Landlæknir og lýðheilsa

Þriðjudaginn 01. mars 2011, kl. 17:30:04 (0)


139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi taka hér upp og biðja hv. þingmann að bregðast við, fyrst um þær skýrslur sem ég nefndi hérna í framsögu minni. Þær eru tvær. Það kom fljótlega fram í vinnslu málsins í heilbrigðisnefnd að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áhuga á því að fara í þessar skýrslur, skoða þær og taka upp miklu víðtækari sameiningu, í raun og veru vinna samkvæmt skýrslunum. Sem formaður nefndarinnar hef ég ekki tekið undir það. Frumvarpið kom með því sniði sem það kom inn til nefndarinnar. Skýrslurnar hafa aftur á móti legið fyrir í heilbrigðisnefnd fyrir alla þá sem hafa viljað kynna sér þann grunn sem sú vinna byggir á. Þar sem hugmyndin var ekki að fara í endurskipulagningu og uppstokkun á allri stjórnsýslu í heilbrigðisþjónustunni eða velferðarþjónustunni, sem ég tel ekki vera á verksviði heilbrigðisnefndar að vinna í, voru þessar skýrslur ekki sérstaklega teknar fyrir. Þær hafa legið fyrir og allir geta kynnt sér þær.

Hvað varðar húsnæðið sem okkur verður tíðrætt um var lægsta tilboðinu ekki tekið á þessu undirbúningsferli þar sem auglýst var eftir húsnæði vegna þess að starfsmenn beggja stofnananna voru sammála um að það húsnæði sem lægsta tilboðið bauð upp á hentaði engan veginn. Það var m.a. of djúpt en ég ætla ekki að fara í þær lýsingar, húsnæðið hentaði einfaldlega ekki og því varð annað húsnæði fyrir valinu. Útboð á húsnæði var samkvæmt rýmisáætlun beggja stofnana eins og þær eru í dag. Við viljum sjá stofnunina geta þróast. Við viljum gefa henni svolítið svigrúm. Við viljum líka getað hugsað til möguleika á frekari sameiningu eða frekari verkefnum. Þá megum við ekki binda að mínu mati (Forseti hringir.) fermetrana við akkúrat núverandi starfsmenn. Ég bið hv. þingmann að bregðast við þessu.