með gegnsæum hætti um alla þá aðila sem að fjárfestingarverkefninu koma og eigendur þess félags sem stofnað er um fjárfestinguna, hvernig fjármögnun er háttað, hvernig rekstrar- og viðskiptaáætlun verkefnisins er fyrirséð, atvinnu- og verðmætasköpun, hvernig uppsetning verkefnisins er fyrirhuguð og til hversu langs tíma starfsemin er fyrirhuguð.
    Í þriðja lagi er skilyrði að fyrirhugað verkefni sé ekki þegar hafið þegar sótt er um ívilnun og að ívilnunin sé forsenda þess að verkefnið verði að veruleika. Þetta skilyrði er í samræmi við áðurnefndar leiðbeinandi reglur Evrópusambandins um byggðaaðstoð til fjárfestingarverkefna þar sem veiting slíkrar ríkisaðstoðar er eingöngu réttlætanleg ef hún er forsenda þess að ráðist er í ákveðið fjárfestingaverkefni, þ.e. myndar nægjanlega sterkan hvata til þess ( incentive effect).
    Í fjórða lagi er skilyrði að a.m.k. 20% af fjárfestingarkostnaði verkefnis sé fjármagnaður af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun. Er það til að tryggja að um raunverulega fjárfestingu sé að ræða sem ákveðinn fjárfestir stendur að baki. Jafnframt að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði sé fjármagnaður án opinberrar aðstoðar. Er það hlutfall í samræmi við ákvæði laganna sem heimila að hámarki 35% ríkisaðstoð til einstaks fjárfestingarverkefnis, þ.e. sem hlutfall af fjárfestingarkostnaði. Er kveðið á um bæði þessi skilyrði í áðurnefndum leiðbeinandi reglum ESA um byggðaaðstoð.
    Í fimmta lagi að árleg velta vegna viðkomandi verkefnis sé a.m.k. 300 m.kr. eða að fjárfestingin skapi, við rekstur verkefnisins, a.m.k. 20 ársverk á fyrstu tveimur árum verkefnisins. Með því móti er tryggt að fjárfestingarverkefnin séu af þeirri stærð að þau hafi merkjanlega efnahagslega þýðingu og séu þar af leiðandi líkleg til að efla í raun íslenskt atvinnulíf. Hafa ber í huga að því ríkisaðstoðarkerfi sem lagt er til með frumvarpinu er ekki ætlað að ná til allra hugsanlegra fjárfestingarverkefna í landinu, óháð stærð og efni, og er því með ákvæðinu settur ákveðinn þröskuldur varðandi umfang verkefnis. Með hliðsjón af því að eðli fjárfestingarverkefna er ólíkt, sum eru mannaflsfrek en önnur ekki o.s.frv., er með ákvæðinu kveðið á um annars vegar tiltekin ársverk og hins vegar tiltekna árlega veltu. Benda má á að samkvæmt skilgreiningu á litlu fyrirtæki, sbr. 3. gr. frumvarpsins, getur fyrirtæki að slíkri stærðargráðu fallið undir þetta ákvæði frumvarpsins.
    Í sjötta lagi að fyrir liggi arðsemisútreikningar, sbr. 18. gr., sem sýni fram á að viðkomandi fjárfesting sé þjóðhagslega hagkvæm út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun og útflutnings- og skatttekjum. Nánar er vísað til umfjöllunar um 18. gr. frumvarpsins.
    Í sjöunda lagi að um nýfjárfestingu sé að ræða, sbr. skilgreiningu í 3. gr., og að búnaður sé nýr. Eingöngu er heimilt að veita ívilnun vegna nýfjárfestingar sem sé umhverfislega ekki óæskileg og er því gerð krafa um að tæki og búnaður sé nýr. Sams konar krafa þekkist í erlendri löggjöf um ívilnanir og er þetta skilyrði í samræmi við hinar leiðbeinandi reglur ESA um byggðaaðstoð.
    Í áttunda lagi að viðkomandi fjárfesting verði að lágmarki til fimm ára í landinu. Slíkt skilyrði er víða að finna í ívilnanalöggjöf í nágrannaríkjum Íslands og er til að tryggja efnahags- og samfélagslegan ávinning af fjárfestingunni. Að auki er skilyrðið í samræmi við hinar leiðbeinandi reglur ESA um byggðaaðstoð.
    Í níunda lagi að starfsemi viðkomandi félags sem nýtur ívilnunar sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Eðlilegt er að gera slíka kröfu ef veita á ívilnun til fjárfestingarverkefnis. Með því að tilgreina að viðkomandi fjárfesting teljist ekki vera óæskileg í umhverfislegu tilliti er verið að árétta að íslensk umhverfislöggjöf nær að fullu til viðkomandi nýfjárfestingar. Er því ekki með þessu orðalagi um ríkari kröfu að ræða en gerð er samkvæmt núgildandi landslögum almennt til nýfjárfestingarverkefna að því er varðar umhverfismál.
    Í tíunda lagi að ekki séu fyrir hendi, hjá viðkomandi félagi eða eigendum þess, vangreiddir skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga hér á landi né heldur endurgreiðslukrafa skv. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og að viðkomandi félag sé ekki í fjárhagslegum erfiðleikum eða fjárhagslegri endurskipulagningu í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um ríkisaðstoð til endurskipulagningar eða björgunar fyrirtækja. Eðlilegt er að gera slíka kröfu ef veita á ívilnun til fjárfestingarverkefnis og er það í samræmi við almennar reglur Evrópusambandsins um veitingu ríkisaðstoðar.
    

