Landlæknir og lýðheilsa

Þriðjudaginn 01. mars 2011, kl. 18:55:53 (0)


139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hef ég nokkra reynslu af þingstörfum og ég hef bæði verið í þessari nefnd og mörgum öðrum. Ég hef verið formaður í nefndum og setið í þingnefndum frá árinu 2003, ef undan eru skilin tvö ár. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt að mál séu útrædd sem hafa ekki einu sinni verið kynnt í nefnd. Skýrslurnar voru aldrei kynntar í nefndinni. Við höfum aldrei séð framan í fólkið sem skrifaði þessar skýrslur. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendum skýrslurnar á hina nefndarmeðlimina. Svo koma menn hér upp og segja: Þetta er útrætt, þið fáið enga gesti. Þetta er lýðræðið hjá hæstv. ríkisstjórn.

Nú er það þannig að ég er í annarri nefnd, hv. viðskiptanefnd. Þar hafa oftar en ekki verið haldnir aukafundir til að koma til móts við fulltrúa minni hlutans, m.a. þegar við viljum fá gesti. Nú getur vel verið að hv. þingmenn meiri hlutans í viðskiptanefnd sjái enga ástæða til að ræða við fleiri aðila eða hlusta á fleiri en það er samt sem áður gert. En í hv. heilbrigðisnefnd segja menn að hlutirnir séu útræddir þegar þeir hafa ekki verið kynntir í nefndinni. Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skrifaði sérstaklega grein um þetta mál eftir að hún hafði komið til nefndarinnar vegna þess að hún hafði áhyggjur af því og skoraði á okkur þingmenn. En meiri hlutinn í hv. heilbrigðisnefnd sá enga ástæðu til að hlusta á formann Félags íslenska hjúkrunarfræðinga.