Svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við spurningum ESB

Fimmtudaginn 27. janúar 2011, kl. 10:46:04 (0)


139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við spurningum ESB.

[10:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Fulltrúar Evrópusambandsins sögðu mér sjálfir fyrir nokkru að á þessum fundum yrðu hvorki lagðar fram skriflegar spurningar né óskað skriflegra svara. Hins vegar er alveg ljóst að af hálfu Íslendinga eru lagðir fram skriflegir textar svo það liggi fyrir en það eru ekki svör við neinum beinum spurningum. Hitt verður að liggja alveg ljóst fyrir að samningahópurinn og nefndin sem er þarna úti hefur skýrt umboð, ekki bara umboð sem er að finna í samþykkt utanríkismálanefndar, heldur hefur hún um allt sem hún segir á þessum fundum skýrt umboð ríkisstjórnarinnar. Það var farið nákvæmlega yfir (Gripið fram í.) þann ramma sem nefndin hefur umboð frá ríkisstjórninni fyrir til að gefa yfirlýsingar fyrir Íslands hönd svo það liggi algjörlega skýrt fyrir. (Gripið fram í: Þetta er mjög athyglisvert.)