Um 6. gr.

    Með greininni er mælt fyrir um hvaða ívilnanir heimilt er að veita til fjárfestingarverkefna með þeirri réttlætingarástæðu að um byggðaaðstoð ( regional aid) sé að ræða. Í greininni er vísað til þess að heimildirnar takmarkist í samræmi við þær skuldbindingar Íslands sem leiða af samkeppnisákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en ákvæði 61.–64. gr. samningsins, sem vísað er til í greininni, fjalla um ríkisaðstoð. Sérákvæði um byggðaaðstoð er síðan að finna í leiðbeinandi reglum ESA um byggðaaðstoð, sem gilda frá 2007–2013, og ákvörðun ESA nr. 378/06/COL um byggðakort það sem ESA hefur samþykkt fyrir Ísland og gildir til loka árs 2013. Um skýringar við greinina vísast nánar til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 7. gr.

    Með greininni er kveðið á um hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar. Slíkt hámark fer eftir þeim reglum sem gilda um byggðaaðstoð sem Ísland hefur undirgengist í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Lagt er til að ráðherra muni með reglugerð kveða nánar á um þær efnisreglur sem leiða af regluverki Evrópusambandsins á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag byggðaaðstoðar. Um nánari skýringar við greinina vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.
    Í leiðbeinandi reglum ESB um byggðaaðstoð er að finna ítarlegar efnisreglur um veitingu byggðaaðstoðar. Þar er m.a. að finna hvernig reikniformúlur um hvernig reikna skuli út leyfilega hámarksaðstoð vegna fjárfestingarverkefna sem eru stærri en 50 milljónir evra en hámark leyfilegrar aðstoðar lækkar eftir því sem fjárfesting er stærri. Er lagt til að ráðherra setji reglugerð þar sem fram komi þessar reiknireglur vegna stærri fjárfestingarverkefna.

Um 8. gr.

    Með greininni er kveðið á um eitt form af byggðaaðstoð, þ.e. beinan fjárstuðning. Slík ríkisaðstoð getur jafnt komið frá ríki eða sveitarfélagi og er ætlað að vera stofnfjárstyrkur til að ýta ákveðnu fjárfestingarverkefni úr vör. Slíkur stofnfjárstyrkur fellur því að jafnaði til þegar í upphafi verkefnisins. Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag hins beina fjárstuðnings.

Um 9. gr.

