139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmenn ræða stöðu krónunnar og könnun þá meðal almennings sem sýnir að almenningur á Íslandi er að missa trú á krónunni.

Frú forseti. Almenningur á Íslandi er smátt og smátt að átta sig á því að tvær kreppur hittu Íslendinga fyrir, annars vegar bankakreppa sem hitti fyrir ríkissjóð sem þarf að standa í fjárútlátum til að styrkja Seðlabanka og aðra banka og standa skil á hallamiklum fjárlögum undangenginna ára. Hins vegar var það krónukreppan, en það var hún sem hitti fyrir fyrirtækin í þessu landi. 70% íslenskra fyrirtækja eru með efnahagsreikning í mínus og það var krónukreppan sem hitti fyrir heimilin í landinu sem standa núna frammi fyrir miklum skuldum. Það var krónukreppan sem olli gengisfellingunni og svo var það ekkert síður gengisfellingin sem olli verðbólguskotinu fyrir þá sem skulda í íslenskum krónum. (Gripið fram í.) Það er hrun krónunnar sem hefur valdið fyrirtækjunum og heimilunum í þessu landi miklu meira tjóni en hrun bankanna.

Þeir sem eru fylgjandi krónunni eru í raun og veru að bjóða upp á tvo framtíðarkosti, annars vegar krónu án hafta með tilheyrandi gengissveiflum, eða gengishruni, og óstöðugleika fyrir fyrirtækin. Ekki er það björguleg framtíðarsýn fyrir innflutningsfyrirtæki, útflutningsfyrirtæki eða ferðaþjónustu og ef við erum að tala um atvinnustig er svarið skýrt. Hins vegar er það svo króna í höftum en þá utan við EES-samninginn sem fer í uppnám við haftastefnuna og það er ekki heldur björguleg framtíðarsýn fyrir íslensk fyrirtæki eða heimili.

Báðar þessar lausnir fela í sér umtalsverðan vaxtamun fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, þ.e. íslensk fyrirtæki og heimili borga meiri vexti hér á landi en þau þyrftu að gera í Evrópu ef upptaka evru kæmi til. Almenningur á Íslandi er að segja sína skoðun á þessari framtíðarsýn og óska eftir nýjum leiðum, ekki krónuleiðum. Hann vill losna við afleiðingar krónukreppunnar.