139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær átti ég hér orðastað við hæstv. fjármálaráðherra í utandagskrárumræðum. Þar fjölluðum við um gríðarlega hátt olíu- og bensínverð og töluðum um hvernig hægt væri að lækka það til að dempa þau neikvæðu hagvaxtaráhrif sem verða vegna hás eldsneytisverðs og slá á þau neikvæðu áhrif sem hátt bensínverð hefur á ráðstöfunartekjur heimilanna, einkaneyslu og þar með hagvöxt.

Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir þetta frá sínum sjónarhóli en horfði fyrst og fremst til langtímalausna, þ.e. lausna sem felast í að gera okkur Íslendinga minna háða jarðefnaeldsneyti en nú er, auk þess að reyna að bjóða upp á aðrar leiðir, svo sem almenningssamgöngur. Það var líka tónninn í ræðum stjórnarliða.

Ég held að við höfum ekki tíma fyrir langtímalausnir, við verðum að grípa hér strax inn í og reyna að lækka olíuverð. Það gerum við best með því að lækka skattlagningu. Nú er innheimt veggjald, olíugjald, sérstakt olíugjald, kolefnaskattur og ofan á allt þetta bætist virðisaukaskattur. Það sem mig langar til að beina til hv. þm. Helga Hjörvars er hvort hann sé tilbúinn í það í (Forseti hringir.) efnahags- og skattanefnd að við tökum þetta mál upp þar. (Forseti hringir.) Er hann yfirleitt sammála fjármálaráðherra um að hér dugi langtímalausnir, (Forseti hringir.) að við getum ekki gripið inn í þau vandamál sem eru núna?