    Með greininni er kveðið á um annað form af byggðaaðstoð, þ.e. ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum. Slíkar ívilnanir eru vel þekktar og sem dæmi um þær hér á landi má nefna fjárfestingarsamninga við álver á Grundartanga, í Reyðarfirði og í Helguvík, samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Í greininni er talið upp með tæmandi hætti hvaða ívilnanir í formi frávika frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld er heimilt að veita til fjárfestingarverkefna hér á landi.
    Er sérstaklega tilgreint að þau frávik sem talin eru upp séu eingöngu fyrir það félag (lögaðila) sem, skv. a-lið 5. gr. frumvarpsins, er stofnað um nýfjárfestinguna og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið. Er það í samræmi við afmörkun fyrri fjárfestingarsamninga og heimildarlaga á því hvaða aðili það er sem á rétt á viðkomandi ívilnun.
    Nauðsynlegt er að tilgreina öll slík frávik með tæmandi hætti með vísan til þess að skv. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands skal skattamálum „skipað með lögum“. Þannig má ekki fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann og enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Samkvæmt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar hafa því stjórnvöld takmarkaða heimild til að semja um skattamál hvers og eins fjárfestis sem óskar eftir ívilnun. Sá rammi sem ákvarðar skattskyldu hvers lögaðila verður að liggja fyrir í lögum. Hin tæmandi upptalning í 2. mgr. greinarinnar er því sett fram með hliðsjón af 77. gr. stjórnarskrárinnar en jafnframt að teknu tilliti til þess að stjórnvöld hafi ákveðið svigrúm við samsetningu ívilnana vegna ólíkra fjárfestingarverkefna.
    Í upptalningu 2. mgr. er í fyrsta lagi lagt til að heimilt verði að kveða á um að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skuli í tíu ár frá því að skattskyldar tekjur myndast hjá félagi aldrei vera hærra en það tekjuskattshlutfall sem í gildi er þegar samningur skv. 21. gr. er gerður við félagið. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið. Sambærilegt ákvæði er að finna í núgildandi fjárfestingarsamningum og veitir það fjárfesti ákveðið rekstrarlegt öryggi gegn hugsanlegum tekjuskattshækkunum á fyrstu tíu árum framkvæmdarinnar.
    Í öðru lagi er kveðið á um heimild til að fyrna nýjar eignir á því ári þegar þær eru teknar í notkun, í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar. Er ákvæðið sams konar og í eldri fjárfestingarsamningum.
    Í þriðja lagi er ákvæði um fyrningu kostnaðar að fullu (100%) af búnaði sem notaður er eða fyrirhugað er að nota í viðkomandi nýfjárfestingu, en samkvæmt tekjuskattslögum er eingöngu heimilt að fyrna búnað að 90%. Er ákvæðið sams konar og í eldri fjárfestingarsamningum.
    Í fjórða lagi eru tilgreindar undanþágur frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi í tíu ár frá upphafi rekstrar félags. Endurspegla þær undanþágur frávik sem eru til staðar í eldri fjárfestingarsamningum. Í mörgum tilvikum er um að ræða markaðar tekjur til verkefna sem viðkomandi félög hafa ekki not af.
    Í fimmta lagi er að finna ákvæði um stimpilgjöld sem eru sambærileg þeim sem er að finna í eldri fjárfestingarsamningum, þ.e. að stimpilgjöld af skjölum sem gefin eru út í tengslum við fjárfestingarverkefnið séu 0,15% í tíu ár frá því gjaldskylda myndast.
    Í sjötta lagi er lögð til undanþága frá tilteknum gjaldaákvæðum í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í tíu ár frá því gjaldskylda myndast. Sams konar ákvæði er að finna í fyrri fjárfestingarsamningum (með lengri tíma þó). Þau rafföng sem viðkomandi félög flytja inn og kunna að falla undir þessi ákvæði fara í mörgum tilvikum, sbr. fyrri fjárfestingarsamninga, ekki á almennan markað og þarf Neytendastofa því ekki að hafa eftirlit með þeim. Af þeim sökum er lagt til að heimilt verði að veita undanþágu frá þessum sérgreindu gjöldum.
    Í sjöunda lagi er að finna heimild fyrir sveitarfélög til að lækka skatthlutfall fasteignaskatts fyrir viðkomandi félag um 30% frá því lögbundna hámarki sem kveðið er á um í lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, í tíu ár frá því skattskylda myndast. Ákvæði um frávik frá fasteignaskatti er að finna í fyrri fjárfestingarsamningum og um slíkt hefur verið samið beint á milli fjárfestis og viðkomandi sveitarfélags og er sem áður segir ekki gert ráð fyrir því að það fyrirkomulag breytist í meginatriðum með lögum þessum. Með vísan til framangreindra ákvæða stjórnarskrár verður frávikið hins vegar að vera lögbundið og því ekki unnt að semja um ólík frávik í hverju tilviki fyrir sig án lagaheimildar, og er því lagt til að heimild til afsláttar frá fasteignagjöldum verði framangreind 30% frá hinu lögbundna hámarki, í tíu ár.
    Í áttunda lagi er að finna heimild til lækkunar tryggingagjalds að því leyti að skatthlutfall almenns tryggingagjalds viðkomandi félags sé 20% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, í tíu ár frá því að skattskylda myndast hjá félagi samkvæmt lögum nr. 113/1990. Er þetta ákvæði fyrst og fremst hugsað fyrir fjárfestingar í jaðarbyggðum en fyrirkomulag með lægra tryggingagjald fyrir afmörkuð svæði þekkist m.a. í jaðarbyggðum Svíþjóðar, Noregs og Finnlands.
    Í níunda lagi er að finna heimild til að veita undanþága frá tollum og vörugjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, vegna innflutnings og kaupa viðkomandi félags eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum, tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess. Er um sams konar ákvæði að ræða og í fyrri fjárfestingarsamningum.
    Í tíunda lagi er að finna heimild til að fresta álagningu, fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna uppbyggingar viðkomandi fjárfestingarverkefnis. Er um sams konar ákvæði að ræða og í fyrri fjárfestingarsamningum.
    Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag ívilnana sem tengdar eru sköttum og opinberum gjöldum.
    Til samræmis við ákvæði í fyrri fjárfestingarsamningum er jafnframt lagt til að með samningi skv. 21. gr. verði heimilt að kveða á um að ekki skuli leggja á félag, sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, umhverfisskatta eða skatta á raforkukaup eða notkun, nema slíkir skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi og mismuni ekki viðkomandi félagi að öðru leyti.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til að ríki eða sveitarfélög hafi heimild til að leigja eða selja lóð eða land undir viðkomandi nýfjárfestingarverkefni á verði sem telst vera undir almennu markaðsverði. Lóðarsamningar hafa verið hluti af fyrri fjárfestingarsamningum þar sem í sumum tilfellum hefur falist ríkisaðstoð í sölu eða leigu á landi undir viðkomandi fjárfestingarverkefni. Víða í nágrannalöndum okkar er land og lóðir undir fjárfestingarverkefni á hagstæðu verði stór hluti af því ívilnunarkerfi sem þar er í boði, t.d. í Tékklandi. Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 21. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar sem tengd er sölu eða leigu á landi eða lóð.

