Skipun stjórnlagaráðs

Fimmtudaginn 03. mars 2011, kl. 17:02:32 (0)


139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Margt og mikið hefur verið rætt um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir bæði út frá lögfræði og öðrum þáttum og í sjálfu sér ætla ég ekki að fara að blanda mér mikið inn í það. Það eru til muna miklu færari einstaklingar í þeim efnum á þingi en sá sem hér stendur og svo höfum við yfirmann dómsmála sem við treystum til að leggja mat á þau atriði sem hér eru undir.

Breyting á stjórnarskrá hefur ærið lengi verið til umræðu en lítið gengið, hvorki gengið né rekið í því að koma fram þeim grundvallarbreytingum sem mér heyrist í máli þingmanna vera allríkur vilji til að ná fram. Núna háttar þannig til að við virðumst vera að festast í einhverju formi við það hvernig eigi að koma þessu verki áleiðis, en ágætissamstaða hafði náðst um þá niðurstöðu sem áður hafði verið utan stjórnlagaþingsins. Að öðru leyti get ég dregið þá ályktun að það hafi verið þokkaleg samstaða um aðra þætti málsins, m.a. var kosin stjórnlaganefnd sem átti að undirbúa þá vinnu sem stjórnlagaþingið átti að ganga til. Í því karpi sem hefur orðið um framhaldið í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar hef ég undrast það mjög af hverju menn fóru ekki þá leið að víkka út umboð þeirrar nefndar, stjórnlaganefndarinnar, eða að endurtaka leikinn alveg frá grunni með svokallaðri uppkosningu, sem mér hefði þótt eðlilegri háttur ef vilji væri til að halda þessu til streitu. Hvað um það. Mér virðist sem þetta mál sé í rauninni ekkert annað en viðbót við þann endalausa lista þar sem töluverður ágreiningur er á milli allra flokka á Alþingi jafnt innan stjórnarmeirihlutans sem milli stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta. Það er engin þverpólitísk samstaða um þetta, langur vegur frá, og það er mjög illt þegar við erum að fást við grundvallaratriði sem er stjórnskipun landsins.

Ég gat um það áðan að innanríkisráðherra, yfirmaður dómsmála, er ekki fylgjandi þessu máli og ég ætla að leyfa mér að vitna til orða hans. Með leyfi forseta er færsla frá hæstv. innanríkisráðherra á heimasíðu hans svohljóðandi:

„Þegar Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn sem ógilti kosningar til stjórnlagaþings, þá gagnrýndi ég réttinn harðlega. En ég tók fram að úrskurði hans bæri að hlíta til hins ýtrasta. Það þýðir á mannamáli að engar fjallabaksleiðir megi fara til að komast fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar. Að mínu mati er skipan stjórnlagaráðs með sömu einstaklingum og kosnir voru til stjórnlagaþings tilraun til einmitt þessa. Verði þetta niðurstaða Alþingis þá næst hún fram án míns stuðnings. Í dag lýsti ég yfir andstöðu við þetta ráðslag og að ég myndi ekki greiða þessari tillögu atkvæði mitt. Enda er það svo að orð skulu standa og grundvallarreglur skal virða!“

Draga má margar ályktanir af þessum orðum. Innanríkisráðherrann virðist gera sér grein fyrir stöðu sinni. Hann áttar sig á því að stjórnsýslan er gríðarlega flókin og þess vegna getur hann a.m.k. ekki í ljósi stöðu sinnar gengið gegn úrskurði Hæstaréttar vegna kosninganna til stjórnlagaþings. Það væri einfaldlega pólitískt sjálfsmorð hjá hæstv. ráðherra. Hann neitar að samþykkja að fara á svig við Hæstarétt eins og hinir ráðherrarnir ætla að gera og tekur ekki þátt í þessum leik.

Í mínum huga er þetta ekkert smámál, þetta er spurning um grundvallaratriði. En afstaða innanríkisráðherra er í mínum huga engin syndaaflausn, hvorki fyrir ríkisstjórnina né hann sjálfan. Ef hann tekur ekki þátt í þessum leik á hann skilyrðislaust að fordæma hann.

Ég vil gera að umtalsefni það sem ég nefndi við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Þegar hún lagði fram og mælti fyrir þingsályktunartillögunni spurði ég hvernig samráði milli forsætisnefndar Alþingis og forseta Alþingis sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni ætti að vera háttað, hvernig taka ætti á ágreiningi ef hann kæmi upp, hvert væri hlutverk forsetans og forsætisnefndar ekki síður þegar búið er að greina frá því með hvaða hætti ganga eigi til þess verks að skipa stjórnlagaráð.

Ég spurði enn fremur út í kostnaðarþætti sem fylgja þessari tillögu. Raunar verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst mjög einkennilegt með hvaða hætti þetta mál ber að í ljósi þess hvernig það er hugsað. Það segi ég einfaldlega vegna þess að ég hef tiltölulega litlar upplýsingar frá flytjendum eða forsvarsmönnum þessarar þingsályktunartillögu um hver sá kostnaður er sem áætlaður er við þetta nefndarstarf. Í greinargerð með þingsályktuninni segir að gert sé ráð fyrir því að áður samþykktar fjárheimildir vegna stjórnlagaþings verði færðar með fjáraukalögum til að mæta kostnaði vegna stjórnlagaráðs. Ég verð að spyrja, forseti, hvort það samræmist öllum þeim áherslum sem fjölmargir þingmenn hafa rætt mörg undanfarin ár og ekki síst á síðustu tveimur árum um að okkur beri að fara að þeim reglum sem um fjármál ríkisins gilda. Er eðlilegt að þingsályktunartillaga sem þessi feli í sér einhverja skuldbindingu um ótilgreindan kostnað? Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki í formi lagafrumvarps? Hér er ætlunin að skuldbinda ríkissjóð með óskilgreindri fjárhæð. Þetta ákvæði þýðir, eins og þingsályktunartillagan er lögð fram, að menn ætla forseta Alþingis að fara á yfirdrátt. Það er engin fjárheimild fyrir þeim útgjöldum sem kunna að stafa af þessari gjörð, ekki nema ætlunin sé að forseti Alþingis skipi þetta fólk ekki til verka fyrr en fjárheimild er fengin, en að venju er fjárheimild veitt á fjáraukalögum ekki fyrr en á haustmánuðum, í nóvember í síðasta lagi samkvæmt venju. Mér þykir þetta ráðslag við að leggja fram mál alveg með ólíkindum. Ég vil þó hafa fullan fyrirvara á þeirri tölu sem hér um ræðir en að öllu óbreyttu, ef meining manna stendur til þess að hafa þetta eins og hér stendur, mætti ætla, án þess að ég hafi fengið við því svör, að kostnaðurinn verði upp á 230 millj. kr. Þó vil ég hafa þann fyrirvara á að nákvæm útlistun á því liggur ekki fyrir. En að ætla forseta Alþingis að heimila útgreiðsluna án þess að fyrir liggi lagaheimild um þá greiðslu er í mínum huga alveg með eindæmum og gengur þvert á allar þær áherslur sem hefur verið þokkalega góð pólitísk samstaða um í þingsölum á síðustu tveimur árum. Mér þykir mjög miður að horfa til þess að svona ætli menn Alþingi að vinna.

Ég legg áherslu á að ef það er vilji manna að fara fram með þessum hætti hefði ég sjálfur kosið að fyrir lægi tillaga til fjáraukalaga sem væri jafnframt afgreidd með þessu máli og kæmi til Alþingis jafnhliða samþykkt þessarar tillögu.