Framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats

Fimmtudaginn 03. mars 2011, kl. 11:23:38 (0)


139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er mikilvæg og nauðsynleg. Það er dálítið sérstakt hér í orðræðunni að heyra nú að það sameiginlega umhverfismat sem Samfylkingin stóð fyrir á sínum tíma sé orðið að einhverju sérstöku afreki í sögunni. (Utanrrh.: Það var flott hjá okkur.) Það var flott hjá okkur, segir hæstv. utanríkisráðherra og roðnar ekki einu sinni í kinnum. Það hefur komið í ljós að þetta hefur tafið framkvæmdir á svæðinu um tvö ár, tvö mikilvæg ár, þrátt fyrir orð þáverandi hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og þáverandi hæstv. ráðherra Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Svo brosir þetta lið yfir afrekum sínum í gegnum tíðina þegar kemur að þessari mikilvægu uppbyggingu. (Gripið fram í.)

Ég hélt að við værum sammála um eitt hér þvert á flokka, að þær auðlindir sem er að finna í Þingeyjarsýslu ættu að renna til atvinnuuppbyggingar þar. Gott og vel, ef við erum sammála um það þarf að byggja upp línur, það þarf að byggja upp vegi og byggja upp innviðina. Það eru ákveðnar fórnir sem við þurfum að færa í þeim efnum, en við höfum verið sammála um það á vettvangi Alþingis að við þurfum að færa slíkar fórnir til að skapa hundruð starfa á þessu svæði.

Svo kemur hv. þm. Mörður Árnason fram og mér þykir það ekki þingmanninum sæmandi að hann fari allt í einu að ræða hér um að við séum að tala um 700 þús. tonna álver, að það sé það sem menn eigi nú að fara að miða við. Menn eru markvisst að reyna að afvegaleiða umræðuna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að styðja við þá uppbyggingu og þá vönduðu meðferð sem heimamenn hafa staðið í í áraraðir. Hér er ekki um neinar hókus-pókus aðgerðir að ræða. Þingeyingar hafa í gegnum mörg ár unnið markvisst að þessari uppbyggingu (Forseti hringir.) og það er ekki þingmönnum til sóma að afvegaleiða umræðuna eða þá að hrósa sér fyrir að hafa tafið uppbyggingu (Forseti hringir.) svo mikið sem raun ber vitni.