Um 11. gr.

    Með greininni er mælt fyrir um hvaða ívilnanir heimilt er að veita til fjárfestingarverkefna með öðrum réttlætingarástæðum en að um byggðaaðstoð sé að ræða. Í greininni er vísað til þess að heimildirnar takmarkist í samræmi við þær skuldbindingar Íslands sem leiðir af samkeppnisákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en ákvæði 61.–64. gr. samningsins, sem vísað er til í greininni, fjalla um ríkisaðstoð. Sérstaklega er vísað til framangreindrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, sbr. fylgiskjal við frumvarp þetta. Um skýringar við greinina vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 12. gr.

    Með greininni er kveðið á um eitt form af almennri ívilnun, þ.e. þjálfunaraðstoð (training aid). Slíkri ríkisaðstoð er ætlað að koma til móts við stofnkostnað sem fellur til hjá fyrirtæki við að þjálfa starfsmenn og kenna á t.d. tæki og búnað í tengslum við ákveðna nýfjárfestingu. Um slíka aðstoða er fjallað í 38.–39. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 og vísast þangað, sbr. fylgiskjal við frumvarp þetta. Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag slíkrar aðstoðar.

Um 13. gr.

    Með greininni er kveðið á um annað form af almennri ívilnun, þ.e. ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja (SMEs). Slíkri ríkisaðstoð er ætlað að auðvelda nýfjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja og er um hana fjallað í 15. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 og vísast þangað sbr. fylgiskjal við frumvarpið. Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag slíkrar aðstoðar.

Um 14. gr.

    Með greininni er kveðið á um annað form af almennri ívilnun, þ.e. ríkisaðstoð til rannsóknar- og þróunarverkefna (R&D). Um slíka ríkisaðstoð er fjallað í 30.–37. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 og vísast þangað sbr. fylgiskjal við frumvarpið. Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag slíkrar aðstoðar.

Um 15. gr.

