Staðbundnir fjölmiðlar

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 17:19:11 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðbundnir fjölmiðlar.

107. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu eigi síðar en 1. mars 2011. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun markaðarins undanfarin ár og, ef þurfa þykir, komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll staðbundinna fjölmiðla.“

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Guðmundur Steingrímsson, Eygló Harðardóttir og Þuríður Backman.

Við ræddum þetta mál nú síðast á haustþingi þegar ég beindi fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eftir að þessi þingsályktunartillaga var lögð fram. Hæstv. ráðherra tók þar mjög vel í það að fara í slíka vinnu. Í framhaldinu höfum við átt samtöl um það og nú er verið að skoða það á vettvangi ráðuneytisins hvort hefja eigi slíka úttekt á stöðu staðbundinna fjölmiðla. Ég hef ágætar væntingar og vonir um að í slíkt starf verði ráðist. Þessir fjölmiðlar eru mjög mikilvægir fyrir hinar dreifðu byggðir og reyndar eru staðbundnir fjölmiðlar líka á höfuðborgarsvæðinu, fjölmiðlar sem sérhæfa sig í málefnum einstakra hverfa og gegna þeir gríðarlega mikilvægu hlutverki.

Það þarf ekkert að fara yfir það hver þróunin hefur verið í rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja eins og svo margra annarra eftir hrunið. Reksturinn er oft og tíðum mjög erfiður. Í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur verið að draga úr starfsemi sinni á landsbyggðinni, hefur jafnvel lokað svæðisstöðvum, gegna staðbundnir fjölmiðlar enn mikilvægara hlutverk en áður var.

Í umræðum um málið í haust kom fram þverpólitískur vilji til þess að hefja þessa vinnu þannig að vonandi verður hægt á grundvelli vinnu starfshópsins að fara í einhverjar aðgerðir til að styrkja rekstrargrundvöll þessara mikilvægu fjölmiðla sem margir hverjir berjast í bökkum. Ég á von á því að á málinu verði tekið af mikilli festu í menntamálanefnd þingsins og óska eftir að því verði vísað þangað til frekari umfjöllunar. Ég bind líka miklar vonir við að hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, vinni áfram að málinu og geri jafnvel innan tíðar úttekt á stöðu þessara mikilvægu fjölmiðla þannig að í framhaldinu getum við ráðist í einhverjar aðgerðir til að styrkja rekstrargrundvöll þeirra.