Landlæknir og lýðheilsa

Þriðjudaginn 01. mars 2011, kl. 16:55:54 (0)


139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman sagðist vera tilbúin til þess að svara spurningum en það hefur alla vega ekki gerst enn þá. (ÞBack: Hlustaðu þá.) Það liggur hins vegar alveg fyrir hjá hv. þingmanni að það er ekkert verið að hugsa um samlegðaráhrifin, það eina sem nefnt hefur verið er símsvörun en annað hefur ekki verið nefnt svona konkret.

Því hefur heldur ekki verið svarað, virðulegur forseti, hver tók ákvörðun um að þessi leið væri farin varðandi starfsmennina, þ.e. að landlæknir — það kom fram hjá umsagnaraðilum að það sé mjög sérstakt svo ekki sé dýpra í árinni tekið — talaði við starfsfólkið og spurði hverjir hefðu áhuga á að verða yfirmenn í viðkomandi stofnun. Hæstv. ráðherra segist ekki hafa komið nálægt því og það hlýtur að vera eðlileg spurning að fá að vita hver það var.

Hér kom fram hjá hv. þingmanni að það sé ekkert fjárhagslegt mat á bak við þetta og menn líta ekki einu sinni til sparnaðaráhrifa. (Forseti hringir.) Ég spyr aftur: Hvaða skilaboð eru þetta til annarra heilbrigðisstofnana þegar ekki þarf (Forseti hringir.) fjárhagslegt mat á sameiningu sem þessari?