    Með greininni er kveðið á um annað form af almennri ívilnun, þ.e. ríkisaðstoð til umhverfistengdra fjárfestingarverkefna (environment aid). Um slíka ríkisaðstoð er fjallað í 17.–25. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 og vísast þangað, sbr. fylgiskjal við frumvarpið. Gert er ráð fyrir að í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem ívilnun hlýtur sé nánar fjallað um fyrirkomulag slíkrar aðstoðar.

Um 16. gr.

    Greinin er samhljóða tilgreindum ákvæðum í núgildandi fjárfestingarsamningum.
    Ákvæði 1. og 2. tölul. 16. gr. eiga fyrst og fremst við þar sem erlendur aðili er eigandi að viðkomandi félagi (sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið). Í slíkum tilvikum hefur verið talið nauðsynlegt að heimila frávik frá því skilyrði laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags sé eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar. Skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er það á færi ráðherra að veita undanþágur frá ákvæðinu en eðlilegt þykir að fjalla um undanþáguna í frumvarpi þessu líkt og gert hefur verið í fyrri fjárfestingarsamningum.
    Ákvæði 3. og 4. tölul. 16. gr. kveður á um undanþágu frá ákvæðum laga um skyldutryggingar brunatjóns og viðlaga, að því gefnu að brunatryggingu og viðlagatrygginu sé viðhaldið með fullnægjandi hætti. Í tilfelli stærri fjárfestingarverkefna kunna þau að falla illa að ákvæðum laga um þessar skyldutryggingar og er því lagt til, líkt og kveðið er á um í fyrri fjárfestingarsamningum, að þess í stað skulu eignir vera tryggðar á fullnægjandi hátt.

Um 17. gr.

    Líkt og fram kemur í 4. og 17. gr. frumvarpsins er lagt til að iðnaðarráðherra skipi nefnd þriggja manna sem fari yfir umsóknir og geri tillögu til ráðherra um afgreiðslu. Er þar um sambærilegt fyrirkomulag að ræða og í lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Lagt er til að fulltrúar fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og Fjárfestingarstofu skipi nefndina, auk formanns sem skipaður er af iðnaðarráðherra án tilnefningar.
    Lagt er til að nefndin hafi náið samráð við sveitarfélög á þeim svæðum þar sem fyrirhuguð fjárfesting er ráðgerð. Sem áður segir er það í samræmi við fyrri framkvæmd þar sem mikilvægur hluti ívilnana vegna nýfjárfestinga snýr að þáttum sem eru á forræði sveitarfélaga eins og fasteignaskattur og sala eða leiga á lóðum eða landi til fjárfestingarverkefnisins. Áður en nefndin gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu erindis ber nefndinni því að hafa samráð við viðkomandi sveitarfélag um hvaða ívilnanir komi til greina að mati sveitarfélagsins. Í þessu sambandi ber jafnframt að hafa í huga að slíkar ívilnanir af hálfu sveitarfélags eru háðar fjárveitingu sveitarfélaga, sbr. 22. gr. frumvarpsins.
    Eðli máls samkvæmt er gert ráð fyrir því að nefndin sé bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga í störfum sínum.

Um 18. gr.

    Með greininni er nánar kveðið á um arðsemisútreikninga þá sem vísað er til í f-lið 5. gr. frumvarpsins. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið er það forsenda frumvarpsins að ívilnanir verði eingöngu veittar til fjárfestingarverkefna sem sýnt þykir að skila muni efnahagslegum og samfélagslegum ávinningu fyrir Ísland. Með greininni er því lagt til að áður en nefnd skv. 17. gr. gerir tillögu til ráðherra vegna beiðnar um ívilnun skuli Fjárfestingarstofa framkvæma útreikninga á arðsemi og ávinningi fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis. Til að Fjárfestingarstofa geti framkvæmt slíka útreikninga þurfa fullnægjandi gögn um fjárfestinguna að liggja fyrir frá umsækjana og getur bæði nefndin og Fjárfestingarstofa kallað eftir þeim.
    Með greininni er lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um framkvæmd arðsemisútreikninga. Á vegum Fjárfestingarstofu hefur, í samstarfi við PriceWaterHouse Coopers í Belgíu, verið unnið módel fyrir slíka arðsemisútreikninga. Í reglugerðinni verður nánar fjallað um þau viðmið sem liggja að baki slíkum arðsemisútreikningum og hvernig þeir skuli framkvæmdir.
    

Um 19. gr.

