Rannsóknarnefndir

Þriðjudaginn 01. mars 2011, kl. 16:09:18 (0)


139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég skildi svar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar rétt. Ég segi bara að ég tek undir þær lögskýringar sem komu fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni. Allsherjarnefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gegnir sama hlutverki. Þetta sem er sett upp til bráðabirgða ætti að gegna sama hlutverki og væntanleg stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á sínum tíma, og fyrst og fremst sér hún um formið. Komi frumkvæði um þingsályktunartillögu frá nefnd þingsins teldi ég eðlileg vinnubrögð hjá allsherjarnefnd eða þá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leita líka umsagnar hjá þeim aðila sem stendur að þingsályktunartillögu um rannsókn. Það kann að vera að allsherjarnefnd eða þessi sérstaka nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sjái einhverja annmarka á þingsályktunartillögunni, bæði formlega og efnislega. Þá finnst mér mjög eðlilegt að nefndin ráðfæri sig við og leiti til og gefi viðkomandi flutningsmanni eða flutningsnefnd kost á að koma fyrir nefndina til að tjá sig um það þannig að eins fagleg vinnubrögð verði viðhöfð við afgreiðslu slíkrar þingsályktunartillögu og unnt er.