    Með greininni er lagt til að nefnd skv. 17. gr. skuli gera tillögu til ráðherra um að hafna beiðni um ívilnun eða að leggja fyrir umsækjanda tilboð um ívilnun. Ef lagt er fram boð um ívilnun skal það byggja á þeim heimildum sem fram koma í frumvarpinu og getur það verið samsett úr fleirum en einni tegund ívilnana.

Um 20. gr.

    Í samræmi við áðurnefndar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda að EES-samningnum geta ívilnanir samkvæmt frumvarpinu hvorki farið yfir þau mörk sem heimiluð eru í samræmi við reglur þær um byggðaaðstoð sem fram koma í III. kafla, eða samkvæmt reglum um almennar ívilnanir sem fram koma í IV. kafla. Ekki er heimilt að fullnýta ívilnanir bæði úr III. og IV. kafla vegna sama fjárfestingarverkefnis.

Um 21. gr.

    Í 2. gr. frumvarpsins er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga vegna fjárfestingarverkefna hér á landi. Í 21. gr. frumvarpsins er að finna nánari útfærslu á því hvað koma skuli fram í slíkum samningi um veitingu ívilnunar. Í eðli sínu er um fjárfestingarsamning að ræða og er gert ráð fyrir að hver og einn fjárfestingarsamningur sem gerður verður á grundvelli laganna verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda, líkt og gert hefur verið.
    Með greininni er lagt til að samningur um fjárfestinguna sé gerður á milli fjárfestisins (umsækjanda um ívilnun) og iðnaðarráðherra, fyrir hönd stjórnvalda og, eftir atvikum, sveitarfélaga. Í samningnum skuli réttindi og skyldur aðila tíunduð með sambærilegum hætti og gert hefur verið í eldri fjárfestingarsamningum. Samningur skal kveða á um þær skuldbindingar sem kunna að þykja nauðsynlegar fyrir viðkomandi fjárfestingarverkefni og hversu lengi samningurinn skuli gilda.
    Lagt er til að ívilnanir þær sem kveðið er á um í samningi geti að hámarki verið veittar til 10 ára. Er það í samræmi við kröfur sem gerðar eru til fjárfestingaraðstoðar í gegnum reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð, þ.e. að aðstoðin falli til í upphafsáföngum verkefnisins en sé ekki rekstraraðstoð til að greiða niður á löngum tíma daglegan rekstrarkostnað viðkomandi fyrirtækis.
    Í samningi skal enn fremur m.a. kveðið á um afmörkun á viðkomandi fjárfestingarverkefni, hvaða ívilnunum veitt er til verkefnisins, hvernig ívilnun er komið til verkefnis og á hvaða tíma auk ákvæða um eftirlit og endurgreiðslu ívilnunar ef skilyrðum samnings er ekki uppfyllt.

Um 22. gr.

    Í samræmi við fjárlög og lög um fjárreiður ríkisins er með greininni lagt til að veiting ívilnunar samkvæmt frumvarpinu, að frátöldum ívilnunum sem tengjast sköttum eða opinberum gjöldum, verði háð fjárveitingu Alþingis hverju sinni samkvæmt fjárlögum og, eftir því sem við á, sveitarfélaga.
    Í tilviki skattaívilnana er ekki gerð ráð fyrir beinum fjárútlátum ríkissjóðs heldur tilgreinda lækkun á skatttekjum sem koma til vegna viðkomandi fjárfestingarverkefna sem farið er í á grundvelli laganna og hefðu þannig ella ekki fallið til hér. Í lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, er þannig t.d. ekki kveðið á um að sá skattfrádráttur og skattafsláttur sem þar er tilgreindur fyrir nýsköpunarfyrirtæki sé háður fjárveitingu Alþingis hverju sinni.
    Útilokað er að meta af einhverri nákvæmni beinan kostnað ríkissjóðs af því ríkisaðstoðarkerfi sem í frumvarpinu felst, en það er margþætt eins og fram kemur í tillögum frumvarpsins. Markmið stjórnvalda er sem áður segir að stuðla að aukinni nýfjárfestingu og þar með verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Sú verðmætasköpun mun án efa leiða til aukinna skatttekna, bæði beinna og óbeinna, til allrar framtíðar, sem búast má við að geri gott betur en að vega upp beinan kostnað af þeirri ríkisaðstoð sem efnt kann að vera til í þessu sambandi. Ákvæði frumvarpsins um arðsemisútreikninga er m.a. ætlað að tryggja framangreint. Hver nettóáhrifin verða til lengri tíma litið á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga og þjóðarbúsins alls er útilokað að meta í fjárhæðum á þessu stigi. Við þær óvissu aðstæður í efnahagsmálum sem nú ríkja er því með engu móti hægt að setja fram töluleg viðmið í þessu sambandi.

Um 23. gr.

    Með greininni er kveðið á um að ívilnun sem kann að vera veitt aðila sé í öllu tilvikum eingöngu vegna þess fjárfestingarverkefnis sem hann leggur fram. Sé sami aðili í annarri starfsemi er honum óheimilt að nýta ívilnunina til þeirrar starfsemi.

Um 24. gr.

    Til að tryggja að ívilnun sé nýtt með réttum hætti er með greininni lagt til að aðila sem ívilnunar nýtur verði gert að senda iðnaðarráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er.

Um 25. gr.

    Með greininni er kveðið á um afturköllun og endurgreiðslu ívilnunar ef upp kemur að ívilnun hefur verið ekki verið nýtt á réttan hátt, rangar upplýsingar hafa verið gefnar eða ívilnun sé komin umfram þær heimildir sem kveðið er á um í frumvarpinu. Er greinin í samræmi við efnisreglur um eftirlit með veitingu ríkisaðstoðar, sbr. 61.–64. gr. EES-samningsins, sbr. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.

Um 26. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 27. gr.

    Með greininni er lagt til að sem hluti af frumvarpinu verði innleidd reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. EES- samningsins (reglugerð um almenna hópundanþágu). Sú reglugerð var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/ 2008 sem birt var 18. desember 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 79.
    Reglugerð framkvæmdastjórnar (EB) nr. 800/2008 er birt sem fylgiskjal með frumvarpinu og hefur lagagildi hér á landi verði frumvarpið að lögum.

Um 28. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið er lagt til að um tímabundna löggjöf verði að ræða, til 31. desember 2013. Er sú dagsetning lögð til þar sem á sama tíma fellur úr gildi núgildandi byggðakort fyrir Ísland, sem afmarkar heimildir íslenskra stjórnvalda til að veita byggðaaðstoð. Að auki eru aðrar þær heimildir til veitingar ríkisaðstoðar sem frumvarpið vísar til í stöðugri endurskoðun af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA. Þykir því eðlilegt að lögin séu tímabundin.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er lagt til að ári áður en lögin falla úr gildi skuli iðnaðarráðherra skipa nefnd sem leggja skal mat á hvernig til hafi tekist með framkvæmd laganna og gera tillögu um hvort framlengja skuli gildistíma þeirra, að undangenginni endurskoðun á ákvæðum laganna. Gert er ráð fyrir að fulltrúar þeirra þriggja ráðuneyta sem koma að nefnd um veitingu ívilnunar, sbr. 17. gr., muni sitja í þeirri endurskoðunarnefnd og hafa samráð við hagsmunaaðila. Endurskoðuninni skal lokið eigi síðar en 31. desember 2013. Gert er ráð fyrir að slík endurskoðun taki m.a. hliðsjón af því hvernig til hafi tekist og þeim reglum Evrópusambandsins sem gilda um ríkisaðstoð frá og með árinu 2014.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.


    Með frumvarpinu er lögð til heilstæð löggjöf sem ætlað er að mynda ramma utan um þær ívilnanir sem stjórnvöldum og sveitarfélögum verði heimilt að veita vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Frumvarpið er afrakstur vinnu starfshópa á vegum iðnaðarráðherra og tekur það mið af fyrirkomulagi ívilnana í öðrum Evrópuríkjum. Markmiðið með frumvarpinu er að örva og efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði ákveðin skilyrði fyrir ívilnunum. Í skilyrðunum felst t.d. að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði verði fjármögnuð án ríkisaðstoðar og að þar af verði að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun. Auk þess skal árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis nema a.m.k. 300 m.kr. eða skapi nýfjárfestingin a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess. Þá er skilyrt að nýfjárfestingin sé þjóðhagslega hagkvæm útfrá arðsemisútreikningum.
    Í öðru lagi eru lagðar til sérstakar ívilnanir sem flokkast undir byggðaaðstoð, þ.e. hún takmarkist við ákveðin svæði á Íslandi þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið og með samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Almennt er gert ráð fyrir að ívilnanir geti numið allt að 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði. Slíkar ívilnanir geta verið í formi beinna stofnfjárstyrkja eða í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum með tilheyrandi samningi þar um. Lagt er til að frávik frá sköttum og gjöldum verði t.d. undanþága frá iðnaðarmálagjaldi, lækkun stimpilgjalds, lækkun fasteignaskatts, lækkun tryggingagjalds og undanþágur frá tollum og vörugjöldum. Einnig er heimilt með samningi að kveða á um að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skuli í tíu ár frá því að skattskyldar tekjur myndast hjá félagi aldrei vera hærra en það tekjuskattshlutfall sem í gildi er þegar samningur er gerður við félagið. Þá er lagt til að heimilt verði að selja eða leigja land í eigu ríkis eða sveitarfélags til viðkomandi félags á verði sem telst vera undir almennu markaðsverði.
    Í þriðja lagi eru lagðar til almennar ívilnanir sem ekki eru byggðatengdar. Þær ívilnanir felast í styrkjum til þjálfunarkostnaðar, allt að 2 milljónum evra fyrir hvert fjárfestingarverkefni, sérstakar ívilnanir vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum og ívilnanir vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna.
    Í fjórða lagi er lagt til að þar sem um beinar greiðslur úr ríkissjóði er að ræða verði veiting ívilnunar samkvæmt frumvarpinu háð fjárveitingu Alþingis hverju sinni samkvæmt fjárlögum og eftir því sem við á fjárveitingu sveitarfélaga. Fyrst í stað er áætlað að ívilnanir verði fyrst og fremst veittar í formi frávika frá almennum reglum um skatta og gjöld. Komi til beinna stofnfjárstyrkja eða annarra útgreiðslna úr ríkissjóði er ráðgert að þörf á slíkri fjárheimild verði tekin til skoðunar í tengslum við umfjöllun um frumvörp til fjárlaga.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 142, 14.5.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB C 210, 8.9.2007, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 10, 13.1.2001, bls. 33. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1976/2006 (Stjtíð. ESB L 368, 23.12.2006, bls. 85).
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 63, 28.2.2004, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB C 235, 21.8.2001, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB C 194, 18.8.2006, bls. 2.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. ESB C 323, 30.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 10, 13.1.2001, bls. 20. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1976/2006.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. EB L 337, 13.12.2002, bls. 3. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1976/2006.
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Stjtíð. ESB L 302, 1.11.2006, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Stjtíð. EB C 45, 17.2.1996, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Stjtíð. EB C 37, 3.2.2001, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 13
(13)    Stjtíð. ESB C 82, 1.4.2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(14)    Stjtíð. ESB C 54, 4.3.2006, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 15
(15)    Stjtíð. EB L 83, 27.3.1999, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1791/2006 (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 16
(16)    Stjtíð. ESB L 358, 16.12.2006, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 17
(17)    Stjtíð. EB L 205, 2.8.2002, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1791/2006 (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 18
(18)    Stjtíð. ESB C 260, 28.10.2006, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 19
(19)    Stjtíð. ESB C 244, 1.10.2004, bls. 2.
Neðanmálsgrein: 20
(20)    Stjtíð. ESB C 14, 19.1.2008, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 21
(21)    Stjtíð. ESB C 155, 20.6.2008, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 22
(22)    Stjtíð. ESB L 283, 31.10.2003, bls. 51. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2004/75/EB (Stjtíð. ESB L 157, 30.4.2004, bls. 100).
Neðanmálsgrein: 23
(23)    Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 24
(24)    Stjtíð. EB L 17, 21.1.2000, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 25
(25)    Stjtíð. ESB L 299, 16.11.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 26
(26)    Stjtíð. ESB L 379, 28.12.2006, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 27
(27)    Stjtíð. ESB L 140, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 28
(28)    Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 29
(29)    Stjtíð. ESB L 265, 26.9.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 30
(30)    Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2008, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 31
(31)    COM (2008) 19 lokaútgáfa.
Neðanmálsgrein: 32
(32)    Stjtíð. ESB L 52, 21.2.2004, bls. 50.
Neðanmálsgrein: 33
(33)    Stjtíð. ESB L 32, 6.2.2007, bls. 183.